Heilbrigðismál - 01.10.2005, Blaðsíða 27
Ómar Óskarsson
Bændur hafa verið langlífir og fá síður ýmis
krabbamein en aðrir starfshópar. Þetta er
þakkað þvi að þeir hafa reykt minna og talið
er að þeir hafi lengst af lifað heilsusamlegra
lífi en margir aðrir. Lífsmynstur bænda er þó
líklegt til að breytast með breyttum tfmum. Það
er athyglisvert að krabbameinsmynstur þeirra
er svipað hvar sem er í heiminum. Það er ekki
vitað af hverju hvítblæði er yfirleitt tíðara meðal
bænda en annarra, en á hinn bóginn telja menn
að hé tíðni varakrabbameins meðal bænda
tengist mikilli útiveru og áhrifum útfjólublárra
geisla sólar.
Sjómenn eru oft flokkaðir með bændum í
hóprannsóknum á krabbameinum og dánar-
meinum. Þetta er þó vafasöm aðferð, svo
ekki sé meira sagt, því að krabbameins- og
dánarmynstur þessara hópa er gjörólíkt og
hefur það sést bæði hérlendis og erlendis.
Sjómenn eru almennt skammlífari en aðrir
karlar og ýmsar tegundir krabbameina eru tíðari
í þeirra hópi en meðal annarra. Drukknanir
sjómanna taka sinn toll en það merkilega er
að dauðaslys á landi verða oftar meðal þeirra
en annarra. Getum hefur verið leitt að því að
þetta kunni að vera afleiðing þess að sjómenn
séu vanir að taka áhættu og sjáist þvi ekki
fyrir þegar í land er komið. Einnig má vera
að sjómenn hafi, að minnsta kost áður fyrr,
hyllst til að neyta áfengis í óhófi í landlegum
og það hafi aukið hættu á dauðaslysum þeirra,
sbr. viðteknar hugmyndir sem endurspeglast í
mörgum dægurlagatextum, t.d. „Hann kærði
sig ekkert um konur / en kunni að fitla við stút.
/ Og tæki hann pyttlu ef töf var á löndun / hann
tók hana hvíldarlaust út.... Og þannig leið ævin
hans Þórðar / við þrældóm og vosbúð og sukk.
/ Svo kvaddi hann lífið eitt kvöldið / þeir kenndu
það of rmiklum drukk."
Karlkyns læknar eru langlífir. Þetta kemur
víða fram í rannsóknum og þeir (slensku eru
engir eftirbátar starfsfélaga sinna annars staðar
í þessu efni. Læknar hafa lykilaðstöðu til að afla
sér þekkingar á heilbrigðissviði og ættu að því
að eiga hægara með að tileinka sér nýjungar
sem stuðla að góðri heilsu. Hérlendis eru
reykingar fátíðari meðal háskólamenntaðs fólks
en annarra.
Kvenkyns hjúkrunarfræðingar eru langlífir en
tiltekin krabbamein eru þó tíðari meðal þeirra
en ýmissa annarra kvenna. Brjóstakrabbamein
er tíðara meðal kvenna sem eignuðust fyrsta
barnið sitt tiltölulega seint en meðal kvenna
sem voru ungar frumbyrjur. Konur sem afla sér
menntunar eru líklegri til að draga það lengur
að hefja barneignir en aðrar konur.
LÍFSHÆTTIR HAFA ÁHRIF
Þegar fólk flyst á milli heimshluta er reynslan sú
að krabbameinsmynstur innflytjendanna dregur
dám af krabbameinsmynstri heimamanna þegar
fram í sækir.
Lengi hefur verið vitað að leghálskrabbamein
er sjaldgæft meðal nunna og annarra kvenna
sem ekki stunda kynlíf. Nú á dögumler þekkt
að það tengist kynlífi þannig að um veirusmit
við samfarir er oft að ræða.
