Morgunblaðið - 11.02.2009, Page 22
22 Umræðan
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. FEBRÚAR 2009
HIN stóru pólitísku
tíðindi liðna daga eru í
reynd ekki að Jóhanna
Sigurðardóttir hafi
verið gerð að forsætis-
ráðherra þó að vissu-
lega sé það vænn
áfangi. Stórtíðindin
eru heldur ekki tilraun
Jóhönnu til að slá
skjaldborg um heimilin heldur vel
heppnuð skjaldborg sem vinstri-
stjórnin slær nú um hagsmuni útrás-
arvíkinganna. Snemma í stjórn-
armyndunarferlinu tóku
framsóknarmenn að sér það vafa-
sama hlutverk að slá út af borðinu
allar hugmyndir um að eigur yrðu
kyrrsettar. Samfylkingin tók þá
undir þau falsrök að þetta væri vita-
skuld ekki hægt vegna stjórn-
arskrárvarinna réttinda. Þar með
gat andað léttar það dúsín íslenskra
fjölskyldna sem sam-
viskusamlega skaut
hundruðum milljarða
undan um leið og það
kom íslensku hagkerfi á
kaldan klaka.
Það er vitaskuld frá-
leitt að hér megi í skjóli
efnahagsörðugleika
víkja öllum mannrétt-
indum til hliðar. Ennþá
fráleitara er að í land-
inu skuli vera sá for-
réttindahópur að mann-
réttindi hans skuli varin
framar mannréttindum allra ann-
arra. Alkunna er að við rannsókn
venjulegra brota, sem oftast snerta
örfáar krónur, er heimilt að skerða
tímabundið stjórnarskrárvarin rétt-
indi brotaþola. Það er gert með
gæsluvarðhaldi og upptöku ýmissa
eigna sem vandlega er rökstutt með
vísan í lög. Vitaskuld er hægt að
hreyfa við lögvörðum réttindum
stórtækari brotamanna með sama
hætti ef pólitískur vilji er fyrir hendi.
Innan íslenska flokkakerfisins eru
aftur á móti sáralitlar líkur til að sá
pólitíski vilji skapist. Fjórflokkurinn
er allur samspyrtur og margflæktur
hagsmunum þeirra afla sem farið
hafa með og fara enn með fjárhags-
legt forræði atvinnuvega lands-
manna. Fáir stjórnmálamenn eru
svo lítilssigldir að hafa ekki þegið
einn eða fleiri styrki frá útrásarvík-
ingunum blessuðum. Meiru varðar
þó að sömu víkingar hafa um áratugi
haft fjárhagslega heilsu sjálfra
flokksvélanna í landinu í hendi sér.
Bjarni Harðarson
skrifar um
aðgerðir nýrrar
ríkisstjórnar
Bjarni Harðarson
»… í stjórnarmynd-
unarferlinu tóku
framsóknarmenn að sér
að slá út af borðinu allar
hugmyndir um að eigur
yrðu kyrrsettar. Sam-
fylkingin tók undir …
Höfundur er bóksali og fyrrverandi
félagi í Framsóknarflokki.
Fjórflokkurinn og
skjaldborgin um vini hans
ÞAÐ dylst engum
að í hönd fara erfiðir
tímar, hvort heldur
fyrir heimilin í land-
inu, fyrirtæki eða hið
opinbera. Strætó bs.
hefur ekki farið var-
hluta af þessu ástandi
því gríðarlegar kostn-
aðarhækkanir hafa
orðið í rekstri byggða-
samlagsins síðustu
mánuði í kjölfar falls krónunnar
sem setur sveitarfélögin sem standa
að rekstri almenningssamgangna á
höfuðborgarsvæðinu í erfiða stöðu.
Aðhald í rekstri sveitarfélaganna
hefur sjaldan verið mikilvægara en
um leið þarf að standa vörð um
grunnþjónustu á borð við almenn-
ingssamgöngur. Sveitarfélögin náðu
við gerð rekstraráætlunar Strætó
bs. fyrir árið 2009 samkomulagi um
að auka útgjöld sín til byggða-
samlagsins um 10% á þessu ári auk
þess að leggja 100 milljónir inn sem
eingreiðslu vegna halla
síðasta árs. Jafnframt
var ákveðið að halda
gjaldskrá óbreyttri, en
hún hefur ekki hækkað
frá ársbyrjun 2007
þrátt fyrir mikla verð-
bólgu á tímabilinu.
