Morgunblaðið - 03.04.2010, Síða 20
20 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. APRÍL 2010
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
ADOLF Guðmundsson, formaður
Landssambands íslenskra útvegs-
manna, segir að trúnaðarbrestur
hafi orðið milli stjórnvalda og út-
vegsmanna þegar sjávarútvegs-
ráðherra lagði fram frumvarp um
breytingar á lögum um stjórn fisk-
veiða sem meðal annars heimilar
sölu á auknum kvóta í skötusel. Það
hafi verið gert þrátt fyrir loforð for-
ystumanna ríkisstjórnarinnar um að
þetta mál yrði tekið til umræðu í
endurskoðunarnefnd fulltrúa stjórn-
málaflokka og hagsmunasamtaka í
sjávarútvegi.
Formaður og framkvæmdastjóri
LÍÚ tóku þátt í starfi endurskoð-
unarnefndarinnar í upphafi starfs
hennar á síðasta ári. „Það lá fyrir að
við vorum á móti svokallaðri innköll-
unar- og fyrningarleið og áður en við
tókum sæti í nefndinni fengum við
loforð um að skötuselsfrumvarpið
yrði rætt þar.“
- Hver lofaði því?
„Jón Bjarnason sjávarútvegs-
ráðherra gerði það. Áður en erind-
isbréf nefndarinnar var sent út fóru
fram samskipti um efni þess sem að
lokum var samþykkt af forsætis- og
fjármálaráðherra.
Við fengum loforð um að þessi
mál yrðu rædd í nefndinni sem falið
var það hlutverk að fara yfir fisk-
veiðistjórnarkerfið í heild og að
reynt yrði að leiða það til lykta þar.
Það var ekki gert. Með framlagn-
ingu frumvarps um breytingar á
stjórn fiskveiða, skötuselsfrumvarp-
inu, varð trúnaðarbrestur á milli
okkar og stjórnvalda. Það gengur
ekki að gefa út yfirlýsingar um að
ræða eigi málið í nefndinni en leggja
síðan fram frumvarp um breytingar
á því.“
Skötuselsfrumvarpið ekki rætt
Formaður og framkvæmdastjóri
LÍÚ sátu fyrstu þrjá fundi nefnd-
arinnar og segir Adolf að þeir hafi
tekið þátt í starfinu af heilindum.
Þeir hafi lagt skýrslu endurskoð-
unarfyrirtækisins Deloitte fram á
fyrsta fundi nefndarinnar og talið
sig sýna fram á það að fyrning-
arleiðin væri ekki fær. Segir hann að
þá hafi komið fram að tíu fulltrúar í
nefndinni voru andvígir innköllunar-
og fyrningarleiðinni. Síðan hafi
raunar fækkað um einn því afstaða
fulltrúa Landssambands smábáta-
eigenda hafi breyst. „Það hefur
komið í ljós að líklega hefur verið
gert samkomulag á milli Lands-
sambands smábátaeigenda og rík-
isvaldsins um að landssambandið
myndi styðja svokallað skötusels-
frumvarp ef strandveiðar yrðu
heimilaðar.“
Adolf segir að ekki hafi fengist
nein umræða í nefndinni um skýrslu
Deloitte eða skötuselsfrumvarpið.
Hann bendir á að Háskólanum á Ak-
ureyri hafi verið falið að skoða ýmis
atriði en engin gögn verið lögð fram
um þá vinnu.
Fulltrúar útvegsmanna hættu að
sækja fundi nefndarinnar í nóv-
ember eftir að sjávarútvegsráðherra
lagði fram frumvarp til breytinga á
fiskveiðistjórnuninni, til þess að laga
ýmsa smærri ágalla á löggjöfinni,
eins og hann orðaði það. Þessi ljóti
fiskur, skötuselurinn, hefur haft víð-
tækari áhrif því í síðustu viku, þegar
frumvarpið varð að lögum, sögðu
Samtök atvinnulífsins sig frá sam-
vinnu við ríkisvaldið um svokallaðan
stöðugleikasáttamála en tiltóku
fleiri vanefndir af hálfu ríkisins.
Adolf tekur fram að gerðar hafi
verið margar tilraunir til að koma
málinu í sáttafarveg og nefnir meðal
annars fundi með forystumönnum
ríkisstjórnarinnar um það efni.
Forsendur aflamarkskerfisins
- Getur þú ekki fallist á þau rök
sjávarútvegsráðherra að breyta
þurfi úthlutun skötuselskvóta vegna
þess að fiskurinn hafi numið ný lönd
við vesturströnd landsins?
