Neytendablaðið - 01.06.2006, Blaðsíða 21
Neytandinn
Liselotte Widing er neytandinn aö þessu
sinni. Liselotte er sænsk en hefur búið á
Islandi í rúmlega 8 ár. Hún er lögfræðingur
og starfar fyrir norræn stjórnvöld við að
samhæfa norrænt neytendasamstarf.
Liselotte býr í Mosfellsdalnum ásamt manni
sínum og hestum.
Hvaða matvara skemmist oftast í ísskápn-
um hjá þér?
Grænmeti, samt er mikið borðað af því. En
greinilega er enn meira keypt.
Lestu allcm markpóst sem kemur inn um
bréfalúguna?
Þar sem ég bý í sveit er ekki póstdreifing
heim til mín. Það getur verið svolítið
óhentugt en jákvætt er að maður sleppur
alveg við markpóst í pósthólfinu.
svarar
Liselotte Widing
Biður þú um Tax Free þegar þú verslar
erlendis?
Yes!
Hefur ýtinn sölumaður fengið þig til að
kaupa eitthvað sem þú hefðir aldrei
annars keypt?
Örugglega.
Hvenær fórstu síðast í strætó?
í fyrradag - í Osló.
Hefur þú hjólað i vinnuna?
Daglega i mörg ár, en núna eru 23 km aðra
leið og mér finnst það einum of langt.
Hefurðu veitt í matinn?
Já fisk, fyrir löngu löngu. Núna rækta ég
grænmeti.
Hvenær skiptir þú síðast um banka eða
tryggingafélag?
1997. Ætlaði svo að skipta um banka í
byrjun árs en þegar ég lét bankann vita af
þessari vel rökstuddu ákvörðun voru mér
boðin betri kjör og ég varð um kyrrt.
Hvenær prúttaðir þú síðast um verð á vöru?
í september 2005 þegar við keyptum okkur
antíksófa. Af hverju prúttar maður einungis
um verð á notuðum vörum?
Hvað er versta neytendahneykslið sem þú
manst eftir?
Verðtrygging á neytendalánum á íslandi (og
það er ekki vegna þess að ég man ekkert
lengra aftur í tímann). Það þarf ekki bara að
breyta þessu kerfi heldur að hugsa það alveg
upp á nýtt. Af hverju er ekki hægt að bjóða
íslenskum neytendum upp á óverðtryggð
langtímalán á vöxtum sem eru fastir í 5
eða 10 ár og sem heimila neytandanum að
segja láninu upp sér að kostnaðarlausu við
breytingu eins og gert er í öðrum löndum?
Lánastofnanir, en ekki neytandinn, hafa
þekkingu til að meta efnahagsþróunina.
Hverju myndir þú vilja breyta varðandi
neyslu þína?
Þar sem ég er mikill náttúruunnandi ætti ég
að vera umhverfisvænni í neyslu minni.
Heldur þú heimilisbókhald?
Æi, i mjög grófum dráttum - aðallega í
höfðinu á mér.
Eru einhver fyrirtæki eða vörumerki sem
þú sniðgengur?
Ó já, ósiðferðileg fyrirtæki sem t.d. nota
tilraunadýr eða loðfeldi í framleiðsluvörum
vegna hégóma manneskjunnar. Ég sniðgeng
líka fyrirtæki sem hiklaust blekkir fátækt og
ómenntað fólk með röksemdum um heilsu
og velgengni og fær það til að eyða því litla
fé sem það á til að kaupa vörur, sem það
augljóslega þarf ekki á að halda, eins og
gosdrykki og ungbarnaþurrmjólk.
Svo forðast ég með öllu að borða alikjöt.
Flokkar þú heimilisúrgang?
I einhverjum mæli. Því miður er okkur ekki
boðið upp á flokkunarkerfi fyrir heimilis-
sorpið.
Viltu fá vín í matvöruverslanir?
Ekki eins og þær eru í dag. I nánast hvert
skipti sem ég spyr um eitthvað í matvörubúð
er svarað: „sko, ég bara veit það ekki, ég
byrjaði í gær". Mér finnst mjög mikilvægt
að reglur um aldursmörk fyrir áfengiskaup
séu virtar og þar sem starfsmannaveltan hjá
matvöruverslunum virðist vera í hámarki fæ
ég ekki séð að áfengissala yrði vel varin hjá
þeim.
Finnst þér matvælaverð á Islandi ásættan-
legt?
Nei, það er varla hægt. Maðurinn minn, sem
er íslendingur, heldur að hann sé á útsölu
þegar við förum í matvörubúð í Sviþjóð.
Kaupir þú vörur sem eru með vottuðu um-
hverfismerki?
Já, þvotta- og uppþvottaefni, hreinsiefni,
eldhús-, salernis- og prentunarpappír. En
úrvalið af umhverfismerktum vörum og
þjónustu mætti vera meira á íslandi.
Hvað gætu íslenskir neytendur lært af sænsk-
um neytendum?
Að gera kröfur, en Svíar gætu lært af íslend-
ingum að njóta lífsins.
21 NEYTENDABLAÐIÖ 2. TBL. 2006