Bændablaðið - 02.02.2012, Síða 2
Bændablaðið | fimmtudagur 2. febrúar 20122
Fréttir
Sextán áburðartegundir sem
fluttar voru til landsins í fyrra
reyndust ekki uppfylla reglur
um efnasamsetningu samkvæmt
niðurstöðum áburðareftirlits
Matvælastofnunar (MAST). Þar
af uppfylltu þrjár tegundir sem
Búvís flutti inn ekki reglurnar,
ellefu tegundir sem Skeljungur
flutti inn og tvær tegundir sem
Sláturfélag Suðurlands (SS) flutti
inn. Um þetta hefur ítrekað verið
fjallað í fjölmiðlum síðustu vikur,
m.a. í síðasta Bændablaði.
Mest hefur verið rætt um of
hátt kadmíuminnihald áburðar sem
Skeljungur flutti inn en tvær tegundir
áburðar sem SS flutti inn reyndust
einnig með of háu kadmíuminni-
haldi. Í þeim þremur tegundum
sem Búvís flutti inn og ekki upp-
fylltu reglurnar, reyndust skráð gildi
næringarefna ekki rétt. Allar þessar
áburðartegundir hafa verið teknar
af skrá MAST, að sögn Valgeirs
Bjarnasonar, sérfræðings áburðar-
og fóðureftirlits hjá MAST.
„Við leyfum ekki dreifingu á
þessum áburðartegundum núna
í vor fyrr en að fyrir liggja niður-
stöður úr efnagreiningum sem sýna
að áburðurinn standist kröfur. Þetta
er ekki nýtt, þetta hefur alltaf verið
gert með þessum hætti. Það má ekki
auglýsa þessar tegundir til sölu fyrr
en búið er að skrá þær hjá Mast. Í því
förum við eftir vottunum frá fram-
leiðanda. Hins vegar verður dreifing
á áburðinum ekki heimil til notenda
fyrr en að lokinni sýnatöku og efna-
greiningu sem sýnir að áburðurinn
standist kröfur.“
Myndi brjóta gegn EES-
samningnum
- Stendur til, í ljósi þess hvernig
málum var háttað á síðasta ári, að
breyta vinnubrögðum við áburðar-
sýnatöku almennt?
„Það verður að hafa í huga að
áburður sem fluttur er hingað til
lands er EB-vottaður. Samkvæmt
EES-samningnum höfum við undir-
gengist reglur um frjálst flæði vöru
og þar með telst áburður. Við megum
því ekki stöðva innflutning, sölu og
dreifingu áburðar nema við höfum
rökstuddan grun um að eitthvað sé í
ólagi. Við munum hins vegar fara yfir
okkar verklag og funda með áburðar-
fyrirtækjum um leiðir til að tryggja
öryggi áburðar.“
- Það gilda samt sem áður ekki
sömu reglur um kadmíuminnihald
hér á landi og í Evrópusambandinu,
ekki satt?Var farið með rangt mál í
þeim vottorðum sem fylgdu áburð-
inum?
„Nei, áburðinum þarf að fylgja
við skráningu um að hann standist
íslenskar kröfur um kadmíum. Það
höfum við alltaf fengið, en það sem
brást síðasta vor var að hráefnum var
breytt án vitundar aðila. Þessi áburð-
ur er búinn að vera á skrá undanfarin
ár og við höfum alltaf tekið sýni úr
honum, sem hann hefur ávallt staðist
með tilliti til kadmíums. Því tökum
við gild vottorð með honum. Þetta
mál, hvað varðar Skeljungs áburðinn,
liggur hjá fosfórbirgi áburðarverk-
smiðjunnar úti, Carrs. Carrs sendi
þennan áburð í góðri trú.“
Þarf heimildir æðra stjórnvalds
- Má MAST sem sagt ekki takmarka
sölu og dreifingu á áburði með þeim
rökum að stofnunin vilji bíða eftir
niðurstöðum áburðareftirlits? Má
það eingöngu ef rökstuddur grunur
leikur á um að efnainnihald áburðar-
ins sé ekki í lagi?
„Ég tel að við yrðum að sækja
þær heimildir til æðra stjórnvalds
en þessarar stofnunar. MAST hefur
ekki neina heimild til að gera slíkt
ef ekkert bendir til annars en að vara
sé í lagi.“
- Hefur verið rætt innan MAST að
sækja um slíkar heimildir? Hefur það
verið rætt við stjórnvöld?
„MAST hefur lagt fram ýmsar til-
lögur um lagabreytingar til að auka
ábyrgð fyrirtækja á áburði sem þau
markaðssetja. Ráðuneytið er nú að
vinna úr þeim tillögum.“
Virða þarf andmælarétt
- Í umræðunni um að kadmíumstyrk-
ur í áburði hefði verið yfir mörkum í
fyrra var nefnt að bráðbirgðaniður-
stöður hefðu legið fyrir í kringum
20. maí síðstliðinn. Hvað þýðir það
þegar talað er um bráðbirgðaniður-
stöður? Af hverju þótti þetta ekki
ljóst strax þá?
