Monitor - 22.04.2010, Blaðsíða 4

Monitor - 22.04.2010, Blaðsíða 4
4 Monitor FIMMTUDAGUR 22. APRÍL 2010 Hin yndislega prófatörn Tugþúsundir Íslendinga eru á kafi í prófum um þessar mundir og bíða vafalaust flestir í ofvæni eftir því að skila inn síðasta prófinu. Próflestrinum fylgir þó alltaf ákveðinn sjarmi, sem er kannski erfitt að sjá fyrr en löngu eftir að lestri er lokið. Monitor hafði samband við nokkra þekkta einstaklinga og fræddist um reynslu þeirra af háskólanámi. Strembið að púsla saman körfunni og skólanum Margrét Kara Sturludóttir körfuknattleikskona er á öðru ári í heilbrigðisverkfræði í HR. „Það gengur ekkert sérstaklega vel að púsla þessu saman. Ég var hálffjarverandi andlega í skólanum á meðan úrslitakeppnin var í gangi,“ segir Margrét Kara Sturludóttir, ein besta körfuknattleikskona landsins, sem varð Íslandsmeistari með KR á dögunum. Margrét Kara er á öðru ári í heilbrigðisverkfræði í HR og er í lokaprófum um þessar mundir. Hún segist að jafnaði taka daginn snemma í próflestrinum. „Ég reyni að vakna snemma og nýta daginn vel og slaka svo á á kvöldin. Ég hef aldrei prófað að læra alla nóttina fyrir próf. Mér finnst ég bara ekki ná að koma neinu inn í hausinn á mér þegar ég læri seint á kvöldin,“ segir Margrét Kara. Hún segir körfuboltann gera það að verkum að hún þarf að færa ákveðnar fórnir í skólanum, einkum í félagslífinu. „Auðvitað kemst maður ekkert í öll partí og svona í skólanum, en maður reynir að láta þetta ganga upp saman. Það er lykilatriði að skipuleggja sig vel,“ segir Margrét Kara sem stefnir á meistaranám erlendis eftir að hún útskrifast úr HR. Þrátt fyrir mikinn sjálfsaga í prófatörninni leyfir hún sér að slaka á inni á milli. „Við erum nokkur í hóp sem lærum saman og dettum alltaf í smá rugl inni á milli. Þá fer maður að spjalla og skoða einhver myndbönd. Það er bara gaman að því.“ PRÓFRÁ Ð Margrét ar Köru : „Ekki les a yfir þig! ” Aldrei samið eins mikið af tónlist Haukur Heiðar, söngvari Diktu, útskrifaðist úr læknisfræði í HÍ árið 2008. „Ég samdi aldrei eins mikið af músík og þegar ég var í prófum. Það var alltaf kassagítar við hliðina á mér og þegar maður var búinn að lesa of mikið greip maður í hann,“ segir Haukur Heiðar Hauksson, söngvari hljómsveitarinnar Diktu. Haukur er menntaður læknir en hann útskrifaðist úr HÍ árið 2008. „Ég er nokkuð viss um að Breaking the Waves hafi verið samið í prófatörn,“ segir hann spurður um hvort einhverjir þekktir slagarar hafi fæðst á meðan á próflestri stóð. Haukur segist hafa verið nátthrafn og lærði hann að jafnaði á nóttunni en svaf á daginn. „Mér fannst alltaf mjög gott að læra á kvöldin og nóttunni. Þegar það er komin nótt er alger ró og allir á heimilinu farnir að sofa. Enginn hringir í mann og ekkert er í sjónvarpinu,“ segir Haukur. Hann kannast vel við það að hafa misst sig í að gera allt annað en að læra þegar hann átti að vera að því. „Maður las Morgunblaðið alveg frá síðu eitt til fjörutíu og Fréttablaðið frá forsíðu til baksíðu. Gítarinn og píanóið voru líka oft talsvert skemmtilegri en bókin. Maður fann sér allt annað að gera en að fara að lesa. Ég skoðaði líka allt netið og tókst að klára það einu sinni,“ segir Haukur. Prófráð Hauks Heiðars: „Að gefa sér tíma til upprifjunar. Eyða jafnvel heilum degi í að rifja upp.“ Félaginn orðinn doktor í YouTube Bjarni Guðjónsson, knattspyrnumaður, útskrifast sem viðskiptafræðingur í vor. „Ég var einmitt að klára síðasta prófið mitt í dag,“ sagði knattspyrnumaðurinn Bjarni Guðjónsson þegar Monitor sló á þráðinn til hans. Bjarni útskrifast úr viðskiptafræði frá HR í vor og er um þessar mundir að ljúka við lokaverkefni sitt. „Við erum að skrifa um verðteygni eldsneytisverðs á Íslandi. Þið viljið kannski birta brot úr ritgerðinni í Monitor?