Monitor - 24.03.2011, Síða 4

Monitor - 24.03.2011, Síða 4
4 Monitor FIMMTUDAGUR 24. MARS 2011 Stefán Karl vinnur eins og lúsiðin býfluga í Los Angeles og virðist stefna á topp- inn. Monitor ræddi við hann um Ameríkuna, Latabæ, bransann og Kurteist fólk. Enginn dagur eins „Það er 17 stiga hiti hérna núna, sem sagt frekar kalt,“ sagði Stefán Karl Stefánsson, leikari, þegar Monitor hringdi í hann til að spjalla um allt og ekkert. Hann hefur búið í Los Angeles ásamt eiginkonu sinni, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, í rúm sex ár. „Þetta er orðið okkar heimili,“ segir Stefán sem á með Steinunni fjögur börn svo það er nóg að gera á heimilinu. „Dagarnir eru mjög misjafnir og sem betur fer er enginn þeirra eins,“ segir hann en bendir á að dagarnir byrji og endi eins. „Ég byrja hvern dag á að rífa alla fram úr rúminu og koma genginu í skólann. Á hverju kvöldi sofna ég,“ útskýrir Stefán sem hefur í nógu að snúast. Stórt verkefni á teikniborðinu „Við Steinunn eigum okkar eigið fyrirtæki hérna úti ásamt fullt af öðru fólki. Við vinnum að framleiðslu á ýmsum sviðum,“ segir Stefán hæstánægður með fjölbreytnina sem fylgir starfinu. „Ég funda heilmikið, fer í prufur og plana næstu verkefni,“ segir hann og bendir á að í Bandaríkjunum taki allt lengri tíma en heima á Íslandi. „Þegar maður tekur að sér verkefni í þessum hluta heimsins tekur það marga mánuði í undirbúningi. Þetta er ekki eins og heima þar sem allt er tiltölulega auðvelt í framkvæmd.“ Stefán getur þó ekki sagt ítarlega frá neinum verkefnum eins og stendur. „Þegar maður er að vinna og þróa verkefni með öðrum fyrirtækjum skrifar maður undir algjöran trúnað. Það er gert vegna þess að samkeppnin á markaðnum er gríðarlega mikil,“ útskýrir Stefán sem segir þetta hafa verið pínulítið erfitt fyrir Íslending að venjast. „Komandi frá Íslandi þar sem maður segir fólki frá því sem er að gerast í lífi manns er þetta pínu skrítið en ég skil þetta þegar ég lít á stóra samhengið,“ segir hann og viðurkennir að á teikniborðinu sé eitt mjög stórt verkefni. „Það eru 6-9 mánuðir og nokkrar skrifstofuhæðir þar til ég get tjáð mig meira um það,“ útskýrir Stefán sem gefur ekkert meira upp um verkefnið. „Það borgar sig ekki að tala um hlutina fyrr en þeir eru orðnir skotheldir.“ Svartur húmor og spilling Stefán leikur aðalhlutverkið í nýrri íslenskri kvikmynd sem ber nafnið Kurteist fólk. „Þetta er gamanmynd með raunverulegu ívafi sem er byggð lauslega á sönnum atburðum,“ útskýrir Stefán sem er virkilega ánægður með útkomuna. „Myndin fjallar um raunveruleika sem við öll þekkjum og mér finnst Ólafi leikstjóra hafa tekist frábærlega vel að lýsa íslenskum smáplássum á húmorískan hátt,“ segir hann og bætir við að húmorinn í myndinni sé oft og tíðum mjög svartur. „Þetta er svolítið háð á alla spillinguna og teng- ist mikið því sem hefur verið að gerast á Íslandi undanfarin ár,“ segir Stefán sem leikur frekar hlutlausan karakter í Kurteisu fólki. „Hann er mjög alvarlegur,“ útskýrir Stefán sem hefur verið þekktur fyrir grín og glens í gegnum tíðina. „Fólk hefur ekki séð mig leika svona áður, ég er ekki einu sinni með grettur í myndinni,“ segir Stefán sem var rosalega ánægður með samleikara sína í myndinni og þá sérstaklega Eggert Þorleifsson sem fer með hlutverk bæjarstjórans. „Stundum ætlaði ég varla að geta leikið á móti honum því ég hló svo mikið,“ segir Stefán og bætir við að honum hafi fundist virkilega gaman að koma til Íslands og vinna. „Mér finnst algjörlega frábært að koma til Íslands að vinna,“ segir Stefán sem hefur unnið að mestu leyti í Bandaríkjunum undanfarin ár. Hann segir muninn í kvikmyndabransanum meiri en í leikhúsunum