Monitor - 22.09.2011, Blaðsíða 12

Monitor - 22.09.2011, Blaðsíða 12
12 Monitor FIMMTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2011 Undanfarin misseri hefur lagið Little Talks með hljómsveitinni Of Monsters and Men verið á heila annars hvers manns hérlendis. Vinsældir lagsins hafa verið meiri en þau Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson þorðu að reikna með en lagið hefur verið leikið í útvarpi vestanhafs auk þess sem fjöldinn allur af notendum YouTube hefur sett á netið sínar eigin útgáfur af laginu. Ævintýri krakkanna í Of Monsters and Men hófst hins vegar fyrir einu og hálfu ári síðan með sigri í Músíktilraunum. Hvað var hljómsveitin Of Monsters and Men að gera áður en hún vann Músíktilraunir í fyrra? R Hún byrjaði sem sólóverkefni hjá Nönnu sem hét Songbird, þótt það sé reyndar bara eitt lag frá þeim tíma á plötunni okkar. Síðar komum við Brynjar inn í þetta. Fyrir Músíktilraunir vorum við bara að spila slatta, spiluð- um á Airwaves 2009 á Trúbatrix-kvöldi. N Já, þá vorum við miklu lágstemmd- ari með klukkuspil og eitthvað. Ég kynntist Brynjari gítarleikara í skóla en við Raggi kynntumst í gegnum kærastann minn. Af hverju ákváðuð þið að taka þátt í Músíktilraunum? R Okkur langaði bara að gera eitthvað, við ákváðum þetta með mjög stuttum fyrirvara. N Já, alveg á seinustu stundu. R Þá bættum við honum Arnari við, til að spila á slagverk og syngja bakraddir. N Já, ég man samt eftir tímabili þar sem ég hugsaði alveg að við ættum að bíða með þetta í eitt ár en í dag er ég mjög fegin að við skyldum ekki gera það. Stundum er talað um að hljómsveitir sem vinna Músíktilraunir þurfi síðan að hrista af sér einhvers konar Mús- íktilraunastimpil. Eruð þið upptekin af slíku? R Ég hef aldrei pælt í því. Ég held að stimpillinn sé góður. N Það að vinna þessa keppni gerði okkur mjög gott og gerir hljómsveitum mjög gott. Við viljum ekkert losna við hann, erum bara mjög ánægð með að hafa unnið þetta. R Nákvæmlega. Ég held samt líka að það að við biðum dálítið með að gefa út plötu hafi orðið til þess að fólk sér okkur alls ekkert bara sem einhverja Músíktilraunahljómsveit, heldur bara hljómsveit sem hefur verið að spila helling. Þegar þið unnuð Músíktilraunir voruð þið bara fjögur í hljómsveitinni. Hvers vegna bættust tveir við eftir það? R Við vildum bara gera þetta stærra, stækka hljóminn. Arnar langaði að spila á trommur svo við færðum hann yfir á það og þá þurftum við bassa- leikara. Í staðinn fyrir melódikku og klukkuspil, sem höfðu áður verið, þá fengum við harmonikku- og píanóleik- ara saman í einum manni. N Svo erum við stundum með trompetleikara líka. R Þetta var bara rétt þróun, lögin kölluðu á stærri hljómsveit. Um hvað eru lög hljómsveitarinnar? N Öll lögin eru einhverjar sögur. R Þetta eru allt einhverjar sögur sem við búum til, einhver ævintýri, eða sögur sem við finnum á netinu og vinnum með þegar við búum til texta. Það eru einhverjar skrýtnar sögur sem leynast lengst inni í internetinu sem við finnum á einhverjum skrýtnum síðum. N Þetta er allt saman mjög dularfullt. Þið syngið á ensku, hvers vegna er það? N Það var einhvern tímann pæling hjá okkur að gera íslenskt lag en það einhvern veginn gerðist aldrei. R Það er ekki það að við tölum mikla ensku eða að