Morgunblaðið - 29.12.2008, Blaðsíða 28
28 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. DESEMBER 2008
✝ Dagbjört HannaJónsdóttir fædd-
ist Stykkishólmi 24.
ágúst 1934. Hún lést
á sjúkrahúsinu í
Stykkishólmi 19.
desember síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Jón Breið-
fjörð Níelsson, bóndi
og vitavörður í El-
liðaey, f. 10.10. 1903,
d. 14.12. 1935, og
Kristín Pálsdóttir,
húsfreyja í Elliðaey,
f. 5.2. 1902, d. 24.7.
1980. Systir Hönnu er Auður hús-
freyja, f. 12.11. 1930.
Hanna giftist 31.12. 1960 Sig-
urði Amlin Kristjánssyni vél-
smíðameistara, f. 3.11. 1933. For-
eldrar hans voru hjónin Kristján
Rögnvaldsson og Rannveig Guð-
mundsdóttir. Hanna og Sigurður
eignuðust fimm börn. 1) Guðrún
Alma, f. 1959, barnsfaðir Knut
Ödegaard, f. 1953, sonur þeirra er
Ívar, f. 1988. 2) Rannveig Kristín,
f. 1962, sambýlismaður Axel
Garðar Hjartarson, f. 1959, börn
þeirra Sigurður Amlin, f. 1986,
barnsfaðir Magnús Kristjánsson,
f. 1963, Axel Garðar, f. 2000. 3)
Selma Rós Amlin, f. 1970, gift
Svani Grétari Jóhannssyni, f.
1964, börn þeirra
Rakel Lind, f. 1991,
Aron Freyr, f. 1992,
og Hanna Rún, f.
2003. 4) Guðmundur
Jón Amlin, f. 1972. 5)
Lea Rakel Amlin, f.
1976, gift Sigmari
Tryggvasyni, f. 1968,
börn þeirra Ágúst
Örn, f. 1997, Birta
Guðlaug, f. 1999, og
Dagur Amlin, f.
2006.
Fyrstu tvö árin bjó
Hanna ásamt fjöl-
skyldu sinni í Elliðaey á Breiða-
firði. Eftir að faðir hennar fórst í
sjóslysi, fluttist Hanna ásamt
móður sinni og systur til Stykk-
ishólms. Í Stykkishólmi gekk
Hanna í barna- og gagnfræða-
skóla en hélt síðan til Danmerkur
í St. Restrup Husmandsskole. Að
loknu náminu sneri hún aftur
heim í Hólminn þar sem hún
starfaði við verslunarstörf. Hanna
starfaði í Búnaðarbankanum í
Stykkishólmi síðustu átján ár af
starfsævi sinni ásamt því að vera
félagskona í kvenfélaginu Hringn-
um og Málfreyjudeildinni Emblu.
Útför Hönnu fer fram frá
Stykkishólmskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Ó, minning þín er minning hreinna ljóða,
er minning þess, sem veit hvað tárið er.
Við barm þinn greru blómstur alls hins góða.
Ég bið minn guð að vaka yfir þér.
(Vilhjálmur frá Skáholti.)
Henni var margt til lista lagt,
henni tengdamóður minni, sem fékk
hvíld rétt fyrir jól eftir erfið veikindi
sl. þrjá mánuði. Við greiningu á
krabbameininu var það henni þegar
orðin ósanngjörn barátta. Við þessi
tímamót er mér auðvelt að láta hug-
ann reika um þær góðu minningar
sem ég og fjölskylda mín fengum að
njóta með henni. Hún helgaði allt sitt
líf eiginmanni og fjölskyldu af slíkri
umhyggju að ég varð ekki ósnortin af
þeirri umhyggju með kærleika og ást
sem hún bar í brjósti. En það voru
líka svo margir, margir aðrir sem
fjær voru staddir sem nutu einnig
hennar umhyggju. Þær voru ófáar
ferðir okkar vestur í Stykkishólm,
þar sem við vissum að móttökur
hennar og Sigga voru ávallt með opn-
um faðmi, góðum félagskap og fal-
legu heimili. Tengdamóðir mín var
góður hlustandi og víðsýn kona, hafði
góða þekking á svo mörgu, tengt
mönnum og málefnum, bæði í nútíð
og fortíð. Þær voru ófáar sögurnar úr
ættfræði sem var hennar dálæti. Fé-
lagskapur hennar var með eindæm-
um góður svo að maður átti það til að
gleyma stað og stund.
