Foreldrablaðið - 01.12.1951, Qupperneq 14
Tilhlökkunin var svo mikil, að við vor-
um komin á fætur fyrir allar aldir. Það
var líka svo þægilegur ilmur af nýbök-
uðum kökum um allt húsið. Hann kitlaði
nasimar og hélt fyrir okkur vöku. Það
voru jólakökur, sódakökur, gyðingakök-
ur, vínartertur og piparkökur. Með köku-
ilminum barst svo sætur ávaxtailmur af
eplum og þrúgum. Rétt fyrir hádegi var
svo stofunni hennar ömmu læst, því að þar
voru allir þessir leyndardómsfullu pakk-
ar, jólagjafirnar og jólatréð sjálft, þunga-
miðjan í allri hátíðinni. Þangað mátti
enginn koma án sérstaks leyfis og það
var sjaldan veitt. Stundum reyndum við
Kiddi bróðir minn og ég að gægjast inn
um skráargatið, en slíkar njósnir voru
illa séðar af fullorðna fólkinu.
Um hádegið var snætt brauð og te, en
matarlystin var ekki mikil hjá okkur
krökkunum. Við vissum, að'seinna var
von á mestu kræsingum, sem við þekkt-
um, steiktum rjúpum, sem móðursystir
okkar og maður hennar sendu okkur fyr-
ir hver jól norðan frá Skagaströnd. Fyrir
hádegið hafði pabbi setið niðri í kjallara
og reytt rjúpurnar, en Kiddi bróðir fékk
snemma að aðstoða hann við þetta starf.
Bæði var hann handlaginn og harðdug-
legur, gat aldrei setið auðum höndum, og
svo var það líka nokkur afþreying að
hafa eitthvað fyrir stafni þennan langa
dag.
Eftir hádegismat var tekið að steikja
rjúpurnar. Þær voru steiktar í stórum
potti, en í eldhúsinu okkar var gömul og
stór eldavél eins og tíðkuðust þá. Þegar
ilminn af rjúpunum lagði að vitum okk-
ar, komst jólahugurinn í algleyming, og
hver klukkustundin varð enn lengri en
fyrr.
Rjúpur voru sem óðast að verða al-
mennasti jólamaturinn í Reykjavík, en
gæsir þekktust helzt ekki nema hjá
erlendu fólki. Margir, einkum þeir, sem
flutt höfðu seint úr sveit, héldu samt
fast við hinn forna sið að eta hangikjöt
á aðfangadag jóla, en hjá okkur var
hangikjötið etið seinna um jólin.
Kl. 6 var setzt að borðum, en áður
höfðum við öll farið í sparifötin. Hvert
okkar fékk heila rjúpu, nema minnstu
krakkarnir. Það er sérstök list að vinna
vel að rjúpum, eins og kunnugt er. Þá
list lærðum við snemma, enda vorum
við svo að segja útötuð í rjúpnasósu eftir
máltíðina. Og södd vorum við, höfum
sennilega etið helmingi meira en við höfð-
um gott af. Heil rjúpa með kartöflum og
þykkri rjómasósu eftir vild, já það var
engin óvera.
Fjöldi manns fór í kirkju á jólakvöld,
en ekki var það siður hjá okkur. Jafnvel
amma mín, sem var mikil trúmanneskja,
fór ekki í kirkju þá. Hún fór hins vegar
á jóladag. En þrátt fyrir það, að við sótt-
um ekki kirkju, voru kirkjurnar, eða
frekar kirkjuklukkurnar líka þáttur í
jólahátíð okkar. Við hlustuðum alltaf á
samhringingu þeirra. Klukkan 6 byrjaði
Landakotskirkjan, en hún var skammt
frá okkur, beint upp af Olsenstúni. Seinna
tóku svo til samhringingar Dómkirkjunn-
ar og Fríkirkjunnar. Ef veður var gott,
heyrðust þær um allan bæinn. Þær juku
hátíðina, innsigluðu hana með hljómi
sínum.
Svo fór fullorðna fólkið upp á loft til
þess að ljúka öllum undirbúningi, raða
gjöfunum í kring um tréð og kveikja á
kertunum. Við krakkarnir biðum niðri 1
eldhúsi. Þegar búið var að kveikja, kom
hin langþráða tilkynning:
„Það er búið að kveikja á kertunum.“
Ég verð aldrei svo gamall maður, að
ég finni ekki mýkt og trega endurminn-
inganna um mestu hátíð horfinnar æsku
fara um mig allan, þegar ég rifja upp
þessi einföldu orð foreldra minna og
ömmu, sem allt vildu gera fyrir barna-
hópinn sinn:
„Það er búið að kveikja á kertunum.‘
1 4 FORELDRABLAÐIÐ