SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Blaðsíða 13

SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Blaðsíða 13
3. júlí 2011 13 Morgunblaðið/Heiddi K jartan Guðjónsson og Hanna María Hallgrímsdóttir byrjuðu að læra búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands haustið 2010 og hafa nú lokið fyrra árinu við skólann, en búfræðinám tekur tvö ár. Til að byrja með bjuggust þau ekki við að eiga eftir að læra eins mikið og þau hafa gert, töldu sig kunna svo margt. Þau urðu því hissa á öllum þeim fróðleik sem námið bjó yfir. Bæði koma þau af blönduðum býlum, sveitabæjum þar sem fleiri en ein tegund dýra er ræktuð. Kjartan kemur frá Síðu- múlaveggjum í Borgarfirði en Hanna frá Látrum í Mjóafirði. Áhugi á búfræði fékk þau til að skrá sig í skólann, þau hafði langað til að læra meira um búskap og fá fræðslu tengda búfræðinni. „Það er líka gott að fá fræðslu á víðara sviði, til dæmis ef mann myndi langa til að starfa við eitt- hvað landbúnaðartengt, svo sem mjólk- urframleiðslu. Ef maður vill fara í mjólk- urfræði, þá hefur maður einhvern grunn,“ segir Hanna. Vinnuhagræðing og sparnaður Kjartan og Hanna eru sammála um að þau hafi lært margt sem muni koma þeim að góðum notum í framtíðinni og skapa þeim fjölmörg tækifæri. „Við höfum lært að ýmsu má breyta og hagræða. Í skólanum fáum við hugmyndir og út frá þeim skap- ast tækifærin. Það er til dæmis mikil áhersla lögð á að kenna okkur vinnu- hagræðingu og sparnað. Við verðum að kunna að spara og hagræða ef við ætlum að stunda búskap,“ segja þau og telja að menntun í bændastéttinni geti skipt miklu máli í náinni framtíð, jafnvel að einhvern tímann þurfi bændur að hafa búfræðipróf til að mega halda skepnur. Þegar Kjartan og Hanna byrjuðu í bú- fræðináminu á Hvanneyri höfðu 77 manns sótt um, en þau voru hluti af 34 manna hópi sem komst inn í skólann. Flestir eru enn í náminu og segja þau að andinn í bekknum sé frábær. „Þú getur eiginlega ekki verið í þessu námi ef þú hefur ekki áhuga á því. Það er allavega voðalega erf- itt, því námið er svo sérhæft. Í skólanum fann maður líka það sem vantaði úr öðru námi, því þarna hitti maður krakka með sama grunn og maður sjálfur.“ Nemendur sem eru á fyrsta ári í búfræði sinna bústörfum á Hvanneyri, en einnig fara þeir í almennt verknám sem felst í því að þau eru send á sveitabæi þar sem þau dvelja í þrjá mánuði. „Við erum send á bú sem eru til fyrirmyndar og eru þekkt fyrir góðar afurðir. Fólkið sem tekur á móti okkur er allt búfræðingar að mennt, hefur flest starfað í félagsmálum og hefur gott orð á sér fyrir bókhald búsins. Þannig nýtist verknámið best og við lærum mest af því.“ Vilja styrkja stöðu bænda Aðspurð hvort þau haldi að ungir bændur stefni að því að helga sig bústörfunum að fullu eða hvort þeir stefni á að vinna ann- ars staðar meðfram þeim, svara Hanna og Kjartan að það sé misjafnt eftir því hvern- ig bú bændur séu með. Bændur sem nota róbóta til að mjólka kýrnar hafi til dæmis meiri möguleika en aðrir á að vinna með- fram búinu. „Ef þú ert með kúabú, þá ertu miklu bundnari yfir því heldur en sauð- fjárbúi. Með sauðfjárbú getur þú leyft þér að vinna að hluta til annars staðar,“ segir Kjartan. Hanna bætir við að allskonar nefndarstörf séu einnig unnin af bændum innan landbúnaðargeirans. Sumir bændur séu því í hlutastörfum við að sinna sam- tökum og fundum um allt land. Mikill áhugi virðist vera á samstöðu ungra bænda og segja Kjartan og Hanna að áhersla sé lögð á að bændur standi saman, sérstaklega á þessum tímum. „Fólk gerir sér kannski ekki alveg grein fyrir því hvað bændur standa fyrir. Við stöndum fyrir matavælaframleiðslu í landinu. Ef það er enginn landbúnaður í landinu, hvað ætlar fólk þá að gera?“ Kjartan og Hanna efast ekki um að þau muni stunda búskap á Íslandi í framtíð- inni, það sé draumurinn. Þau vonast til að styrkja stöðu bænda og passa upp á sér- stöðu landsins, einangrun þess og stofna. Þau hafa hins vegar nokkrar áhyggjur af því hvað muni gerast ef Íslendingar láti sérstöðu sína í hendur annarra þjóða. „Staða íslenskra bænda er allt í lagi eins og hún er í dag, en hún getur farið versn- andi“, segir Kjartan. „Við verðum að horfa á hvað við erum í góðum málum. Við eigum alltaf í okkur og á í gegnum landbúnaðinn, þannig lagað séð. Íslendingar eru í rauninni sjálfum sér nógir í matvælaframleiðslu. Við þurfum að horfa meira á það og fara ekki að flytja inn eitthvað sem við getum framleitt sjálf, eitthvað frosið eða í dós. Það er ekki ein- ungis bændastéttin sem þarf að standa saman, heldur verða allir Íslendingar að standa saman í því að sækja ekki vatnið yfir lækinn. Við sjáum til dæmis ekki neinn hag í því að ganga í Evrópusambandið. Það eru engir hagsmunir þar fyrir bændur, miðað við hvernig við viljum starfa í framtíð- inni,“ segir Hanna og Kjartan bætir við að mikið regluverk sé innan ESB sem eigi eft- ir að gera landbúnað á Íslandi mjög erf- iðan. „Ísland er eyja á köldum slóðum og lög sem gilda til dæmis fyrir Spán og önn- ur lönd geta ekki tekið gildi hér á landi. Eins er mun ódýrara að flytja inn kjúkling og svínakjöt frá Evrópu en að framleiða það hér á landi. Það eru því sterkar líkur á að kjúklinga- og svínabú muni leggjast af, því rekstrarumhverfið er erfitt fyrir.