“ grínast Bjarni og er auðheyrt að ritgerðarskrifin eru ekki það skemmtilegasta sem hann hefur gert. Bjarni segist hafa reynt að taka á náminu eins og hefðbundinni vinnu frá upphafi. „Ég á mjög erfitt með að einbeita mér eftir klukkan 10 á kvöldin, þannig að þetta verður að gerast á daginn. Ég held að lengst hafi ég verið uppi í skóla til klukkan hálftólf um kvöld. Ég verð að fá mína átta til tíu tíma á nóttunni,“ segir Bjarni. Hann segist aldrei hafa leyft sér að detta í vitleysuna í próflestri, þótt það hafi stundum verið freistandi. „Ég fæ samt að kynnast þessu vel hjá félaga mínum sem er að skrifa með mér ritgerðina. Hann er duglegur að finna sér allt annað að gera. Eftir þrjú ár í háskóla er hann kominn með doktorsgráðu í YouTube.“ Prófráð Bjarna: „Það hefur hentað mér mjög vel að skipuleggja námið eins og vinnu.“ Fljótur að detta úr venjulegri rútínu Bergur Ebbi úr Mið-Íslandi útskrifaðist sem lögfræðingur frá HÍ árið 2007. „Ég var frekar venjulegur námsmaður. Ef maður er þannig er nám ekkert erfitt. Í rauninni er það algjör draumur og grín að vera í námi miðað við lífið sjálft,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson, meðlimur uppistandshópsins Mið-Íslands og lögfræðingur frá HÍ. Hann segist hafa reynt að mæta í flesta tíma á námsferlinum en hann var ekki eins duglegur við að lesa sjálfur yfir önnina. „Ég var samt alltaf með einhverja hugmynd um hvað ég var að fara að lesa upp. Svo lærði maður alveg eins og asni undir lokin því þá þurfti maður líka að fara að læra hluti utan að,“ segir Bergur. Þótt Bergur hafi verið góður námsmaður játar hann að hafa verið gjarn á að finna sér annað að gera en að læra á meðan á prófum stóð. „Þegar upplestrarfríið og próflesturinn byrjaði var maður fljótur að detta úr venjulegri rútínu. Þá hætti maður að vakna á morgnana og fór að borða á óreglulegum tímum. Mér fannst það mjög gaman en maður var fljótur að þreytast á því. Eftir þriggja vikna prófatörn var maður alveg búinn,“ segir Bergur. Prófráð Bergs Ebba: „Þetta hefðbundna, að borða og sofa vel. En maður gerir það aldrei.“ Dónavísur til að muna latínuna Ragnhildur Steinunn útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá HÍ árið 2007. „Þegar ég var að klára háskólanámið var ég byrjuð í Kastljósinu og þá lenti ég í því að taka þvílíkar tarnir fyrir próf. Ég setti ófá met í Magic-drykkju þegar ég var að reyna að halda mér vakandi,“ segir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sjónvarpskona, sem er menntaður sjúkraþjálfari. „Tímasóknin var ekki alveg til fyrirmyndar hjá mér og maður þurfti að vinna upp allt sem maður hafði misst af. Ég kannski las til fjögur á nóttunni, svaf svo til sjö og vaknaði þá og fór í prófið. Tók þetta pínulítið á geðveikinni,“ segir Ragnhildur og hlær. Hún tekur þó fram að tarnirnar hafi átt vel við hana. „Stressið vann ekki á móti mér, heldur gat ég notað það með mér. Mér fannst fínt að vera svolítið stressuð og finnast ég hafa lítinn tíma því þá þurfti ég að vaka og læra, í stað þess að hafa allan tímann í heiminum og sofna bara yfir þessu,“ segir Ragnhildur. Hún segir það hafa hjálpað sér mikið í lærdómnum að búa til margs konar vísur og ljóð til þess að læra hluti sem erfitt var að festa á minnið. „Ég var mikið í líffærafræði í mínu námi og þar þurfti ég að muna hin ýmsu latnesku heiti. Þá var ég mikið í því að búa til vísur, oft einhverjar dónavísur, til þess að muna kannski öll beinin í handleggnum. Það svínvirkaði,“ segir Ragnhildur. Prófráð Ragnhildar Steinunnar: „Að semja vísur og ljóð til að muna hina ýmsu hluti klikkar aldrei.“ LÆKNIRINN HAUKUR HEIÐAR ROKKAR BETUR EN FLESTIR BJARNI TÆKLAR VERÐTEYGNI ELDNSYTISVERÐS Í DAG LÖGFRÆÐIN ER EKKERT GRÍN ÍSLANDSMEISTARI Í ORKUDRYKKJAÞAMBI? M yn d/ Er ni r MARGRÉT KARA ER MICHAEL JORDAN HEILBRIGÐISVERKFRÆÐINNAR PRÓFRÁ Ð „Að gefa sér tíma til upp- rifjunar. “ PRÓFRÁЄBorða og sofa vel.“

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.