Ægir - 15.08.1967, Blaðsíða 4
250
Æ GIR
Hinum nýja ritstjóra óska ég heilla í
starfi hans.
Þegar mér, með ákvörðun meirihluta
Fiskiþings, hinn 8. marz 1940 var falin
forysta Fiskifélags íslands var ég enn ung-
ur að árum og fátækur að reynslu. Mér er
engin launung á því, að mér bjó nokkur
kvíði í brjósti, að mér myndi auðnast að
rækja starfið svo sem gera yrði kröfu til.
Hinsvegar höfðu málefni sjávarútvegsins
ávallt verið mér hugstæð og þeim hafði ég
kynnzt nokkuð af eigin raun að segja má
frá blautu barnsbeini.
Engan gat þó órað fyrir þeim miklu
breytingum, sem framundan voru, ekki að-
eins í sjávarútveginum, heldur í þjóðlíf-
inu öllu og vandamálin, sem af þeim leiddi
hrönnuðust upp næstu árin og áratugina.
Mér varð það fljótlega ljóst, að Fiski-
félag Islands átti hér veigamiklu hlutverki
að gegna sem tengiliður milli sjávarút-
vegsins annarsvegar og stjórnvalda hins-
vegar. Til þess að svo mætti verða, var
óhjákvæmilegt að hafa traust beggja aðila
og ég hefi ávallt talið það meginskyldu
mína að haga starfi Fiskifélagsins á þann
veg, að þessu takmarki yrði náð. Þetta hef-
ir þó ekki þýtt það, að ekki hafi komið til
ágreinings um málefni og er það ekki ó-
eðlilegt þegar litið er á þá miklu hagsmuni,
sem tengdir eru lausn vandamála svo þýð-
ingarmikils atvinnuvegar sem sjávarút-
vegurinn er. Hitt er veigameira, að svo
hafi til tekizt um lausn vandamálanna að
til heilla hafi horft. Er það von mín, að
mér hafi með starfi mínu á vegum Fiski-
félagsins auðnazt að stuðla nokkuð að því
að svo hafi orðið.
Mér er það þó vel ljóst, að litlu hefði ég
áorkað án góðs samstarfs við fjölmarga
aðila á þessu langa tímabili. Er þar fyrst
að nefna fulltrúa á Fiskiþingum, en 13
þing hefi ég setið, og starfsmenn Fiski-
félagsins fyrr og síðar og þá einnig hin
ýmsu félagssamtök sj ávarútvegsins og loks
stjórnvöld þau, sem ég eðli málsins sam-
kvæmt hefi starfað mest með. Frá þessu
samstarfi við svo marga aðila á ég margar
ánægjulegar endurminningar, sem ég nú
minnist fullur þakklætis.
Eins og breytingar hafa orðið í sjávar-
útveginum á þessu tímabili, þá hafa einnig
orðið margvíslegar breytingar á starfsemi
Fiskifélagsins, svo þar mætti betur svara
kröfum tímans. Slík þróun er ekki aðeins
æskileg, heldur nauðsynleg fyrir starfsemi
Fiskifélagsins, ef árangur á að verða af
henni.
Við starfi fiskimálastjóra tekur nú Már
Elísson, hagfræðingur. en hann var, á
Fiskiþingi 1966, kjörinn varafiskimála-
stjóri. Már kemur ekki ókunnugur að
þessu starfi. Þvert á móti hefir hann, auk
ágætrar menntunar, fengið nána þekkingu
á starfsemi Fiskifélagsins og málefnum
sjávarútvegsins í gegnum störf sín hjá
Fiskifélaginu á fjórtánda ár, og veit ég að
þetta verður honum ómetanlegt í því starfi,
sem hann nú tekur að sér. Kynni mín af
honum í samstarfi okkar þetta tímabil
eru slík, að ég er þess viss, að forysta
Fiskifélags íslands er þar í öruggum hönd-
um. Með þetta í huga óska ég Má til ham-
ingju með starfið og Fiskifélaginu allra
heilla.
Davíð Ólafsson.
Allir sjómenn, eldri og yngri, þurfa að eignast bókina
ENSK LESTRARBÓK handa sjómönnum
Þar er að finna ensk heiti ó öllum hlutum ó skipi og í dokk.
Auk þess er bókin góður leiðarvísir fyrir sjómenn
í erlendum höfnum. — Kostar 40 kr. í sterku bandi.
Bókaverzlun ísafoldar.