„Um var að ræða niðurstöður af
fáum sýnum, þannig að óskað var
eftir að kadmíum yrði greint í öllum
sýnum sem innihéldu fosfór. Þá var
einnig beðið eftir niðurstöðum grein-
inga sýna úr fleiri förmum, m.a. til að
kanna hvort þessi galli væri aðeins í
fyrstu sendingu. Gefi niðurstöðurnar
til kynna að áburður sé ekki í lagi,
t.a.m. að kadmíuminnihald sé ofan
við leyfileg mörk, þá hefur fyrir-
tækið sem flytur inn áburðinn rétt
til að andmæla þeim niðurstöðum.
Fyrirtækið hefur ekki heimild til að
setja áburðinn í dreifingu á meðan.
Það getur svo samþykkt niðurstöðu
okkar og endursent áburðinn eða
látið efnagreina systursýni hjá ann-
arri rannsóknarstofu. Ef sú greining
er í lagi verða næstu skref skoðuð.
Hins vegar þarf auðvitað að virða
þennan rétt fyrirtækjanna til að láta
fara fram efnagreiningu á systursýni
til að staðfesta fyrri greiningar og því
er talað um bráðabirgðaniðurstöður.“
Engin tímamörk á skráningu
áburðar
- Fyrirtækin þurfa að hafa leyfi til
að flytja inn, selja og dreifa áburði.
Hvað gildir sú skráning lengi?
„Sá áburður sem var í lagi og var
á skrá í fyrra er áfram á skrá. Það
þarf ekki að sækja um nýskráningu
á honum aftur. Það er engin ástæða
til takmarkana, hafi ekkert komið
fram sem gefur tilefni til að ætla að
áburðurinn sé ekki í lagi. Hins vegar
þarf að sækja um skráningu á þeim
áburðartegundum sem ekki voru í
lagi í fyrra. Innihaldslýsingin sem
hann var skráður eftir var röng og
þar með fellur skráningin úr gildi.“
- Nú gaf ráðherra út reglugerð
um birtingu á niðurstöðum áburðar-
eftirlits á dögunum. Breytir hún
einhverju varðandi það vinnulag
sem viðhaft hefur verið hjá MAST í
þessum efnum, t.a.m. að það mætti
birta bráðabirgðaniðurstöður efna-
greininga strax?
„Þessi nýja reglugerð styrkir
heimildir Matvælastofnunar varð-
andi birtingar á niðurstöðum úr eftir-
liti með áburði sem er á markaði.
Samkvæmt henni verður stofnuninni
skylt að birta niðurstöður úr eftir-
liti með áburði þegar niðurstöður úr
greiningum leiða í ljós að áburður
er ekki í samræmi við vörulýsingar
eða ákvæði laga og reglna um áburð.
Jafnframt ber stofnuninni að upplýsa
strax ef gefin eru fyrirmæli til áburð-
arfyrirtækja um afmengun áburðar
eða þegar stofnunin takmarkar fram-
leiðslu eða markaðssetningu, leggur
hald á áburð eða fer fram á förgun. Í
reglugerðinni er talað um að birting
skuli verða eins fljótt og unnt er,
en stofnunin þarf eftir sem áður að
tryggja að niðurstöður séu réttar og
að fyrirtækin hafi haft tækifæri til
að láta efnagreina systursýni áður
en niðurstöður úr efnagreiningum
eru birtar. Upplýsingar um fyrirmæli
sem Matvælastofnun gefur áburðar-
fyrirtækjum verða hinsvegar birtar
þegar ákvörðunin liggur fyrir, en
áður en að því kemur fá fyrirtækin
andmælarétt.“
/fr
MAST telur sig ekki hafa heimild til að stöðva dreifingu á vottuðum áburði:
Áburðareftirliti ekki breytt
- Rökstuddur grunur þarf að vera um að efnainnihald sé ekki í lagi
Höfuðstöðvar Mast á Selfossi. Mynd / HKr.
Eins og kemur fram í viðtali
við Valgeir Bjarnason sér-
fræðing í fóðureftirliti hjá
Matvælastofnun (MAST) hér á
síðunni, er óumdeilt að þrettán
áburðartegundir sem fluttar
voru til landsins síðasta vor
uppfylltu ekki þær kröfur sem
gerðar eru hér á landi varð-
andi magn kadmíums í áburði.
MAST taldi sig með vísan til
þessa hafa heimildir til þess
að afskrá áburðinn og banna
frekari sölu á honum.
Í 1. mgr. 6. gr. a. laga nr.
22/1994 um eftirlit með fóðri,
áburði og sáðvöru, segir að leiki
rökstuddur grunur á að tiltekið
fóður, áburður eða sáðvara hafi
í för með sér áhættu fyrir heil-
brigði manna eða dýra skuli
Matvælastofnun upplýsa almenn-
ing um eðli áhættunnar fyrir heilsu
dýra eða manna. MAST taldi með
hliðsjón af magni kadmíums í
þessum tilteknu áburðartegundum
að ekki stafaði hætta af honum og
að þar af leiðandi væri stofnuninni
ekki skylt að upplýsa almenning
um niðurstöðurnar þegar þær lágu
fyrir. Í tilkynningu frá MAST í lok
síðasta árs kom fram að þar sem
áburðurinn hafi verið kominn í
dreifingu og notkun hans hafi ekki
verið talin hættuleg hafi ekki verið
tilefni til þess að innkalla hann frá
kaupendum.
