Nýtt kvennablað - 01.03.1946, Blaðsíða 8

Nýtt kvennablað - 01.03.1946, Blaðsíða 8
HELGA SMÁRI: VORNÓTT Við, nokkrar námsstúlkur, höfum ákveðið að fara til Þingvalla að afloknu prófi. Við ætluð- um að fara ríðandi, því aðrir fljótvirkari farar- kostir voru þá óþekktir hér með öllu. Sextándi júní var ákveðinn, ef veður leyfði. Við hlökk- uðum ákaflega til þessa ferðalags, því flestar okkar höfðu aldrei til þingvalla komið, og þar á meðal var ég. Við þurftum töluverðan undir- búning. Fyrst og fremst var að útvega sér reið- skjóta, þar næst reiðtýgi, reiðföt og ekki mátti gleyma svipunni. Nú rann upp sextándi júní, hreinn og bjartur. Kl. 10 lögðum við af stað. Fyrsti áfanginn var Miðdalur, þar ætluðum við að fá okkur kaffi. Við vorum misjafnlega vel ríðandi, sem kallað er, sumar voru á gæðingum, aðrar á áburðar- hestum. Við vorum því alltaf að hafa hestabýtti, í hvert sinn sem áð var. Stúlkurnar voru svo ridd- aralegar hver við aðra, að ekki mátti á milli sjá, en við vorum átta alls. Þegar fór að halla austur af, fórum við að hægja á ferðinni til að geta sem bezt notið út- sýnisins til Þingvallafjallanna. Klukkan átta komum við að Kárastöðum. Þar fengum við keyptan mat, sprettum af hestun- um og heftum þá, og til frekara öryggis, að við ekki misstum þá út úr höndunum á okkur, voru þeir látnir í girðingu. Við ætluðum að ganga til Þingvalla, vaka þar um nóttina og leggja af stað þaðan klukkan tólf daginn eftir. Þegar við komum á gjábarminn, var komið fast að miðnætti. Við vorum hljóðar og hátíð- legar, þar sem við stóðum þarna og virtum fyrir okkur umhverfið. Þokuslæðingur var í gjánni, og þoka var á öllu láglendinu. Það var engu líkara, en að hún ætti upptök sín undan rótum Skjaldbreiðs og streymdi þaðan inn á vellina og út á vatnið. Hrafnabjörg voru umvafin þykkri, drifhvítri þokuslæðu, og Kálfatindar og Hrafnatindar stóðu eins og tröll upp úr þoku- hafinu. Þegar við í þögulli lotningu höfðum notið þessa útsýnis nokkra stund, þá hófst hin hátíð- lega athöfn, sem sé, að ganga ofan í gjána. Til- finningar mínar voru líkastar því, sem ég væri að fara til altaris í kirkjunni minni heima, svo fannst mér þetta vera hátíðleg og viðhafnar- mikil stund. Við gengum tvær og tvær saman og sungum „Öxar við ána“ o. s. frv. Þegar við komum þar, sem okkur var vísað til að Lögberg hið forna hefði verið, klifruðum við þangað upp og settumst. Þar skyldi bíða sólaruppkom- unnar. Við ræddum nú um það, sem við höfðum lesið og heyrt um Þingvöll. í huganum heyrðum við skóhljóð aldanna líða framhjá. Við sáum skraut- búið fólk, tígulegar konur og riddaralega menn dreifast um vellina. Foringja og foringjaefni líta haukfráum augum til hinna ungu og fögru höfð- ingjadætra. Við lieyrðum ástarjátningar og heit- rof. Við sáum Gunnlaug gefa Helgu hinni fögru skykkjuna, og við skynjuðum brot af harmi þeirra og ást. Við heyrðum lögsagnirnar, og skáldin flytja þróttmikil og fögur kvæði. Við heyrðum skorna upp herör og vopnagný. Við sáum einnig elds- umbrotin, hafísinn, — drepsóttirnar geysast áfram. Hungurvofuna, einokunina og niður- læginguna, — en við sáum einnig nokkuð fram á leið. Við sáum álagahaminn brenndan upp til ösku og upp rísa nýja kynslóð með nýjum möguleika. Allt þetta var ritað á hamraveggina með upp- hleyptu rúnaletri. Öllum var frjáls aðgangur að þessu lestrarsafni,og allir voru læsir á það, sem á annað borð vildu lesa. Við þukluðum á hraunnibbunum og strukum lófanum um mos- ann og gerðum gælur við hann. Svo komu fyrstu sólargeislarnir á fjallstind- ana, og von bráðar kom sjálf drottning festing- arinnar, eins og eitthvert skáldið komst að orði. Hún hellti sér yfir þokuna, sem roðaði af morg- unkossi hennar og varð undursamlega mjúk fyrir augað. Þeim dásemdum, sem við urðum nú sjónarvottar að, verður ekki með orðum lýst. Ég vil því óska, að allir, sem unna landi sínu og þjóð, megi verða aðnjótandi þessarar töfrafegurðar, sem vornótt á Þingvöllum hefur að bjóða. Þá munu þeir hinir sömu aldrei geta saurgað þann stað með neinu ósæmilegu. Hvergi hef ég orðið fyrir eins sterkum áhrifum fegurð- ar og tignar eins og þessa vornótt á Þingvöllum. NÝTT KVENNABLAÐ

x

Nýtt kvennablað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.