Með þessum fáu orðum vil ég
þakka þér kærlega fyrir okkar sam-
verustundir, hvíl þú í friði, elsku
Hanna.
Axel Garðar Hjartarson.
Elsku Hanna, nú hefur þú verið
leyst frá þínum þrautum. Ég man svo
vel þann dag þegar ég sem tengda-
sonur ykkar kom fyrst inn á heimilið
ykkar, hversu einlægar móttökurnar
voru, og eru þær mér í fersku minni.
Mér er ofarlega í huga hversu
ánægjulegar stundir við áttum sam-
an og fékk ég strax tækifæri til að
kynnast þinni víðsýni og réttlætis-
kennd sem var stór og mikil. Þú varst
listakokkur mikill og tókst þér ávallt
að matreiða mismunandi rétti þannig
að mínir bragðlaukar nutu vel. Þú
reyndist börnum okkar Selmu mjög
góð amma og sóttu þau mikið til þín
og í þína nærveru. Á þessum tíma-
mótum er mér ofarlega í huga þakk-
læti fyrir þann tíma sem við fengum
saman í Frakklandi, þar naust þú þín
vel með okkur og kunnir þú afskap-
lega vel að meta allt það sem Frakk-
land hafði að bjóða.
Með þessum fáu línum vil ég þakka
þér kærlega fyrir þann tíma sem við
áttum með þér og þín á eftir að verða
sárt saknað.
Hvíl þú í friði.
Svanur Grétar Jóhannsson.
„Hann er líklegast bara marinn,“
sagði læknirinn eftir að hafa skoðað á
mér bólgna löppina í dágóðan tíma.
„Gefðu honum bara verkjalyf og
þetta batnar með tímanum.“
„Ætlar þú ekki að taka mynd?“
sagði amma, „það er greinilega eitt-
hvað alvarlegt að, hann skelfur all-
ur!“ Amma taldi lækninn á að taka
mynd, enda ástæða til, fóturinn var
brotinn á tveimur stöðum.
Amma þurfti ekki að vera með
doktorsgráðu til hafa rétt fyrir sér,
þótt það hefði verið æskilegt, þá var
það bara ekki hennar stíll. Hún hafði
bara rétt fyrir sér. Hún vissi einfald-
lega hvað átti að gera, líkt og þegar
ég emjaði uppi í rúmi vegna vaxtar-
verkja og hún kom til að strjúka á
mér fæturna. Verkurinn einfaldlega
hvarf og allt varð eins og það átti að
vera.
Að koma í Hólminn var hins vegar
allt annað en sársaukafullt þrátt fyrir
einstaka kúlur á hausinn. Ég gleymi
seint öllum þeim rútuferðum sem ég
fór á mínum yngri árum, tilhlökkunin
byrjaði þar og ég varð aldrei fyrir
vonbrigðum. Það kom varla sá dagur
að mér leiddist í Hólminum, ég hrein-
lega elskaði að vera þar og það var
alltaf jafngaman að koma heim eftir
erfiðan dag og háma í sig kjúkling
eða læri og fá síðan íspinna í eftirrétt.
Það gat bara ekki klikkað.
Ég óska þess núna að ég hefði sótt
meira í friðsældina í Hólminum á síð-
ustu árum. Þú háðir erfiða baráttu
við þennan sjúkdóm og miðað við
mína reynslu af þér þá hugsaði ég
með mér að sjúkdómurinn ætti ekki
séns. Þú varst sterkasta sál sem ég
hef þekkt og þú sáðir visku yfir þá
sem voru þér nærri. Það er heiður að
vera barnabarn þitt og ég mun alltaf
líta upp til þín.
Ég sakna þín.
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér.
Því veit mér feta veginn þinn
og verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson)
Sigurður Amlín Magnússon.
Elsku amma mín, seint hélt ég að
til þess kæmi að ég myndi skrifa
minningargrein um þig. En nú ert þú
fallin frá, elsku besta vinkona mín.