við séum eitthvað sérstaklega góð í henni, þetta gerist bara. Ég held líka að innst inni sé þetta sú hugsun að búa til tónlist fyrir stærri markað. Er það ekki? N Jú, ætli við viljum það ekki. Nafn hljómsveitarinnar hljómar eins og vísun í bókatitilinn Of Mice and Men. Kom aldrei til greina að nefna hljómsveitina Of Monster Sandmen, sem hljómar alveg eins? N (hlær) Við höfum heyrt þetta áður. R Ég sé þetta nafn einmitt alltaf þegar ég skrifa netfangið okkar, ofmonsters- andmenmusic@gmail.com. Það er samt mjög kúl, minnir á Metallica og eitthvað. N Það hefði verið kúl nafn og við ræddum það ítarlega en við ákváðum á fundi að nota það ekki. Lagið Little Talks hefur fengið frábær- ar viðtökur síðustu mánuði. Er þetta ykkar uppáhaldslag? N Nei, en það er ótrúlega gaman að sjá hvað fólk tekur vel í það, sér- staklega nýlega, og tekur vel undir á tónleikum. R Það er ótrúlega gaman. Þetta er ekk- ert uppáhaldslagið manns í heiminum, en það er rosa gaman að spila og semja það. Við hlustum almennt ekki mikið á okkar tónlist. Þegar þið sömduð lagið Little Talks, grunaði ykkur strax að þetta væri lag sem yrði spilað á milljón í útvarpi, til dæmis á FM957? N Við bjuggumst einmitt ekki við því af öllu. R Nei, en ég skil það alveg svo sem. Ég var samt alls ekki einu sinni viss um að þetta kæmist inn á X-ið, ég hugsaði að þetta væri kannski svona Rásar 2-lag. N Svo var líka mjög óvænt að sjá fólk frá útlöndum vera að „covera“ lagið og setja myndbönd af því á YouTube. Það er alltaf jafnfyndið. Náið þið nú til breiðari hóps af fólki eftir að lagið sló í gegn? N Já, það er miklu breiðari hópur byrjaður að mæta á tónleika. R Já, svo erum við búin að spila fyrir börn. N Síðan vorum við að spila í brúð- kaupi og það voru áttræðar ömmur sem voru dansandi við tónlistina okkar. Það er mjög gaman. Bandaríska útvarpsstöðin KEXP tók upp myndband með ykkur í kringum Airwaves í fyrra þar sem þið fluttuð Little Talks. Síðan hafa rúmlega 208.000 manns horft á þetta mynd- band. Tókuð þið tímabil þar sem þið láguð yfir YouTube og fylgdust með áhorfinu rjúka upp? R Já, þetta var orðin einhvers konar fíkn og við töluðum alveg um að nú þyrftum við að hætta þessu. N Þetta var alveg rosalegt en ég hef ekki gert það í marga mánuði núna. R Lagið er hins vegar núna komið á einhvern vinsældarlista á útvarpstöð úti í Philadelphia og situr þar í 26. sæti og eftir það byrjaði áhorfið á YouTube að rjúka aftur upp. Fyrir mjög stuttu var það sem sagt bara í 198.000 en svo rauk það upp í 208.000 um daginn. N (hlær) Geðveikt nákvæmar tölur. Þið eruð með bandarískan umboðs- mann. Kom það til vegna þessa myndbands? N Nei, það gerðist bara stuttu eftir Músíktilraunir. Maðurinn hennar er íslenskur og hann sá okkur á tónleik- um og benti henni á okkur. Hún kom til Íslands og sendi okkur tölvupóst þannig að við héldum tónleika fyrir hana, töluðum við hana eftir það og úr varð að hún gerðist umboðsmaður okkar. v ið ta lið Texti: Einar Lövdahl einar@monitor.is Myndir: Eggert Jóhannesson eggert@mbl.is Já, þetta var orðin einhvers konar fíkn og við töluðum alveg um að nú þyrftum við að hætta þessu. NANNA Fyrstu sex: 060589. Uppáhaldsmatur: Kjúklingur. Uppáhaldsstaður í heiminum: New York.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.