Bændablaðið - 23.09.2010, Blaðsíða 18

Bændablaðið - 23.09.2010, Blaðsíða 18
2 | ÖRÆFANETIÐ Aðdragandi þess að ljósleiðaranet er nú komið á alla bæi í Öræfasveit og á Hala í Suðursveit er orðinn all langur og leiðin að þessu marki hefur ekki alltaf verið bein og breið. Undanfarin ár hafa feðgarnir Knútur og Ingólfur Bruun unnið ötullega að því að þetta þjóðþrifamál gæti orðið að veruleika en á bak við þá hefur verið órofa samstaða íbú- anna í Öræfum. Þeir eru ekki í vafa um að þessi samstaða réði úrslitum um þá byltingu sem nú hefur orðið í fjarskiptamálum í Öræfasveit. „Ég held að við séum gott gengi ég og Ingólfur. Ég er gamall nuddari og kjaftaskur sem kann á kerfið á meðan hann hefur alla tæknina á hraðbergi. Kerfiskallarnir, sem við þurftum að eiga við, eru rosalega lunknir í að smella á mann allskonar tæknimáli sem ég skil lítið í. Það var þá sem drengurinn kom inn og vissi um hvað málið snérist og gat komið með réttu svörin,“ segir Knútur. Byrjaði með þriggja fasa rafmagni Ingólfur segir að upphaf málsins megi rekja til þess þegar það spurðist út að RARIK hyggðist leggja þriggja fasa rafmagn í Öræfin en það hafði lengi verið baráttumál íbúa í sveitinni. „Þegar pabbi sagði mér í óspurðum fréttum árið 2006 að til stæði að leggja þriggja fasa rafmagn um sveitina bað ég hann að drífa sig sem fyrst austur og reyna að fá RARIK til að plægja ljósleiðara niður með jarðstrengnum því þá væri kom- inn grundvöllur til að vinna að bættu ástandi í gagnaflutnings- og fjarskiptamálum sveitar- innar,“ segir Ingólfur. Eðli máls samkvæmt lá beinast við að ræða málið fyrst við sveitar- stjórnarmenn á Höfn í Hornafirði og sveitar- stjórann, Hjalta Þór Vignisson því þeir fara með stjórn sveitarfélagsins eftir að Öræfin sameinuðust sveitarfélaginu Hornafirði. Sveitarstjórnin tók strax vel í málið og þrýsti á RARIK að leggja ljósleiðara með þriggja fasa rafmagninu. „Þessi jákvæða afstaða sveitarstjórnarmanna á Höfn bar árangur og er einn af mörgum samverkandi þáttum sem gerðu þetta mál að veruleika,“ segir Knútur. Fjarskiptafélag stofnað Ljósleiðarastrengur RARIK liggur frá Reyni- völlum í austri að Skaftafelli í vestri og var hugmynd RARIK að nýta hann fyrst og fremst við að fjarstýra raforkukerfinu. En þegar strengurinn var kominn voru næstu skref að kanna áhuga Öræfinga á að fá net- tengingu í gegnum ljósleiðarann og að leita eftir samningum við RARIK um að bæir og fyrirtæki í sveitinni fengju að tengjast ljós- leiðaranum og nýta hann til gagnaflutninga. „Það var strax mikil samstaða um þetta mál í sveitinni og þegar ákveðið var að stofna Fjar- skiptafélag Öræfinga til að vinna að fram- gangi þess voru allir bæir með, sömuleiðis þau fyrirtæki sem hér eru rekin og sjálft sveitarfélagið,“ segir Knútur, sem er stjórnar- formaður Fjarskiptafélagsins. Lögfræðiálit snéri málinu Knútur segir að þegar leitað var til RARIK hafi Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri strax verið jákvæður en lögfræðingarnir hafi hins vegar séð á þessu ýmis tormerki og óttast að það stæðist ekki lög að hleypa Öræfingum með gagnaveitu inn á strenginn. Til að komast yfir þennan hjalla og flýta fyrir framgangi máls- ins var leitað til Trausta Fannars Valssonar, lektors við lagadeild Háskóla Íslands og hann fenginn til að semja álit um málið. „Trausti vann mjög vandaða lögfræðilega álitsgerð sem snéri þessu