Fátækt er að margra dómi sjálfstæður
áhættuþáttur ýmissa sjúkdóma og kvilla. Þá er
ekki einungis átt við allsleysi heldur einnig þá
hlutfallslegu fátækt sem þekkist meðal ríkra,
iðnvæddra þjóða.
Rannsóknir á lífsháttum og heilsufari þjóð-
félagshópa á Islandi eru skammt á veg komnar.
Þó hafa rannsóknir sýnt að ójafnræðis gætir í
heilsufari hérlendis eins og sést hefur annars
staðar. Ólíkir starfshópar búa við mismunandi
heilsufar. Jákvæð tengsl eru á milli menntunar og
heilsufars, þ.e. þeir sem hafa langa skólagöngu
að baki eru langlífari og njóta betri heilsu en
aðrir. Rannsóknir IMG Gallup á daglegum
reykingum mismunandi menntunarhópa árið
2004 sýndu að um 10% háskólamanna reykja
en um 26% þeirra sem hafa grunnskólapróf
og einhverja viðbót. Samkvæmt sömu heimild
reyktu 18% fólks í stjórnunarstörfum, atvinnu-
rekendur og sérfræðingar en 29% verkafólks,
fólks í einföldum þjónustustörfum, sjómanna
og bænda. I könnuninni eru sjómenn og
bændur settir undir sama hatt þótt vitað sé
að reykingavenjur þessara hópa hafa verið
gjörólíkar. Ef bændur væru felldir úr hópnum er
líklegt að hlutfallstalan væri enn hærri.
Mataræði tengist búsetu, atvinnu og
menntun meðal karla en mataræði kvenna
virðist síður háð menntun og atvinnu, sam-
kvæmt könnun Manneldisráðs 1990. Fullorðnir
karlar með stutta skólagöngu að baki eða
með búsetu í strjálbýli borðuðu þá feitasta
og trefjasnauðasta fæðið en konur og ungt
fólk á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri
borðuðu fituminnsta matinn. Árið 2002
gerði Manneldisráð aftur könnun á mataræði
Islendinga. Þá kom fram að mataræðið hefur
gjörbreyst frá árinu 1990. Mestu breytingarnar
felast í minni mjólkur-, fisk- og kartöfluneyslu
en meiri neyslu gosdrykkja, vatns, grænmetis,
ávaxta, brauða, morgunkorns og pasta. I
skýrslu Manneldisráðs frá 2004 segir m.a.:
„Ofneysla og hreyfingarleysi með tilheyrandi
ofþyngd, ásamt ranghugmyndum um eðlilega
líkamsþyngd, eru þau atriði tengd mataræði
sem helst ógna heilsu landsmanna nú um
stundir."
HVAÐERTILRÁÐA?
• Fólk á alls ekki að reykja. Skaðvænleg
áhrif reykinga á hjarta- og æðakerfi
eru löngu þekkt, og vitað er að þær
valda krabbameini í mörgum líffærum.
Skaðsemi óbeinna reykinga er einnig
vottfest.
• Það er mikilvægt að hreyfa sig og
borða holla fæðu. Manneldisráð mælir
með aukinni neyslu grænmetis og
ávaxta.
• Útivera er holl fyrir líkama og sál
en í sólskini er fólk hvatt til að nota
sólarvörn og sólgleraugu. Ljósabekkir
eru mjög varasamir.
• Það er vænlegt að forðast óþarfa
streitu og gera sér grein fyrir hvað það
er sem mestu máli skiptir í lífinu. Þar
gildir ekki eitt fyrir alla.
Það er ekki auðvelt að breyta lífsháttum
sínum en það er hvers og eins að velja hvernig
hann vill lifa því lífi sem honum er gefið. Hver
nýr dagur er nýtt tækifæri.
Grein eftir Hólmfríði K. Gunnarsdóttur doktor
í heilbrigðisvlsindum. Hún er sérfræðingur á
rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins/
Rannsóknastofu ÍVinnuvernd. Heimildaskrá má
fá hjá höfundi (hkg@ver.is).
27