Morgunblaðið - 11.02.2009, Side 6
6 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. FEBRÚAR 2009
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur
sia@mbl.is
„ÉG FELLDI tár af því að þetta
minnti mig á hversu illa mér leið á
þessu tímabili,“ segir hin 16 ára
gamla Kristín Rán Júlíusdóttir.
Þannig lýsir hún líðan sinni þegar
hún bjó sig undir málþing þar sem
hún lýsti reynslu sinni af rafrænu
einelti. Málþingið var haldið á vegum
SAFT í tilefni af alþjóðlega net-
öryggisdeginum 10. febrúar. Móðir
Kristínar, Guðný Kristjánsdóttir,
lýsti einnig reynslu sinni af sama til-
efni.
Upphaf málsins er að þegar Krist-
ín Rán var í 7. bekk hélt hún úti
bloggsíðu og inn á þá síðu voru rituð
ummæli, sem ekki verða höfð eftir
hér, að beiðni mæðgnanna. Kristín
Rán fæddist með fötlun sem lýsir sér
þannig að hún er með skerta hreyfi-
getu í vinstri helmingi líkamans. Hún
hefur ætíð átt erfitt með að sætta sig
við fötlun sína og hefur reynt að haga
lífi sínu þannig að hún hamli henni á
engan hátt. „Þetta var það persónu-
legt að fötlunin var nefnd,“ segir
Kristín Rán um eðli þess eineltis sem
hún varð fyrir á netinu. „Ég á ennþá
erfitt með að sætta mig við að ég sé
fötluð en ég er að læra að lifa með
þessu,“ segir hún.
Ummælin sem færð voru inn á
bloggsíðu Kristínar voru afar sær-
andi og þó að Kristín Rán hafi nú lok-
ið námi í 10. bekk og hafið nám í fjöl-
braut sárnar henni enn að tala um
þetta. „Þetta var það góð vinkona
mín að þegar ég komst að því hver
gerði þetta átti ég ekki orð,“ segir
hún.
Kristín Rán og foreldrar hennar
hafa fyrirgefið stúlkunni skrif hennar
og Kristín og stúlkan hafa verið sam-
stiga í skóla alla tíð, eru núna báðar í
fjölbraut. „Við erum ekki beint vin-
konur í dag en ég hef mætt í afmælin
hennar og hún í afmælin mín,“ segir
Kristín. „Ég mun samt aldrei gleyma
þessu, ég mun alltaf muna eftir því
sem hún gerði. Ég er bara þannig
manneskja að ég finn það í hjarta
mínu að fyrirgefa,“ segir Kristín og
bætir svo við að vinkonan hafi greini-
lega séð eftir þessu þegar upp komst
og henni liðið illa.
Kristín Rán segir að reynslan hafi
styrkt hana og gert hana betri. „Ég
myndi aldrei leggjast svo lágt að gera
nokkuð í líkingu við þetta,“ segir hún.
„Ég er mjög ánægð að vera ekki
svona manneskja.“
Guðný, móðir Kristínar Ránar,
segir að þeim foreldrunum hafi fund-
ist skrifin á blogginu svo ljót að þau
hafi ákveðið að gera eitthvað í mál-
inu. „Hún átti á brattann að sækja frá
því hún hóf nám í grunnskóla,“ lýsir
Guðný. „Þetta rafræna einelti setti í
okkar huga eiginlega punktinn yfir i-
ið.“ Foreldrarnir ákváðu að fá að fara
inn á heimili þeirra sem hugsanlega
höfðu ritað orðin til að finna ip-töluna
en það tókst ekki. Guðný tekur sér-
staklega fram að foreldrar bekkj-
arsystkina Kristínar hafi tekið þeim
afar vel. Fyrst ekki tókst að finna
gerandann á þennan hátt var ákveðið
að leita til lögreglunnar með málið og
sú tilkynning var gefin út. Það varð
til þess að gerandinn gaf sig fram.
Guðný hnykkir á að þetta mál hafi
farið vel og þau telji sér hafa tekist að
koma í veg fyrir frekara einelti í
gegnum netið með því að bregðast
svona við. „Þetta bar árangur og það
er það sem situr eftir. Viðbrögð okk-
ar og dóttur okkar.“
Kristín Rán átti sitt besta ár í 10.
bekk grunnskóla og núna blómstrar
hún í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Við viljum segja frá þessu núna til
að koma því á framfæri hvernig við
brugðumst við þessu.“
Morgunblaðið/Golli
Samhentar mægður Foreldrar Kristínar Ránar brugðust hárrétt við þegar uppvíst varð um meiðandi færslu á bloggsíðu hennar.
