Morgunblaðið - 24.03.2011, Side 27

Morgunblaðið - 24.03.2011, Side 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. MARS 2011 Til er ljósmynd sem tekin var um miðjan sjötta áratug síðustu aldar og sýnir okkur frænkurnar í Hamarstíg 2 og Munkaþverár- stræti 3 ásamt Jóni og Hönnu. Á myndinni sitjum við í fallegum grasbolla í Munkaþverárstræti 3. Þetta var fallegur og sólríkur dagur og Jón og Hanna léku við okkur litlu frænkurnar allan dag- inn. Fóru með okkur í sund og í Lystigarðinn. Fyrsta minning mín um Jón frænda minn er á Skinnastað. Við mæðgur og amma Guðbjörg erum komnar þangað til að sitja brúðkaup Jóns og Hönnu kærustunnar hans. Það er ævintýri líkast að vera á Skinnastað. Þar eru geitur og svo á Hanna svo dæmalaust skemmtilega bræður. Brúðkaup- ið greypist í minningu lítillar stúlku sem það fallegasta sem hún hefur upplifað. Það var svo gaman að vera með Jóni og Hönnu. Bæði sögðu skemmtilega frá og einhvern veginn varð maður þátttakandi í ævintýrum þeirra. Þegar þau fóru til Kanada nokkrum árum seinna hélt ævintýrið áfram. Í bréfum og myndum sem frá þeim komu og sýndu líf þeirra og litla sæta Palla leið manni eins og maður væri þarna líka. En gam- an var þegar þau komu aftur heim til Íslands og nú var ekki vík milli vina því að þau voru flutt í Laufás og þangað var stutt að fara. Þangað voru allir boðnir vel- komnir og alltaf höfðu Jón og Hanna tíma til að tala við alla, börn, unglinga, gamalmenni. Samt voru þau störfum hlaðin. Að eiga Jón frænda að sem barn og unglingur var ómetan- legt, en að kynnast Jóni sem full- orðin var viðbótarupplifun. Þá kynntist ég friðarsinnanum, mannvininum og alvarlega þenkjandi hugsuði. Við Jón átt- um saman vikulanga dvöl í Berlín 1969. Sátum þing ICYE. Þessir dagar eru ógleymanlegir. Tekist var á um framtíðarstefnu ICYE og Jón var sáttasemjari um ým- islegt sem fundarmenn rifust um. Þar sá ég hve virtur og vel látinn hann var. Milli funda áttum við Jón skemmtilegar stundir, skoð- uðum bæði Vestur- og Austur- Berlín, sem þá var skipt upp með múr, fórum á kaffihús og í búðir að kaupa eitthvað fallegt handa Hönnu. Áfram hélt lífið og áfram hélt ævintýrið með Jóni og Hönnu. Þau voru alltaf ung og opin fyrir öllu. Til í endalausar samræður, opin fyrir nýjum straumum og nýjum menningarheimum. Þrátt fyrir áratuga erfiðan sjúkdóm hjá Jóni breyttist ekkert, áfram héldu þau að njóta lífsins eins og ekkert hefði ískorist og alltaf var Jón óbugaður. Sólskinsdagur á Akureyri 2009, þegar Hanna opnaði mál- verkasýningu sína og lesin voru ljóð Jóns, stendur upp úr í minn- ingum síðari ára. Þetta var ekta Jóns og Hönnu dagur, gleði og fögnuður. Andans veisla. Ein síð- asta minning mín um Jón frænda minn er úr afmælisveislu Öbbu í vetur. Þegar ég sá gleðina í svip Jóns rifjaðist upp sólskinsdagur- inn í grasbollanum á Akureyri forðum. Dásamlegur maður er geng- inn. Enginn hefur reynst mér betur og verið mér ráðhollari. Elsku Hönnu minni, Palla, Önnu, Páli og börnum eru þessar stund- ir erfiðar, en minningarnar ylja svo sannarlega. Það var gæfa að þekkja Jón Bjarman. Kristín Pálsdóttir. Deyr fé deyja frændr, deyr sjálfr ið sama; en orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getr. (Úr Hávamálum.) Taustur bakhjarl er fallinn frá. Jón var máttarstólpi fyrir fjöl- skyldu okkar. Hann var vandað- ur maður og til hans var gott að leita, bæði í gleði og sorg. Að leita