Lesbók Morgunblaðsins - 03.10.2009, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 03.10.2009, Page 6
Eftir Árna Bergmann N ikolaj Gogol fæddist fyrir réttum 200 árum, árið 1809. Hann var Úkraínumaður að ætt og hóf ritferil sinn með því að gefa út árið 1831 sögur, sem voru að vísu samdar á rússnesku, en gerast í átthögum hans og bera sterkan svip bæði af úkraínskri þjóðtrú og syfj- uðu hvunndagslífi landeigenda í þeim frjósamasta hluta Rússneska keisaradæmisins sem Úkraína var. Í þann tíma höfðu skáld á rússneska tungu brotið af sér óþarfa forneskju í stíl og tjáningu, sem og ofríki erlendra fyrirmynda í skáldskap og byrjað sannkall- aða gullöld rómantísks kveðskapar – fór þar fremstur Alexandr Púshkín, sem átti reyndar eftir að verða Gogol hollur í ráðum. En um 1830 gerir skáldsagan sig æ breiðari þar í landi og leikritun nær auknum þroska. Og það kom einmitt í hlut Gogols að ryðja braut því blómaskeiði sem gerði rússnesku skáldsög- una að stórveldi í heiminum. Hann var fyrr en aðrir höfundar í óbundnu máli þýddur á aðrar tungur og fá leikverk hafa víðar farið um heiminn en einmitt Eft- irlitsmaðurinn, sem Nemendaleikhúsið undir stjórn Stefáns Jónssonar setur nú á svið, en hefur áður sést á sviði bæði í Iðnó og Þjóðleikhúsinu og reyndar í fleiri húsum. Á krossgötum Sagnagerð Gogols verður til á krossgötum þar sem saman liggja leiðir rómantískrar aðferðar og raunsæ- islegrar – og á krossgötum getur margt gerst. Róm- antík hans lifir fyrst á banvænum ástum og þjóð- legum draugagangi en tekur æ meira til sín af sérkennilegu skopskyni. Sá húmor spilar mjög djarft á fáránleika tilverunnar og blandast um leið með eft- irminnilegum hætti ljóðrænum trega yfir því hve tómlegt og ömurlegt líf manna getur orðið. Persónur sagnanna eru eins og smíðaðar utan um einn höf- uðeiginleika, sem ræður allri þeirra framgöngu og eins og gleypir aðra eiginleika. Þær eru hver og ein heilsteyptar sem nirflar, þrasarar, fagurgalandi ónytjungar eða ágirndartröll og víkja ekki af sinni braut. Slíkt persónusafn, sem einna glæsilegast er dregið upp í skáldsögunni Dauðar sálir ( 1842), nýtur sín vel þegar Gogol snýr sér að gamanleik með Eft- irlitsmanninum sem frumsýnt var árið 1836. Gam- anleikir byggjast sjaldnast á togstreitu í sál ein- staklinga heldur á fáránlegum samskiptum persóna sem hver um sig er berandi ákveðins megineig- inleika. Þessi öfgafulla persónusköpun er öðrum þræði rómantísk, en hallast líka á sveif með því þjóð- félagsraunsæi sem er að verða til á dögum Gogols: þegar við skoðum samskipti persónanna sjáum við skýrt, hvernig staða manna og stétt gerir þá að því sem þeir eru og það er einmitt einkar raunsæislegur mannskilningur. Skrýtla gömul og ný Eftirlitsmaðurinn er, eins og mörg önnur gamanmál, skrýtla byggð á misskilningi. Borgarstjóra og emb- ættismönnum í aumri sveitaborg berast váleg tíðindi af því, að von sé á eftirlitsmanni frá sjálfri höfuð- borginni sem á að gera úttekt á störfum þeirra. Þeir eru skelfingu lostnir, því allir vita þeir upp á sig mút- ur, vanrækslu, valdníðslu og aðra spillingu. Ótti þeirra fléttast saman við heimsku og misskilning með þeim árangri að þeir halda að eftirlitsmaðurinn skelfilegi sé þegar í felum á gistihúsi í bænum og nefni sig Khlestakov. Þeir gera nú áhlaup á þennan gest með miklu og auðmjúku smjaðri og vilja allt fyr- ir hann gera: Borgarstjórinn