Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.05.1947, Page 11
TÍMARIT V.F.Í. 1947
33
Þau þenslustykki, sem hér hefir verið lýst, þola
aðeins eða aðallega hreyfingu á langveginn. Auk
þeirra eru sumstaðar notaðir sveigjanlegar pípur úr
eirblöndu (Tombak), sem þola hliðarhreyfingu og
geta hlykkjað sig. Þær eru notaðar á mjóstu götu-
æðarnar og víða þar, sem heimæðar koma þvert á
götuæðar, þar sem hinar síðarnefndu eru ekki fastar,
heldur hreyfanlegar.
Götuæðarnar eru yfirleitt lagðar í aðrahvora gang-
stéttina. Þær heimæðar, sem fara þvert undir ak-
brautina til húsa hinumegin götunnar, eru lagðar í
steypurennu, og þessi renna er höfð það breið, að
heimæðin geti hreyfst í henni til hliðar eftir því, sem
götuæðin hreyfir sig. Hér þarf því ekki sveigjanleg-
ar Tombakpípur, en aðeins á þær heimæðar, sem
liggja til hinnar handarinnar, því þar er heimæðin
steypt föst í rennuvegginn.
Tombakpípurnar eru af tveim gerðum, önnur þolir
allt að 5 cm hliðarhreyfingu en hin 10 cm. Eru hin-
ar minni hafðar þar sem fjarlægð heimæðar frá
festu að götuæð er innan við 50 m, en hinar þar sem
f jarlægðin er 50—100 m.
Festur eru alls staðar þar, sem götuæðar mætast
eða breyta stefnu og auk þess með ca 100 m bili á
beinum æðum. Á aðalæðinni er fjarlægðin 200 m.
Þær eru af mismunandi stærð og gerð, eftir pípuvídd-
um og átakinu, sem þær þurfa að þola, en það getur
orðið allt að 23 tonnum.
Til þess að fyrirbyggja að sveigja komi á þenslu-
stykkin eru götuæðarnar lagðar á burðarjárn með
hæfilegu bili, sem halda pípunni í réttri hæð, en auk
þess eru hliðarjárn, nokkru gisnari, sem verja því,
að hún svigni út á hlið.
Á aðalæðinni er pípan svo gild og stíf, að ekki
þarf hliðarstýringar, en hins vegar koma þar rúllu-
legur í stað burðarjárnanna.
Á heimæðunum er séð fyrir þenslunni á þann hátt,
að þær eru lagðar í hæfilega miklum hlykkjum, og
er séð um, að bein pípa sé aldrei lengri en svo, að hún
geti þanið sig innan í einangruninni, án þess að hætta
sé á, að hlífðarlagið rifni.
Þótt steypurennurnar, sem hafðar eru utan um
einangrunina til hlífðar og til þess að verja hana
fyrir jarðvatni, verði ekki fyrir eins miklum hita-
breytingum og pípurnar, verða þær þó fyrir nokkr-
um hitabreytingum, og til þess að fyrirbyggja rifur
og skemmdir á rennunum, sem komið gætu þar, sem
sízt skyldi, og sem opnuðu jarðvatninu leið inn í ein-
angrunina, er einnig séð fyrir þensluraufum á renn-
unum, og eru þær þéttaðar með biki, tjöruhampi og
tjörupappa.
í miðbænum, þar sem jarðvatnið er oft svo nálægt
yfirborði, að rennurnar eru umflotnar af því, og þar
sem þetta vatn getur auk þess verið salt, verður að
ganga enn betur frá þensluraufunum. Þar voru not-
aðar bylgjumyndaðar eir- og blýþynnur í þenslu-
raufarnar, og voru þær lóðaðar saman þannig, að þær
mynduðu eina heild gegnum botn, hliðar og lok. Sjálf
rennan var svo járnbent á milli raufanna.
Brunnar.
Á bæjarkerfinu eru, svo sem fyrr er sagt, ótal han-
ar og þenslustykki, en auk þess eru þar tæmingar-
og lofthanar líkt og á aðalæðinni. Utan um þetta
eru byggðir steinsteypubrunnar og þannig frá þeim
gengið, að komast megi að hönunum til að opna þá
Brunnur á gatnamótum, áður en steypt hefir verið yfir hann.
Hanar og þenslustykki eru á þrem æðum. Festa er ókomin.
Box at street-line intersection (inside). Valves and expansion
joints on thrce lines. Anchor not yet installed.
eða loka án þess að grafa upp götuna. Þar sem renn-
unum hallar inn að brunnunum, er haft frárennsli
frá þeim út í skolpveitu, en vatnslás tryggir það, að
ekki berist gufa frá sltolpinu inn í brunninn.
I miðbænum er þó ekki hægt að hafa frárennsli
frá brunnunum sökum þess, hve vatnsborð getur
orðið hátt í skolpræsunum. I þess stað eru hafðar þrær
niður úr botni þeirra, svo að hægt sé að tæma þá
með dælu, ef vatn kemur í þá. Eru sérstakir menn
hafðir til þess að líta eftir öllum brunnunum og dæla
úr þeim, ef þörf gerist.
Tilsvarandi brunnar eru á aðalæð og safnæðum.
Brunnarnir eru mjög misstórir. Sá stærsti, sem
er á horni Hringbrautar og Miklubrautar, er 7,8 x 3,3
m, 2,0 m á hæð og raflýstur.
Loks er að geta heimæðabrunna. Á hverri heimæð
er hani út við götuæðina, svo hægt sé að loka fyrir
heimæðina, t. d. vegna bilunar, án þess að loka allri
götunni. Þessir hanar og Tombak-pípur þær, sem
fyrr er getið, eru hafðir í eins konar brunnum með
lausu steinsteypuloki yfir. Eru samskeytin milli loks
og rennu þétt með tjÖruhampi. Yfir lokin er fyllt á
sama hátt og rennuna, en ef loka þarf heimæð, er
auðvelt að grafa niður á lokið, lyfta því af, og ganga
eins frá öllu aftur að afloknu verki.