En þótt ákveðið hafi
verið að hækka fram-
lög sveitarfélaganna til
Strætó bs. var ljóst að
það myndi ekki duga
til að standa undir
rekstri Strætó í
óbreyttri mynd. Því
var nauðsynlegt að grípa til að-
gerða. Höfum hugfast að tekjur af
farmiðasölu Strætó bs. duga fyrir
um fimmtungi rekstrarkostnaðar,
en afganginn greiða sveitarfélögin
með beinum framlögum sem munu
nema um tveimur og hálfum millj-
arði á þessu ári. Þetta eru miklir
fjármunir og afar brýnt fyrir sveit-
arfélögin og íbúa þeirra að þeir dugi
til að standa undir rekstri Strætó
bs. Það er ekki forsvaranlegt að
byggðasamlagið safni skuldum til
viðbótar með hallarekstri og til-
heyrandi fjármagnskostnaði fyrir
sveitarfélögin um ókomin ár.
Stöndum vörð um annatímann
Í ljósi þessa var ákveðið að leita
leiða til að draga úr kostnaði með
eins litlum áhrifum á notendur al-
menningssamgangna og kostur
væri. Lausnin varð að nýta ítarleg-
ar mælingar Strætó á notkun al-
mennings á strætisvagnakerfinu til
að laga þjónustu Strætó bs. betur
að eftirspurn. Langstærstur hluti
notenda Strætó nýtir sér ferðir
vagnanna á annatímum að morgni
og síðdegis virka daga og því mik-
ilvægt að standa vörð um þjón-
ustuna á þessum tímum dags. Mun
færri taka hins vegar strætó yfir
miðjan daginn, á kvöldin og um
helgar og því mögulegt að laga
þjónustuna að eftirspurn með því að
draga úr tíðni ferða á þessum tím-
um á flestum strætóleiðum.
Ákvörðunin um þjónustuaðlögun
var kynnt þegar rekstraráætlun
Strætó bs. fyrir árið 2009 var sam-
þykkt í nóvember á síðasta ári og
kom til framkvæmda nú 1. febrúar.
Í stuttu máli felast breytingarnar í
að allar helstu leiðir, að leiðum 1 og
6 undanskildum, aka nú á hálftíma
fresti utan annatíma og ákveðnar
leiðir aka á klukkutíma fresti. Jafn-
framt er dregið úr tíðni á kvöldin og
um helgar. Nánari upplýsingar um
þessar breytingar má finna á
strætó.is.
Það er okkur sem viljum hag al-
menningssamgangna sem mestan á
höfuðborgarsvæðinu lítið fagnaðar-
efni að þurfa að grípa til slíkra að-
gerða og sér í lagi ekki á tímum
sem þessum þegar sífellt fleiri sjá
sér hag í að nýta sér þjónustu
Strætó. Hins vegar er ábyrgð okkar
sem förum með almannafé mikil og
ekki verjandi að missa útgjöld úr
böndunum, hver sem málaflokk-
urinn er.
Besti kosturinn valinn
Þrátt fyrir almenna kröfu um að-
hald í öllum rekstri sveitarfélag-
anna voru framlög til Strætó bs.
aukin milli ára sem sýnir staðfestu
okkar í að halda áfram úti öflugum
almenningssamgöngum á höf-
uðborgarsvæðinu. Grunnþjónusta
Strætó er tryggð með því að veita
áfram öfluga þjónustu á annatímum
þegar sem flestir þurfa á henni að
halda. Áfram er veitt þjónusta utan
annatíma, þrátt fyrir að draga hafi
þurft úr tíðni. Þjónustutími Strætó
styttist ekki að undanskildum
tveimur klukkutímum á sunnudags-
morgnum, starfsfólk Strætó heldur
vinnu sinni og gjaldskráin hækkar
ekki. Við í stjórn Strætó bs. glímd-
um við erfiða stöðu þegar rekstr-
aráætlun fyrir árið 2009 var ákveðin
en ég er þess engu að síður fullviss
að besti kosturinn í stöðunni hafi
verið valinn.
