Heilbrigðismál - 01.10.2005, Qupperneq 4
FYLGT ÚR HLAÐI
Kæri lesandi!
Tímaritið Heilbrigðismál, sem nú kemur út eftir nokkurt
hlé, á sér langa sögu. Það kom fyrst út í desember 1949, þá
undir nafninu Fréttabréf um heilbrigðismál. Tilgangurinn
var að fjalla um krabbamein en einnig „að fræða fólkið
um ýmsa hluti sem varðað geta heilsu og heilbrigði
þjóðarinnar". Tímaritið hefur komið út reglulega síðan,
með nokkrum hléum. Fyrsta tölublaðið í nýjum búningi
kemur út í október 2005 undir heitinu Heilbrigðismál -
tímarit Krabbameinsfélagsins. Stefnt er að útgáfu þess að
minnsta kosti tvisvar á ári.
Tilgangurinn með útgáfu tímaritsins er eins og áður að veita
fræðslu um krabbamein og krabbameinsvarnir, heilbrígða
lífshætti og ekki síst að kynna starf Krabbameinsfélagsins.
Tímaritinu verður dreift til félagsmanna í aðildarfélögum
Krabbameinsfélags íslands og annarra stuðningsmanna
félagsins og velunnara. Áhersla verður lögð á fjölbreytni í
efnisvali. í þessu blaði er meðal annars fjallað um brjósta-
krabbamein í tilefni af árlegu árveknis- og fjáröflunarátaki
undir merkjum Bleiku slaufunnar.
Eitt af meginmarkmíðum Krabbameinsfélagsins er að miðla
fræðslu og upplýsingum með virkum hætti um krabbamein
og fjölþætt starf félagsins. Við viljum einnig gera okkar
besta til að eiga virk og góð samskipti við almenning og
velunnara félagsins. Þetta vonum við að takist með því að
hefja á ný útgáfu Heilbrigðismála og með endurbótum á
vefsíðu félagsins, krabbameinsfelagid.is.
Með vinsemd,
Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags íslands.
FJÖLÞÆTT
STARFSEMI
SAMKVÆMT LÖGUM Krabbameinsfélags Islands er tilgangur félags-
ins að styðja og efla í hvívetna baráttuna gegn krabbameini svo sem
með því að auka þekkingu á sjúkdómnum, efla rannsóknir á honum,
leita að krabbameini á byrjunarstigi og styðja framfarir f meðferð
krabbameins og umönnun krabbameinssjúklinga.
Krabbameinsfélag íslands er byggt upp af um þrjátiu aðildarfélögum
(svæðafélögum og stuðningshópum sjúklinga). Aðalfundur, sem
haldinn er árlega, kýs sjö manna stjórn sem kemur saman að jafnaði
mánaðarlega til funda.
Leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum er umfangsmesta verkefni
Krabbameinsfélagsins. Hjá Krabbameinsskránni er safnað upplýsingum
um alla sem greindir eru með krabbamein. Rannsóknastofa í sameinda-
og frumulíffræði fæst við grunnrannsóknir á krabbameini. Athyglinni
hefur einkum verið beint að brjóstakrabbameíni. Fræðsla og útgáfa
eru stór þáttur f forvarnastarfi krabbameinssamtakanna. Félagið gefur
út tímarit og heldur úti vefsíðunni krabbameinsfelagid.is. Hjá Krabba-
meinsráðgjöfinni er svarað í síma 800 4040 kl. 15-17 virka daga og
veittar upplýsingar og gefin góð ráð. Félagsráðgjafi hefur nýlega tekið
til starfa.
Stuðningur við sjúklinga er eitt af forgangsverkefnum Krabbameins-
félagsins. Innan vébanda félagsins starfa margir stuðningshópar krabba-
meinssjúklinga. Heimahlynning gerir sjúklingum með ólæknandi sjúk-
dóm mögulegt að dveljast heima eins lengi og þeir óska og aðstæður
leyfa.
Skrifstofa félagsins sinnir stjórnun, þjónar áðurnefndum starfsdeild-
um og annast almenna afgreiðslu. Velta Krabbameinsfélags Islands
er rúmlega 400 milljónir króna á ári. Starfsmenn eru um 100 f um 70
stöðum. Helstu tekjustofnar eru gjöld fyrir veitta þjónustu, tekjur af
happdrætti og sölu minningarkorta svo og ýmsar gjafir.
Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur tekið að sér fræðslu um krabba-
mein, í nafni heildarsamtakanna. Þá gefur félagið út röð fræðslurita
og annast rekstur Happdrættis Krabbameinsfélagsins. Nokkur önnur
svæðafélög hafa ráðið starfsmenn og opnað þjónustumiðstöðvar. JR.
Stjórn Krabbameinsfélags Islands 2005-2006:
Jóhannes Tómasson blaðamaður, Guðrún Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur,
Sigurður Björnsson læknir, formaður, Vilhelmína Haraldsdóttir læknir,
Þorvaldur Árnason lyfsali, Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri og Birna Flygenring
hjúkrunarfræðingur.