Bændablaðið - 23.09.2010, Blaðsíða 25

Bændablaðið - 23.09.2010, Blaðsíða 25
ÖRÆFANETIÐ | 9 Á Hofi í Öræfasveit eru í dag um 20 manns með lögheimili á 5 jörðum og heilsársbúseta er í 6 íbúðarhúsum af 9 á jörðunum. Á síðari hluta 19. aldar bjuggu hins vegar um 130 manns í 13 kotum á Hofi þannig að aðstæður hafa breyst umtalsvert frá því sem áður var. Sauðfjárrækt og hrossarækt eru undirstaða byggðarinnar á Hofi en ferðaþjónusta hefur verið í talsverðri sókn þar eins og víðar í Öræfasveit. Örn Bergsson er bóndi á Hofi en þar hefur föðurfjölskylda hans búið í tæp 200 ár. Örn segir verulegar blikur á lofti um framtíð heilsársbúsetu í Öræfasveit eins og víðar í hinum dreifðu byggðum landsins. „Þótt sauðfjárbúskapurinn hafi gengið þokkalega síðustu misserin er afkoman hins vegar þannig að það er ekki fýsilegt fyrir ungt fólk að taka við sauðfjárbúum í dag,“ segir Örn og minnir á að það sé hinn hefð- bundni búskapur sem hafi verið undirstaða heilsársbúsetu í fámennari sveitum. Undan- farin ár hafi sauðfjárræktin sífellt verið að færast á færri hendur og sé það eðlileg þróun. „Þegar ég var að alast upp voru yfir 20 sauðfjárbú hér í sveitinni en nú eru 8 eftir.“ Ónothæf byggðastefna Örn bendir á að þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi verið gríðarlega mikil lyftistöng undan- farin ár þá hafi hún ekki stuðlað að þeirri fjölgun í heilsársbúsetu í sveitinni sem þörf er fyrir. Annað sem ógni búsetu í Öræfasveit sé sú staðreynd að ekki hafi fæðst þar börn síðastliðin sjö ár og því sé spurning hvað verði lengi um heilsársbúsetu að ræða. Brynja Kristjánsdóttir, kona Arnar, er kennari að mennt og starfar við grunnskólann í Hof- garði. Hún segir einsýnt að verði ekki veruleg breyting á muni skólahald þar leggjast af á næstu sex til átta árum. „Það verður að segjast eins og er að það hefur aldrei verið til nothæf byggðastefna á Íslandi og hér ríkir ekki jafnrétti til náms, því það er mun dýrara fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum að kosta börn sín til náms en þá sem búa í þéttbýli,“ segir Örn. Þetta segir hann vera sameiginlegt vandamál hinna dreifðu byggða og valda því meðal annars að ungt fólk sest ekki lengur að í þessum sveitum. „Það hefur ekki verið neinn skiln- ingur á því hjá stjórnvöldum í áratugi að það þurfi að jafna kostnað við menntun barna þótt að mjög hafi verið sótt á um það. Dreif- býlisstyrkur sem veittur er dugar engan veg- inn. Þetta er ein skýringin á því að hinar dreifðu byggðir eiga nú undir högg að sækja.“ Bylting í fjarskiptum Örn er einn þeirra sem höfðu forgöngu um að koma ljósleiðaratengingu til allra heimila og fyrirtækja í Öræfasveit, sem hefur gjör- breytt möguleikum heimamanna til að nýta sér til fulls þá kosti sem nettenging býður. Íbúar í Öræfasveit hafa ekki aðeins fengið hraðvirkari og öflugri nettengingu en mönnum stendur almennt til boða í höfuð- borginni, heldur geta þeir nú einnig notið þess að horfa truflunarlaust á sjónvarp. „Ástandið í sjónvarpsmálum var þannig í sveitinni að á sumum bæjum var varla hægt að tala um að þar sæist sjónvarp. Í öll þessi ár höfum við á Hofi aðeins haft RÚV þar til nú að við erum loksins búin að fá aðgang að Stöð 2 og öllum þeim stöðvum öðrum sem aðgengilegar eru í Reykjavík.“ Örn segir að Ingólfur Bruun eigi heiðurinn af því að þessu máli var hrint af stað og síðan hafi hann og Knutur Bruun faðir hans borið hitann og þungann af því að koma málinu áfram í gegnum kerfið. „Það var í sauðburðinum árið 2007 sem Ingólfur kom í fjárhúsið til mín og spurði hvernig mér litist á að að bæta Internettengingu í sveitinni með því að fá leyfi til að nýta ljósleiðarastreng sem RARIK hafði lagt árið áður. Þetta varð til þess að hann skrifaði bréf sem fór í mínu nafni á alla bæi í Öræfasveit þar sem kann- aður var áhugi heimamanna á að kaupa net- tenginu í gegnum ljósleiðarann“. Undirtektir voru strax mjög góðar og í framhaldinu var Fjarskiptafélag Öræfinga stofnað til að vinna að málinu af hálfu íbúa og samið við Fjarska, fjarskiptafélag í eigu Landsvirkjunar, um tæknilega aðstoð. Alls keyptu 45 heimili og fyrirtæki aðgang að ljósleiðaratengingunni. Auk allra heimila í Öræfasveit tengdust 11 aðilar á Hala í Suðursveit og við Jökulsárlón ljósleiðaranetinu. Kostnaðinum var dreift jafnt á alla og nam um 500 þúsund krónum á hvern notanda. Einangrun rofin „Það var virkilega gaman að taka þátt í þessu. Við heimamenn sáum sjálfir um að plægja niður 14 km streng í heimtaugarnar og að draga í rör hér í sveitinni og þeir á Hala í Suðursveit og í þjóðgarðinum í Skaftafelli sáu sjálfir um sín mál. Fjarski annaðist hins vegar tæknivinnuna og síðan kom bæjar- félagið með styrk sem borgaði strenginn og rörin.“ Örn segir að menn hafi almennt tekið góðan þátt í þessari vinnu og að því eldri sem þeir voru því meiri hafi þátttakan verið. „Þegar ég var að alast upp hér í Öræfa- sveitinni vorum við lokuð af á milli tveggja stórfljóta. Einu raunverulegu samgöngurnar við höfuðborgina voru í gegnum flugvöllinn á Fagurhólsmýri því þá var hvorki hægt að fara á bíl í austur né vestur. Jökulsá á Breiða- merkursandi var brúuð 1967 og þegar Skeiðará var brúuð 1974 og leiðin til vesturs opnaðist var það algjör bylting fyrir okkur. Það má segja að með lagningu ljósleiðarans sé einangrun Öræfasveitar endanlega rofin. Núna getum við farið að stunda viðskipti í gegnum netið í öllum kauphöllum heimsins,“ segir Örn Bergsson að Hofi að lokum. Ástandið í sjónvarpsmálum var þannig í sveitinn að á sumum bæjum var varla hægt að tala um að þar sæist sjónvarp. Brynja Kristjánsdóttir og Örn Bergsson á Hofi. Heimamenn vinna að lagningu heimtauga fyrir ljósleiðarann í Öræfasveit. Einangrunin endanlega rofin -segir Örn Bergsson, bóndi á Hofi í Öræfasveit www.vatnajokulsthjodgardur.is OPIÐ ALLA DAGA Í VETUR Í SKAFTAFELLSSTOFU Háhraða nettenging!

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.