Lesbók Morgunblaðsins - 21.02.2009, Page 12
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. FEBRÚAR 2009
12 LesbókGAGNRÝNI
DANS
Velkominn heim
Íslenski dansflokkurinn
Borgarleikhúsið„Tónlistin spilar afar mikilvægt
hlutverk í þessari sýningu og virðist ráða mörgu
hvað varðar spennu og hraða. Hún er hátt stillt
nánast allan tímann, stundum of hátt stillt, en
alltaf frumleg. Slagverksatriðið í lok sýningar-
innar er einnig mjög skemmtilegt þó að það sé í
lengri lagi.
Velkomin heim byrjar mjög vel og endar mjög vel
en villist af leið á nokkrum stöðum. Getur verið
að ástæðan sé sú að þrír danshöfundar togi
verkið í of margar áttir?“
Martin Stephan Regal
LEIKLIST
Sannleikurinn
Borgarleikhúsið
„Hún er erfið sú list að
gera út á aulafyndni. Í leik-
mynd og leikstjórn er
vissulega brugðist við því
og haldið áfram þeirri til-
raun sem gerð var í „Bað-
stofunni“ í Þjóðleikhúsinu
á síðasta ári: að upphefja
vankunnáttu. Falleg umgjörðin, litla sviðið,
Borgarleikhúsið verða að einhvers konar óði til
aulafyndni Péturs Jóhanns og Sigurjóns Kjart-
anssonar og afhjúpa ískyggilega um leið – af því
að hún uppfyllir ekki þær kröfur sem leikhúsið
gerir – algjört innihaldsleysi hennar.“
María Kristjánsdóttir
Hart í bak
Þjóðleikhúsið
„Uppfærsla Þjóðleikhússins er hefðbundin, þá
er átt við að aðstandendur sýningarinnar eru
trúir höfundarverkinu. Þarna er ekki einhver
„leikstjórnarsýning“ á ferðinni, heldur er tekist á
við textann og efnið af virðingu við höfundinn og
tíðaranda verksins. Einhver kann að spyrja hvort
uppfærsla í hefðbundnum stíl eigi erindi við
áhorfendur í dag.“
Ingibjörg Þórisdóttir
KVIKMYNDIR
The Reader bbbbn
„Fyrst og fremst sýnir Rourke ótrúlega túlkun í
hlutverki Robinsons. Hann þekkir þetta líf per-
sónulega frá þeim árum sem hann stundaði
hnefaleika og síðar er hann hafði lítið umleikis í
kvikmyndunum. Að auki er leikarinn sannfær-
andi í útliti, orðinn ærið þreytulegur, áratuga
sukk er farið að setja mark sitt á karlinn, sem þó
heldur býsna mikilli reisn og gerir þennan út-
skúfaða glímukappa, sjarmerandi á sinn grodda-
lega hátt.“
Sæbjörn Valdimarsson
Frost/Nixon bbbmn
„Frost/Nixon er fyrst og fremst gerð fyrir nýja
kynslóð bíógesta, einkum í Bandaríkjunum, sem
hafa takmarkaða hugmynd um Watergate-málið
og víðtæk áhrif þess á ekki aðeins Bandaríkja-
menn heldur alla heimsbyggðina. Djúpa skömm
og útskúfun eins valdamesta manns á öldinni
sem leið, manns sem gerði líka góða hluti sem
eru löngu fallnir í gleymsku undir þykkri mykju-
skán Watergate. Sú saga er harmleikur sem er
sjálfsagt að haldið sé á lofti en sú söguskoðun
sem kemur fram í myndinni minnir óneitanlega
á orð hins fallna forseta: „Ég fékk þeim sverð og
þeir sneru því í sárinu.“
Sæbjörn Valdimarsson
MYNDLIST
Gallerí Turpentine
JBK Ransu - Tómt bbbmn
„Lögun málverkanna er óregluleg og minnir á
risastórar, uppstækkaðar slettur, en slettan sem
fyrirbæri á myndfleti hefur áður verið viðfangs-
efni Ransu og vísar til aðferða athafnamálara á
