SunnudagsMogginn - 05.06.2011, Blaðsíða 19

SunnudagsMogginn - 05.06.2011, Blaðsíða 19
5. júní 2011 19 S jómennskan er Guðmundi Þ. Jónssyni í blóð borin. Faðir hans var skipstjóri og aldrei kom annað til greina í huga sonarins en að starfa við sjávarútveg. Guðmundur er nú annar tveggja skipstjóra á Vilhelm Þorsteinssyni EA, frystitogara Samherja, og mikil aflakló. „Hann var fyrstur í einn milljarð, fyrstur í tvo og nú fyrstur í þrjá,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, rétt fyrir síðustu áramót þegar hann færði Guðmundi gjöf í hófi sem fyrirtækið hélt þegar það úthlutaði styrkjum til ýmissa samfélagsverk- efna á Eyjafjarðarsvæðinu. Skipstjórinn var þá nýkom- inn í land og höfðu Guðmundur og samstarfsmenn hans nýslegið Íslandsmetið; verðmæti afla skipsins á síðasta ári var 3,3 milljarðar króna. Gjöfin var reyndar í tilefni fimmtugsafmælis Guðmundar sem hann fagnaði daginn sem skipið kom að landi. Skipstjórnin hvílir vissulega ekki á Guðmundi einum, en reyndar á fjölskyldunni, ef svo má segja. Svo skemmtilega vill nefnilega til að hinn skipstjórinn á Vilhelm er Birkir Hreinsson, mágur Guðmundar, og fara þeir að jafnaði annan hvern túr. Bryggjan nafli alheimsins „Þegar ég ólst upp á Bolungarvík snerist allt um fisk,“ segir Guðmundur. „Ég ólst upp við sjómennsku, byrj- aði sjálfur á sjó 15 ára og hef verið þar alla tíð.“ Strax á barnaskólaárunum, upp úr miðjum sjöunda áratugnum, varð bryggjan á Bolungarvík nafli alheims- ins. „Eftir skóla henti maður töskunni inn í kjallarann heima og fór niður á bryggju. Þá snerist lífið um það hve mikið bátarnir fiskuðu, hver mest á hverjum degi og hver hafði veitt mest í mánuðinum,“ segir Guð- mundur. „Svo fór maður að beita fyrir karlana; ég var farinn að gera mikið af því strax átta eða níu ára gam- all. Það var mikil línuútgerð í Bolungarvík á þessum tíma og ég var alltaf meira í beitingu en í frystihúsinu. Lífið snerist um bryggjuna og beitningaskúrana. Þetta breyttist eftir að togaraútgerðin hófst, var líka spenn- andi en öðruvísi; það var meira líf í kringum litlu bátana.“ Sjórinn var þó ekki það eina sem Guðmundur kynnt- ist í æsku. „Frá því ég var átta ára var ég sveit á sumrin í nokkur ár og hefði alls ekki viljað missa af þeirri reynslu. Það var mjög gaman í sveitinni og ég hafði gott af því. Bærinn var reyndar bara rétt hjá Bolung- arvík en maður fór samt ekki heim nema einstaka sunnudag og var í tvo eða þrjá tíma.“ Blundar kannski í honum bóndi? „Ég á þrjár kindur í dag! Eignaðist þær í haust og vinur minn í Svarfaðardal er með þær fyrir mig, ég kíki þangað annað slagið og nú eru fyrstu lömbin komin.“ Faðir Guðmundar, Jón Eggert Sigurgeirsson, var lengi skipstjóri á togaranum Heiðrúnu og áður á línu, þar sem Guðmundur byrjaði með honum. Víðir bróðir hans fór sömu leið og er nú líka skipstjóri á Akureyri; er á Kleifaberginu sem er í eigu Brims. Um tíma voru feðgarnir skipstjórar, allir þrír. „Þá töluðum við mikið saman þegar við vorum á veiðum. Skiptumst á upplýsingum. Mér finnst mjög gaman að tala um sjávarútveg, eflaust vegna þess að ég er alinn upp við það; ég man ekki eftir því að talað hafi verið um mikið annað við eldhúsborðið heima! Pabbi var mikill áhugamaður um sjávaútveg, hann var línuskip- stjóri þegar ég var strákur og auðvitað smitaði það út frá sér. Þess vegna hef ég alltaf haft mikinn áhuga á sjávarútveginum og ekki alltaf verið hress með það í seinni tíð hvernig fólk talar um hann. Ég er ekki viss um að allir hafi nógu mikla vitneskju til að tjá sig um þessi mál eins og gert er. Það hefur farið ofboðslega mikið í taugarnar á mér síðustu ár þegar talað er um að við séum ekki að skila neinu til þjóðarbúsins. Alveg of- boðslega í taugarnar á mér,“ segir Guðmundur með áherslu. Stimplaðir hálfgerðir glæpamenn Oft er talað um að sjómenn gangi illa um auðlindina. Guðmundur hafnar því. „Ég var orðinn skipstjórnarmaður áður en kvóta- kerfið var sett á og hef verið allar götur síðan og er sannfærður um að gengið er miklu betur um auð- lindina nú en áður var gert. Það hefur verið staglast á því hve við séum vondir, að við hendum afla; sjómenn eru stimplaðir sem hálfgerðir glæpamenn. Ég vísa því á bug.