Elías Blöndal Guðjónsson,
lögfræðingur Bændasamtakanna,
telur röksemdir MAST í þessu
máli á gráu svæði. „Það ætti
auðvitað ekki að hafa áhrif á
ákvörðun um hvort innkalla eigi
áburð að hann sé þegar kominn í
dreifingu. Þetta er allt saman mjög
mótsagnakennt og maður hlýtur að
spyrja sig hvernig það fer saman
annars vegar að áburðurinn upp-
fylli ekki innlendar kröfur um
magn kadmíums og hins vegar
að ekki felist áhætta í því. Hér á
landi hefur verið ákveðið að gilda
skuli strangar kröfur um magn
kadmíums í áburði og það eitt
að kadmíuminnihald sé yfir við-
miðunarmörkum ætti að fela í sér
að skilyrði 1aga númer 22/1994
um áhættu sé fullnægt. Það er í
það minnsta afar óheppilegt ef
Matvælastofnun er í sjálfsvald
sett hverju sinni að meta hversu
mikið má fara fram úr tilteknum
viðmiðunarmörkum án þess að
það feli í sér áhættu fyrir heil-
brigði manna og dýra.“
Elías segir fjölmörgum spurn-
ingum enn ósvarað varðandi
málið. „Ég held að það sé óhjá-
kvæmilegt að aðdragandi þess
verði rannsakaður til þess að kom-
ast að raun um hvað fór úrskeiðis,
svo koma megi í veg fyrir að slíkt
sem þetta gerist aftur.“
/fr
Röksemdir MAST mótsagnakenndar
- segir lögfræðingur Bændasamtakanna
Danskir svínabændur rækta
árlega um 2,5 milljónir sláturgrísa
utan Danmerkur. Það samsvarar
tíu prósentum af allri framleiðslu
svínakjöts í Danmörku.
Danskir bændur og fjárfestar hafa
byggt upp stórar framleiðslueiningar
erlendis sem telja um 100.000 gyllt-
ur sem standa undir framleiðslunni.
Magnið er svo mikið að það er meira
en næststærsta sláturhús Danmerkur,
Tican, slátrar ár hvert.
Umræddar tölur eru byggðar á
mati félagsskapar sem heitir Danish
Farmers Abroad. Tölurnar eru ein-
göngu unnar eftir upplýsingum frá
félagsmönnum svo ekki er útilokað
að um enn meiri danska uppbyggingu
sé að ræða á erlendri grundu.
Í tölum Danish Farmers Abroad
kemur jafnframt fram að danskir
bændur eigi 350.000 hektara lands
í ræktun erlendis en það samsvara
14% af öllu ræktarlandi í Danmörku.
Langstærstur hluti þessara fjárfest-
inga í landbúnaði eru í Austur Evrópu
en danskir bændur hafa einnig reist
svínabú í Norður Ameríku og nú
síðast í Kína. /fr
Danskir svínabændur
færa út kvíarnar
Fyrra ár var ekki riðulaust eins
og talið var. Staðfest hefur verið
að smitefni riðu hafi fundist í
heilasýni úr einni kind frá bænum
Merki á Jökuldal. Kindinni var
slátrað á sláturhúsi í haust og
því var síðasta ár ekki án riðu-
tilfella eins og talið var. Riðan er
af afbrigðinu NOR 98 og er þetta
fjórði bærinn á Íslandi þar sem
þetta afbrigði finnst.
Bærinn Merki er í Héraðshólfi en
þar greindist síðast riða árið 1997.
Um 530 kindur eru á bænum og mun
þeim öllum verða lógað og gripið
til þeirra venjubundnu aðgerða sem
gripið er til þegar riða kemur upp.
Þorsteinn Ólafsson dýra-
læknir sauðfjársjúkdóma hjá
Matvælastofnun (MAST) segir
þetta dapurleg tíðindi. „Það átti
eftir að greina nokkur sýni og því
miður kom þetta upp í einu af síðustu
sýnunum.“
Í síðasta Bændablaði var frétt um
að ekkert riðutilfelli hefði komið upp
á síðasta ári, byggt á fréttatilkynn-
ingu frá MAST. Því miður er svo
ekki raunin eins og nú er komið í
ljós. Í fréttinni var rætt við Sigurð
Sigurðarson dýralækni sem sagði
að niðurstaðan væri gleðiefni en of
snemmt væri að hrósa happi. Varaði
hann sterklega við að dregið yrði
úr baráttunni gegn riðunni og þessi
tíðindi gefa tilefni til að veita þeim
orðum hans góðan gaum. /fr
Riðusmit staðfest
í einni kind á
Jökuldal