Fréttablaðið - 21.02.2011, Síða 36
20 21. febrúar 2011 MÁNUDAGUR20
menning@frettabladid.is
Suðurlandsbraut 20, Reykjavík | Sími 588 0200 | www.eirvik.is
Care Collection þvottaefni, sérstaklega
framleitt fyrir Miele þvottavélar
Íslenskt stjórnborð
Stórt hurðarop
Íslenskar leiðbeiningar
ára ending
Farðu alla leið og sparaðu með Miele
Miele þvottavélar hafa verið framleiddar Þýskalandi í ár.
Miele þvottavélar og þurrkarar eru framleidd til að endast.
Sparaðu með Miele
Ritlistarnámi hefur vaxið
fiskur um hrygg á þeim
skamma tíma sem liðinn er
síðan byrjað var að bjóða
upp á það sem aðalgrein við
Háskóla Íslands. Nú hefur
verið ákveðið að færa námið
yfir á meistarastig og tak-
marka fjölda nemenda.
„Markmiðið er að búa til alvöru
rithöfundasmiðju,“ segir Rúnar
Helgi Vignisson, rithöfundur og
þýðandi. Hann hefur yfirumsjón
með ritlistarnáminu við Háskóla
Íslands, sem nú hefur verið ákveð-
ið að færa upp á meistarastig í
haust. Um er að ræða tveggja ára
nám sem lýkur með MA-gráðu.
Öllum sem hafa lokið einhvers
konar grunnnámi frá háskóla gefst
kostur á að sækja um inngöngu.
Valið verður inn í námið á grund-
velli innsendra ritsmíða og verða
teknir inn allt að 25 nemendur á
hverju hausti.
„Víða erlendis,“ segir Rúnar
Helgi, „þar sem þetta er gert af
mestri alvöru, er ritlistarnámið á
meistarastigi og víða er mjög erf-
itt að fá inngöngu. Þetta er nám
sem – ef vel á að vera – er mjög
mannaflsfrekt og hver nemandi
þarf að hafa sinn ritstjóra sem
fylgir honum eftir.“
Ritlist hefur verið í boði sem
aukagrein við Háskóla Íslands
frá 2002 og sem aðalgrein til BA-
prófs frá 2008. Mikil aðsókn hefur
verið að náminu undanfarin ár og
síðastliðið haust var ekki unnt að
taka inn nýnema af þeim sökum.
„Það bara sprakk allt, aðsóknin
var svo mikil,“ segir Rúnar Helgi.
„Og þessi breyting er að hluta til
svar við því. „Við viljum gera þetta
almennilega og sjá til þess að hver
nemandi fái góða þjónustu.“
Rúnar Helgi tekur undir að það
sæti ákveðinni furðu að skipulagt
nám í ritlist hafi ekki staðið til
boða fyrr, sérstaklega í ljósi mik-
illa vinsælda þess og ríkrar bók-
menntahefðar hér á landi.
„Að vísu hafa verið stök nám-
skeið í boði frá því á 9. áratugn-
um sem Njörður P. Njarðvík stóð
fyrir. Glettilega margir af starf-
andi rithöfundum í dag komu þar
við á sínum tíma en þetta verður
ekki að aukagrein fyrr en 2002
og aðalgrein 2008. Hvers vegna
veit ég ekki. Kannski vegna róm-
antískra hugmynda um rithöf-
undinn sem fæddan snilling, um
að annaðhvort hefði maður þetta
eða ekki. En menn hafa auðvitað
alltaf þurft að læra þetta á einn
eða annan hátt. Áður en ritlistar-
námið fór inn í háskólann fór það
að miklu leyti fram á skrifstofum
forlaganna, þar sem menn lærðu
af athugasemdum ritstjóranna.“
Hugmyndin um fædda snill-
inginn sé hins vegar á undan-
haldi og samfara því hafi ritlist-
arnám breiðst út. „Það er varla til
sá háskóli þar sem ritlist er ekki á
boðstólum og víðast hvar er þetta
mjög vinsælt nám, enda líta menn
á þetta sem tækifæri til að brýna
hæfileika sína og æfa sig. Við
stefnum á að laða til okkar fólk
sem hefur hæfileika og áhuga og
vill verja þessum tíma með okkur
til að þroska hæfileika sína enn
frekar.“
Ritlistarnemar við Háskóla
Íslands hafa þegar látið til sín taka
í bókmenntalífi landsmanna.