“ Með inngöngu í ESB mun margt breyt- ast og segir Kjartan að svo geti orðið að við verðum ekki sjálfum okkur nóg. Þá verð- um við upp á aðra komin. „Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þeir vilja okkur inn í ESB. Þeir myndu aldrei vilja fá einhverja litla eyju inn í þessi samtök ef þeir myndu ekkert græða á henni. Hvort ætla þeir að ráðast á fiskinn okkar eða landbúnaðinn? Þetta er sú spurning sem ráðamenn eiga mjög erfitt með að svara þegar þeir eru spurðir.“ Gott að vera bóndi á Íslandi Kjartan segir að auka verði framleiðsluna hér á landi og telur að hægt sé að byrja á því með því að auka aðgengi að jörðum, en bæði hann og Hanna segja erfitt að fá jarðir í dag. Þeim þætti því rökrétt að út- skrifaðir búfræðingar hefðu kaupforgang að jörðum til sölu. Þannig mætti stuðla að því að góðar landbúnaðarjarðir yrðu áfram nýttar undir landbúnað. „Með því að auka aðgengi að jörðum, þá mun nýliðun í bændastéttinni aukast. Það eru hins vegar fjársterkari aðilar sem eiga auðveldara með að kaupa jarðir. Það er að ákveðnu leyti sorglegt. Þó að sumir líti á jarðir sem sumarbústaðaland, þá horfum við á jarðirnar sem beitiland og tún, eitt- hvað sem getur nýst. Stundum standa á jörðunum fullkomin hús sem hægt væri að flytja beint inn í. Staðreyndin er hins veg- ar í mörgum tilfellum sú að fjársterku að- ilarnir, sem keyptu jarðirnar, leigja ekki einu sinni út landið í kring, þó þeir séu einungis þarna í einn til tvo mánuði á ári.“ Kjartan og Hanna telja hvorugt að betra sé að vera bóndi í öðru landi, til dæmis í Noregi eða Svíþjóð. Það sé sérstaða ís- lenskra bænda sem haldi þeim hér. Hanna segir að bændur séu ekki mikið að hugsa um að flytja af Íslandi, þrátt fyrir árferðið. „Það er í raun erfiðara að gerast bóndi í Svíþjóð. Þar þarftu að hafa nám að baki til þess að geta orðið bóndi.“ Og Kjartan bætir við að erlendis sé orðið mjög tak- markað ræktarland á hverja jörð. „Hér höfum við nóg land til að nýta, sem og þá íslensku sérstöðu að bú ganga í erfðir. Það er annað sem við þurfum að halda í. Áður fyrr var tryggt að börnin fengju jörðina ef þau vildu búa. En þegar börnin leituðu annað, þá lagðist jörðin í eyði.“ Samtökin efla landbúnað Kjartan og Hanna eru bjartsýn á framtíð- ina. Þau vilja hefja búskap, en einnig vilja þau vinna störf innan landbúnaðargeirans sem geta eflt landbúnað á Íslandi og stuðl- að að áframhaldandi matvælaframleiðslu. Bæði eru skráð í Samtök ungra bænda á Vesturlandi og Vestfjörðum, en félagið er tiltölulega nýtt og fagnar eins árs afmæli í ár. Fjórar slíkar deildir eru hér á landi, hver í sínum landsfjórðungi og mynda þær saman Samtök ungra bænda á Íslandi, sem eru hugsuð fyrir 18-35 ára bændur. Starfið í samtökunum snýst um að virkja fleiri og yngri bændur í málefnum land- búnaðarins. „Starfið gengur út á eina heild og eru fjórar deildir innan félagsins til að kraft- arnir nýtist sem best. Það eru ýmis nám- skeið í boði og við erum dugleg að hittast. Félagið er samt ungt og enn í þróun. Fyrsta árið hefur að mestu farið í fjáröflun og annað árið mun felast í enn meiri kynningu. Það þarf auðvitað að koma fé- laginu á framfæri og efla samstarfið á milli landsdeilda enn frekar. Þetta vekur unga bændur til umhugsunar um ýmis mál og styrkir samstarf og samskipti ungra bænda á öllu landinu. Við verðum fyrir vikið sterkari eining, því fyrr sem við byrjum að huga að henni og byggja hana. Og fyrst og fremst er þetta skemmtilegur félagsskapur. En við verðum að standa saman vörð um arfleifð okkar. Þetta er landið sem hefur fóstrað okkur og við sem bændur viljum auðvitað standa vörð um það.“ Sækjum ekki vatnið yfir lækinn Hanna og Kjartan segja stöðu íslenskra bænda viðunandi í dag – en geti farið versnandi. Kjartan Guðjónsson og Hanna María Sigmunds- dóttir stefna bæði á búskap í framtíðinni. Þau eru uppalin í sveit og stunda nám í búfræði við Land- búnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þau segj- ast vilja standa vörð um arfleifð sína, íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Eyrún Eva Haraldsdóttir

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.