Morgunblaðið - 27.01.2011, Qupperneq 16
16 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. JANÚAR 2011
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í
stefnuræðu sinni í fyrrinótt að brýnt væri að
repúblikanar og demókratar tækju höndum
saman til að minnka fjárlagahallann og takast á
við ögrandi viðfangsefni sem landið stæði
frammi fyrir, m.a. vegna aukinnar samkeppni
landa á borð Kína.
„Reglurnar hafa breyst,“ sagði Obama og
bætti við að samkeppnisstaða Bandaríkjanna
hefði breyst vegna alþjóðavæðingar, mikilla
tækniframfara og efnahagsuppgangs í löndum
eins og Kína og Indlandi.
Forsetinn sagði að Bandaríkjamenn hefðu
misst mörg störf til annarra landa og þyrftu að
stöðva þá þróun með því að standa sig betur en
aðrar þjóðir í nýsköpun, fjárfestingum í tækni,
menntun og uppbyggingu á innviðum.
„Spútnik-stund okkar“
„Fyrir hálfri öld, þegar Sovétmenn skákuðu
okkur í geimnum með því að skjóta á loft gervi-
tungli sem nefndist Spútnik, vissum við ekki að
við yrðum á undan þeim til tunglsins,“ sagði
Obama. „En eftir að við fjárfestum í betri rann-
sóknum og menntun skákuðum við ekki aðeins
Sovétmönnum – við hleyptum af stað öldu ný-
sköpunar sem skapaði nýjar atvinnugreinar og
milljónir nýrra starfa. Þetta er Spútnik-stund
okkar kynslóðar.“
Fylgi Obama hefur aukist á síðustu vikum
og í ræðunni biðlaði hann einkum til óflokks-
bundinna miðjumanna sem geta ráðið úrslitum í
kosningunum á næsta ári. Forsetinn vék að fjár-
lagahalla Bandaríkjanna og lagði til að útgjöld
yrðu fryst í fimm ár að undanskildum fjárfest-
ingum í tækni, menntun og innviðum landsins.
Stjórnmálaskýrandi The New York Times
segir að í ræðunni hafi Obama lagt línurnar í
hugmyndafræðilegri baráttu demókrata og
repúblikana fyrir kosningarnar. Þótt flokkarnir
séu sammála um að minnka þurfi ríkisútgjöld
hafi þeir gerólík viðhorf til hlutverks ríkisvalds-
ins. Repúblikanar líti svo á að til að bæta sam-
keppnisstöðu Bandaríkjanna þurfi að lækka
skatta og draga úr afskiptum ríkisins af efna-
hagslífinu. Obama líti hins vegar svo á að ríkið
þurfi að gegna lykilhlutverki í því að bæta sam-
keppnisstöðuna, m.a. með fjárfestingum í tækni
og bættum samgöngum.
Stjórnmálaskýrandi The Washington Post
segir að hvorki forsetinn né leiðtogar repúblik-
ana á þinginu hafi lagt fram skýra áætlun um
hvernig fjölga eigi störfum á næstu misserum,
sem sé mikilvægasta verkefnið í augum kjós-
enda fyrir kosningarnar á næsta ári.
Áhersla lögð á nýsköpun og samstarf
Barack Obama segir í stefnuræðu að Bandaríkjamenn þurfi að styrkja samkeppnisstöðu sína
gagnvart Kína og fleiri ríkjum með auknum fjárfestingum í tækni, menntun og innviðum landsins
Reuters
Stefnuræða Barack Obama Bandaríkjaforseti tíundar stefnu sína í þinghúsinu í Washington.
Fjárfest í tækni
» Obama sagði í stefnuræð-
unni að Bandaríkjamenn þyrftu
meðal annars að fjárfesta í líf-
tæknifræðilegum rannsóknum,
upplýsingatækni og hreinni
orku.
» Stjórn Obama stefnir
meðal annars að því að um
milljón rafbíla komi á göturnar
í Bandaríkjunum á næstu fjór-
um árum.
» Stefnt er að því að hlutur
hreinna orkugjafa í almennri
orkunotkun í landinu verði
aukinn í 80% fyrir árið 2035.
» Forsetinn sagði að stjórn-
in hygðist fjárfesta í bættum
samgöngum, m.a. nýjum járn-
brautum fyrir hraðlestir.
» Stjórnin stefnir að því að
tryggja að 98% Bandaríkja-
manna hafi aðgang að há-
hraðanettengingu innan fimm
ára.
BAKSVIÐ
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Sprengjutilræðið á Domodedovo-
flugvelli í Moskvu á mánudag sýnir
að miklu meira þarf að gera til að
koma í veg fyrir hryðjuverk á flug-
völlum heimsins, að mati sérfræð-
inga í öryggismálum í flugsamgöng-
um. Þeir telja að yfirvöld hafi lagt
ofurkapp á að tryggja öryggi flugvéla
en vanmetið þörfina á því að vernda
farþega og aðra gesti á flugvöllunum.
Minnst 35 manns biðu bana og yfir
100 særðust í sprengingu nálægt far-
angursfæribandi á komusvæði flug-
vallarins í Moskvu eftir að hryðju-
verkamaður komst þangað með um
sjö kíló af TNT-sprengiefni. Talið er
að hryðjuverkasamtök frá Norður--
Kákasushéruðum hafi staðið fyrir til-
ræðinu.
