Bændablaðið - 15.04.2008, Qupperneq 14

Bændablaðið - 15.04.2008, Qupperneq 14
Bændablaðið | Þriðjudagur 15. apríl 200814 Sverrir Heiðar Júlíusson, sem er búsettur á Hvanneyri og starfs- maður Landbúnaðarháskóla Íslands, er líklegast yngsti karl- maður á Íslandi sem greinst hefur með blöðruhálskirtilskrabba- mein. Krabbameinið greindist síð- asta sumar og hefur Sverrir verið í meðferð síðan. Sverrir Heiðar samþykkti að segja sögu sína í til- efni af átaki Krabbameinsfélags Íslands, Karlmenn og krabba- mein, því honum finnst nauðsyn- legt að koma skilaboðum til kyn- bræðra sína þegar krabbamein er annars vegar. Alltaf haft gaman af því að kenna Sverrir Heiðar er fæddur í Skógum á Þelamörk í Hörgárdal þann 1. maí 1967 og var þar fyrstu æviárin, en er að mestu grunnskólagenginn í Hafnarfirði. Hann var þó öll sumur hjá ömmu sinni og afa í Skógum og eftir að hann lauk grunnskólanámi dreif hann sig norður í heimahag- ana og fór í MA. Strax eftir stúd- entspróf fór Sverrir í Bændaskólann á Hvanneyri, enda ætlaði hann að verða næsti bóndi í Skógum. Eftir búfræðiprófið ákvað hann að læra ögn meira um búskapinn og tók þriggja ára háskólanám við Búvísindadeildina á Hvanneyri. Á því tímabili eignaðist hann konu og sitt fyrra barn, þannig að aðstæður breyttust og framtíðaráformin með. Eftir kandídatspróf var honum boðin staða við skólann, sem hann tók. „Það var mikið stökk að setjast hinum megin við kennaraborðið og mikil vinna, ekki síst fyrstu árin. Með kennslu tók ég svo próf frá Kennaraháskólanum og náði mér þannig í kennararéttindi í grunn- og framhaldsskóla. Ég hef lengst af verið í stjórnunarstöðu við búfræði- brautina á Hvanneyri og einna helst kennt búfjárrækt, fóðurverk- un og nautgriparækt, en núna er ég námsbrautarstjóri búfræðibrautar. Það er mikill heiður og spennandi að eiga samskipti við það unga fólk á Íslandi, sem vill mennta sig í landbúnaði. Þetta er allt saman fólk með brennandi áhuga á sömu hlutum og ég, þannig að ég hef allt- af haft gaman af því að kenna, en þetta er 18. árið sem ég kenni hér á Hvanneyri,“ segir Sverrir Heiðar þegar hann er beðinn að segja frá uppruna sínum, menntun og því, hvað hann hefur verið að fást við um dagana. Eiginkona Sverris er Emma Heiðrún Birgisdóttir og eiga þau tvö börn, Álfheiði, fædda 1989, sem er nemi við FVA á Akranesi og Birgi Þór, fæddan 1993, sem er í 9. bekk á Kleppjárnsreykjum. Krabbamein í blöðruhálskirtli „Krabbameinið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég hafði verið með einhverja „kjallaraverki“, eins og konurnar hefðu líklega orðað það, og var farinn að þurfa að vakna á nóttunni til að kasta þvagi, sem- sagt, pláss fyrir þvagblöðruna var minna og það gekk líka illa að tæma hana alveg. Ég er bara eins og aðrir karlmenn, það er aldrei neitt að mér og ég dró að fara til læknis þar til þetta var orðið eiginlega óbærilegt. Greiningin gekk fljótt og úrskurð- urinn var skelfilegur; krabbamein í blöðruhálskirtli sem hafði dreift sér út fyrir kirtilinn í nærliggjandi eitla. Læknirinn sagði þetta mjög alvar- legt og ólæknandi, þannig að maður var nú ekkert sérlega bjartsýnn á þessum tíma. Ég var settur í svæsna hormónameðferð strax í júní sl. til að reyna að svelta meinið og má segja að hún hafi vegið verulega að karlmennsku minni, svo ekki sé nú meira sagt. Sem dæmi um það má nefna, að einn sunnudagsmorgun í desember vaknaði ég snemma og bjó til tvær ostakökur um leið og ég hlustaði á nýja diskinn með James Blunt. Hormónameðferðin virkaði ágætlega í hálft ár, en þá fór meinið að fá mátt eftir öðrum leiðum en frá karlkynshormónum. Í janúar byrj- aði ég svo í lyfjameðferð, fyrst