í minningar um Jón frænda er auðvelt. Jón var móð- urbróðir og föðurímynd okkar. Fyrir mömmu hefur hann reynst besti bróðir. Hann var vinur í raun, hlýr, raungóður, kærleiks- ríkur og góð fyrirmynd. Heimili þeirra hjóna var athvarf fyrir okkur systkinin. Jón gerði ekki upp á milli manna, hann var lítillátur og ljúf- ur og kom fram við alla sem jafn- ingja. Ótal myndir koma fram í huga okkar er við minnumst hans; presturinn, bóndinn, rithöf- undurinn, gestgjafinn og síðast en ekki síst vinurinn. Jón ávítaði okkur ekki, ef honum mislíkaði eitthvað sem við gerðum, hann lét okkur vita af því og ræddi málin. Við minnumst jólanna sem við áttum í Laufási. Þau voru hátíð- leg og oft var byrjað á að fara í messu. Árin í Laufási eru okkur kær og voru þau mikilvægur upp- eldisþáttur í lífi okkar. Seinna meir þegar við urðum fullorðnar hélt Jón áfram að hafa mikil áhrif á heimspekilegar vangaveltur án þess þó að predika eitt yfir annað. Kæru Hanna, Palli og Anna, hugur okkar er hjá ykkur. Þar sem Jón er búinn að vera veikur í langan tíma viljum við segja að hann hafi ekki getað átt betri fjöl- skyldu en ykkur. Takk fyrir að eiga hann að. Sigrún, Guðbjörg, Arnbjörg og Guðrún Vignisdætur. Jón Bjarman er látinn. Í minn- ingu frænda og vinar. Sigur lífsins til ljóss og friðar býr í sálum vandaðra manna á þessari blíðu og stríðu vegferð okkar. Hér voru göfuglyndi, góð- vild og samhygð með öðrum að- alsmerki hans sem nú er horfinn sjónum okkar. Það er brotið blað – en dýrð ljómar í festingu himins í minningunni. Innilegar samúðarkveðjur til Hönnu og fjölskyldu frá okkur sonum mínum og fjölskyldum. Jenna Jensdóttir. Það er mér bæði ljúft og skylt að minnast sr. Jóns Bjarman og þakka fyrir ómetanlega vináttu, umhyggju og þjónustu í kirkju Krists. Sr. Jón var fjölmenntaður guðfræðingur, sem lagði sér- staka áherslu á sálgæslu, enda valdi hann sér störf samkvæmt því. Hann var fangaprestur í 16 ár og sjúkrahúsprestur í 12 ár. Leiðir okkar lágu saman í Reykjavík eftir að hann varð sér- þjónustuprestur. Sr. Jón gerðist leiðtogi okkar margra ungra guð- fræðinga og presta sem höfðu áhuga á sálgæslufræðum og var afar fús að miðla þekkingu og reynslu til okkar. Enda völdum við hann til að leiða fyrsta hand- leiðsluhóp presta, sem stofnaður var hér á höfuðborgarsvæðinu, sem hann gerði af mikilli fag- mennsku, áhuga og gleði. Sr. Jón Bjarman var braut- ryðjandi sem sérþjónustuprestur og var því fyrirmynd margra sem fóru inn á þá braut. Þegar sr. Jón hætti störfum á Landspítalanum kom hann til okkar í Hallgríms- kirkju og bauð fram krafta sína sem sjálfboðaliði. Hann starfaði með okkur nokkur misseri, hafði hugleiðingar á kyrrðarstundum, stýrði sorgarhópi, bauð upp á Biblíulestraröð og tók oft þátt í messuhaldi sunnudagsins, ómet- anleg þjónusta sem ég vil fyrir hönd Hallgrímskirkju þakka af heilum hug. Einnig þakka ég fyr- ir hönd Reykjavíkurprófasts- dæmis alla hans góðu þjónustu. Við hjónin hittum sr. Jón og Hönnu konu hans oft, bæði í sam- hengi safnaðarlífs Hallgríms- kirkju og á heimili þeirra. Sam- vistir við þau bæði hafa verið okkur einstaklega dýrmæt og gefandi. Við biðjum Guð að blessa, styrkja og hugga Hönnu og fjölskylduna á þessum tíma- mótum. Guð blessi minningu sr. Jóns Bjarman. