SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Síða 24

SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Síða 24
24 3. júlí 2011 A tli, hvað er Raggi að gera, er hann orðinn vitlaus? Þetta bara gengur ekki að birta svona mynd! Hvað haldið þið að karlinn hennar segi þegar hann sér þessa mynd. Ég verð að slengja í hann slöngunni – og það duglega.“ Það var skellihlæjandi æskuvinur minn í símanum, Atli Ólafsson, fyrr- verandi mágur Hjalta „Úrsusar“ Árna- sonar, að tilkynna mér að Hjalti væri alveg brjálaður og hafði á orði að það þyrfti aðeins að dangla slöngunni í Ragga og rifja upp gamla tíma eftir að mynd mín af Hjalta og Nínu Ósk- arsdóttur, systur Skúla, á kraftlyft- ingamóti birtist í Morgunblaðinu. Flestir strákarnir í Árbænum voru léttlyndir gleðipinnar og Atli var þar fremstur í flokki. Hann reyndi að róa Hjalta og vildi vara mig við. Reiðin rjátlaðist af Hjalta þegar menn fóru að skjóta á hann í glettni: „Flott mynd af þér Hjalti, hvað varstu að gera þarna fyrir aftan konuna? Áttir þú ekki að hafa hendurnar á stönginni? Var ekki fjör á mótinu?“ „Ha, jú það var fínt, takk fyrir, ég var bara þarna til að grípa inn í ef lyft- an hefði klikkað.“ Hjalti varð alltaf sáttari við myndina eftir því sem fleiri minntust á hana við hann í röðinni á Hótel Borg þar sem hann var dyravörður í kvöldvinnu ásamt öðrum þekktum Árbæingi og vini sínum, Jóni Páli Sigmarssyni. Hjalti varð alltaf vinsælli og vinsælli og nógu vinsæll var hann fyrir. Hjalti „Úrsus“ Árnason er einn af frumbyggjunum í Árbæjarhverfinu. Að alast upp í Árbæjarhverfinu þegar það var að mótast var einhvern veginn al- veg stórkostlegt. Flestir krakkarnir í hverfinu urðu miklir vinir og það hefur haldist síðan í mörgum tilvikum. Það var spilaður fótbolti meira og minna allan daginn. Til að brjóta upp daginn var farið í stutta hjólatúra og svo hald- ið áfram í fótbolta, lífið var einhvern veginn endalaust og leiðindi ekki til. Íþróttafélagið Fylkir var stofnað á þessum fyrstu árum eða 1967, hét í fyrstu KSÁ eða knattspyrnufélag Seláss og Árbæjar. Við vorum ekki beysnir í fyrstu, töpuðum yfirleitt stórt en náð- um okkur fljótt á strik sem fótbolta- klúbbur og fórum að bíta frá okkur og vinna leiki. Það var frægt þegar Hannes Petersen læknir kallaði þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og Fylkir undir 7:0: „Berjast strákar, við vinnum þennan leik. Þetta er ekki búið fyrr en dómarinn flautar leikinn af.“ Mikið var hlegið að þessari óbilandi bjartsýni. Ekki væri verra að þannig hugarfar tæki yfir á Íslandi á ný, það myndi snúa landinu við og öllum liði betur. Einstaka sinnum kom til bardaga niðri við stíflu yfir Elliðaárnar við vill- ingana úr Breiðholtinu eins og við kölluðum þá, það var eflaust gagn- kvæmt hjá Breiðhyltingum, við vorum í þeirra huga Árbæjarvillingarnir. Við Árbæingarnir vorum að vernda árnar frá því að Breiðhyltingarnir færu ekki að veiða lax með þríkrækjum eða hey- kvíslum eins og við Árbæjarkrakkarnir gerðum stundum. Það var auðvitað bannað með öllu að veiða lax í Elliða- ánum en okkur fannst við eiga þetta svæði og vernduðum það. Síðar frétt- um við það að Breiðhyltingarnir höfðu ekki hugmynd um það að við værum að vernda veiðisvæðin okkar í Elliða- ánum. Það mundu allir eftir Hjalta og slöngunni hans, sérstaklega þeir sem höfðu fengið smá flengingu með slöng- unni. Hjalti var eins og Tóki munkur í Hróa Hetti, það þorði enginn í hann. Þetta voru góðir tímar og síðar urðu margir af krökkunum í Árbænum og Breiðholtinu bestu vinir og hlógu að öllu þessu bardagastússi. Hjalti var strax mjög stór sem barn, þrekinn og yfirburðasterkur, það var nokkuð öruggt að vera nálægt Hjalta þegar til bardaga kom. Hann var vanur að koma við á þvottaplaninu í Árbæn- um þegar bardagar voru í uppsiglingu og slíta þvottaslönguna frá krananum við hávær mótmæli starfsmanna á bensínstöðinni. Starfsmennirnir á bensínstöðinni vissu að það þýddi ekk- ert að stoppa Hjalta, þeir vissu líka að Hjalti skilaði alltaf slöngunni þegar notkun var lokið. Hjalti rölti í róleg- heitum yfir stífluna að Breiðhyltingum, það var ekki asinn á honum þegar hann sveiflaði slöngunni fyrir ofan hausinn á sér yfirvegað eins og þyr- luspaða og slengdi henni í afturendann á Breiðhyltingum sem hættu sér of ná- lægt. Þeir hröktust ýlfrandi í burtu. Ég man ekki eftir að nokkur maður hafi slasast, það voru aðallega hróp og köll og ein og ein torfa sem flaug á milli gengjanna, þetta var svona meira upp á grínið en alvarlegir bardagar. Það var langbest að vera nálægt Hjalta, þangað hætti sér enginn og maður var nokkuð öruggur ef maður beygði sig svo slangan færi ekki í haus- inn á manni. Minnugur þess hvernig slangan af bílaþvottaplaninu virkaði var ég ekkert að flýta mér að hringja í Hjalta þegar myndin birtist og ég frétti að Hjalti væri ekkert of hrifinn af henni. Ég svo sem vissi það að Árbæingur hefði aldrei gert það við annan Árbæ- ing, það myndaðist einhvern veginn samstaða meðal krakkanna úr Árbæn- um sem hefur lítið breyst þegar á reynir. Ég vissi að Hjalti myndi ná átt- um og jafna sig, ég held að hann sé bú- inn að ná sér eftir öll þessi ár og hættur að slengja slöngunni – það gerist víst með aldrinum er mér sagt. Sagan bak við myndina Ragnar Axelsson rax@mbl.is Slangan hans Hjalta

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.