Það eru einungis fögur orð sem
lýsa þessum góða engli, sem amma
mín var. Hún var klettur allra, hún
hjálpaði öllum, og þar á meðal mér
mikið. Alltaf gat ég leitað til hennar
með mín vandamál, og öfugt. Ég bjó
hjá þér og afa í tæpt ár, þið buðuð
mig velkomna inn á heimili ykkar og
leið mér vel hjá ykkur. Því þú, elskan
mín, umvafðir mig hlýju, ást og um-
hyggju. Þegar ég fór út á kvöldin
vaktir þú alltaf eftir mér, og við
spjölluðum lengi lengi, þangað til ég
var svefni nær. Við deildum öllu, allt
sem mér bjó í brjósti það sagði ég
þér, alltaf hafðir þú ráð við öllu. Þú
minntir mig mikið á í seinni tíð
hvernig ég hefði verið þegar ég var
yngri, og ég man hvað þú ljómaðir
alltaf þegar þú talaðir um mig. Þú
sagðist aldrei gleyma því hvernig ég
flaug í fangið á þér eins og fiðrildi,
þegar ég hafði ekki séð þig í rúmlega
mánuð.
Þú varst alltaf reglusöm og pjött-
uð, þú vildir alltaf hafa snyrtilegt í
kringum þig. Þú helgaðir líf þitt því
að fegra heiminn, hvort sem var með
sköpun eða ást. Til var ekki betri
manneskja en elsku amma mín, ég á
eftir að sakna þín sárt, þú átt stóran
bita í hjarta mínu. Það sem þú hefur
kennt mér mun ég ávallt muna, því
eins og þú sagðir: „Viska verður aldr-
ei tekin af þér.“ Þú barðist fyrir þínu
og dóst ekki ráðalaus. Ótrúlegt hvað
þróttur þinn og þolinmæði var mikil.
Hvíldu í friði elsku besta amma mín,
megi englarnir og guð taka vel á móti
þér, ég passa nöfnu þína og Aron,
eins og þú baðst mig um. Ást þín lifir
í hjarta mínu. Þín
Rakel Lind.
Á föstudaginn lést móðursystir
mín, Hanna Jónsdóttir, á sjúkrahús-
inu í Stykkishólmi eftir stutta en
snarpa sjúkdómslegu. Hanna var
mér kær frænka og minnisstæð. Hún
vildi láta kalla sig Hanna tante að
dönskum sið enda danskan allmikið
töluð hér áður í heimabæ hennar,
Stykkishólmi. Á barnsaldri fór ég oft
á tíðum í heimsóknir í Stykkishólm til
Kristínar ömmu og Hönnu frænku
og Sigga og fjölskyldan lagði á sig
löng ferðalög til þess að fara vestur.
Ég var lánsamur að fá að dveljast í
Hólminum hjá Hönnu nánast sum-
arlangt í nokkur skipti og fá smjör-
þefinn af því að alast upp utan
Reykjavíkur. Hanna gerði sitt til
þess að það gæti orðið. Hún sá til
þess að okkur liði vel í vistinni hjá
henni. Í hádeginu var sóttur nýr fisk-
ur niður á bryggju og eldaður og síð-
an þá hef ég aldrei fengið nógu nýjan
fisk. Ég og systkin mín bjuggum við
mikið frjálsræði þegar við dvöldum í
Hólminum, staðurinn var allur eitt
leiksvæði barnanna hvort sem það
var í þorpinu sjálfu, á höfðanum, við
Skipavík, á bryggjunni við mar-
hnútaveiðar eða annarstaðar í ná-
grenni bæjarins. Þótt frjálsræðið
væri mikið létu íbúar sig varða ef
þeim þótti við börnin fara óvarlega
og létu þá af því vita þannig að ekki
hlaust slys af. Í þeirri mynd birtist
mér í dag samstaða bæjarins og um-
hyggja fyrir börnum þótt okkur
þætti þá þetta vera óþarfa afskipta-
semi.
Hanna var dugleg kona og ræðin
og lét sig varða um fjölskyldur þær
sem að henni stóðu. Hún var tilbúin
til að hjálpa og á unglingsárum mín-
um töluðum við eitt sinn um það í fúl-
ustu alvöru að ég fengi að dvelja hjá
henni á meðan ég prófaði að vera til
sjós hluta úr sumri á skelfiskbát.
Hún var ein af þeim frænkum sem þú
ræddir við eins og þú hefðir hitt þær
síðast í gær þótt lengra væri frá liðið.
