Búnaðarrit - 01.01.1982, Page 10
BÚNAÐARRIT
viii
þau systkini voru þá bæði komin til náms í Menntaskólanum
í Reykjavík. Gísli lauk gagnfræðaprófi frá M. R 1910.
Hverfur þá frá frekara langskólanámi og snýr heim í hérað
sitt. Strax á þessum árum mun Gísli ráðinn um ævistarfið,
starf bóndans. Hann fer í Hólaskóla og lýkur búfræðiprófi
vorið 1911. En hann vildi búa sig betur undir ævistarfið.
Stundar því búfræðinám í Noregi og Skotlandi 1912—1914
og lagði einkum stund á sauðfjárrækt. Kom síðar rækilega í
ljós að það nám var ekki að ófyrirsynju. Er Gísli kom heim
frá námi hóf hann búskap á Frostastöðum með föður sínum.
Hann festir ráð sitt 1917 og gengur að eiga Guðrúnu Stef-
aníu Sveinsdóttur, Eíríkssonar bónda á Skatastöðum og
konu hans Þorbjargar Bjarnadóttur, Hannessonar prests á
Ríp. Sigríður föðuramma Gísla var einnig dóttir sr. Hannes-
ar á Ríp og var því nokkur skyldleiki með þeim hjónum,
Gísla og Guðrúnu, bæði af Djúpadalsætt.
Gísli kaupir Eyhildarholt í Rípurhreppi og hefja þau
Guðrún búskap þar 1923 og búa þar til æviloka, hin síðari ár
í skjóli sona og tengdadætra.
Gísla Magnússyni eða Gísla í Holti, eins og Skagfirðingar
nefndu hann gjarnan, var gefið óvenjulegt atgervi bæði til
líkama og sálar. Hann var fríður sýnum, svipmótið góðlegt,
traustvekjandi og lýsti af gáfum. Á vöxt var hann í hærra
meðallagi, þrekinn, snarmenni og hraustmenni. Hann var
hamhleypa til vinnu og naut þar bæði líkamsorku og verk-
hyggni. Gísli átti alla þá kosti til að bera, sem góðbónda
mega prýða. Þó hygg ég að athyglisgáfan hafi borið af. Hann
bar djúpa virðingu fyrir lífi náttúrunnar og umgekkst það
sem vinur og vinnumaður hinna lífgandi afla. Hann var
stoltur af stétt sinni og starfi bóndans. Hann var búfjárrækt-
armaður svo af bar og á sviði sauðf járræktar var honum gefin
snilligáfa. Gísli hóf strax, er hann byrjaði búskap, að rækta
og kynbæta fé sitt. Til þess hafði hann aflað sér sérþekkingar.
Honum tókst að rækta kostamesta fjárstofn, sem ræktaður
hefur verið á íslandi, að ég hygg. Þar fór saman frjósemi,