Faxi

Árgangur

Faxi - 01.06.1960, Blaðsíða 4

Faxi - 01.06.1960, Blaðsíða 4
84 F A X I JÓN DAN: DRAUMUR I FELUM Síðla kvölds, árið 1919, var barið að dyr- um á bæ einum á Vatnsleysuströnd. Það var farið að hausta, og þetta kvöld var landsynningsgarri, sem þeytti grásvörtum skýjabólstrum út yfir hafið. Vindurinn gnauðaði við húshrófið og smaug inn um rifur við ups og stafi. Milli tveggja roka barði óboðinn gestur á ný. Fimm drengir, á aldrinum fjögurra til ellefu ára, sátu á bálkum beggja vegna í baðstofunni. Þeir litu upp frá lestri og dundi. Augnaráð þeirra leitaði konunnar, sem sat á yzta rúminu með kjöltuna fulla af sokkaplöggum. Hún leit aftur á elzta drenginn, en hann lagði frá sér bók og stóð upp. Hann var fölur yfirlitum með rauðleitt, hrokkið hár, og í augum hans hafði draumur falið sig. Framan af hafði draumurinn búið um sig í opnu sjáaldri, en nú hafði hann falið sig undir þungum augnlokum, svo manni bauð aðeins grun í návist hans. Og þó var hann þar örugg- lega, eins og neisti, nógu öflugur til að blossa upp við minnstu von. Enn var drepið á dyr. Drengurinn gekk fram baðstofuna en horfði um leið á konuna. Hún brosti lítið eitt, tók í svuntuna og hellti plöggunum úr henni í rúmið til fóta. Þegar hún leit við aftur var hrosið horfið. Bræðurnir fjórir, sem sátu kyrrir, brostu ekki heldur. Fyrir tæpu ári hafði annar gestur óboð- inn hrundið upp hurð nálega á liverjum bæ og merkt sér fleiri eða færri heima- menn. Honum dvaldist ekki lengi, en þegar hann fór var hann búinn að höggva skarð í hverja fjölskyldu, stundum var það unglingur, en oftast fólk á bezta aldri, móðir eða faðir, stundum allt í senn. Og enn var fólk að veslast upp eftir heim- sókn hans, þó dauðinn bæri annað nafn. A meðan konan og drengurinn gengu til dyra, var barið í fjórða sinn. Drengur- inn varð fljótari til að opna, en hvarf síðan að hlið konunnar. Karlmaður stóð utan gátta og kastaði kveðju á þau. Konan anzaði og spurði hann erindi. Hann sagði: Gæti konan lofað mér að vera í nótt? Þau hleyptu honum inn, og hann lagði undarlega tösku frá sér á gólfið og fór úr skjólflíkum. Þá sagði konan: Hver er maðurinn? Jón Dan. Ég heiti Finnur, sagði maðurinn, ég er fiðlari. Sumir kalla mig Finn fiðlara. Aðr- ir Fugla-Finn af því að ég get sungið og kvakað eins og smáfugl á vori. Enn aðrir Organ-Finn af því ég spila á orgel líka. Eg er á leið til Keflavíkur, en hef verið í tvo daga hjá vinum mínum í Hraununum. Já, sagði konan, ég hef heyrt mannsins getið. En af hverju leitar maðurinn skjóls hér, þar sem ekkert er upp á að bjóða? Maðurinn horfði í gaupnir sér stundar- korn, það var eins og hann þyrði ekki að svara. En svo svaraði hann: Mér var sagt að hér væri nóg pláss fyrir gest. Ókennilegt hljóð, stuna, óp eða hlátur- hiksti brauzt yfir varir konunnar.. En drengirnir litu allir niður. Konan sagði: Nóg pláss, já. Rúm er manninum falt, og matarbiti, ef hann getur þegið það, sem við lifum á. En það er ekki beysið. Mán- uðum saman stendur nú bátur í naust, í stað þess að færa okkur þyrskling. Það er af því faðir þessara einstæðinga er nú merktur þeim, sem hér liefur eytt bæi. Hún þagnaði, tók yngsta drenginn við hönd og fór fram í eldhús. En drengurinn undi ekki frammi heldur kom inn fyrir og stóð við dyrustafinn. Konan var ein í eldhúsinu. Það var kalt þar. Hún sveipaði hyrnunni fastar að sér og lyfti tjaldinu snöggvast frá glugganum til að horfa út. 1 skýjarofi kom tunglið í ljós og kastaði birtu yfir bát á hvolfi á sjávarbakka. Það setti að henni ugg. Hún sleppti glugga- tjaldinu og fór að finna mat handa fiðlar- anum. Þegar hún kom inn með matinn, var fiðlarinn búinn að koma sér fyrir. Hann hafði tínt eitt og annað dót upp úr poka sínurn, og gljáandi, nakin fiðla lá við hlið hans. Drengirnir voru komnir til hans og virtu fyrir sér. djásnin, sem hann sýndi þeim. Hvernig er ástandið í Reykjavík? spurði konan um leið og hún lagði mat á borðið. Allt er að hækka, sagði maðurinn, dýr- tíðin er svo mikil, að það er að verða ólifandi. Það er slæmt, sagði konan, en skyldu nú fleiri farast úr dýrtíðinni en úr spönsku veikinni ? Maðurinn svaraði ekki. Þá sagði konan: Þetta er slátur úr dilkunum okkar, sem ég býð manninum. Nágrannarnir smöluðu fénu og réttuðu og slátruðu og færðu mér svið og blóð til þess ég gæti haldið lífi í drengjunum fimm. Og hér er ég með salta grásleppu, ef maðurinn vill. Ekki vitjaði faðir drcngjanna um grásleppunet í vor á kænunni sinni, hann sem er þó beztur formaður og hefur róið bæði norð- anlands og af Suðurnesjum víða. Nei, ekki reri hann til að færa sonum sínum björg, heldur veslaðist upp hér í baðstofunni þar til nú að þeir fóru með hann inneftir. En nágranninn færði okkur grásleppu, sem drengirnir söltuðu og þurrkuðu, og okkur þykir það góð fæða með nýjum kartöflum. A meðan konan talaði, hafði fiðlarinn, sem ekki virtist hlusta, tekið upp fána úr pússi sínu, og hampaði honum. Elzti drengurinn starði á fánann. Hann var skítugur og snjáður og litirnir daufir. Þetta flagg er helgur gripur, sagði fiðlar- inn, það var alþingismaður, sem gaf mér það fyrir tæpu ári, á fullveldisdaginn. Þá var flaggað á hverri stöng í Reykjavík. Það var dýrleg stund. Dýrleg stund? sagði konan. Kannski það. Var ekki dauður maður i hverju húsi í Reykjavík? Og hér dó móðir frá fimm sonum. Það var ekki dýrleg stund. Ég hef notað þetta flagg á skemmtun- um, sagði fiðlarinn, það er gott flagg. Hann horfði á elzta drenginn.

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.