„Þetta mál snýst ekki um nokkur
tonn af skötusel. Það snýst um for-
sendur aflamarkskerfisins sem hef-
ur verið notað frá 1983. Við teljum
að ef hægt er að auka kvótann þá
eigi að úthluta honum til þeirra
skipa sem hafa aflahlutdeild.
Það er ekkert sem kallar á
breytta úthlutun kvóta þótt skötu-
selurinn hafi fært sig til. Við höfum
séð slíkar breytingar á síld, ýsu,
gulllaxi, humri og fleiri tegundum
án þess að úthlutun kvóta væri
breytt.
Grásleppukarlar við Breiðafjörð
hafa verið að fá skötusel. Á öðrum
veiðum þurfa menn að eiga kvóta
fyrir þeim fiski sem kemur í veið-
arfærin eða geta útvegað sér hann.
Annars geta þeir ekki veitt. Það
sama á að gilda um grásleppukarla
við Breiðafjörð. Ég fæ ekki séð að
það sé brýn ástæða til að breyta lög-
unum vegna þess. Þá hefði verið
hægt að koma til móts við þá með
öðrum hætti, til dæmis með því að
heimila þeim að landa skötuselnum
út á svokallaðan Hafró-kvóta. Þá
væri ekki hvati til að stunda skötu-
selsveiðar en sjómennirnir fengju
upp í kostnað.“
Adolf bætir því við að lögin heimili
sjávarútvegsráðherra að úthluta allt
að 2.000 tonnum til viðbótar 2.500
tonna kvóta sem úthlutað var fyrir
yfirstandandi fiskveiðiár samkvæmt
veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofn-
unarinnar. „Það hafa engar nýjar
upplýsingar komið frá Hafró um að
þetta sé mögulegt. Svo miklar veið-
ar umfram ráðgjöf vísindamanna
eru slæmar fyrir orðspor Íslend-
inga, þótt skötuselurinn sé ekki stór
í þeirri mynd. Við erum að vinna að
umhverfismerkingum og vottun um
sjálfbærni veiða. Þetta er ekki gott
innlegg í þá umræðu á alþjóðlegum
mörkuðum.“
Við erum ekki til sölu
- Því hefur verið haldið fram að
forystumenn útvegsmanna hafi sleg-
ið á útrétta sáttahönd stjórnvalda.
Hver var þessi sáttahönd?
„Það var orðað á fundi með sjáv-
arútvegsráðherra að útvegsfyr-
irtæki með aflahlutdeild fengju 500
tonna viðbót við skötuselskvóta og
aðeins yrðu boðin upp 500 tonn til
viðbótar. Við svöruðum því þannig
að þetta væri grundvallaratriði í
okkar huga og við værum ekki til
sölu.“
- Þetta er heimildarákvæði og
ráðherra hefur lýst því yfir að það
verði nýtt hóflega. Treystið þið því
ekki?
„Við höfum enga vissu fyrir því að
stjórnmálamenn standi við það sem
þeir segja. Við erum með skriflegar
yfirlýsingar um að þessi mál eigi að
vera í allt öðrum farvegi. Þær undir-
skriftir halda ekki. Hvers vegna
ættu þá ummæli ráðherra eða ein-
hverra þingmanna frekar að halda?“
Vísar Adolf einnig til ályktunar
flokksstjórnar Samfylkingarinnar
frá því í nóvember, um að bjóða eigi
upp alla aukningu aflaheimilda og
ummæli varaformanns sjáv-
arútvegsnefndar Alþingis sama efn-
is. „Þetta er vísbending um það sem
koma skal. Þingmenn hafa lýst
þeirri skoðun sinni að með skötu-
selslögunum sé komið gat á kvóta-
kerfið og þannig sé hægt að brjóta
það innan frá.“
Framsal verði heft
„Við höfðum engin loforð um nið-
urstöðu nefndarinnar enda ekki til
slíks ætlast. Við gerðum okkur líka
grein fyrir því að við yrðum að sætta
okkur við það hvernig ráðherrarnir
færu með niðurstöðuna. Við höfum
smám saman fengið það meira á til-
finninguna að það eigi ekkert að
gera með þetta nefndarstarf. Að nið-
urstaðan sé fyrirfram fengin.“
- Eru útvegsmenn ekki tilbúnir að
ræða neinar breytingar á kvótakerf-
inu?