á þriggja vikna fresti, en undanfarið hef ég verið í lyfjagjöf á viku fresti og því miður virðist ekki ganga nógu vel að svæfa þennan fjanda, en það á eftir að breytast, ég trúi því, enda er ég bjartsýnn að eðl- isfari! Það er nefnilega talsvert óþolandi að láta dæla í sig baneitr- uðum lyfjum svo mánuðum skiptir, sem gera kannski fátt annað en að eyðileggja það sem heilt er í manni á meðan helv. krabbinn heldur áfram að skríða um beinin,“ segir Sverrir Heiðar þegar hann rifjar upp ferlið í kringum krabbameinið. Íþróttir og heilbrigt líferni Sverrir Heiðar er því næst spurð- ur hvernig það hafi verið að fá þær fréttir að hann væri með krabba- mein. „Þetta var auðvitað mikið áfall fyrir alla fjölskylduna. Það eiga flestir í kringum mann bágt í þessu ástandi, en líklegast hef ég það einna best af okkur fjórum í fjölskyldunni. Ég er þó í ákveðnu ferli, en það sama verður ekki sagt um konuna og börnin. Ég sakna þess mikið að hafa ekki fulla starfsorku og geta gert þá hluti sem ég gerði; verið með allar mínar námsgreinar, þjálfað fótbolta hjá Skallagrími, klippt trén í garðinum og djöflast eitthvað með krökkunum. Það er auðvitað meira ólánið á manni að vera að fá þennan krabba svona ungur, eitthvað hefur maður verið að gera rangt í gegnum tíðina, það er alveg ljóst. Ég hef þó alltaf reynt að lifa heilbrigðu lífi, hef aldrei reykt og áfengi hef ég lítið brúkað. Þá hef ég alltaf stund- að íþróttir og reynt að passa hvað ég læt ofan í mig af mat og aldrei hef ég orðið of þungur. Ég veit samt að margir hafa það miklu verra en ég, það þekki ég vel í gegnum mömmu, Önnu Soffíu Sverrisdóttur, en hún hefur unnið sem sjúkraliði á Barnaspítala Hringsins um árabil og mikið með krabbameinsveikum börnum. Þar er á ferðinni átakanleg ósanngirni lífsins, en svona er þetta bara og við sem lendum í þessari stöðu verð- um að taka á málum með léttleika og bjartsýni að vopni, það hef ég allavega reynt að gera og það hjálp- ar mikið.“ Mikill og góður stuðningur „Ég hef verið í um það bil hálfu starfi á þessari önn og það hefur sloppið til. Ég er oft mjög þreyttur í nokkra daga eftir lyfjagjöf og af því að krabbinn er kominn í beinin valda beinverkirnir því, að ég hvílist oft ekki nægjanlega vel. Sá stuðningur og skilningur, sem við höfum fengið hjá yfirstjórn Landbúnaðarháskólans og samstarfsfólki, hefur verið okkur ómetanlegur. Þá hafa nemendur mínir verið mér afar skilningsríkir, svo ekki sé nú meira sagt. Einnig á ég sterka fjölskyldu og yndislega vini hér á Hvanneyri sem styðja okkur alla daga, en án þeirra væri þetta tífalt erfiðara, alltsaman.“ Með gítarinn í hönd Sverrir Heiðar segir að sér hafi aldrei verið lagið að tala um tilfinn- ingar sínar, hvorki sálrænar né lík- amlegar. Hann er þó viss um að það sé öllum nauðsynlegt að geta tjáð sig við aðra um sína líðan, þar geti hann ennþá bætt sig. „Eftir á að hyggja hef ég kannski ekki verið nógu góður í því að slappa af og taka það rólega. Til dæmis horfi ég mjög sjaldan á heilar bíómyndir í sjónvarpi, mér hefur fundist það of langur tími aðgerðaleysis í einu. Eðlileg sum- arfrí hef ég aldrei tekið, fyrir utan tvær sólarlandaferðir, enda hef ég notað sumrin til knattspyrnu- þjálfunar meðfram hefðbundnum verkum. Þar átti ég því láni að fagna að fylgja árgangi 1993 hjá Skallagrími um árabil, en það er gríðarlega efnilegur hópur sem varð m.a. Faxaflóameistari 2005, algjörir snilldarkrakkar. Þessar vikurnar reyni ég að nota í það minnsta hálftíma á dag með gít- arinn í hönd, en mig hefur alltaf langað til að geta spilað á hann. Ég hef stundum verið veislustjóri, einnig flutt rugl eftir sjálfan mig á þorrablótum og söng bragina mína á seinasta blóti í Brún í Bæjarsveit án undirleiks, en á næsta blóti væri nú ekki leiðinlegt að geta gutlað með sjálfur á gítarinn. Framhaldið verður að legg- jast vel í mig og það gerir það. Ég veit að þetta er brekka, en ég hef margar brekkurnar labbað eftir Skógakúnum og á inni þrek og þol í fleiri brekkur. Ég skal sigra þenn- an fjanda og vænti þess að lækn- irinn minn finni þær bestu leiðir sem völ er á, því ég er svo ungur og á eftir að gera svo ótal margt í lífinu.