„Ég mun alltaf muna“
Kristín Rán Júlíusdóttir tárast enn ef hún rifjar upp rafrænt einelti sem hún
lenti í fyrir mörgum árum Hún og fjölskylda hennar hafa fyrirgefið gerandanum
HÁSKÓLI Íslands og fyrirtækið
ORF-Líftækni undirrituðu í gær
samning sín á milli. Er samn-
ingnum ætlað að stuðla að sam-
starfi á sviði rannsókna og
tækniþróunar á lífvirkum prótein-
um. Samningurinn er jafnframt lið-
ur í þeirri stefnu Háskólans að efla
enn frekar tengsl og samstarf við
íslensk fyrirtæki og atvinnulíf.
„Með samstarfi HÍ og ORF Líf-
tækni hf. er stuðlað að gagnkvæmri
nýtingu á rannsóknaaðstöðu og
einnig hugað að möguleikum sem
felast í sameiginlegum kaupum og
rekstri á dýrum tækjabúnaði.
Samningurinn tryggir einnig sam-
starf í markaðs- og viðskiptamálum
sem tengjast viðskiptaþróun, mark-
aðssetningu og sölu á lífvirkum
próteinum,“ segir í tilkynningu.
HÍ samdi við
ORF-Líftækni
HVERFISRÁÐ Grafarvogs telur
ekki þörf á að farið verði í fram-
kvæmdir við tengingu Víkurvegar
við Vesturlandsveg fyrr en leið
Sundabrautar hefur verið ákveðin
og lögð upp á Kjalarnes. Þetta
segir í ályktun sem samþykkt var
á fundi ráðsins í gær.
Hverfisráðið telur enga þörf á
fjögurra akreina tengingu á milli
Vesturlandsvegar og Víkurvegar
en verði talin þörf á fleiri teng-
ingum hverfisins við Vesturlands-
veg, þá verði þar aðeins um
tveggja akreina borgargötu að
ræða. Mikill einhugur var í ráðinu,
að sögn Halldórs Lárussonar for-
manns.
Ekki þörf
á tengingu
FARGJÖLD með
ferjunni Herjólfi
munu hækka um
12% frá og með
16. febrúar nk.
Þetta hefur orðið
að samkomulagi
milli Vegagerð-
arinnar og Eim-
skipa. Bókuð voru mótmæli gegn
þessari hækkun í bæjarráði Vest-
manneyjabæjar í gær.
„Fyrir liggur að ferjuvísitala hef-
ur hækkað um 22,54% og vegur þar
mest hækkun á launavísitölu og ol-
íu. Bæjarráð mótmælir boðaðri
hækkun og hvetur samgöngu-
ráðherra til að gæta að jöfnuði milli
búsetusvæða, hvað varðar aðgengi
og gjaldtöku fyrir notkun á þjóð-
vegum landsins,“ segir í bókun bæj-
arráðs frá í gær.
Hækkun
hjá Herjólfi
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
VONAST er til að tímabundin aukning endur-
greiðslna virðisaukaskatts til byggingar og
viðhalds íbúðarhúsnæðis hvetji til fram-
kvæmda. Auk þess er tilgangurinn að sporna
við svartri atvinnustarfsemi.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts rekur ættir
sínar til gamla söluskattskerfisins. Vinna við
húsbyggingar, endurbætur og viðhald var und-
anþegin söluskatti. Þegar virðisaukaskattur-
inn leysti söluskattinn af hólmi í byrjun árs
1990 var ákveðið að endurgreiða vaskinn til að
koma í veg fyrir hækkun á byggingarkostnaði
og halda verðbólgudraugnum úti. Endur-
greiðslan náði í upphafi til alls virðisaukaskatts
sem greiddur var af vinnu manna á bygging-
arstað íbúðarhúsnæðis en á árunum 1996 og
1997 var endurgreiðsluhlutfallið lækkað og
hafa 60% skattsins verið endurgreidd síðan.
Í stjórnarfrumvarpi sem nú er til umfjöll-
unar á Alþingi er gert ráð fyrir að virðisauka-
skatturinn verði að nýju endurgreiddur að
fullu. Hins vegar er þetta tímabundin aðgerð,
sem aðeins gildir fram á mitt næsta ár.