máli algjörlega við og sýndi fram á að það var vel hægt að gera þetta innan ramma laganna. Í framhaldinu hófust samningaviðræður sem lyktaði með því að RARIK gerði við okkur samning sem heimilaði okkur aðgang að strengnum,“ segir Knútur. Hálfa milljón á hvert heimili Þegar þessi niðurstaða lá fyrir var ekkert að vanbúnaði að byrja lagningu heimtaugakerfis á alla bæi og fyrirtæki í sveitinni. Ákveðið var að bjóða íbúum á Hala í Suðursveit að vera með og þáðu þeir það og sáu síðan sjálfir um að leggja heimtaugar hjá sér. Gerður var samningur við Fjarska, sem er fjarskiptafélag í eigu Landsvirkjunar, um að annast tækni- lega hlið málsins en Fjarski hafði verið RARIK til aðstoðar við lagningu ljósleiðarans á sínum tíma. „Með mikilli sjálfboðavinnu heimamanna, sem sáu um að aðstoða verk- taka við jarðvegsvinnu og að draga í rör, og með því að semja við verktaka af svæðinu, tókst okkur að lækka kostnað við lagningu heimtauga verulega,“ segir Knútur. Hann bætir því við að 7 milljóna króna styrkur frá sveitarfélaginu til að kaupa streng hafi einnig létt þeim róðurinn talsvert. Fjarskiptafélag Öræfinga er án efa minnsta fjarskiptafélag landsins en viðskiptavinir þess eru 45 að tölu og hefur hvert heimili í sveitinni greitt 500 þúsund krónur í stofnkostnað fyrir að tengj- ast ljósleiðaranum. Heildarkostnaður við verkefnið nemur alls um 40 milljónum króna. Samkeppnishömlur En björninn var ekki unninn. Það var ekki nóg að leggja heimtaugar um sveitirnar og tengj- ast ljósleiðara RARIK milli Skaftafells og Reynivalla til að gagnaflutningar gætu hafist. Það þurfti líka að komast inn á megin hring- tenginguna um landið, svokallaðan NATO ljósleiðara. Fjarskiptafélag Öræfinga hefur gert samn- ing um gagnaflutninga við Vodafone, sem eftir útboð fékk úthlutað einum af þremur strengjum sem Varnarmálastofnun hafði í NATO ljósleiðaranum. Fjarskiptafélagið Míla, sem er með fimm strengi í þessum sama ljósleiðara, hefur hins vegar komið í veg fyrir að Vodafone geti tengst strengnum. Knútur segir að fyrst hafi menn borið fyrir sig að ekki væri búið að afhenda Vodafone streng- inn formlega og að staðið hafi í stappi um það mánuðum saman. Í vor skarst Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og yfir- maður Varnarmálastofnunar, í leikinn og kom því til leiðar að gengið var frá formlegri afhendingu utanríkisráðuneytisins á strengnum til Vodafone. Þá loksins samþykkti Míla að leigja Vodafone tímabundið flutn- ingsgetu fyrir Fjarskiptafélag Öræfinga. Að sögn Knúts þráast Míla hins vegar ennþá við að veita Vodafone aðgang að strengnum í gegnum tengistöðvar sem fyrirtækið ræður yfir. „Ég tel þessa framkomu Mílu skýlaust brot á samkeppnis- og fjarskiptalögum. Hér eru menn eingöngu að verja einokunarstöðu sína og að koma í veg fyrir að samkeppnis- aðili geti nýtt aðstöðu sem honum hefur verið úthlutað með löglegum hætti. Fram- ganga þeirra hefur verið kærð til Póst- og fjarskiptastofnunar og það er aðeins tíma- spurning hvenær þeir verða að hleypa Voda- fone að ljósleiðaranum,“ segir Knútur. Hægt að hafa áhrif Ingólfur segir ánægjulegt að hafa átt þátt í að tryggja íbúum í Öræfum ljósleiðarasam- band sem er jafn fullkomið og best gerist í þéttbýlinu. „Mér hefur alltaf fundist þetta mikið réttlætismál því ef það er eitthvað sem skiptir máli fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum þá er