Bændablaðið - 13.10.2011, Síða 10
Bændablaðið | fimmtudagur 13. október 201110
Eins mig fýsir alltaf þó / aftur
að fara í göngur, sagði skáldið.
Það ríkir tilhlökkun eftir því allt
árið hjá stórum hópi Íslendinga
að sækja sveitina sína heim og
komast í smalamennsku og réttir.
Erlendir ferðamenn koma einnig
hingað bæði í kringum sauð-
fjár- og stóðréttir. Réttirnar eru
hátíð bóndans. Kemur féð feitt
af fjalli? Hvernig gekk smala-
mennskan? Kjötsúpan mallar í
hverjum potti heima á bæ, hvergi
eins en hvert eldhús, hvert heim-
ili, gerir sína súpu.
Menn syngja og gleðjast, krakk-
arnir koma heim og ættingjar og
vinnufólk sem sóttu sér mann-
dóm í sveitina fyrir löngu síðan
koma með bros á vör. Réttir eru
einstakur félagslegur viðburður
og skipta okkur öll miklu máli.
Smalaferðir inn í öræfi landsins,
þar sem sauðkindin er frjáls við
einstakar aðstæður í náttúrunni
sumarlangt, eru ævintýri manns,
hests og hunds. Lambið á heldur
ekki sinn líka; drekkur móður-
mjólkina, teygar vatn úr lækjum og
lindum öræfanna og bítur gras sem
vex undan sól og regni. Sönn nátt-
úruafurð og stolt allra landsmanna
að bjóða góðum gesti lambakjöt.
Það er stórbrotið og tignarlegt að
sjá lagðprúða hjörðina liðast fram
og fyrir safninu fer forystukind-
in, harðsnúin og framsækin með
óvenjulega vitsmuni. Þeir sögðu
mér í Bandaríkjunum, bændurnir
sem bjuggu með íslenskt sauðfé,
að forystuærin væri vitrari en allir
prófessorarnir og stjórnmálamenn-
irnir til samans, því hún kæmi með
hjörðina heim þegar úlfurinn væri
kominn í skóginn. Forystukindin er
ekki vitlausa styggðar-skjátan sem
sumir rækta og enginn ræður við.
Svo nýtum við sauðkindina í dag
upp til agna. Nánast allt er verð-
mæti og litlu hent. Um allar borgir
heimsins bregður fyrir íslenskri
lopapeysu sem hátískuvöru.
,,Smalabrjálæði“
Hinsvegar velti ég oft fyrir mér því,
sem alltaf ber á í kringum smala-
mennsku; ,,smalabrjálæðinu“. Það
er eins og á marga bændur renni
berserksgangur eða einhver ógnar
kraftur, þeir stökkva hæð sína í loft
upp og blóta ógurlega.
Ég segi stundum söguna af
konunni í næstu sveit sem brá á
það ráð að senda bóndann af bæ
og loka smalahundinn inni þegar
smalað var, þá gekk allt upp. Pétur
Blöndal alþingismaður sagði mér
eftirfarandi sögu, hann er oft smali
með Skaftfellingum og sótti sér
manndóm þangað sem strákur í
sveit:
Pétur smalar oft með þeim á
haustin, hann smalar gangandi
enda maraþonhlaupari. Eitt haust
var mjög hlýtt í veðri, féð lagst,
hundarnir uppgefnir og smalarnir
,,öskruðu og lömdu sjálfa sig“ fyrir
aftan safnið, en hvorki gekk né rak.
Pétur var með litla trommu á sér.
Hann fór á undan safninu og tók
að slá taktinn. Það var eins og við
manninn mælt, féð reis upp og tók
að renna í takt við trommusláttinn
á eftir Pétri. Svona smöluðu smal-
arnir á Betlehemsvöllum sínu fé.
„Raggangar“ ryðja sér til rúms
Kúabóndinn er með mjaltabás
eða róbót og tileinkar sér tækni.
Ágúst Guðröðarson á Sauðanesi
á margt sauðfé. Ég talaði við hann
einn morgun snemma, þá var hann
við annan mann búinn að „raga“ á
annað þúsund fjár. Hann og frændi
hans, Snorri heitinn Sigfinnsson á
Selfossi, lentu í erfiðri „rollu“ eitt
haustið í þessum ramma eltinga-
leik, að hlaupa hverja kind uppi
og draga hana í klofinu. Þá fóru
þeir félagar að hugleiða tækni og
tóku upp svokallaða ragganga, sem
tíðkast hjá bændum í Skotlandi og á
Nýja-Sjálandi. Nú ryðja raggangar
sér til rúms hér, ca. 30 cm í botninn
og 60 cm að ofan. Þetta eru rennur
sem féð fer inn í, 5 til 7 metra langir
gangar, með nokkrum opnanlegum
hliðum. Engin átök, enginn æsing-
ur, harðsperrur eða meiðsli, kind-
urnar rólegar og bóndinn þuklar
sínar ær, gefur þeim, vigtar og velur
líflömbin í friði.