20. öldinni eins og Jackson Pollock sem slettu
málningu á myndflötinn. Hér er slettan tekin úr
upprunalegu semhengi sínu og birtist á nýjan
hátt, rænd tilviljanakenndum eiginleikum sínum
minnir hún á að á endanum var slettan orðin að
markaðssettu vörumerki.“
Ragna Sigurðardóttir
Í GANGI
Þ
eir sem kunnugir eru
myndum Alfreðs Flóka
Nielsen (1938-1987) vita
að þar er á ferð óræður og
annarlegur heimur, hlaðinn dul-
spekilegum táknum. Við upphaf
heimsóknar á sýninguna „Skugga-
drengur – Heimur Alfreðs Flóka“
í Hafnarhúsinu, Listasafni
Reykjavíkur, er gestum boðið að
feta sig inn dauflýstan gang með
svart- og rauðmáluðum veggjum
en þar innst er sjálfsmynd af föl-
um skuggadrengnum sem pírir á
þá augum. Hugsanlega læðist þá
grunur að sýningargestum að
ritúalísk athöfn af einhverju tagi
bíði handan við hornið – svo ekki
sé talað um þegar heimsóknina
ber upp á föstudaginn þrettánda
eins og í tilviki undirritaðrar.
Myndheimur Flóka er spunninn
úr þráðum fantasíunnar eins og
hún teygir sig í gegnum súrreal-
ismann, aftur til symbólískra og
síðrómantískra strauma í evr-
ópskri menningu, ekki síst bók-
menntum, á síðari hluta 19. aldar.
Slíkir straumar hafa verið í upp-
sveiflu í myndlist síðustu ár, hér
sem erlendis. Má því segja að
sannarlega hafi verið tímabært að
setja upp yfirlitssýningu á verkum
Flóka til að minna á sérstöðu hans
og áhrifaþátt í íslenskri listasögu.
Flóki var afbragðsteiknari og býr
þéttofinn merkingarvefur mynda
hans yfir myrkri og gráglettinni
ástríðu.
Á sýningunni er raunar leitast
við að draga fram ímynd af Flóka
sem „költ“-fígúru; ólíkindatóli og
áhrifavaldi í íslensku lista- og
menningarlífi – ímynd sem hann
átti sjálfur markvissan þátt í að
skapa. Þegar inn er komið blasa
við blaðaúrkippur á vegg þar sem
lesa má viðtöl við Flóka allt frá því
að hann steig fyrst fram á sjón-
arsviðið í kringum 1960. Viðtöl-
unum var í mörgum tilvikum
„slegið upp“, látið á þeim bera í
dagblöðunum – í samræmi við þá
athygli sem hann vakti – og eru
þau ítarleg og með myndum af
Flóka sjálfum. Fer hann þar mik-
inn í yfirlýsingum sem voru að
sjálfsögðu ekki, fremur en mynd-
verk hans, í takti við tíðarandann,
hvorki í myndlistinni eða sam-
félaginu yfirhöfuð. Flóki hikar þar
(og í útvarpsviðtölum sem hlusta
má á með heyrnartólum) ekki við
að hæla sjálfum sér, og ræða tabú
eins og kynlíf og djöfulinn. Annars
staðar má lesa frásagnir eða ljóð
eftir t.d. Elías Mar, Dag Sigurð-
arson, Megas, Jóhann Hjálm-
arsson og Nínu Björk Árnadóttur,
sem lýsa kynnum af Flóka. Í sama
rými, undir yfirskriftinni „Ég“,
eru til sýnis sjálfsmyndir Flóka
ásamt skissum, sýningarskrám,
boðskortum, ljósmyndum og
teikningum frá æskuárunum – og
auðvitað stjörnukorti – í sýning-
arborði. Þarna má því skynja sam-
setta mynd af listamanninum,
ekki síst sjálfhverfum hliðum er
lutu að könnun inn á við. Á stórri
sjálfsmynd frá árinu 1975 minnir
Flóki helst á spámann – sem sér
lengra en nef hans nær.