dregur hann heim og heldur honum miklar veislur, hann sem aðrir bæjar- stólpar keppast við að bera á hann fé, konur gefa hon- um undir fótinn, langpíndir undirsátar borgar- stjórans spillta leita hjá honum réttlætis – líka með því að bjóða mútu ef því er að skipta. Gogol er ekki einn um að segja gamansögu af því sem gerist þegar menn fara mannavillt með þessum hætti, en aðrir höfundar láta sína hetju gjarna vera útsmoginn skálk sem leikur af sannri bragðvísi á ótta og hégómaskap allra hinna. Khlestakov Gogols er hinsvegar sjálfur óttaslegin og skítblönk skrifarablók og spilafífl. Hann þykist aldrei vera voldugur eft- irlitsmaður. En þegar hann sér þá óttablöndnu virð- Gogol og okkar dagar Nikolaj Gogol Sagnagerð hans verður til á krossgötum. ingu sem honum er sýnd þarf hann ekki annað en skrúfa frá dagdraumum sínum um happið mikla, spilavinninginn stóra, til að delera við smábæjar- höfðingjana af svo bíræfinni sjálfhælni að þeir sann- færast æ betur um að hann sé einn af æðstu og snjöll- ustu mönnum Rússlands. Blekking og sjálfsblekking stíga ærslafullan dans á sviðinu – vegna þess ótta og þeirra vona sem í persónunum sjálfum búa. Og Gogol stillir sig með öllu um þá aðferð klassískra gam- anleikaskálda að láta undir lok leiksins birtast já- kvæðan ræðumann sem segir þeim til syndanna sem mest hafa til þess unnið. Ádrepa eða dæmisaga? Hér verður ekki sagt fleira frá þessu fræga leikverki – sem er ekki síst frægt fyrir óvænt og stórsnjöll málalok sem ókurteisi er að rifja upp nú og hér. Eft- irlitsmaðurinn á sér langa og merka viðtökusögu og túlkunarsögu. Þegar leikritið er frumflutt er rit- skoðun Nikulásar keisara fyrsta orðin mjög öflug stofnun. Hún ætlaði að banna verkið, vegna þess að Gogol þótti í því fara með ósæmilegt dár og spé um virðulega embættisstétt landsins. En þá tók keis- arinn sjálfur upp á því að leyfa sýningar – hann kaus að telja það þarfa og siðlega ádrepu á „lesti ein- staklinga sem bregðast skyldum sínum“ og var ánægður með að undir lokin glitti í raunverulegan eftirlitsmann frá hans keisaralegu höfuðborg sem væntanlega kippir öllu í lag. Sjálfur var Gogol eins og fyrri daginn undarlega tættur í afstöðu til eigin verka. Hann kvaðst hafa ráðist í að skrifa leikritið til að gera samfélaginu gagn með því að „safna saman öllu sem illt var í Rússlandi og hlæja það út úr heim- inum“. Aftur á móti varð hann svo nokkuð smeykur þegar ýmiskonar umbótasinnar og róttæklingar vildu taka hann og Eftirlitsmanninn í sína liðssveit – en þeir gerðu leynt og ljóst sem mest úr því, að Gogol hefði af miskunnarlausri snilld afhjúpað spillingu og vesældóm samfélagsins í heild og glæpsamlegt eðli þess. Gogol reyndi þá sjálfur að túlka þennan gam- anleik sinn um Rússland samtímans sem tímalausa dæmisögu um mannkynið: Falski eftirlitsmaðurinn er syndin sjálf eða þá djöfullinn sem dregur alla á tál- ar – og sá sanni eftirlitsmaður sem kannski er von á er þá samviskan, rödd guðs í mennskum hjörtum. Gogol var á víxl stoltur af snilldarverkum sínum Dauðum sálum og Eftirlitsmanninum – eða þá hann blygðaðist sín fyrir að hafa þyrlað upp öðrum eins ljótleika og heimsku og blasti við í þeim. En áhorf- endur kærðu sig að vonum kollótta um þetta hugar- stríð höfundarins. Fyrst fannst þeim höfundi hafa tekist að segja satt um sinn tíma og samfélag, Gogol hefði náð glæsilegum árangri í því að