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur. Í dag kveðjum við góðan dreng og félaga, séra Jón Bjarman. Hann var öldungurinn í hópi okk- ar sjúkrahúspresta, vitur og hjartahlýr vinur sem við mátum öll mikils og söknum. Jón var reynsluríkur og ráðagóður og bar ómælda ást til helgrar þjónustu. Nýju samstarfsfólki tók hann opn- um örmum og var jafnan fús að miðla af reynslubrunni sínum sem var djúpur og gefandi. Jón hafði góða nærveru, var fundvís á líðan annarra og miðlaði rósemi og trausti með tilætlunarlausu við- móti og áheyrn. Hann var for- dómalaus og trúr köllun sinni. Það var ekki hendingu háð að hann skyldi taka sér stöðu með þeim sem glímdu við erfiðustu viðfangs- efnin í lífi sínu. Þar mætti hann Kristi og hlýddi kalli hans sem fangaprestur og síðar sjúkrahús- prestur um langt árabil: „því sjúk- ur var ég og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín“. Ljóðmál léku Jóni á tungu og í eigin ljóðum opnaði hann fylgsni sálarinnar. Hann var næmur á það sem aldrei verður fyllilega tjáð en býr að baki alls sem er og fengum við að njóta þess með honum. Við minnumst líka með miklu þakk- læti þess vinarhugar sem mætti okkur öllum á heimili Jóns og Hönnu. Þar vorum við aufúsugest- ir og nutum höfðinglegra veitinga og þeirrar örlátu skemmtunar sem er fólgin í gleði þeirrar sígildu visku að maður er manns gaman. Hugur okkar er hjá Hönnu, Páli, Önnu og fjölskyldu sem mest hafa misst. Guð blessi minninguna um góðan dreng og huggi þá sem hryggðin slær. Bragi Skúlason, Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, Gunnar Rúnar Matthíasson, Ingileif Malmberg, Kjartan Örn Sig- urbjörnsson, Rósa Kristjáns- dóttir, Sigfinnur Þorleifsson og Vigfús Bjarni Albertsson. Einn mætasti prestur þjóð- kirkjunnar, sr. Jón Bjarman, hef- ur kvatt okkur eftir langa og dýr- mæta þjónustu. Sr. Jón hlaut í vöggugjöf heilsteypta skapgerð sem og góðar og fjölbreyttar gáf- ur, sem hann ræktaði vel og sótti margskonar þjálfun sem gerðu honum kleift að vinna sitt mikla ævistarf í náinni samvinnu við Hönnu konu sína en samfylgd þeirra varaði í nær sextíu ár. Þau áttu einn fallegasta hjúskap sem við höfum þekkt til sem var jafn- framt gjöf til okkar allra vina þeirra fjölmörgu um víða veröld. Hann hafði ríka skáldgáfu og lét eftir sig allmargar bækur, bæði ljóð í eigin bókum og í safnverk- um, einnig skáldverk, sjálfsævi- sögu og hugleiðingar. Bækur hans verða miklir vinir lesandans. Allur texti hans var með afbrigðum skýr og nærfærinn, athyglisgáfa hans var rík, hann var fagurkeri á ritað mál. Hann var afbragðs þýðandi eins og hann átti kyn til, sérstak- lega verða minnisstæðar þýðingar hans á færeyskum skáldverkum m.a. eftir Heinesen og einnig á bænabókum t.d. eftir Doberstein sem náði mikilli útbreiðslu og hin- ar ljóðrænu hugrenningar Car- oline Krook Stokkhólmsbiskups; Andardráttur umhyggjunnar. Sálgæsla sr. Jóns var frábær. Bæði hafði hann ítrekað sótt nám erlendis í þeim fræðum og svo hitt að næmi hans á fólk, hin virka hlustun hans og skilningur á mannlegu eðli skópu þær aðstæð- ur að sálgæsla hans var umvefj- andi og eflandi þeim sem nutu þjónustu hans, bæði sem sjúkra- húsprests, fangaprests og í starfi með ungu fólki. Hann var traustur maður og tryggur og ræktaði vel vináttu við fólk af öllum sviðum samfélagsins. Hann var friðflytjandi og leysti margskonar hnúta sem ella verða til skaða. Hann var heiðarlegur og kjarkmikill og tók iðulega stöðu með minnihlutanum, með þeim á jaðri samfélagsins og varð rödd þeirra í umræðunni. Það var