Grunnþjónusta Strætó tryggð í erfiðu árferði
Jórunn Frímanns-
dóttir skrifar um
rekstur Strætó
» Þrátt fyrir kröfu um
aðhald í rekstri voru
framlög til Strætó auk-
in, sem sýnir staðfestu
sveitarfélaganna í að
halda úti öflugum al-
menningssamgöngum.
Jórunn
Frímannsdóttir
Höfundur er borgarfulltrúi
og stjórnarformaður Strætó bs.
VIÐ í Frjálslynda
flokknum viljum
bregðast við þeirri
hroðalegu stöðu sem
þjóðin er í með því að
gjörbreyta fisk-
veiðikerfinu. Margir
mætir sérfræðingar
telja að upphaf hörm-
unga okkar sé gjafa-
kvótakerfinu að
kenna. Við í Frjálslynda flokknum
viljum innkalla allar veiðiheimildir
á Íslandsmiðum og leigja út á sann-
gjarnan hátt og tryggja nýliðun í
sjávarútvegi. Við viljum frjálsar
handfæraveiðar og smærri báta yf-
ir sumartímann. Við viljum að allur
fiskur verði seldur á innlendum
fiskmörkuðum. Við viljum aðskilja
veiðar og vinnslu – það þarf að
tryggja að allur afli komi að landi,
þar á meðal hryggir og hausar af
frystitogurum.
Það þarf að auka veiðiheimildir á
þorski, síld og flestum
öðrum bolfisksteg-
undum. Við getum
auðveldlega aukið
gjaldeyristekjur þjóð-
arinnar um 80 millj-
arða með því að veiða
meira og nýta betur
það sem veitt er úr
hafinu. Leiguverð á
aflaheimildum er ekki
í neinum takti við fisk-
verð upp úr sjó eða af-
urðaverð á unnum
fiski. Að hluta til er
því um að kenna að nú má geyma
33% af kvóta á milli ára. Því þarf
að breyta strax. Fjöldi báta og
skipa þarf nú að stoppa vegna
hárrar leigu, sérstaklega á þorski,
sem hefur skelfilegar afleiðingar
fyrir fólk í sjávarútvegi og sjáv-
arbyggðum. Auðvitað þurfum við
að veiða hval og við þurfum að
virða mannréttindi íslenskra sjó-
manna. Kvótakerfið er ónýtt og
óréttlátt og brýtur í bága við álit
mannréttindanefndar Sameinuðu
þjóðanna og íslensku þjóðinni til
skammar hvernig við stöndum að
því. Skjótvirkasta aðgerðin til að
vinna bug á því atvinnuleysi sem
ógnar íslensku samfélagi er að
auka sjávaraflann. Með því drögum
við stórlega úr atvinnuleysi, eflum
tekjumöguleika fólks og aukum
bjartsýni. Það er engin áhætta tek-
in með því að auka veiðarnar enda
þarf þjóðin núna á öllum mögu-
leikum að halda til að efla útflutn-
ing sinn og gjaldeyristekjur. Við
þurfum að virkja fallvötn og orku í
iðrum jarðar, við þurfum að nýta
alla okkar möguleika til að skapa
atvinnu og gjaldeyristekjur.
Grétar Mar Jónsson
skrifar um
fiskveiðikerfið
» Skjótvirkasta að-
gerðin til að vinna
bug á því atvinnuleysi
sem ógnar íslensku
samfélagi er að auka
sjávaraflann.
Grétar Mar Jónsson
Höfundur er þingmaður Frjálslynda
flokksins í Suðurkjördæmi.
Frjálslyndi flokkurinn vill
hefjast handa um breytingar
EIN ER sú nýjung í
netheimum sem á
ensku heitir „face-
book“. Það er nafn á
samskiptavettvangi
sem gerir mönnum
kleift að safna að sér
„pennavinum“, skrifast
á og skiptast á skoð-
unum á lýðnetinu.