“ Sjávarútvegsmálin eru mjög í brennidepli um þessar mundir eins og allir vita, vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórnun fiskveiða og Guðmundur er vægast sagt óhress með hugmyndir stjórnvalda, eins og margir aðrir í sjávarútvegi. Hann gengur svo langt að segja að verði breytingarnar að veruleika muni afleiðingarnar verða alvarlegri fyrir land og þjóð en efnahagshrunið árið 2008. Meira um það síðar. Guðmundur reri fyrst með föður sínum en hóf ekki störf uppi í brú fyrr en 1983, þegar hann varð 2. stýri- maður á Sléttanesi frá Þingeyri. Hafði þá numið í Stýri- mannaskólanum í Vestmannaeyjum. Árið 1986 fékk Guðmundur örlagaríkt símtal frá Þor- steini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, sem bauð honum vinnu. „Þegar hann hringdi var konan mín á fæðingardeildinni hér á Akureyri, ég sagðist ekki geta ákveðið þetta alveg strax en Mái sagði mér um daginn að sjö dögum eftir að hann hringdi hefði ég munstrað mig hjá Samherja og farið til Noregs að sækja Margréti. „Ég hafði aldrei verið á rækju fyrr en ég varð stýrimað- ur þar. Hafði bara verið á ísfisktogurum.“ Smám saman fikraði Guðmundur sig svo upp stig- ann; fór sífellt í betra lið, eins og knattspyrnumenn myndu segja. Af Margréti fór hann á Hjalteyrina 1994, þaðan á Baldvin Þorsteinsson eldri, sem fyrirtækið eignaðist 1992 og var þar skipstjóri til vors 2001, þegar hann varð annar tveggja skipstjóra á Vilhelm. „Mér er sýnt mikið traust með því að fá að stýra svona skipi. Það er gaman og markmiðið að gera alltaf betur en árið áður.“ Tilfinningin verður að vera fyrir hendi Guðmundur hefur náð því markmiði að gera sífellt bet- ur, en hann segist þó ekki horfa einungis til aflaverð- mætis. „Þegar ég lít til baka finnst mér árið 2007 það skemmtilegasta. Þá fiskuðum við 64 þúsund tonn, sem er mesti tonnafjöldi sem við höfum náð. Aflaverðmætið var þá 1400 milljónir. Árið 1996 á Baldvini var líka mjög gott ár þegar við veiddum 8.300 tonn af bolfiski en verðmæti þess var reyndar ekki nema 700 milljónir. Auðvitað skiptir aflaverðmæti mestu en þetta eru samt mjög eftirminnileg og góð ár. Við vorum með mikinn kvóta og bæði frystum og settum í bræðslu. Ég hef allt- af búið við það hjá Samherja að vera með góðan kvóta; þokkalega góðan, skulum við segja, því maður vill allt- af meira!“ Hann segir það í raun engan sérstakan galdur að veiða mikið. Að þefa uppi gjöful mið. „Það er í sjálfu sér ekki hægt að lýsa því. Við erum með mjög góð tæki, en ég segi reyndar alltaf við strák- ana hjá mér að það sé ekki nóg – tilfinningin verði að vera fyrir hendi. Það er eitthvað innra með manni sem skiptir líka miklu máli þegar ákveðið er hvert á að fara og hvar muni fiskast.“ Svo skiptir auðvitað miklu máli að starfa hjá góðri útgerð, bætir hann við, „og að hafa mikinn kvóta. Mál- ið snýst um það í dag.“ Guðmundur kom ekki nálægt uppsjávarveiðum fyrr en árið 2001. „Ég hafði aldrei farið á uppsjávarskip og brá í brún þegar Þorsteinn Már bað mig um það. Leist satt að segja ekkert sérlega vel á. Ég hafði verið mikill frystitogaramaður og frá 1986 til 2001 hafði ég verið með skip þar sem fryst var rækja eða bolfiskur. Ég hafði aldrei séð þær græjur sem voru um borð í upp- sjávarskipunum!“ Það er tvennt ólíkt. Gamli sjarminn kemur aldrei aftur Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri hefur alla ævi unnið í fiski. Hann er ánægður með kvótakerfið þótt vissulega megi sníða af því van- kanta en hann er mjög andvígur fyrirhuguðum breytingum á stjórn fiskveiða sem hann telur að yrðu þjóðinni til mikillar bölvunar. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Fimmtugur methafi! Guðmundur ásamt eiginkonu sinni, Vigdísi Hjaltadóttur og Kristjáni Vilhelmssyni útgerð- arstjóra Samherja. Myndin er tekin þegar Guðmundur kom í land 19. desember í fyrra, á fimmtugasta afmæl- isdegi sínum.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.