Aðgangurinn takmarkaður
Rússnesk yfirvöld fyrirskipuðu
þegar í stað hert eftirlit með öllum
sem koma inn í flugstöðvarbyggingar
og farangri þeirra. Leitað verður á
öllum sem koma inn í byggingarnar,
ekki aðeins farþegum eftir að þeir
hafa verið innritaðir.
Aðgangur að flugstöðvarbygging-
um hefur verið takmarkaður á
nokkrum flugvöllum á síðustu árum.
Á sumum þeirra er aðeins farþegum
með farmiða leyft að fara inn í flug-
stöðvarbyggingarnar, í öðrum hefur
verið látið nægja að kanna skilríki
þeirra sem koma þangað inn.
Öryggisgæslan er ströngust á Ben
Gurion-flugvelli í Ísrael þar sem ör-
yggisverðir kanna skilríki við stein-
steyptan múr um níu metra frá inn-
gangi flugvallarins. Í Banda-
ríkjunum hafa yfirvöld stundum
reynt að takmarka aðganginn að
flugvöllum. Lögreglumenn hafa þá
stöðvað bíla til að skoða skilríki
þeirra sem fara á flugvallarsvæðið.
Slíkt eftirlit hefur valdið umferðar-
teppum og þessari aðferð hefur aðal-
lega verið beitt þegar öryggisviðbún-
aðurinn hefur verið aukinn vegna
upplýsinga um að hryðjuverk kunni
að vera yfirvofandi.
Blóðsúthellingarnar í Moskvu
gætu orðið til þess yfirvöld í fleiri
löndum gerðu ráðstafanir til þess að
takmarka aðgang að flughöfnum.
Hafa þarf í huga að tugir þúsunda
manna starfa á stærstu flugvöllun-
um, sem taka á móti allt að 50 millj-
ónum farþega á ári, og ljóst er því að
mjög erfitt yrði að tryggja öryggi
þeirra allra.
„Margir flugvellir galopnir“
Sérfræðingarnir segja að eftir
hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11.
september 2001 hafi yfirvöld í flest-
um löndum fjárfest í dýrum hátækni-
búnaði til að hindra að hryðjuverka-
menn komist inn í flugvélar til að
ræna þeim eða sprengja þær í loft
upp. Öryggi flugvalla sé hins vegar
enn ábótavant þótt þeir séu á meðal
dæmigerðra skotmarka hryðju-
verkamanna eins og opinberar
stjórnsýslubyggingar.
„Þetta er risastór gloppa í öryggis-
viðbúnaðinum,“ segir Philip Baum,
ritstjóri tímaritsins Aviation Secu-
rity International og bendir á að
hryðjuverkasamtök séu alltaf að
breyta aðferðum sínum til að koma
yfirvöldum í opna skjöldu. „Við höf-
um misst sjónar á stóru myndinni og
erum alltaf að takast á við hættuna
sem kom upp síðast, ekki hættuna
sem kemur næst. Við erum alltaf að
bregðast við vandanum eftir á.“
Chris Yates, breskur ráðgjafi í ör-
yggismálum, kveðst árum saman
hafa varað við því að öryggi flugvalla
hafi setið á hakanum. „Margir flug-
vellir eru galopnir þannig að hver
sem er getur gengið þangað inn og
sprengt sig í loft upp. Svo einfalt er
það,“ segir Yates.
Líklegt þykir að hryðjuverkasam-
tök notfæri sér þessa vankanta til að
valda sem mestu manntjóni.
Baum segir að fyrir blóðsúthell-
ingarnar í Moskvu á mánudag hafi 25
ár verið liðin frá síðustu mannskæðu
hryðjuverkunum á flugvöllum, eða
frá árásum palestínskra hryðju-
verkamanna á afgreiðsluborð ísr-
aelska flugfélagsins El Al á flugvöll-
um í Róm og Vín 27. desember 1985.
Nítján manns biðu bana og nær 140
særðust í árásunum.
Baum telur það ekki spurningu um
hvort heldur hvenær hryðjuverka-
menn hefji hrinu slíkra hryðjuverka
á flugvöllum að nýju.
Öryggi flugvalla sat á hakanum
Reuters
Sorg Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, minnist fórnarlamba hryðjuverksins við athöfn í kirkju í Moskvu. Þjóðarsorg ríkti í landinu í gær.
Sérfræðingar segja að yfirvöld hafi lagt ofurkapp á að hindra að hryðjuverkamenn kæmust inn í
flugvélar en vanrækt öryggi farþega á flugvöllum „Þetta er risastór gloppa í öryggisviðbúnaðinum“
Rússnesk blöð gagnrýndu í gær
frammistöðu yfirvalda í barátt-
unni gegn hryðjuverkum og
sögðu að lítið hefði áunnist.
Bent var á að hryðjuverk kost-
uðu 1.200 manns lífið í Rúss-
landi þegar Níkolaj Patrúshev
var yfirmaður öryggislögregl-
unnar FSB á árunum 1999-
2008. Nær 200 manns hafa lát-
ið lífið í hryðjuverkum frá því að
Alexander Bortníkov tók við af
Patrúshev sem er nú formaður
öryggisráðs stjórnvalda í Kreml.
Lítið áunnist
YFIRVÖLD GAGNRÝND