Monitor - 25.08.2011, Blaðsíða 14

Monitor - 25.08.2011, Blaðsíða 14
14 Monitor FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 2011 Heyrir þú af fólki utan úr bæ sem horfir á þættina og fer að ráðum þínum? Já, ég hef meira að segja lent í því að vera úti í búð og þá kemur einhver upp að mér og spyr: „Heyrðu, ég var að spá, hvernig er þetta gert?“ og heldur þá á úrklippum eða ljósritum úr bók eftir mig. Að sama skapi hef ég fengið símhringingar heim þar sem verið er að spyrja um einhverjar uppskriftir. Mér finnst það æðislegt, ég svara fólki eða labba með þeim um búðina og sýni því hvað má nota í þennan rétt og svo framvegis. Fólk getur alltaf spurt mig, til þess er ég. Nú eyðir þú væntanlega mörgum stundum inni í eldhúsi með beitta hnífa í hendi. Hefur þú lent í einhverju slysi? Nei, ekki hnífaslysi – sjö, níu, þrettán. Ég hef hins vegar brennt mig á ofnum, pönnum og nánast raspað af mér nöglina. Nú er hins vegar týpískt að ég labbi héðan út og lendi í því að missa puttann eða eitthvað (hlær). Hver er skrýtnasti matur sem þú hefur smakk- að? Það er svolítið skrýtið að ég held að eina ástæðan fyrir að ég byrjaði að elda mat sem krakki er sú að ég er svolítill gikkur, eða eiginlega bara rosalegur gikkur, og borða ekki hvað sem er. Kannski þess vegna fór ég að gera þetta sjálf, því þá vissi ég nákvæmlega hvað var í matnum og hvernig hann var gerður. Þess vegna er skrýtnasti matur sem ég hef smakkað ekkert endilega skrýtinn fyrir öðrum og jafnvel er svarið mitt bara ómerkilegt. Ég held að ég hafi einu sinni smakkað froskalappir og mér fannst þær ekki góðar. Þú bættir síðan við sjónvarpsferilskrána með því að vera kynnirinn í Wipeout-þáttunum sem teknir voru upp í Argentínu. Hvernig var það? Það var náttúrlega æðislegt ævintýri og alveg rosalega skemmtilegt að vera hluti af svona stórri framleiðslu. Þetta var þegar kreppan var að skella á og þess vegna fussuðu margir og sveiuðu yfir því að eitthvað fyrirtæki væri að borga flugför og uppihald fyrir hundrað manns en ég hugsaði þetta öðruvísi. Ég hugsaði: Þetta fólk sem fer með verður svo ógeðslega ánægt og það kemur heim með jákvæðnisbombu inn í þjóðfélagið. Ég sá þetta líka fyrir mér þannig að ættingjar og vinir myndu horfa á vini og skyldmenni hlæja og fíflast í sjónvarpinu og þannig kæmi til þessi jákvæðnissprenging. Það er einmitt það sem mér finnst ég þurfa að skila af mér í gegnum það sem ég er að gera, jákvæðni, bros og gleði. Wipeout var einmitt gleðiverkefni. Varst þú valin sem kynnir vegna þess hve fær þú varst í brautinni sjálf? Jú, einmitt, það voru sendir nokkrir kynnar út til Argentínu í inntökupróf. Nei nei, ég var bara beðin um þetta en því miður prófaði ég hins vegar aldrei brautina. Ég var alltaf að nauða í þeim sem þarna réðu um að fá að prófa brautina en það gafst ekki tími auk þess sem hætta var á að ég myndi slasa mig. Það er ekkert mjög smart að vera með glóðarauga í útsendingu (hlær). Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að elda, skrifa um eldamennsku eða taka upp matreiðsluþátt? Ég er alltaf að plotta eitthvað. Undanfarin ár er ég náttúrlega búin að vera að vinna dálítið mikið, í október verð ég búin að senda frá mér þrjár bækur á tólf mánuðum og það er búið að vera hörkuvinna. Þess á milli er ég bara að leika við börnin mín og verja tíma með þéttum vin- kvennahópi og fjölskyldu. Ég hef gaman af útivist og fjallgöngum og er haldin dálítilli ævintýraþrá og ég sinni henni nú eitthvað í frítímanum, losa um hömlurnar. Mér finnst lífið líka vera þannig að maður má ekki tapa barninu í sjálfum sér. Mér finnst fátt skemmtilegra en að hoppa á tramp- ólíni með börnunum mínum. Ég er alltaf svo hrædd við það að verða fullorðin, mér finnst það eitthvað svo hræðilegt. Ég er alltaf svo mikið barn inni í mér og mig langar að halda því áfram. Eins og þú segir hefur þú verið iðin við kolann varðandi útgáfu á matreiðslubókum og –sjón- varpsþáttum. Er markmiðið að landa fálkaorðu fyrir framlag þitt til matarmenningar á Íslandi? Markmið mitt er að sýna fólki að það geta allir eldað. Þetta snýst ekki um að sýna hvað ég er klár í því að elda, heldur er ég að sýna fólki að það geti gert þetta sjálft heima. Ég vil hafa þetta það einfalt að fólk fái löngun til að prófa þetta heima og ég reyni þannig að hvetja fólk til þess að elda. Sagan segir að karlalandslið Íslands í knatt- spyrnu vanti brátt nýjan þjálfara. Þú værir kannski sterkur kandídat í það verkefni með þín hvetjandi markmið, eða hvað? Það er spurning hvort þeir myndu vilja ráða mig. Yrðu þeir ekki bara feitir? ÞETTA EÐA HITT? Skyrterta eða súkkulaðikaka? Súkkulaðikaka. Forréttur, aðalréttur eða eftirréttur? Eftirréttur. Léttir réttir eða Heimsréttir? Heimsréttir. Cheerios eða egg og beikon? Egg og beikon. Hvort vildir þú frekar missa allt bragð- og lyktarskyn eða ganga með auglýsingu á enninu það sem eftir er? Það fer nú eftir því hver auglýsingin væri, ef hún væri nógu góð eða kæmi fólki jafnvel til að hlæja þá væri það betri kostur en að missa allt bragð- og lyktarskyn. Það er ekkert mjög smart að vera með glóðarauga í útsendingu.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.