Hvati til að hefjast handa
Talsmenn atvinnurekenda og launþega í
mannvirkjagerð eru ánægðir með aðgerðina.
Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Sam-
iðnar, segir að þar sem þetta sé tímabundin
ráðstöfun ætti hún að hvetja fólk til að hefja
framkvæmdir fljótt. Horfir hann þar ekki síst
til húsfélaga. Bendir Finnbjörn á að viðhalds-
framkvæmdir krefjist ekki langs undirbún-
ingstíma. Árni Jóhannsson, forstöðumaður,
mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, tekur
undir þetta og bætir því við að nú sé hægt að fá
iðnaðarmenn til verka og hagstæð tilboð. Hann
reiknar með að þessi lagabreyting leiði til þess
að vinna hefjist við einhver verk.
Útlit er fyrir það að endurgreiðslur virðis-
aukaskatts vegna síðasta árs nemi rúmum 3
milljörðum kr. Lagabreytingin leiðir til 2 millj-
arða kr. meiri endurgreiðslu, en annars hefði
orðið. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytis-
ins bendir í umsögn á að breytingin geti leitt til
aukinna umsvifa á byggingamarkaði og auk-
inna veltuskatta. Sömuleiðis megi ætla að hún
dragi úr svartri atvinnustarfsemi sem hafi í för
með sér aukinn tekjuskatt og minni greiðslur
vegna atvinnuleysisbóta. Telur skrifstofan að
breytingin hafi því ekki teljandi áhrif á útgjöld
ríkisins.
Báðir leggja Árni og Finnbjörn mikið upp úr
þeim tilgangi laganna að sporna við svartri at-
vinnustarfsemi sem talin er hafa viðgengist í
þessari grein. Árni segir að það muni stuðla að
vandaðri vinnu og meira öryggi fyrir kaupend-
ur þjónustunnar. Jafnframt muni kaupendur
eiga auðveldara með að leita réttar síns, ef
brögð reynast í tafli.
Hvetja fólk til að nýta tækifærið
Reynt að koma af stað framkvæmdum með tímabundinni aukningu á endur-
greiðslum virðisaukaskatts vegna viðhalds og byggingar íbúðarhúsnæðis
Kristrún Birgisdóttir og Heiða
Kristín Harðardóttir gerðu rann-
sókn á rafrænu einelti og skrifuðu
lokaritgerð úr námi sínu í uppeld-
is- og menntafræðum, sem þær
kynntu á málþingi SAFT í gær.
Þær höfðu spurnir af rafrænu
einelti milli krakka allt niður í 11-
12 ára og upp í krakka á mennta-
skólaaldri.
„Það þarf víðtækar forvarnir
gegn þessu. Þeir skólar sem við
ræddum við eru ekki farnir að
taka þennan pakka inn í um-
ræðuna um einelti. Þar er enn
helst rætt um þetta hefðbundna
en það þarf að taka rafræna ein-
eltið með og samstilla í skól-
unum,“ segir Kristrún. „Það þurfa
allir að taka þátt í því og fólk
verður að gera sér grein fyrir því
að þetta er til staðar og það þarf
að taka á þessu.“
Ýmsar gagnlegar upplýsingar er
að finna á saft.is um rafrænt ein-
elti og fleira sem tengist tölvu- og
netnotkun barna og unglinga.
Málþingið í gær var haldið í tilefni
af alþjóðlega netöryggisdeginum,
10. febrúar.
Niður í ellefu ára og upp í menntaskóla
Virðisaukaskattur er endurgreiddur vegna
vinnu við íbúðarhúsnæði, og þá aðeins
vinnu á byggingarstað. Átt er við vinnu
iðnaðar- og verkamanna, t.d. við múrun,
málningu, flísalögn og parketlögn, svo og
rafmagns- og pípulagnir innanhúss. Einn-
ig sprunguviðgerðir, lóðarfrágang og jarð-
vegslagnir innan lóðar, girðingar, bílskúra
og garðhýsi.
Virðisaukaskattur er hins vegar ekki
endurgreiddur af efni sem notað er. Held-
ur ekki af vinnu stjórnenda vinnuvéla,
vinnu sem unnin er á verkstæði eða sér-
fræðiþjónustu hverskonar, svo sem hjá
arkitektum og verkfræðingum. Þá ekki
vegna vinnu við ræstingar, garðslátt, skor-
dýraeyðingu og aðra reglulega umhirðu
íbúðarhúsnæðis.
Hvað er endurgreitt
og hvað ekki?