það að vera í góðu netsam- bandi,“ segir Ingólfur. Hann segir löngu tíma- bært að hætta með skammtímalausnir í fjar- skiptamálum dreifbýlisins. Árið 2001 hafi ISDN átt að leysa vanda dreifbýlisins varð- andi gagnaflutninga og þá hafi verið farið af stað með úrelta tækni sem ekki var lengur boðleg í þéttbýli en sem þótti engu að síður nógu góð fyrir landsbyggðina. Ingólfur segir að í dag eigi allir sem búa í dreifbýli og sem þess óska að vera búnir að fá Internettengingu sem er að lágmarki 2 Mbit/s. Þetta þýði að nú sé að gerast það sama og árið 2001 að boðið er upp á skammtímalausn sem muni úreldast fljótt. „Það er kominn tími til að hætta að hugsa í úreltum fortíðarlausnum í fjarskiptamálum landsbyggðarinnar. Nú verða menn að hugsa til framtíðar. Íslendingar lögðu mikið á sig þegar lagður var sveitasími á flesta bæi í landinu og síðar kom að því að lagður var sjálfvirkur sími á alla bæi. Nú er tími ljós- leiðarans kominn og tímabært að leggja hann til allra lögbýla og fyrirtækja í dreifbýli sem þess óska,“ segir Ingólfur. Knútur segir að vinnan við þetta verkefni hafi verið mikil en mjög ánægjuleg, ekki síst vegna þess að hún komi samfélaginu öllu til góða. Nú geti fólkið í sveitinni stundað fjar- nám og rekið öll sín erindi á Netinu með sama hætti og í þéttbýlinu. „Áður gat það tekið hálftíma til klukkutíma að sinna ein- földum viðskiptum í netbankanum en það er sá veruleiki sem fjöldi fólks í hinum dreifðu byggðum býr við víða um land. Í dag getum við í Öræfasveit hins vegar afgreitt þessi sömu viðskipti á 2-3 mínútum. Þá er ótalin sú bylting sem orðið hefur í sjónvarpsmálum í sveitinni þar sem móttökuskilyrði hafa verið vægast sagt ömurleg. Mér finnst skipta máli að þeir, sem búa við svipaðar aðstæður, frétti af því sem hér hefur verið að gerast og átti sig á að það er hægt að breyta þessu ástandi en þá þurfa menn líka að standa saman,“ segir Knútur Bruun. Ef það er eitthvað sem skiptir máli fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum þá er það að vera í góðu netsambandi. Órofa samstaða íbúanna réð úrslitum Rætt við feðgana Knút og Ingólf Bruun Feðgarnir Knútur og Ingólfur Bruun segja samstöðu heimamanna hafa ráðið úrslitum. Öræfingar með hraðasta netið Netið sem tekið var í notkun í Öræfa- sveit þann 3. september er hraðvirk- asta ljósleiðaranet sem er í almanna- notkun á Íslandi í dag. Netið byggist á svokölluðum „Gigabit Industrial Ether- net“ staðli, 1000 Mbit/s, sem er gríðarleg breyting frá 128 Kbit/s ISDN sambandi sem íbúar Öræfa voru með áður. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga allir sem búa í dreifbýli að vera búnir að fá að lágmarki 2 Mbit/s Internet- tengingu fyrir lok ársins 2010. Hrað- virkustu ljósleiðarasambönd, sem notuð eru fyrir almenning á Íslandi í dag, eru að hámarki 100 Mbit/s og því er Öræfanetið 10 sinnum hraðvirk- ara en það besta sem almenningi býðst. Auk mikils nethraða og símaþjón- ustu geta Öræfingar nú valið úr 70 sjónvarpsstöðvum og leigt bíómyndir í gegnum Öræfanetið. Útgefandi: Fjarskiptafélag Öræfinga - Ábm.: Knútur Bruun - Umsjón og umbrot: Athygli ehf. - Ljósmyndir: Ragnar Th. Sigurðsson, Einar Rúnar Sigurðsson, Gunnar E. Kvaran o.fl. - Auglýsingar: Augljós miðlun ehf.- Prent un: Landsprent ehf. - Dreift með Bændablaðinu fimmtudaginn 23. september 2010

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.