Faxi - 01.02.1967, Qupperneq 2
Marta Valgerður Jónsdóttir:
Minningar frá Keflavík
Það var rétt nýlega, sem ég var að
blaða í Ættarskrá séra Bjarna Þorsteins-
sonar á Siglufirði. Var ég svona til gam-
ans að rifja upp fyrir mér nánustu frænd-
ur Kristleifs rithöfundar á Stóra-Kroppi,
vinar míns. Sá ég þá þar, sem ég reyndar
mun hafa vitað áður, að Þorsteinn bóndi
Halldór Þorsteinsson
á Meiðastöðum í Garði og Kristleifur voru
bræðrasynir að frændsemi, komnir í karl-
legg frá séra Snorra, hinum sterka á Húsa-
felli. Var séra Snorri langafi þeirra. Nú
renndi ég augum yfir börn Þorsteins og
tók þá eftir því að Halldór sonur Þorsteins
og einn þeirra mannvænlegu Meiðastaða-
systkina er fæddur 22. febrúar 1887 og því
áttræður í þessum, máuði, var því sjálf-
sagt að láta Faxa njóta þessa góða tæki-
færis, ná í mynd og festa á blað nokkur
orð um afmælisbarnið, sem allir er til
þekkja vita að er öðlings- og heiðursmað-
ur.
Það má með sanni segja, að Halldór í
Vörum hafi stundað sjóinn frá barnsaldri,
fyrst með föður sínum sem hefur kennt
honum sjó, en frá 17 ára aldri var hann
formaður á vorvertíð og svo úr því á
stærri skipum, áttæringum. Var til þess
jafnað hve vel hann sigldi skipum, þótti
það listasjón er hann sat við stýri og
„upp í hleypti og undan sló, eftir gaf og
strengdi kló“. Það var íþrótt, sögðu menn
og færðust í aukana, er þeir minntust á
þessa lista siglingu, já, lifnuðu allir við og
jafnvel blikaði tár í auga, enda var
það fögur sjón að sjá skip svífa seglum
þöndum í blásandi byr og vera þess vit-
andi að hugur og hönd eins manns réði
þar ríkjum. Jafnvel telpukrakki, sem ekk-
ert vit hafði á sjómennsku, gat lengi stað-
ið á sjávarkambinum, bergnuminn og
horft á svona siglingu og átt síðan þessa
heillandi mynd í vitund sinni. En svo
komu mótorbátarnir til sögunnar og þá
var hafist handa um þá útgerð, bátarnir
voru litlir fyrst, en stækkuðu jafnt og
þétt. Allir bátar Halldórs i Vörum hafa
heitið Gunnar Hámundarson, er hinn síð-
asti sameign Halldórs og Þorvaldar sonar
hans, sem er skipstjóri á bátnum, einnig
Þorsteins á Borg.
Halldór Þorsteinsson var ekki aðcins
mikill skipstjóri heldur líka frábær afla-
maður. Eftir að mótorbátar komu til sög-
unnar var ógjörningur að landa heima í
Garöi, því þar vantar góða höfn. Þeir út-
gerðarbændur í Garði fluttu því um set á
vetrarvertíð og höfðu aðsetur í Sandgerði,
en allur afli af bátunum var fluttur heim
til verkunar. Reyndi þá á dugnað húsfreyj-
unnar, að taka vel við og hirða aflann, en
samfara þeirri vinnu voru að sjálfsögðu
heimilisstörf og barnagæzla. Kristjana
kona Halldórs var vel þeim vanda vaxin,
var hún hraust og harðdugleg, en er börn-
in uxu upp, voru þau vanin við að hjálpa
til við fiskverkunina, hvert eftir sinni getu.
Var heimilið því ein starfandi heild. Eftir
að Halldór lét af skipstjórn, hefur hann
sjálfur séð um hirðingu og verkun aflans
og alltaf mun hann hafa haft umsjón með
þessum verkum.
En það voru líka gleði- og tómstundir
í Vörum. Þar var mikið sungið og var
húsbóndinn þar fyrirliði í því sem öðru.
Var þá oft, er stund gafst sungið af hjart-
ans list. Nú eru börnin tólf öll flogin úr
hreiðrinu, en þegar fjölskyldan kemur
saman, og það er oft, er tekið lagið með
sama gleiðibrag, er þá ættfaðirinn organ-
isti og forsöngvari og allir verða eitt og
börn á ný. Þegar Halldór var ungur að
árum gekk hann í barnastúku, sem alltaf
hefur starfað í Garðinum. Þorsteinn fað-
ir hans hafði snemma gerst meðlimur
Góðtemplarareglunnar og var það alla
ævi síðan, hefur Halldór trúlega fetað í
fótspor föður síns og er enn í dag starf-
andi í Reglunni og það sem meira er, allur
barnahópurinn hefur fylgt honum. Krist-
jana kona hans hefur einnig frá unga
aldri verið í stúkunni og hefur í því starfi
sem öðrum verið manni sínum samhent,
enda veitir hún hverju góðu málefni lið.
Mér finnst þessi þáttur í lífi þeirra hjón-
Kristjana Kristjánsdóttir
anna í Vörum, vera í frásögur færandi
og vissulega öðrum til eftirbreytni. Það
væri færra af slysum og sorgum, sjúk-
dómum og margskonar fjölskylduvanda-
málum ef fleiri hefðu gengið þá götu,
sem hjónin í Vörum hafa farið. Það mun
vera meiri hluti Garðverja bindindisfólk
enda fara dansleikir og skemmtanir allar
þar fram með mestu prýði og menningar-
brag. Þannig er búið í Garðinum og
mættu ýmis bæjarfélög, sem í vanda eru
stödd með skemmtanir, beina þangað sjón-
um sínum.
Kristjana í Vörum er fædd 2. nóvember
1886 í Hellukoti á Vatnsleysuströnd. Voru
foreldrar hennar hjónin Vilborg Halldórs-
dóttir og Kristján Jónsson bónda í Hellu-
koti Pálssonar. Þau hjón fluttust nokkru
síðar að Breiðagerði næsta bæ fyrir sunnan
Auðna, þar bar fundum okkar Kristjönu
saman á morgni lífsins, vorum, við þar
samtíða í átta ár. Hún var kölluð Sjana,
myndartelpa, hæglát og framar öllu góð.
Hún var stóra systir, sem ævinlega var
hægt að reiða sig á, hún var sterk og
hraust, ég held hún hafi aldrei orðið veik
og hún kvartaði heldur aldrei yfir neinu,