Heima er bezt - 01.02.1993, Qupperneq 19
Innan Afréttisár er sameiginlegur afréttur
jarðanna Kerlingardals og Höfðabrekku. Vega-
lengdin frá Afréttisá og upp að jökli er ákaflega
breytileg. Uppganga víðast hvar var mjög erfið og
löng sker að labba inn að jökli. Sker er ýmist
klappir, aurruðningar, uppblásin hraun, en á milli
eru sandar og við köllum þetta einu nafni Sker.
Inn á Skerjum er óvíða hestfært og allur afrétt-
urinn er smalaður gangandi.
Þegar ég var að alast upp var legið í hellum og
skútum inni á afrétti á haustin þegar smalað var.
Afréttarlönd þessara jarða voru smöluð sameigin-
lega. Höfðabrekkuafréttur smalaður fyrst, fyrri
daginn og féð rekið fram fyrir Afréttisá. Þar voru
tveir menn hafðir daginn eftir til að gæta þess að
féð rynni ekki inn yfir ána. Sáu þeir einnig um að
hafa til heitan mat eða heitar kartöflur með kjöt-
inu þegar smalamir komu að kvöldi, eftir að hafa
lokið smölun Kerlingardalsafréttar og rekið féð
fram heiðar eins langt og talið var þurfa til að það
rynni ekki inn yfir á um nóttina.
Þriðja daginn var féð rekið fram í byggð og
byrgt í gerði. Fjórða daginn var fénu réttað. Þá var
réttin hér uppi á fjalli í svokölluðum Tjalda-
búðum, rétt fyrir ofan Smærnatungur, sem áður
eru nefnd-ar, og kölluð Búðarétt. Síðan var hætt
við þá rétt og réttin byggð hér fyrir sunnan túnið.
Var hún síðar lögð niður og rétt byggð úr stein-
steypu uppi í landi Höfðabrekku. Heitir hún
Búðarétt og þar dregur hver sitt fé í aðalrétt. Fé úr
seinni réttum er réttað heima við fjárhús í
Kerlingardal. I fyrri daga áttu bændur að koma
óskilum út í Heiðardal því hér var skilarétt en
ekki lögrétt. Hún var á Heiði í Heiðardal. Þá var
farið á hestum með óskilin og farið út hjá
Kárhólma. Nú til dags er féð tekið á kerru og
keyrt út í Heiðardal. Lögsmalanir voru þrjár, fyrs-
ta safn, miðsafn og þriðja safn. í fyrsta safn var
venjulegast farið eftir 22. sumarhelgi, í sláttulok,
og svo var vika á milli safna. Stundum lenti
maður í harki ef kind hrapaði og gerðist það eitt
sinn á Höfðabrekku-afrétti þegar við vorum að
reka fram. Ég hefi reikað um þessi fjöll yfir sex
áratugi og sem fjall-kóngur yfir þrjátíu ár.
Það hafa allir heyrt getið um Njálsbrennu.
Sagnir eru um að brennumenn hafi lent í bardaga
í Traðarkjafti, sem áður er getið, upp af aurunum
hér við Kerlingardalsá og þar muni þeim hafa
verið gerð fyrirsát. Menn eru þó ekki á eitt sáttir
hvar fyrirsátin hafi verið. Sumir hafa talið að hún
hafi átt sér stað við Illugötu, í gili milli Kúabóls
og Fagurhóls skammt norðan brúar
Kerlingardalsár. Skilur þar á milli gil og traðir,
samanber leiðina hér yfir Fagradalsheiði. Niður
skágöturnar af heiðinni, yfir aurana og upp hjá
Presthóli.
Sé á það litið í heild er það mjög líklegt að hér
hafi verið hvílt þegar komið var yfir ána vestan
yfir Fagradalsheiði og fyrirsátin gerði í skjóli af
tröðunum, sem voru mjög djúpar. Hér fyrrum
voru djúpar traðir hlaðnar alla leið heim að bæ, þó
ekki sjáist fyrir því nú, þær hafa verið jafnaðar út.
Traðakjafturinn einn sem enn sér fyrir, líkt og
skarði syðst inn í túnið.
Þá eru sagnir um að það hafi verið reimt í þes-
sum tröðum. Minnist ég þess að gamla fólkið var
að tala um að það væru menn að koma neðan
traðir en svo komu þessir menn aldrei heim og
þótti það dálítið undarlegt. Einu sinni sem oftar
var ég að spila við kunningja mína og jafnaldra á
Bólstað, hér vestan Kerlingardalsár. Fór ég þá jafn-
an á hesti og var stundum seinn fyrir, farið að nálg-
ast miðnótt þegar ég kom upp að Traðakjafti og
dimmt. Þá fer hesturinn að frýsa og neitar mér um
að fara inn í traðirnar, en hann var í eðli sínu
heimfús. Ég fór að slá í hestinn en það bar engan
árangur, svo ég fór af baki. Það var blíðuveður,
jörð ekki frosin og ég heyri mikinn hófadyn fyrir
framan mig. Þó fór ég inn í traðirnar bölvandi
með svipuna uppreidda þar til þetta var komið
framhjá mér og þá var allt í lagi með hestinn sem
ég hafði teymt á eftir mér. Þegar ég kom heim
segir konan mín:
„Hvað ósköp er að sjá þig, þú ert náfölur eins
og liðið lík!“
Heima er bezt 55