Yfirlit annarra teikninga og
grafíkverka hans má svo sjá í sal
B, þar sem einnig eru tveir rauð-
og svartmálaðir veggir og fer vel á
því. Myndverkin eru flest svart-
hvít, en hann notaði einnig rauð-
krít og kol og eru því sum verk-
anna rauðleit eða grátóna og
gædd meiri mýkt en sést í penna-
teikningunum. Kolateikning frá
1965 sker sig úr fyrir expressjón-
ísk vinnubrögð. Flóki er nákvæm-
ur og yfirvegaður teiknari, penn-
inn nýtur þess að gæla við formin
og seiða fram hægt en örugglega –
og með sæluhrolli – myndir úr af-
kimum hugans: þráhyggjukennd
mótíf eins og munna af ýmsu tagi;
lævís glott eða kvensköp, ásækin
augnaráð, brjóst og nöðrukennda
limi, kynjaverur og óseðjandi,
hárprúðar vampírukonur.
Skuggaverum þessum er stillt upp
á statískan hátt á þröngu, dimm-
leitu sviði, séðum frá hlið eða
framan frá. Í margbrotnum tákn-
heiminum svífur „dekadens“,
nautnalegur hnignunarandi, yfir
vötnum ásamt martraðarkennd-
um óhugnaði sem tilvitnun í Gér-
ard de Nerval (á vegg) undir-
strikar. Í ljóðum á súlum salarins,
m.a. eftir sýningarstjórann sjálf-
an, Sjón, býr svo túlkun á mynd-
verkunum sem eykur á stemn-
inguna.
Þetta er sýning sem býður í
senn upp á ítarleg kynni af mynd-
heimi Alfreðs Flóka og vangavelt-
ur um persónu listamannsins. Þá
er lögð áhugaverð áhersla á menn-
ingarlegt samhengi listsköpunar
hans. Í því sambandi kvikna ýms-
ar hugmyndir um mögulegt sýn-
ingarhald þar sem setja mætti í
magnað samspil verk eftir Flóka,
Einar Jónsson myndhöggvara,
sumar myndir Kjarvals, auk
verka fleiri góðra listamanna af
eldri og yngri kynslóðum.
Svart með rauðu ívafi
MYNDLIST
ANNA JÓA
Flóki er nákvæmur og yfirvegaður
teiknari, penninn nýtur þess að gæla
við formin og seiða fram hægt en
örugglega – og með sæluhrolli
LISTASAFN REYKJAVÍKUR
HAFNARHÚS | Skuggadrengur –
Heimur Alfreðs Flóka
Til 10. maí 2009. Opið alla daga. Að-
gangur ókeypis. Sýningarstjóri: Sjón
Persóna Þetta er sýning sem býður í senn upp á ítarleg kynni af myndheimi Al-
freðs Flóka og vangaveltur um persónu listamannsins.
S
teingrímur Eyfjörð hefur verið áber-
andi í sýningarsölum borgarinnar á
undanförnum misserum. Hann byrjar
nýja árið af krafti og nú standa yfir
tvær sýningar á verkum hans; önnur í 100°,
rúmgóðum sýningarsal Orkuveitu Reykjavík-
ur á Bæjarhálsi, og hin í Galleríi Ágúst, Bald-
ursgötu 12. Á þeirri fyrrnefndu getur að líta ný
og nýleg verk en á þeirri síðarnefndu eru til
sýnis teikningar og skissur úr fórum lista-
mannsins, sem mæðgurnar Sólveig Bjarna-
dóttir bóksasafnsfræðingur og Elín Þórhalls-
dóttir listfræðinemi hafa tekið að sér að flokka
og sýna í samvinnu við Steingrím.