„Við höfum fengið til okkar
gríðarlega hæfileikaríka nem-
endur sem eru þegar byrjaðir að
láta að sér kveða. Ritlistarnem-
ar hafa gefið út tvö safnrit á und-
anförnum árum, stofnað tímarit,
sent frá sér ljóðabækur og hreppt
Nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs,
svo dæmi séu tekin. Það var okkur
ekki síður hvatning til að reyna að
efla námið enn frekar með þessari
breytingu.“ bergsteinn@frettabladid.is
Alvöru rithöfundasmiðja
YFIRUMSJÓN Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, hefur yfirumsjón með ritlistarnáminu við Háskóla Íslands. Hann
segir markmiðið vera að búa til alvöru rithöfundasmiðju. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR
Tónlist ★★★★★
Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói á fimmtudagskvöld
Einleikari: Kirill Gerstein. Stjórnandi: Louis Langrée
Ógleymanlegur Brahms og Schubert
Ég hef heyrt af langt komnum píanónemendum sem hafa sparkað í píanóið
eftir að hafa æft annan píanókonsertinn eftir Brahms.
Konsertinn var á dagskránni á tónleikum Sinfóníunnar á fimmtudags-
kvöldið. Hann er ekkert venjulega erfiður. Sumt er nánast óspilandi. Fæstir
ráða nokkuð við hann; ég get vel skilið þá sem taka geðvonskukast eftir að
hafa glímt við hann án árangurs.
Kirill Gerstein var einleikarinn að þessu sinni. Hann hóf leik sinn af nokk-
urri formfestu og maður óttaðist að hann myndi framreiða verkið eins og
það væri eftir Haydn, kórrétt en leiðinlegt.
En píanóleikarinn var fljótur að komast í gang. Allar djúpu tilfinningarn-
ar, ofsinn – og líka seiðmögnuð nostalgían – skilaði sér í túlkuninni. Og
tæknileg atriði voru glæsilega af hendi leyst. Svakaleg heljarstökk og hraðar
tónarunur voru skýrar og flottar. Og samspilið við hljómsveitina var pottþétt.
Louis Langrée stjórnaði hljómsveitinni af öryggi. Heildarhljómurinn var
þykkur og munúðarfullur, alveg eins og Brahms á að hljóma. Vandasamur
hornablásturinn var fínn og ég dáðist af himnesku sólói Bryndísar Höllu
Gylfadóttur sellóleikara í hæga kaflanum. Það var unaðslega fallega mótað.
Brahms samdi tvo píanókonserta, sá fyrri er mun hefðbundnari í formi
og að mörgu leyti aðgengilegri og skemmtilegri. En flutningurinn á seinni
konsertinum nú var svo sannfærandi, svo heildstæður og einbeittur, að
ég held að hann hljóti að hafa virkað alveg jafn aðgengilegur og sá fyrri.
Persónulega upplifði ég hann á nýjan hátt.
Eftir svona átök hefði maður haldið að píanóleikarinn væri búinn á því.
En ekki aldeilis. Gerstein hristi Álfakónginn eftir Schubert í útsetningu Franz
Liszt fram úr hendinni eins og ekkert væri. Brjálæðisleg byrjunin var einmitt
það, svo brjálæðisleg að kliður fór um áheyrendur. Ég verð að viðurkenna
að ég vissi ekki að þetta væri hægt! Svona ótrúlega hraðar, endurteknar
nótur án þess að píanóleikarinn virtist nokkru sinni þreytast. Þetta var
frábær spilamennska.
Það var hálfgerður antiklímax að hlusta á 4. Sinfóníu Schumanns eftir hlé.
Sinfónían er auðvitað falleg eins og allt eftir Schumann. En hún kemst ekki
með tærnar þar sem Brahms-konsertinn hefur hælana. Hljómsveitin spilaði
hana þó vel og mismunandi hljóðfærahópar voru með sitt á hreinu. Þeir
léku af aga og nákvæmni, en líka af viðeigandi fjöri. Útkoman rann ljúflega
niður, hún var gómsæt en ekki eftirminnileg. Ég mun hins vegar aldrei
gleyma þessari túlkun á Brahms, og enn síður Álfakónginum. Jónas Sen
Niðurstaða: Mögnuð túlkun á píanókonsert nr. 2 eftir Brahms og Álfakóng-
urinn eftir Schubert var lyginni líkastur.
UM ÆVI ÞÓRU OG KRISTINS Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur flytur á morgun fyrirlestur á hádegisfundi Sagnfræð-
ingafélags Íslands, Hvað er kynjasaga? Í fyrirlestrinum verður ævi hjónanna Þóru Vigfúsdóttur og Kristins E. Andréssonar rædd út
frá mögulegum aðferðafræðilegum nálgunum á efnið. Fyrirlesturinn fer fram í Þjóðminjasafninu á morgun og hefst klukkan 12.