Hún var gestrisin og mér er sérstak-
lega minnisstætt þegar við heimsótt-
um hana við Miðá í Dölum þar sem
hún sýndi mér þá fallegustu sjó-
bleikjuveiði sem ég hef séð. Ekki var
annað tekið í mál en að við krakk-
arnir fengjum að reyna líka við veið-
arnar. Þegar komið var í heimsókn á
heimili Hönnu og Sigga á Silfurgöt-
una var iðulega boðin kaka með kara-
mellukremi og kaffi, tíminn flaug við
spjall.
Þegar árunum fjölgaði fækkaði
ferðunum í Stykkishólm. Lengra
varð á milli þótt bættar samgöngur
styttu leiðina. Það var þó ekki við
Hönnu að sakast, frekar var það
tímaleysi mitt. Ég hitti Hönnu síðast
í fermingarveislu í vor þar sem hún
var eins og hún átti að sér alla tíð, ein
af þeim manneskjum sem tíminn
virðist ekkert bíta á. Hress og ræðin
spurði hún frétta af mér og mínum og
ekki var undan því vikist að segja allt
af sér og sínum. Eftir að hafa kynnst
svo mikilli manneskju sem Hanna
var þá er eins og veröldin verði fá-
tækari eftir för hennar úr þessari
jarðvist. Eitthvað það sem alltaf hef-
ur verið til er nú ekki lengur til stað-
ar.
Söknuður fyllir hugann en líka
þakklæti fyrir að hafa kynnst henni.
Minning hennar lifir meðal okkar
sem nutum góðs af samvistum við
hana. Ég votta Sigurði eiginmanni
hennar, börnum og ástvinum mína
dýpstu samúð.
Ólafur Þór Hauksson.
Kær og góð frænka mín og æsku-
vinkona hefur kvatt þennan heim.
Uppvaxtarár okkar í Hólminum eru
samtvinnuð, gengum saman í skóla
og erum fermingarsystur. Í æsku var
hún heimagangur á heimili foreldra
minna, var eins og ein af okkur systk-
inunum. Við vorum systradætur og
þeirra systkini voru tólf og áttu sjö
þeirra heima í Hólminum, þetta voru
barnmargar fjölskyldur og var
frændgarðurinn stór og samgangur
mikill á milli ættmenna.
Eitt af leiksvæðum okkar í æsku
var höfðinn, Þinghúshöfðinn, þar
sem við byggðum okkur bú í klett-
unum á sumrin og renndum okkur á
veturna. Af höfðanum er víðsýnt til
allra átta og ekki hægt að hugsa sér
fegurra leiksvæði barna. Margra
yndi er að ganga þennan höfða til að
njóta útsýnisins þaðan, einkum á sól-
fögrum morgni eða fögru kvöldi, því
hvergi er sólarlagið fegurra en við
Breiðafjörðinn.
Hanna bjó allan sinn aldur í Stykk-
ishólmi, ólst þar upp með móður sinni
og systur en föður sinn misstu þær í
sjóslysi barnungar. Það má því segja
að Hanna hafi verið sannur Hólmari
alla tíð. Hún giftist Sigga sínum og
eignaðist með honum fimm börn sem
bera henni fagurt vitni. Eftir að ég
flutti úr Stykkishólmi var alltaf jafn
gaman að koma í Hólminn og hitta
Hönnu, hún var svo lífsglöð og kát og
gaf mikið af sér. Hún leit alltaf svo já-
kvæðum augum á lífið og alltaf var
stutt í hláturinn. Samband okkar var
alltaf sérstakt og sú taug sem mynd-
aðist á milli okkar í æsku slitnaði
aldrei. Þegar ég kom vestur núna
seinni árin fundum við okkur oft tíma
til að spjalla saman og rifja upp
gömlu góðu dagana okkar í Hólmin-
um. Það voru góðar stundir og mik-
ilvægar í minningunni.
Veikindi Hönnu bar skjótt að og
þegar ég heimsótti hana á sjúkrahús-
ið áður en hún var flutt vestur á
sjúkrahúsið í Stykkishólmi áttum við
góðan tíma saman og var hún þá kát
og hress að vanda þó að hún væri
mikið veik.
Nú er Hanna horfin til annarrar
tilveru og býr þar vonandi við jafn-
mikla sólarbirtu og tíðast blasti við
henni við Breiðafjörðinn.
Þótt ævitíminn eyðist
og ört verði þáttaskil,
vér eigum margs að minnast
og margs að hlakka til.