Samstarf er raunar leiðarstef á myndlist-
arferli Steingríms og um leið eitt af því sem
gefur verkum hans sérstöðu. Í verkunum
Ásýnd Guðs, Við erum hinir/hinir eru við og
Memegwesi/huldufólk í sýningarrýminu 100°
veltir hann vöngum yfir huldum heimum, ann-
ars vegar með því að vinna eftir fyrirmælum
eða veita sjálfur fyrirmæli, og hins vegar í
áhugaverðum viðtölum við þjóðfræðinga sem
hafa m.a. rannsakað menningu frumbyggja í
Norður-Ameríku og þjóðsagnaarf Íslendinga.
Heimsókn á sýninguna krefst lesturs og hlust-
unar ekki síður en sjónrænnar skynjunar.
Verkið Við erum hinir/hinir eru við sam-
anstendur af texta, myndum og ljósakössum;
nokkurs konar frásagnarkenndum drögum
sem sýningargestum er ætlað að vinna úr og
taka þar með gagnvirkum hætti þátt í sköp-
unarferlinu. Framsetning verksins, sem ein-
kennist af vissri endurtekningu, er skýr og
skemmtileg og til þess fallin að kveikja óræð
viðbrögð í samspili sjón- og formskynjunar
sem tengist skynheildarsálfræði. Merking og
merkingarleysi vega salt í þessu húmoríska
verki sem virðist sprottið af einlægum áhuga
listamannsins á innri sem ytri víddum og mót-
unaröflum tilverunnar.
Á sýningunni í Gallerí Ágúst má svo öðlast
frekari innsýn í vinnubrögð Steingríms og
hvernig hann rýnir stöðugt í merkingu hlut-
anna, efnir til samræðu við aðra og heldur
þannig merkingarstarfinu gangandi. Verkin
spanna 30 ára feril; fletta má bunkum og stöfl-
um af verkum á pappír, skoða skissubækur eða
virða fyrir sér veggverk af ýmsu tagi. Í eldri
verkum gætir áhrifa frá Dieter Roth í meðferð
prentaðs og skrifaðs texta, krots, teikninga
(sem unnar eru með t.d. blýanti, gvassi, tússi
eða bleki) og notkunar stimpla, límbands og
Polaroid-mynda. Einnig má sjá að Steingrímur
hefur fljótlega fundið sinn tjáningarmáta og
þróað með sér eigin aðferðir og forsendur.
Sýningar á skissum og undirbúningsvinnu
listamanna leiða gjarnan ýmislegt forvitnilegt í
ljós. Skil milli skissuformsins og hins „full-
unna“ eru hins vegar óljós í verkum Stein-
gríms og því fátt sem kemur á óvart á sýning-
unni – auk þess er skammt síðan yfirlitssýning
var haldin um feril hans í Listasafni Íslands.
Sólveig og Elín hafa á hinn bóginn unnið gagn-
legt starf við flokkun verkanna og gegnsæi
ferlisins (þ.e. með sýningarhaldinu) á sér vissa
samsvörun í skráningar- og sýningarferli Ný-
listasafnsins að undanförnu. Og vissulega felur
framlag þeirra mæðgna í sér skapandi úr-
vinnslu á merkingardrögum listamannsins.
Gagnvirkni og merkingardrög
MYNDLIST
ANNA JÓA
Á sýningunni má svo
öðlast frekari innsýn í
vinnubrögð Steingríms
og hvernig hann rýnir
stöðugt í merkingu
hlutanna [...].
Við erum við Framsetning verksins er skýr og
skemmtileg og til þess fallin að kveikja óræð við-
brögð, segir m.a. í dómi gagnrýnanda.
100° / GALLERÍ ÁGÚST | Steingrímur Eyfjörð
Við erum hinir/hinir eru við / Teikningar & skissur.
100°: til 20. mars 2009. Opið alla virka daga
Gallerí Ágúst: til 7. mars 2009. Opið mi.-lau.
Ókeypis aðgangur.
Morgunblaðið/RAX