“ Karlmenn og krabbamein „Það er verst hvað rannsóknir á blöðruhálskirtilskrabbameini eru skammt á veg komnar, í raun skemmra en rannsóknir á öðrum tegundum krabbameins. Líklegast er um að kenna lítilli athygli sem þetta krabbamein hefur fengið, þetta hefur verið feimniskrabbamein til þessa, en átakinu Karlmenn og krabbamein er að takast að breyta því, það finnst mér a.m.k., og átakið er aldeilis frá- bært. Þá hef ég notið starfsins sem unnið er í Ljósinu, en þar er verið að hjálpa fólki eins og mér að takast á við daglegt líf í skugga krabbameins, aldeilis frábært starf. Að meðaltali greinast árlega um 630 íslenskir karlar með krabba- mein, þar af 190 með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungna- krabbamein og 51 með ristilkrabba- mein. Horfur þeirra sem greinast með krabbamein á Íslandi eru almennt góðar, en þegar menn eru komnir yfir fertugt aukast líkurnar á því að fá krabbamein. Slóðin inn á átak Krabbameinsfélagsins er www. karlmennogkrabbamein.is og hjá Ljósinu er slóðin www.ljosid.org. Tilhlökkunarefni að fara í lyfjagjöf Þegar talið berst að heilbrigðiskerf- inu og hvernig það hafi reynst Sverri Heiðari í baráttu hans lifnar vel yfir honum, enda gefur hann kerfinu góða einkunn: „Ég trúi því að læknarnir séu að gera allt sem þeir geta fyrir mig. Ég veit hins vegar að það er hægt að gera betur, t.d. með samspili hefð- bundinna læknavísinda og þeirra óhefðbundnu. Það væri óskandi, að meiri samhljómur næðist milli slíkra aðila hérlendis í framtíðinni, því það er svo margt sem getur hjálpað og það þarf að nýta allt sem gagnast getur. Í raun má segja að síðan ég fékk minn krabbameinslækni hafi allt staðið, sem um hefur verið rætt, og það er hreinlega stórkostlegt starfsfólk á krabbameinsdeild 11B á Landspítalanum. Það er tilhlökk- unarefni að fara þangað í lyfjagjöf- ina, svo ótrúlegt sem það kann nú að hljóma. Þar hittir maður fólk í svipaðri stöðu og maður er sjálfur, finnur til samkenndar og svo eru hjúkkurnar svo áhugasamar um velferð manns að manni líður bara strax betur þegar maður gengur í salinn og sest í stólinn með útréttan arminn, tilbúinn að veita aðgengi að æðakerfinu. Ég trúi því að hver dropi sem ég fæ sé skref í átt til sig- urs gegn þessum fjandans andstæð- ingi, sem krabbameinið er í mínum huga.“ Leitið aðstoðar „Ég hef mjög einföld skilaboð til kynbræðra minna. Ef þið kennið ykkur meins, sem varir nokkurn tíma, segjum tvær til þrjár vikur, hvort sem það er í óbyggðum lík- amans eða á „jaðarsvæðum“, leitið þá aðstoðar heilsugæslunnar. Það kostar lítið að ganga úr skugga um að ekkert alvarlegt sé á ferðinni, en því fyrr sem upp kemst um eitthvert rugl í kroppnum, sem krabbamein vissulega er, því meiri líkur eru á því að hægt sé að halda því í skefj- um, jafnvel hrinda því á braut,“ segir Sverrir Heiðar að lokum. Magnús Hlynur Hreiðarsson „Krabbameinið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti“ Sverrir hefur stundað skotveiðar nokkra dagparta á hverju ári. Þessa tófu felldi hann um árið til heiðurs Snorra frænda sínum á Augastöðum í Hálsasveit.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.