Guðni Ágústsson,
framkvæmdastjóri SAM
Um ,,smalabrjálæði“
og „ragganga“
Fréttir
Brimco í Mosfellsbæ framleiðir m.a. kerrur og vagna fyrir íslenska bændur:
Hættu innflutningi eftir hrun og láta
smíða nær alla vagna hér heima
Þröstur Karlsson, framkvæmda-
stjóri Brimco ehf. í Mosfellsbæ,
segir að fyrirtæki hans hafi gjör-
breytt um stefnu í kjölfar fjár-
málahrunsins 2008. „Við vorum
mikið að flytja inn flatvagna og
allskonar kerrur, en eftir hrun fór
ég að skoða hvort ekki væri eins
hagkvæmt að framleiða þetta hér
heima. Það varð úr og nú erum
við nær eingöngu að selja kerrur
og vagna sem við látum framleiða
sjálfir hjá íslenskum undirverk-
tökum og skapar það 2-3 störf sem
áður voru unnin erlendis.“
Þegar tíðindamann Bænda-
blaðsins bar að garði hjá Brimco í
síðustu viku stóð þar í hlaðinu glænýr
fjárflutningavagn sem tekur 60 lömb
í stíur. Þröstur sagði vagninn vera
smíðaðan fyrir Ásgeir Sveinsson á
Innri-Múla á Barðaströnd. Vagninn
er nánast eins og sá fyrsti af þessari
gerð, sem fór til Hafliða Sævarssonar
í Fossárdal fyrir austan.
Þröstur hóf starfsemi við inn-
flutning í eigin nafni árið 1994.
„Ég byrjaði á að flytja inn hesta-
kerrur. Bændaskólinn á Hólum
keypti fyrstu kerruna.“
Árið 2003 var starfsemin svo
færð í nýjan búning undir nafninu
Brimco ehf. Segir Þröstur að eftir
hrunið hafi hann farið að skoða þá
vagna og kerrur sem þeir voru að
flytja inn með tilliti til hvort ekki
væri hægt að smíða sambærilega
vagna hér heima. Komust þeir að
því að hægt var að hafa vagnana
mun ódýrari með því að framleiða
þá hér heima úr hráefni sem keypt
var ytra, ásamt öxlum frá Þýskalandi
og öðrum sérbúnaði. Eru vagnarnir
að sögn Þrastar um þriðjungi ódýrari
og í sumum tilfellum allt að helmingi
ódýrari en sambærilegir, innfluttir
vagnar.
Farið var út í að hanna og smíða
ýmsa vagna í samstarfi við væntan-
lega kaupendur. Eru þeir úr galvan-
húðuðu stáli og mjög sterkbyggðir.
Góð reynsla hefur fengist af vögn-
unum og t.d. er fjárflutningavagninn
sem Ásgeir á Innri-Múla fær í raun
fjölnota vagn. Auðvelt er að kippa
af honum grindverkinu og breyta í
flatvagn.
Brimco framleiðir nú vagna til
mjög fjölbreyttra nota. Vegagerðin
hefur m.a. látið þá smíða merkja-
kerrur sem eru með aðvörunarljósa-
búnaði og stillt upp þar sem vega-
framkvæmdir standa yfir. Isavia, sem
annast rekstur og uppbyggingu allra
flugvalla og lendingarstaða á Íslandi,
hefur einnig nýtt sér flatvagna frá
fyrirtækinu við starfsemi sína. Þá
hafa bændur og verktakar mikið
verið að spyrja um litla vagna fyrir
smágröfur. Flatvagnar hafa einnig
verið útbúnir fyrir björgunarsveitir til
flutninga á vélsleðum og svo mætti
lengi telja.
Það nýjasta í þessari vagnagerð er
hönnun á vögnum undir tvær skútur
sem verið er að smíða á Íslandi.
Ýmislegt annað er líka á boð-
stólum hjá Brimco, m.a. vörur fyrir
bændur frá Patura, undirburður fyrir
hesta, skeifur og margt fleira.
/HKr.
Þröstur Karlsson, framkvæmdastjóri Brim o, við glænýjan 60 kinda fjár utningavagn sem var á leiðinni til Ásgeirs
Sveinssonar á nnri-Múla á Barðaströnd. Mynd / HKr.
Ekki bara karlar í bændaferðum
Í Bændablaðinu 15. september var greint frá ferð Félags kartö ubænda til undee í Skotlandi fyrir skömmu á hátíð
sem bar y rskriftina „Potatoes in Pra ti e 2011“. Nokkrar myndir fylgdu fréttinni en lesendur voru jótir að taka
eftir því að myndefnið snerist allt um karlpeninginn þó fjölmargar konur voru þar með í för. Þykir ekki annað fært
en að bæta þar úr. Þessi hópmynd sýnir svo ekki verður um villst að fjölmargar konur með í för, væntanlega til að
hafa vit fyrir körlunum. Bergvin Jóhannsson, bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi og formaður Félags kartö ubænda
er samt sagður hafa leitt þennan hóp en trúlega hafa konurnar samt haft eitthvað um ferðatilhögunina að segja.
Til leigu:
Flókadalsá í Fljótum
Fremra veiðisvæði frá Flókadalsvatni að afréttargirðingu.
Bleikjusvæði með þremur stöngum á dag, leyfilegt agn maðk-
ur og fluga. Óskað er eftir tilboði í veiði árin 2012 og 2013.
Upplýsingar gefa Örn Þórarinsson í síma 8410322 og Jón
Ásmundsson í síma 4671669.
Tilboð skal senda á Veiðifélagið Flóki, Ökrum 570 Fljót fyrir
17 nóvember 2011 ,,merkt tilboð”
Réttur er áskilinn til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna
öllum.
Stjórn veiðifélagsins Flóka.