Nýtt kvennablað - 01.12.1967, Síða 2

Nýtt kvennablað - 01.12.1967, Síða 2
SÉRA JÓN E. EINARSSON, Saurbæ Jólahugleiðing „Verið óhræddir, því sjá ég boða yður mik- inn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum, því að yður er í dag frelsari fæddur.“ (Lúk. 2:10-11.) Enn einu sinni eru jólin til vor komin, og vér heyrum fagnaðarboðskapinn um barnið í jöt- unni, barnið, sem kom í heiminn til þess að gjörast konungur vor, frelsari og bróðir. En fær jólaboðskapurinn nokkra viðfestu hjá oss leng- ur, tilheyrir hann ekki einvörðungu liðinni tíð? Já, er ekki jólaguðspjallið bara ævintýri eða ömmusaga, sem ekkert mark er takandi á, en gat verið þægilegt að heyra, þegar vér vorum börn? Og hvers vegna skyldum vér þá vera að halda jól? Kannski bara af gömlum vana, eða til þess að gjöra oss dagamun, borða oss södd og fá góðar gjafir. Er það ekki furðulegur barnaskapur og heimska að trúa því, að jólabarnið, sem í jötuna var lagt, sé endurlausnari heimsins, „sannur Guð af Guði sönnum“? Þýðir nokkuð að bera slíkt á borð fyrir hina frjálshugsandi og vitru menn atómaldarinnar? Þannig hefur verið spurt og er spurt. Og satt er það, að hroki heimsins, dramb- semin og sjálfsánægjan lúta ekki svo lágt að trúa boðskap jólanna. En hinir auðmjúku og trúuðu vita, að fagnaðarboðskapur jólanna er ekki ævin- týri eða „ömmusaga", heldur staðreynd, sann- leikur. Þeir skynja sannleik orðanna: „Yður er í dag frelsari fæddur." Þrátt fyrir allar framfarir þessarar aldar, þá er það staðreynd, að mennirnir frelsa sig ekki sjálf- ir, og þess vegna þurfa þeir á frelsara að halda. Jesús Kristur er frelsari alls mannkyns. Ekkert er svo aumt og myrkt, að náð Guðs í Kristi nái þangað ekki. Lesandi góður. Á helgri jólahátíð minnumst vér þess, að Jesús Kristur er hið blessaða barn, sem birtir Guðs náð og kærleika til vor mann- anna. Jesús er oss gefinn. Hann einn er kon- ungur vor og Drottinn. Vér lifum og nærumst af náð hans og líkn og eigum að lúta valdi hans og vilja. Hann er til vor kominn til þess að frelsa oss frá villu vors vegar, leysa oss úr viðjum van- máttar og syndar, bjarga oss frá böli og dauða og gefa oss þrek til að lifa. Já, Jesús er lausnari heimsins og „konungur lífs vors og ljóss“. Þetta vilja jólin minna oss á. Þau flytja oss þann sann- leika, að „svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver, sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“. Jólaboðskapurinn er oss fluttur til þess að ótti vor og angist snúist í fögnuð og gleði og traust til hins lifanda Guðs. Mitt í veraldarglamri og glysi hátíðahaldanna skulum vér nema staðar og hlusta á þann boðskap. Vér skulum krjúpa hjá barninu í jötunni, því að það er hin eina sanna jólagjöf, sem oss er gefin. Þeirri jólagjöf skulum vér veita viðtöku og búa frelsaranum bólstað í brjóstum vorum. Vér megum treysta því, að jólabarnið, Jesús Kristur, er Guð með oss og Guð hjá oss, bæði hjá þér og hjá mér. Já, hann er með oss sem vinur, leiðtogi og bróðir, elskandi, frels- andi bróðir. — „Verið óhræddir .. . yður er í dag frelsari fæddur." Þetta er fagnaðarboðskapur jólanna. Og sá boðskapur á erindi til vor enn í dag. Það hljótum vér að finna og skynja, þrátt fyrir allt. Og þess vegna skulum vér leggja niður efann og ofdrambið og ganga frelsara vorum á hönd sem auðmjúk, hógvær og þiggjandi börn. — Og vér skulum bjóða hina blessuðu jólahátíð velkomna með orðum skáldsins, er kvað: „Kom blessuð, ljóssins hátíð, — helgi þín minn hug og vilja göfgi, vermi, fylli, svo máttug verði og heilög hugsun mín og hörpu mína Drottins andi stilli." Gleðileg jól. — í Jesú nafni. Amen.

x

Nýtt kvennablað

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.