Morgunblaðið - 26.07.2009, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 26.07.2009, Blaðsíða 26
26 Landslag MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 26. JÚLÍ 2009 Eftir Björn Jónsson Í mýrinni voru tveir kílar, Langikíll og Bolakíll. Þetta voru grunnar lænur vaxnar fergini og stör, á að giska hnédjúpar og 4-8 metrar á breidd. Samkvæmt íslenskri hefð á 20. öld hefði átt að þurrka þær upp. Austan við kílana hefst sandurinn. Hann er jaðarinn á sandflæmunum miklu í Skaftafellssýslum, ógnarvíðáttu sem nær suður að sjó og alla leið austur í Öræfi. Þarna er hin þungbæra austanátt ríkjandi veðurátt og í stórviðrum á vetrum getur sandurinn skriðið tugi kílómetra undan vindi og sorfið allt á leið sinni. Ég var orðinn þreyttur á vatnsleysinu á Sólheimum. Meginhluti þessarar litlu jarðar er uppgróið gjallhraun sem ekki heldur nokkrum dropa, algerlega vatns- laust. Hinn hluti jarðarinnar er að hluta blásið hraun en annars hálfgróinn sandur og svolítil mýri. Eitthvað í eðli mínu kallaði á vatn. Mig langaði til að sjá ljósglit á vatni og fugla á sundi, sjá himinbláma og ský speglast í sléttri tjörn. Spurningin var hvort hægt væri að gera eitthvað úr þessum grunnu kílum ef þeir væru stíflaðir. Mig dauðlangaði til að athuga það nán- ar og fékk því góðan gröfumann til að hlaða upp stíflu úr sendnu mýrartorfi. Þannig varð til hin snotrasta tjörn í mýr- inni, rúmur metri á dýpt. Hún er býsna óregluleg að lögun og það er hólmi í henni meira að segja. Fuglar létu ekki á sér standa og flykkt- ust að. Álftapar hafði orpið í Langakíl síð- ustu árin og nú vænkaðist hagur þess mjög. Allt í einu var komin væn tjörn í staðinn fyrir þröngan kíl, öruggt athvarf fyrir ungahóp á sumrin. Aðrir fuglar eru þarna tíðir gestir. Óð- inshaninn virðist verpa á þessum slóðum, jaðrakan, spói og hrossagaukur setja svip á svæðið með kvaki sínu og fyrirgangi, gæs og kjói hafa orpið í grennd og meira að segja hef ég fundið þarna fullvaxinn fýlsunga á hausti. Ýmsar endur eru daglegir gestir á tjörninni. Þær eru styggar og fljúga fljótt upp. Það er erfitt að fylgjast með þeim. Vágesturinn mikli, minkurinn, kemur þarna líka öðru hverju og þarf þá að fá fagmann til að eyða honum. Álftirnar eru hins vegar fastir ábú- endur, eins konar staðarhaldarar. Þessir tígulegu fuglar eru einstök prýði í um- hverfi sínu og skemmtilegt að hafa þá sem nágranna í skógræktinni. Ég mun því lýsa kynnum mínum af þeim. Fyrsta nánd mín við álftirnar var þeg-ar ég fór að stinga ösp í mýrinavestan við Langakíl. Varp var greinilega í gangi og ég hafði áhyggjur af ónæðinu sem ég olli fuglunum. Það væri synd og skömm ef eggin fúlnuðu hjá þeim greyjunum. Verkið sóttist vel og mýrarspildan fyllt- ist óðfluga, þetta var 17. júní 1997, hlýr vordagur og skýjað loft. Ég man dagsetn- inguna af því að þennan dag byrjaði ég skógrækt í mýrinni og gróðursetti í fyrsta sinn 1.000 plöntur á dag. Fyrr en varði var ég kominn austur undir Langakíl. Álftirnar virtust órólegar eins og von- legt var. Þær höfðu verið einráðar þarna allt vorið, ekkert fólk í grennd og lítil fén- aðarferð. En þetta var þeirra dyngja, þarna höfðu þær orpið síðustu árin, og þetta eru einbeittir fuglar. Ekki færu þær að flýja á brott við fyrsta ónæði. Ég minnist þess að þolinmæði steggs- ins virtist að þrotum komin þegar ég færði mig nær og nær og að lokum þoldi hann ekki lengur við en hóf sig á loft og flaug rétt fram hjá mér í njósnaferð. Hin álftin var kyrr við dyngjuna. Hann fór í stóran sveig og kom strax til baka hinum megin við mig, flaug þá líka afar nálægt mér. Hann var að láta mig vita af návist sinni þessi stóri fugl. Kannski léti ég mér segjast og færi mína leið. Það hvarflaði ekki að mér. Álftirnar tvær stungu saman nefjum við dyngjuna að njósnaferð lokinni og nið- urstaðan virtist vera sú að sennilega væri ég meinlaus og því mætti þola það að ég ríslaði mér í mýrinni í nokkurra metra fjarlægð. Ný dyngja lá ekki á lausu. Eftir þetta virtist smám saman sem minni spenna fylgdi komu minni og álftap- arið var rólegra á kílnum, annar fuglinn á dyngjunni en hinn á verði álengdar, albú- inn að bregðast við. Þetta var einstakt umhverfi og gaman að vinna þarna við hugðarefni sitt. Það er skemmtilegt að fylgjast meðálftinni sem liggur á eggjunum.Framan af vori er hún keik á hreiðrinu og gerir enga tilraun til að dylj- ast, en þegar líður á lætur hún fara minna fyrir sér, hálsinn hangir oft fram af dyngj- unni og hún teygir höfuðið niður undir vatn. Þá er ekki síður skemmtilegt þegar ungarnir skríða úr eggjunum. Þessir hnoðrar fara strax á flot og synda um en Fuglalíf á sólgylltri tjörn Álftir eru tíðir gestir í skógartjörninni, óðinshaninn, jaðrakan, spóinn, hrossagaukurinn og fleiri fuglar gera sig líka heimakomna. Saga af skógartjörn Breytt landslag Með aðstoð gröfumanns var hægt að hlaða upp stíflu úr sendnu mýrartorfi og breyta Langakíl og Bolakíl í meters djúpa tjörn, ógreglulega í laginu og með hólma . Þröngum kíl í votlendi, sem flestir bændur hefðu þurrkað upp, var með stíflu breytt í snotra tjörn. Með því að fylla mýrina af ösp breyttist hún í skógartjörn. Framkvæmdin varð til þess að hagur fuglanna vænkaðist, einkum álftanna, sem urðu fastir ábúendur, eins konar staðarhaldarar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.