„Jú, við höfum alltaf sagt að ým-
islegt mætti laga og koma til móts
við gagnrýni sem að því hefur
beinst. Mest hefur verið rætt um
frjálst framsal aflaheimilda. LÍÚ og
þrenn samtök sjómanna lögðu á sín-
um tíma fram tillögur um verulega
heft framsal aflaheimilda. Þær felast
í því að gert verði að skyldu að veiða
að minnsta kosti 80% úthlutaðra
aflaheimilda hvers skips á ári. Það
þýðir að útgerðarmenn verða sjálfir
að nýta þær heimildir sem þeir hafa.
Ramminn má þó ekki vera of
þröngur. Við teljum nauðsynlegt að
menn hafi heimildir til að framselja
aflaheimildir og leigja. Ekki er alltaf
hægt að leigja á jöfnum ígildum,
stundum þarf útgerð að leigja frá
sér fyrir peninga og kaupa í staðinn
af öðrum fyrir peninga.
Stjórnmálamenn hafa ekki léð
máls á þessum breytingum.“
Athygli dregin frá mikilvægari
málum ríkisstjórnarinnar
- Hver er staða og framtíðar-
horfur útgerðarfyrirtækjanna nú
þegar stjórnvöld stefna að innköllun
aflaheimilda?
„Umræðan um fyrningarleiðina
hefur sett alla framþróun í biðstöðu.
Það hefur verið reiknað út að með-
alfyrirtækið verði komið í þrot eftir
fjögur eða fimm ár.“
Adolf segir að uppbygging upp-
sjávarvinnslu HB Granda á Vopna-
firði sé eina stóra fjárfestingin sem
hann viti um auk smíði skipa fyrir
Ísfélag Vestmannaeyja í Chile.
Fram hefur komið hjá útgerð-
arstjóra Ísfélagsins að til skoðunar
hefur verið að selja annað skipið eða
bæði vegna umræðu um fyrningu
aflaheimilda og óvissu í sjávar-
útvegi. „Ef sjávarútvegurinn á að
hjálpa okkur að komast út úr þeirri
stöðu sem þjóðin er komin í verður
að vera hægt að horfa fram á veg-
inn,“ segir Adolf.
- Er ekki rétt að leysa deilumálin
með þjóðaratkvæðagreiðslu um
kvótakerfið, eins og forsætisráð-
herra hefur nefnt?
„Það er ekki óeðlilegt að þjóðin
fái að greiða atkvæði um fisk-
veiðistjórnunarkerfið. Það er þó lág-
marks krafa að skýrir kostir séu
uppi á borðinu, að fólk viti hvað eigi
að kjósa um, hvaða afleiðingar það
hafi fyrir samfélagið og hvað eigi að
taka við.
Mér finnst það lýsa mál-
efnafátækt að slá þessu fram á þann
hátt sem Dagur B. Eggertsson,
varaformaður Samfylkingarinnar,
gerði í útvarpsviðtali um síðustu
helgi, að annaðhvort færu útvegs-
menn í endurskoðunarnefndina eða
kosið yrði um fiskveiðistjórn-
unarkerfið. Það er ekki vænlegt til
árangurs að setja mönnum af-
arkosti. Mér finnst þetta lýsa því að
menn séu að skapa óánægju og eitt
stríðið í viðbót til að draga athyglina
frá þeim málum sem brenna á rík-
isstjórninni. Hún þarf að fást við
miklu mikilvægari mál, það er að
koma atvinnulífinu og heimilunum
aftur í gang,“ segir Adolf.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Formaður Adolf Guðmundsson, útgerðarmaður á Seyðisfirði, hefur ekki átt náðuga daga í embætti formanns útvegsmanna.
Trúnaðarbrestur vegna
frumvarps um skötusel
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segir að skötuselsmálið snúist um forsendur aflamarkskerfisins
Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi svikið loforð um meðferð málsins Engin framþróun vegna umræðu
um innköllun aflaheimilda Ríkisstjórnin að draga athyglina frá vandræðum vegna mikilvægari mála
10.05.2009 Ný ríkisstjórn ákveður að gera áætlun um innköllun og end-
urráðstöfun kvóta í áföngum, frá og með hausti 2010.
2.7.2009 Skipaður starfshópur um endurskoðun á stjórn fiskveiða.
2.10.2009 Endurskoðunarnefndin kemur saman til fyrsta fundar.
10.11.2009 Sjávarútvegsráðherra leggur fram „skötuselsfrumvarp“.
13.11.2009 Fulltrúar LÍÚ hætta að mæta á fundum nefndarinnar.
22.3.2010 „Skötuselslög“ samþykkt sem lög frá Alþingi.
22.3.2010 Samtök atvinnulífsins segja sig frá stöðugleikasáttamála.
31.3.2010 Gefin út reglugerð um úthlutun viðbótarkvóta í skötusel.
Skötuselur og fyrning