afar gott að leita til hans enda var hann kallaður til ýmissa trúnaðarstarfa. Hann átti frumkvæði að góðum málum svo sem stofnun Alnæmis- samtakanna og sat í fjölmörgum nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og fleiri aðila. Samleið okkar með þeim Jóni og Hönnu hófst þegar á háskólaárunum fyrir rúmlega hálfri öld. Það var alltaf veisla að vera með þeim, bæði á heimilum þeirra sem öll voru einstaklega fal- leg og einnig í margskonar fé- lagsstarfi. Fyrir það viljum við þakka af alhug. Þau hjónin voru beinlínis sam- tvinnuð, efldu og studdu hvort ann- að. Það sást best í erfiðum veik- indum Jóns, hvernig Hanna bjó honum fagurt heimili á stofunni hans í hjúkrunarheimilinu í Sunnu- hlíð, hvernig hún gerði honum fært að sækja guðsþjónustur, tónleika og önnur mannamót til þess að halda reisn sinni og viðhalda hinu ríka lífi sem hann lifði þannig alla ævi. En Jón var jafnframt sjálfum sér nægur og átti djúpt samfélag við drottin sinn í lifandi trúarlífi sínu. Við kveðjum hann í innilegri þökk og virðingu. Veri hann góðum Guði falinn. Rannveig Sigurbjörnsdóttir, Bernharður Guðmundsson. Í dag kveðjum við kæran vin og bekkjarbróður, sr. Jón Bjarman. Það var með mikilli eftirvænt- ingu, blandinni kvíða og tilhlökkun, sem ég hóf nám í 4. bekk máladeild í Menntaskólanum á Akureyri haustið 1951. Þetta reyndist fá- mennur bekkur, aðeins 15 nemend- ur komin víðsvegar að af landinu. Svolítið sundurleitur hópur við fyrstu sýn. En við vorum fljót að kynnast og verða góðir félagar. Jón bar „höfuð og herðar“ yfir bekkjarsystkinin. Með mikið og hrokkið hár. Ekki fyrirferðarmikill í framkomu, svolítið eins og annars hugar, lét samt fátt fram hjá sér fara. Enginn námshestur á okkar mælikvarða en afburðanemandi ef um ritsmíðar var að ræða. Söng- maður með ágætum og alltaf tilbú- inn að leggja sitt af mörkum ef eitt- hvað þurfti að gera. Kennarar voru margir og góðir en misgóðir við að halda okkur við námsefnið. Dag nokkurn fór af stað merkileg blaðaútgáfa í sögutíma hjá ónefndum kennara. Bekkjar- blaðið Snepill hóf göngu sína. Það var ekki stórt að umfangi enda var því ætlað að fara heldur leynt. Í leiðara fyrsta tölublaðs skrifaði stofnandinn og ritstjórinn, Jón Bjarman, áskorun til okkar að vera nú dugleg við að koma með efni í blaðið. Að sjálfsögðu var það gert. Það lifnaði nú heldur betur yfir sögutímunum það sem eftir var vetrar. Enn þann dag í dag getum við skemmt okkur yfir Snepli, ekki síst „hneykslismáladálknum“. Þegar Jón byrjaði í 4. bekk MA var hann harðtrúlofaður, búinn að finna og festa sér Hönnu sína. „Nah, trúlofaður og ekki nema í 4. bekk,“ varð einum kennaranum að orði þegar hann frétti þetta. Hanna hefur frá fyrstu kynnum verið dáð og elskuð af okkur bekkjarsystk- inum Jóns, enda þau svo samstiga og samrýnd að alltaf var talað um Jón og Hönnu. Að öðrum ólöstuð- um þori ég að fullyrða að þau hafi verið duglegust að mæta á sam- komum bekkjarins. Nú síðustu ár- in hefur verið sárt að horfa upp á hvernig Parkinsonsveikin dró smám saman úr hreyfigetu Jóns og samtalshæfni. En þó að hann gæti illa tjáð sig og ekki gengið létu þau sig ekki vanta. Jón gerði sér lítið fyrir og varð fyrstur okkar til að ljúka embættis- prófi úr háskóla. Starfsferillinn varð langur og fjölbreyttur og hann skilaði góðu verki að leiðar- lokum. Leiðir okkar hjóna og Jóns og Hönnu lágu oft saman á ýmsum vettvangi og alltaf var jafngott að vera nálægt þeim og gaman að hitta þau. Hanna mín, engin orð fá lýst að- dáun minni á þér og þínum þætti í lífi Jóns. Þú gerðir honum kleift að njóta þess sem unnt var til hins síð- asta. Við Ingólfur þökkum fyrir all- ar góðu samverustundirnar og sendum þér og fjölskyldu ykkar innilegar samúðarkveðjur. Áslaug Eiríksdóttir. „Það er ekkert erfiðara en að bíða dauðans með fullri vitund.