Og sérhver með oss eldist,
sem unnum vér hér á jörð
og á vorn hug og hjarta,
vora heill og þakkargjörð.
(Þ. Ibsen)
Fyrir hönd systkina minna votta
ég Sigga, börnum og fjölskyldum
þeirra innilegustu samúð og bið þess
að ljósanna hátíð vermi hjarta ykkar
og gefi ykkur öllum styrk og þrek
með hækkandi sól.
Ebba Lárusdóttir.
Látin er frænka mín og nafna,
Dagbjört Hanna Jónsdóttir.
Hanna, eins og hún var alltaf köll-
uð, og ég vorum systkinabörn í báðar
ættir, en þannig hagaði til að fjögur
systkini úr Höskuldsey giftust fjór-
um systkinum ú Sellátri. Þessar eyj-
ar eru á Breiðafirði og stutt á milli.
Efalaust er þetta ekki tilviljun, því
samgangur var mikill á milli eyja.
Jón, faðir Hönnu, var bróðir mömmu
minnar og fórst ungur maður á
Breiðafirði, þegar Hanna var lítil.
Föðursystir mín, Kristín, ól ein upp
tvær dætur sínar, þær Auði sem var
sú eldri og Hönnu. Heyrði ég að það
hefði hún gert af einstökum dugnaði,
enda góð saumakona. Lengi vann
hún á saumastofu Kaupfélags Stykk-
ishólms.
Oft naut ég þess að Stína var
saumakona, man að ég fékk fína kjóla
sem hún hafði saumað, eða gefið mér
af þeim systrum. Ég leit mikið upp til
Hönnu. Hún byrjaði ung að vinna í
Kaupfélaginu. Vann held ég alltaf í
sérvörudeildinni. Man eftir að hafa
komið í búðina einu sinni fyrir jól, og
mamma var að kaupa hárborða
handa mér. Hanna mældi þennan
fína rauða borða. En best var að hún
gaf mér fallegan kassa sem var und-
an tvinna. Ég átti hann í fjölda ára og
geymdi í honum marglita kuðunga.
Svo fór Hanna í skóla til Danmerkur
og það þótti fínt í Hólminum. Hún
hafði safnað sér peningum og eitt-
hvað styrkti mamma hennar hana.
Ég á bréf frá henni til mömmu frá
Danmörku þar sem hún þakkar
mömmu og pabba líka stuðninginn,
svo eitthvað hafa þau stutt við bakið á
henni. Ég held að þessi ferð hafi lifað
með henni allt hennar líf og var hún
stolt af að hafa farið. Las dönsku og
var fróð um allt sem danskt var. Í
Stykkishólmi var hún kölluð Hanna í
Kaupfélaginu, enda var hún þar lengi
virtur starfsmaður og manna best að
sér í álnavöru og fatnaði, sá mikið til
um innkaup á þeirri vöru sem og ann-
arri vöru í vefnaðarvörudeildinni.
Þær systur gáfu mér eina þá dýr-
mætustu gjöf sem ég fékk sem barn.
Heimili okkar brann þegar ég var
kornabarn og allt sem við þá áttum.
Þess vegna var ekki mikið til af bók-
um heima þegar ég varð læs, fjög-
urra ára gömul. Þegar ég hef verið
svona sex ára kom pabbi heim með
stóran kassa frá stelpunum hennar
Stínu systur, eins og hann sagði.
Voru það allar þeirra barnabækur.
Þetta var þvílíkur fjársjóður að ég
hafði aldrei öðru eins kynnst. Þarna
eignaðist ég fjölda nýrra vina, Hjalta
litla, Rósu Bennet og Beverly Gray
og svo marga fleiri. Þessu hef ég
aldrei gleymt, og þetta gerði þær
systur mér afar kærar. Hef stundum
hugsað hvort þær hafi aldrei séð eftir
þessum bókum sínum, en ekki þorað
að spyrja.
Svo stofnaði Hanna sína fjölskyldu
með Sigga og eignaðist börnin sín.
Seinna fór hún svo að vinna í Bún-
aðarbankanum og átti þar langa
starfsævi. Ætla ég ekki að rekja
Dagbjört Hanna
Jónsdóttir
✝
Maðurinn minn,
HALLDÓR ÞORBJÖRNSSON,
Stýrimannastíg 6,
Reykjavík,
lést föstudaginn 26. desember.
Hildur Pálsdóttir.