Morgunblaðið - 22.04.2010, Blaðsíða 18
18 FréttirERLENT
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. APRÍL 2010
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
ALLIR stærstu flugvellir Evrópu
voru opnaðir að nýju í gær, tæpri
viku eftir að gjóskuskýið vegna eld-
gossins í Eyjafjallajökli olli mestu
röskun á flugumferð í álfunni frá síð-
ari heimsstyrjöldinni.
Evrópska flugstjórnarstofnunin
Eurocontrol sagði að gert væri ráð
fyrir því að aðeins um 25% áætlunar-
ferðanna hefði verið aflýst í gær.
Áætlað var að um 21.000 flugferðir
hefðu verið farnar í Evrópu í gær, en
þær hafa yfirleitt verið um 28.000.
95.000 flugferðum aflýst
Alls var um 95.000 flugferðum af-
lýst í álfunni vegna gjóskuskýsins, að
sögn fréttavefjar breska ríkis-
útvarpsins, BBC. Öskumökkurinn
raskaði því ferðaáætlunum milljóna
manna og Alþjóðasamtök flugfélaga,
IATA, segja að þegar röskunin á
flugumferðinni var mest hafi hún
kostað félögin 400 milljónir dollara á
dag, eða sem svarar rúmum 50 millj-
örðum króna. Samtökin áætla að tjón
flugfélaganna vegna aflýstra ferða
frá því á fimmtudaginn var nemi alls
1,7 milljörðum dollara, jafnvirði nær
220 milljarða króna.
Siim Kallas, sem fer með sam-
göngumál í framkvæmdastjórn Evr-
ópusambandsins, neitaði því að yfir-
völd hefðu dregið það of lengi að
bregðast við kröfum um að lofthelgi
Evrópuríkjanna yrði opnuð á ný.
Hann lagði áherslu á að líf flug-
farþega væri í húfi.
Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO)
kvaðst ætla að beita sér fyrir nýjum
reglum um hvenær banna ætti flug
vegna hættunnar sem flugvélum gæti
stafað af gjóskuskýjum. Stjórnvöld í
einstökum ríkjum myndu þó eftir
sem áður ákveða hvenær loka ætti
lofthelgi þeirra af öryggisástæðum.
Víða voru enn tafir á fluginu í gær
en evrópska flugstjórnarstofnunin
kvaðst vera vongóð um að flug-
umferðin kæmist að mestu í eðlilegt
horf í dag.
Langar biðraðir mynduðust á
nokkrum af helstu flugvöllum Evr-
ópu, meðal annars í París, Frankfurt
og Madríd. Flugfarþegar fögnuðu
ákaft þegar flugið hófst að nýju, enda
voru margir þeirra orðnir þreyttir á
biðinni eftir að hafa verið stranda-
glópar í marga daga.
Lofthelgi Bretlands var opnuð að
nýju frá klukkan 22 að staðartíma í
fyrrakvöld. Öll lofthelgi Þýskalands
var opnuð fyrir flugumferð í gær og
Lufthansa, sem flytur fleiri farþega
en nokkurt annað flugfélag í Evrópu,
sagði að áætlunarflug þess kæmist í
eðlilegt horf í dag. Air France kvaðst
hafa hafið flug á öllum áætl-
unarleiðum flugfélagsins.
Flugvöllurinn í Helsinki var enn
lokaður í gær og lofthelginni yfir
Orkneyjum og Hjaltlandi var lokað
að nýju vegna gjóskuskýsins. Loft-
helgi Noregs, Danmerkur og Sví-
þjóðar var hins vegar opnuð fyrir allri
flugumferð. SAS sagði að um 25%
áætlunarferða flugfélagsins yrði af-
lýst í dag en starfsemi þess kæmist í
eðlilegt horf á morgun.
Flugumferð að komast í eðlilegt horf
Flugvellir í Evrópu opnaðir að nýju
Tjón flugfélaga nam 220 milljörðum
Reuters
Fögnuður Komufarþegar á alþjóðaflugvelli Manchesterborgar fagna eftir nokkurra daga bið eftir heimflugi.
LEIÐTOGAR „Rauðstakkanna“, sem efnt hafa til mótmæla gegn stjórn-
völdum í Taílandi, neituðu í gær að hefja samningaviðræður við stjórnina
þrátt fyrir viðvaranir um að hervaldi yrði beitt til að binda enda á mótmæl-
in. Mótmælendur standa hér á vegartálma í Bangkok.
VIÐRÆÐUM HAFNAÐ
SKOÐANAKANNANIR
benda til þess að Bronislaw
Komorowski, forseti pólska
þingsins, fái flest atkvæði í
forsetakosningum sem fram
eiga að fara í Póllandi 20.
júní. Komorowski hefur
gegnt embætti forseta Pól-
lands til bráðabirgða eftir
andlát Lech Kaczynski í
flugslysi 10. þessa mánaðar.
Líklegt er talið að Jar-
oslaw Kaczynski, bróðir hins látna
forseta, verði forsetaefni íhalds-
flokksins PiS en það hefur ekki verið
staðfest. Gert er ráð fyrir því að for-
setaefni flokksins verði valið á
laugardaginn kemur.
Pólska dagblaðið Rzeczpospolita
birti í gær könnun sem bendir til
þess að 49% myndu kjósa Komo-
rowski og 26% Kaczynski ef sá síð-
arnefndi yrði í framboði í
kosningunum.
Fyrr í vikunni birti dag-
blaðið Fakt könnun sem
bendir til þess að þing-
forsetinn myndi gjörsigra
Kaczynski með 55% at-
kvæða gegn 32%. Fái eng-
inn meira en 50% atkvæða í
kosningunum 20. júní verð-
ur kosið á milli tveggja
efstu forsetaefnanna 4. júlí.
Komorowski er 57 ára og forseta-
efni frjálslynda flokksins Borg-
aravettvangs (PO).
Waldemar Pawlak, efnahags-
ráðherra og fyrrverandi forsætis-
ráðherra, verður í framboði fyrir
bændaflokkinn PSL, en skoð-
anakannanir benda til þess að ólík-
legt sé að hann fái meira fylgi en
Komorowski eða Kaczynski.
Forseta pólska þingsins
spáð sigri í kosningum
Bronislaw
Komorowski
–– Meira fyrir lesendur
PANTAÐU AUGLÝSINGAPLÁSS
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105
kata@mbl.is
Eins og undanfarin ár gefur
Morgunblaðið út blað tileinkað
þessari vinsælu íþrótt.
Farið verður um víðan völl og
fróðlegar upplýsingar um liðin sem
leika sumarið 2010.
Þetta er blaðið sem íþróttaunn-
endur geyma í allt sumar.
MEÐAL EFNIS:
Umfjöllun um öll 22 liðin
í Pepsí-deildum karla
og kvenna
Allir leikmenn,
leikjafjöldi og mörk
Sérfræðingar spá í
styrkleika liðanna
Allir leikdagar
sumarsins.
Ásamt öðru
spennandi efni
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
PÖNTUNARTÍMI AUGLÝSINGA:
Fyrir kl. 16, mánudaginn 3. maí.
Íslandsmótið í knattspyrnu
Pepsí-deildin bæði karla og kvennalið árið 2010