“ Þetta var eitt af því síðasta sem vinur minn Jón Bjarman sagði í mín eyru. Hann vissi um hvað hann var að tala. Æðruleysið var ríkur þáttur í fari Jóns. En ást hans á líf- inu var of mikil til þess að hann kæmist hjá því að óttast dauðann. Þannig fóru saman í honum óttinn og æðruleysið. Það er hvorki ein- falt mál að lifa eða deyja, síst af öllu þegar manneskjan er mikil. Hún var einmitt aðal Jóns. Jón Bjarman starfaði lengi sem fangaprestur og síðar sem sjúkra- húsprestur. Á sjúkrahúsum hafnar fólk af ýmsu tagi og lítið um það að segja. En fangelsin hýsa olnboga- börn samfélagsins. Ýmsum reynist erfitt að sýna þeim skilning og virð- ingu. Það vafðist hins vegar aldrei fyrir Jóni. Það gerði funinn í hjart- anu. Og hann vissi að við mann- anna börn getum svo sem sperrt bringuna hvert framan í annað. En að lokum deilum við engu nema smæð okkar frammi fyrir skapar- anum. Samkenndin, sem Jóni Bjarman var svo eðlislægt að sýna þeim er minna mega sín, kemur víða fram í ljóðum hans sem og í endurminningum hans „Af föngum og frjálsum mönnum“. Sú bók er hverjum manni holl lesning. Það er vor í lofti og styttist í bjartar nætur hér á norðurslóðum. Og björt er hún sólin sem skein fyrst við Jóni á sal í Menntaskól- anum á Akureyri forðum tíð og fylgdi honum síðan. Mikið jafnræði var með þeim hjónum, Jóni Bjarm- an og Hönnu Pálsdóttur, þótt þau væru um margt ólík. Og fögur var sú umhyggja er hún veitti honum þegar dimmdi að. Við fjölskyldan vottum Hönnu, börnum og barna- börnum okkar innilegustu samúð. Víst söknum við góðs drengs en óskum honum um leið fararheilla til betri heima. Pjetur Hafstein Lárusson. Guð veri í mínu blóði og í skilningi mínum Guð í munni mínum Guð veri í mínu auga hvert ég horfi því sem ég segi og boða Guð í mínu hjarta og í hugsun minni Guð veri við mín ævilok minni brottför héðan. Þannig kemst séra Jón Bjarman að orði í einu af fjölmörgum ljóðum sínum. Hér má bæði skynja ein- lægt traust hans til Drottins Guðs sem og hvernig hann vildi nota líf sitt og krafta með ástvinum sínum og samferðafólki og þeim sem hann var kallaður til að þjóna sem prest- ur. Bækur hans, ljóð, íhuganir og frásagnir tjá trú Jóns sem og skiln- ing og samúð og sterka réttlætis- kennd í garð þeirra sem þurfa að glíma við erfiðleika og raunir. Séra Jón Bjarman var sporgöngumaður sérþjónustu innan íslensku þjóð- kirkjunnar, æskulýðsfulltrúi og sjúkrahúsprestur en ekki síst þekktur fyrir þjónustu sína við fanga og gegndi trúnaðarstörfum á því sviði á erlendri grundu. Á átt- unda áratug síðustu aldar tók hann þátt í að móta tillögur að nýjum starfsháttum íslensku þjóðkirkj- unnar sem voru lagðar fram 1977. Erfitt reyndist að afla fylgis við þær tillögur á sínum tíma, svo rót- tækar sem þær þóttu, en þær hafa mótað margs konar breytingar í starfi og þjónustu þjóðkirkjunnar allt til þessa, m.a. áherslur á stór- aukið samstarf sókna. Var mjög áhugavert að ræða við séra Jón um þessa nefndarvinnu og sýn hans á þjónustu kirkjunnar, en hugsjón- ir hans hrifu alla sem honum kynntust. Séra Jón var hógvær í orðum og framkomu en þegar hann tók til máls lögðu allir við hlustir. Hann var áhrifamaður, óhræddur við að berjast hinni góðu baráttu, enda sagði hann: „Látum aldrei sannfæringu liggja í þagnargildi.