beita hvössum hnífi skopsins á kýli altækrar og kerfisbundinnar spillingar. Svo þegar frá liðu stundir rifjuðu menn verkið upp í ótal leikhúsum í tugum landa og halda því áfram enn í dag. Bæði vegna þess hve vel og frumlega er úr þeirri skrýtlu unnið sem verkið spinnst út frá, og svo vegna þess, að sagan af Eftir- litsmanninum í nafnlausri rússneskri borg á dögum Nikulásar fyrsta er alltaf að gerast með nýjum hætti í hverri kynslóð. Ef við höldum okkar við heimaland höfundarins þá er þess að geta, að furðu margt hefur Rússland sovéttímans tekið í arf úr valdkerfisgóssi keisaratímans og skilað síðan áfram til Rússlands Pútíns og nýríkra auðjöfra. Á öllum þeim tímaskeið- um hafa menn óttast háttsetta menn og skriðið fyrir þeim, þeir lægra settu reynt að skríða upp eftir baki þeirra sem enn aumari voru og hrifsa til sín á leiðinni sem stærstan bita af mútukökunni, en um leið talið sér skylt að draga hvergi af sér við að leika dugmikla þjóna Föðurlandsins, Málstaðarins og Frelsisins. Þá og nú – hliðstæður En vitanlega er allt það sem nú var nefnt ekki einka- mál og séreign þess þversagnafulla mannfélags sem hefur tekið margar dramatískar dýfur á Rússlands óravegum víðum í nær tvær aldir. Eftirlitsmaðurinn er sameign þjóðanna og hann bankar upp á nú og hér. Hver hefur til dæmis ekki séð og heyrt ys og þys og brambolt þegar rokið er til og reynt að láta allt líta sem best út áður en háttsettan gest ber að garði? Af því eru vissulega ótal skondnar sögur. En svo við færum okkur nær í tíma og rúmi: sá sem nú sér Eftirlitsmanninn mun ekki síst taka eftir því, að þeir sem þar koma við sögu eru innilega sann- Nemendaleikhúsið frum- sýnir í næstu viku Eftirlits- manninn eftir rithöfundinn Nikolaj Gogol. 200 ár eru frá fæðingu Gogols en hann ruddi rússnesku skáldsögunni braut. T vö hundruð ár eru frá fæðingu rússneska rithöfundarins og leikskáldsins Nicolai Gogol. Það er því við hæfi að fyrsta verkefni Nemendaleikhúss Listaháskóla Ís- lands í vetur sé hin víðfræga háðsádeila Eftirlitsmaðurinn eftir Gogol, en hún verður frumsýnd á föstudaginn kemur, 9. október, í nýrri þýðingu Bjarna Jónssonar. Eftirlitsmaðurinn er eitt af kunnustu leikverkum Rússa frá 19. öld og eitt frægasta verk Gogols, samið árið 1836, en þekktasta skáldverk hans er án efa Dauðar sálir, frá 1842. Leikstjóri er Stefán Jónsson, leikmynd er í höndum Móeiðar Helgadóttur, Myrra Leifsdóttir sér um búninga og gervi, tónlist semur Magga Stína, en hún nemur tón- smíðar í LHÍ, og lýsing er í höndum Mati Haarinen, skiptinema í LHÍ. Í vetur skipa Nemendaleikhúsið þau Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Hilmar Guð- jónsson, Hilmir Jensson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ævar Þór Benediktsson. Ljósmynd/Lárus Sigurðarson. Myndvinnsla/Ómar Örn Hauksson Í gervi Íbúar sveitaborgarinnar halda eftirlitsmanninum Khlestakov veislur og konur gefa honum undir fótinn. Myrra Leifsdóttir hannar skrautlega búningana á leikara Nemendaleikhússins. Persónur í leiknum „Blekking og sjálfsblekking stíga ærslafullan dans á sviðinu - vegna þess ótta og þeirra vona sem í persónunum sjálfum búa,“ skrifar Árni Bergmann um Eftirlitsmanninn. Nemendaleikhúsið sýnir Eftirlitsmanninn eftir Gogol MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. OKTÓBER 2009 6 LesbókLEIKLIST

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.