milli heimsálfanna. „Leikhús er alþjóðlegur vinnustaður. Leikarar, leikstjórar, ljósamenn og sviðstjórar eru eins alls staðar,“ útskýrir Stefán. „Það liggur við að þessir ættbálkar eigi sömu áhugamál,“ segir hann og bendir á að helsti munurinn felist í stéttarfélög- unum á Íslandi og úti. Hárkollan stórt vandamál „Þegar ég mæti til dæmis á sýningu fyrir Grinch get ég ekki farið í búninginn minn og úr honum nema að því komi fjórar deildir og fjögur mis- munandi stéttarfélög,“ útskýrir Stefán sem hefur leikið sjálfan Trölla um árabil í stórri uppfærslu vestanhafs. „Ég fer inn í búningsherbergi og þá taka hljóð- og búningadeild á móti mér. Það þarf að þræða hljóðnema inn í búninginn og á mig en búningadeildin má ekki snerta hljóðnemana og hljóðdeildin ekki búninginn,“ útskýrir hann og bendir á atvik sem átti sér stað í Kanada sem er gott dæmi um vesenið sem getur fylgt stéttarfé- lögunum. „Við vorum að fara að skemmta í beinni fyrir NBC-sjónvarpsstöðina og gleymdum hárkoll- unni minni í leikhúsinu,“ segir Stefán. „Ein úr hárkolludeildinni þurfti þá að fara í leikhúsið, opna það, kveikja ljósin og ná í hárkolluna,“ útskýrir hann og segir að einfalt atvik sem þetta hafi orðið að stóru máli. „Eftir þetta var hún kærð því ljósadeildin á að sjá um að kveikja ljósin í leikhúsinu. Sektin hljóðaði upp á fimmþúsund dollara,“ segir Stefán sem er orðinn öllu vanur eftir nokkur ár í bransanum þarna úti. „Fyrst fannst mér svona lagað skrítið en núna kippi ég mér ekki upp við þetta. Yfirleitt gengur allt líka eins og smurð vél,“ segir Stefán sem er orðinn mjög heimakær í Los Angeles þó heimþrá- in segi vissulega stundum til sín. Saknar helst sveitarinnar „Ég fæ miklu oftar heimþrá en konan, hún hefur ekki komið til Íslands í rúm fjögur ár,“ útskýrir Stefán sem segir heimþrána þó hafa aukist til muna í upptökunum á Kurteisu fólki í Búðardal. „Ég saknaði Íslands eiginlega ekkert fyrr en eftir að ég var í Búðardal,“ segir Stefán sem naut sín í sveitinni. „Þar var allt svo tært. Að sitja á verönd- inni, borða kleinur og hlusta á lóuna syngja eru hlutir sem maður fær ekki hérna úti þó hér sé allt stútfullt af fallegri náttúru,“ segir Stefán sem kann vel við sig í Los Angeles og virðist stefna á toppinn. „Við erum ekkert á leiðinni heim á næstunni.“ LATABÆJARÆVINTÝRIÐ Stefán Karl sló eftirminnilega í gegn sem Glanni glæpur og seinna Robbie Rotten í Latabæ. „Ég segi það í hreinskilni að ég verð aldrei þreyttur á að leika Glanna. Hann er karakter sem ég skapaði frá grunni og á þó ég eigi hann kannski ekki á pappírunum,“ segir Stefán sem lék Glanna fyrst í Þjóðleikhúsinu og síðan í 60 sjónvarpsþáttum. „Hann er hluti af mér,“ segir Stefán og þakkar velgengni sína að mörgu leyti Latabæjarævintýr- inu. „Þetta var frábær tími og þættirnir vöktu heimsathygli á mér og því sem ég hef fram að færa,“ segir Stefán en þættirnir voru sýndir í 140 löndum þegar mest var. „Ég finn þetta mjög sterkt hvar sem ég kem,“ segir Stefán. „Allir sem eiga börn þekkja Latabæ.“ w w w . k u r t e i s t f o l k . i s LÍKT VIÐ JIM CARREY „Jim Carrey er náttúrulega Stefán Karl Ameríku,“ segir Stefán í gríni en honum hefur oft verið líkt við bandaríska grínleikarann Jim Carrey. „Á Íslandi þykir svona samlíking voða hallærisleg en ég skil svo sem af hverju Bandaríkjamenn tala alltaf um þetta við mig í viðtölum,“ segir hann og bendir á þörf Bandaríkjamanna fyrir að flokka fólk. „Þeir þurfa að setja mann í hólf og líkja manni við einhvern annars ná þeir ekki utan um þetta,“ segir Stefán sem er ánægður með samlíkinguna enda sé Jim Carrey einn af hans uppáhaldsleikurum.

x

Monitor

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.