Þetta fyrirbæri nýtur
nú svo mikilla vinsælda
að sumir liggja yfir þessu tímunum
saman. Fréttir berast af því, að fyr-
irtæki og stofnanir hafi orðið að loka
fyrir þessi samskipti, svo að starfs-
fólkið gleymdi sér ekki. Margir hafa
velt því fyrir sér hvað „facebook“ ætti
að heita á íslensku. Flestir nota lík-
lega enska heitið, en aðrir hafa reynt
að finna íslenskt orð í staðinn. Við
sem sitjum í tölvuorðanefnd höfum
haft þetta viðfangsefni til umræðu um
nokkurt skeið og fengið fréttir af til-
lögum sem fram hafa komið frá hin-
um og þessum utan nefndarinnar.
Meðal slíkra tillagna eru: fésbók, nef-
skinna, smettiskrudda, snjáld-
urskinna og sviðsbók. Eflaust hafa
fleiri hugmyndir verið viðraðar, en
líklega er ekkert íslenskt heiti farið að
festast í sessi enn sem komið er.
Fyrir nokkru kom fram sú hug-
mynd í nefndinni að nota orðið vina-
mót um „facebook“. Það orð hefir
vanist vel okkar á milli, og við teljum
nú tímabært að kynna það almenn-
ingi. Orðið vinamót skýrir sig sjálft og
er raunar gamall kunningi sem marg-
ir þekkja úr Ölerindum sr. Hallgríms
Péturssonar, þó líklega sem tvö orð.
Næstfyrsta erindið er á þessa leið:
Vitjað hef ég á vina mót,
sem nú á sér,
reynt af mörgum hýrleg hót.
Vel sé þeim sem veitti mér.
Annað verkefni sem nefndin hefir
glímt við að undanförnu er að finna
sæmilegt sagnorð um það sem oft er
nú kallað að gúggla (á vefnum), þ.e.
leita að orði eða orðasambandi með
leitarvél sem nefnist Google. Þetta út-
lenda heiti á sér kynlega sögu sem
verður ekki rakin hér, en erfitt hefir
reynst að sníða það til,
svo að vel fari í íslensku
máli.
Nú hefir okkur dottið
í hug að nota mætti ís-
lensku sögnina glöggva
um að ‘leita með Go-
ogle’. Hún hefir þann
kost, ef kost skyldi
kalla, að vera hljóðlík
útlenda orðinu og ná
jafnframt býsna vel
þeirri merkingu sem
um ræðir. Þetta kann
að koma á óvart, því að nú á dögum er
sögnin nær eingöngu notuð aft-
urbeygileg, þ.e. í sambandinu
glöggva sig (á e-u). En skammt er
síðan hún hafði mun víðtækara notk-
unarsvið, og mætti vel halda því við.
Frá 18. og 19. öld eru mörg dæmi um
glöggva e-ð, þar sem merkingin er
upphaflega að ‘gera e-ð glöggt, eða
glöggvara (gleggra) en það var áður’.
Sá sem leitar með Google, má búast
við að finna það sem hann leitar að.
Það er oftast einhvers staðar úti í
myrkrinu, en þá þarf að glöggva það,
fá það skýrt fram, gera það glöggt.
Lesendum til glöggvunar má
benda á skýringar (undir glöggva) í
Orðabók Blöndals (1920-1924) og Ís-
lenskri orðabók (2002). Notk-
unardæmi má finna á netinu í rit-
málssafni Orðabókar Háskólans
(Árnastofnun).
Hér er komið á framfæri tveimur
hugmyndum sem við í tölvuorða-
nefndinni teljum vert að gefa gaum.
Ef til vill verða þær aðeins til þess, að
aðrar og betri tillögur líti dagsins
ljós, og þá er það ekki verra.
Í tölvuorðanefnd, öðru nafni Orða-
nefnd Skýrslutæknifélagsins, eiga
sæti: Sigrún Helgadóttir (formaður),
Baldur Jónsson, Þorsteinn Sæ-
mundsson og Örn Kaldalóns.
Baldur Jónsson
skrifar um nýyrði
»Hér er komið á fram-
færi tveimur hug-
myndum sem við í tölvu-
orðanefndinni teljum
vert að gefa gaum.
Baldur Jónsson
Baldur Jónsson er málfræðingur
Orð til umhugsunar
ÁSKRIFTASÍMI 569 1100