“ Séra Jón Bjarman hafði næmt auga fyrir hinu fagra í náttúru, mannlífi og listum eins og ljóð hans bera glöggt vitni um. Í lífi og starfi og nú síðast í erf- iðum veikindum naut séra Jón ríkulega Hönnu konu sinnar, sem var honum verndarengill, ávallt til staðar. Guð helgi minninguna um séra Jón Bjarman og hans góðu störf og gefi Hönnu konu hans og fjöl- skyldu huggun og styrk. Jón Helgi Þórarinsson. Góð dómgreind og hugrekki finnst mér vera einkunnarorðin þegar Jón Bjarman er kvaddur. Það þarf góða dómgreind til þess að átta sig á því hvenær á að þegja og hvenær á að taka til máls og hugrekki til þess að láta til sín taka. Eins og svo margir ís- lenskir unglingar á löngu árabili kynntist ég séra Jóni Bjarman þegar hann var æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar og hafði umsjón með alþjóðlegum nemendaskipt- um á vegum stofnunarinnar. Jón boðaði mig til fundar við sig á Hótel KEA, spurði hvort ég vissi eitthvað um landið Brasilíu sem ég hafði sótt um að fara til. Ég sagði sem satt var að ég hefði bara lesið Brasilíufarana eftir Jó- hann Magnús Bjarnason. Ég líka, sagði séra Jón og brosti svo- lítið dularfullt, þess vegna ætla ég ekki að reyna að segja þér neitt, hafðu augu og eyru opin og trúðu engu fyrirfram, taktu menningu Rómönsku Ameríku inn á eigin forsendum. Þegar á hólminn var komið varð ég þessu veganesti feginn, að þurfa ekki að eyða stórum hluta dvalarinnar í að brjóta niður rammgerð vígi heimatilbúinnar heimsmyndar og fordóma. Jón Bjarman hafði næma tilfinningu fyrir stöðu Ís- lands í samfélagi þjóðanna. Hann vildi að við nýttum okkur þá sér- stöðu að vera Vestur-Evrópuþjóð sem aldrei hefði troðið illsakir við eða arðrænt aðrar þjóðir, til þess að byggja brú yfir til þróunar- landanna. Það hefur enginn ástæðu til þess að tortryggja okkur ef við fyllum ekki huga okkar af vestrænum hroka og setjum ekki á nefið gömul gler- augu gamalla heimsvelda. Séra Jón Bjarman var hollráður æsku- lýðsforingi í starfi sínu. Mörgum árum síðar lágu leiðir okkar Jóns Bjarman saman í stjórn Íslands- deildar Amnesty International. Þar kynntist ég manninum sem vissi hvenær ber að tjá sig á skýr- an hátt. Í starfi sínu sem fanga- prestur hafði hann upplifað ógöngur íslenskra yfirvalda við yfirheyrslur sakborninga í svo- kölluðu Geirfinnsmáli og honum ofbauð harkan. Séra Jón Bjarm- an hafði hugrekki til þess að vekja athygli alþjóðar á þessum vansæmandi aðferðum og hann hafði hugarró hins íhugula skálds til þess að gera það á alvarlegan og drengilegan máta. Þegar Parkinsonsveikin réðist að Jóni vissi ég að þótt henni tækist að leggja hann að velli myndi hún aldrei buga hann. Og það fær ekkert bugað samstöðu fólks eins og Jóns og Hönnu. Það er sama hvar litið er á sameiginlega veg- ferð þeirra. Jafnvel á síðasta áfanganum, þegar hann var kom- inn í hjólastól, voru þau hiklaus og glæsileg í samheldninni. Ég sendi Hönnu hughreystingar- kveðjur í erfiðri glímu við sökn- uðinn. Ævar Kjartansson.  Fleiri minningargreinar um Jón Bjarman bíða birt- ingar og munu birtast í blað- inu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.