Bændablaðið - 02.02.2012, Blaðsíða 26

Bændablaðið - 02.02.2012, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | fimmtudagur 2. febrúar 2012 Utan úr heimi Áhrif brennslu jarðefna á hlýnun jarðar Það var olíufélagið Philips sem varð fyrst til þess að finna olíu- lindir á landgrunni Noregs árið 1969. Nokkrum árum síðar ákvað norska Stórþingið að fara hægt í sakirnar við olíuvinnslu á land- grunninu. Sú ákvörðun stóð ekki lengi. Olíufélögin þrýstu á hraðari vinnslu og norska ríkið féll fyrir olíugróðanum. Umhyggjan fyrir komandi kynslóðum hvarf eins og dögg fyrir sólu og vonin um stundar- gróða tók völdin. Sú stefna hefur staðið allt til þessa. Því meiri olíugróði, því betra. Á hinn bóginn hafa sérfræðingar í veður- farsmálum komist að þeirri niðurstöðu að brennsla jarðefna, kola og olíu hafi hækkað meðalhita á jörðinni og að það sé lífkerfi hennar og tilveru mannsins til óþurftar á marga vegu, svo sem með því að þurrkasvæði stækka, sjávar- borð hækkar o.fl. Alþjóðleg samtök ríkja heims hafa haldið ráðstefnur til að ná samkomulagi um viðbrögð en það hefur skilað litlum árangri. Hvað veldur? Sérfræðingar í elstu sögu manns- ins rekja sögu hans til Rift-dalarins í Austur-Afríku fyrir um 150 þúsund árum. Hinn gamli Adam, forfaðir okkar, sá ekki langt fram fyrir sig. Þeir einstaklingar, sem sýndu frumkvæði og komust efnalega betur af en aðrir, eignuðust fleiri afkomendur en hinir. Þar gilti það einnig, eins og enn þann dag í dag, að nota sér stundarhagnað, þó að það dygði ekki þegar til lengdar lét. Sem sigurvegarar stóðu uppi þeir sem eignuðust flesta afkomendur. Þeir settu mark sitt á þróunina meira en þeir sem voru ánægðir með það líf sem þeir lifðu, því að lífsánægjan er erfðabundin. Bandaríski mannfræðingurinn Jared Diamond, sem rannsakað hefur sam- félög manna á öllum þróunarstigum og skrifað grundvallarrit um rannsóknir sínar, hefur komist að þeirri niðurstöðu að nútímafólk sé aðeins í litlu mæli afkomendur víðsýnna villimanna, sem lifðu í sátt og samlyndi við náttúruna. Frumbyggjar og menningarsamfélög, sem bjuggu yfir nægilegri tækni til þess, stunduðu rányrkju á lífsgrund- velli sínum og sköðuðu hann verulega. Göfugar hugsjónir og trúarbrögð hafa þó breytt sögunni. Nú á tímum eru deilur útkljáðar í réttarsölum og ríki reka utanríkisþjónustu til að hafa hemil á hershöfðingjum. Við grípum inn í þegar við verðum vör við það að skaði er unninn á lífi fólks og samfélaginu. Undantekningin er eigendur olíu- félaganna, þar á meðal Statoil í Noregi. Ráðgjafarfyrirtækið Econ Pöyry hefur komist að þeirri niðurstöðu að olíulind- ir og mörg verðmæt efni, sem unnin eru úr jörðu, verði sífellt torfengnari og að samkeppnin um þau muni aukast. Þessi framtíðarsýn nær ekki inn á alþjóðlegar ráðstefnur sem eiga að marka farsæla framtíð fyrir lífsskilyrði á jörðinni, svo sem varðandi það að hafa hemil á hlýnum lofthjúpsins. Þessi þróun verður ekki stöðvuð en það er unnt að hægja á henni. Það er arfleifð okkar og enginn lögfræðingur getur hrósað sigri eftir að hafa mætt náttúrunni í skiptaréttinum. Nationen, 24. nóv. 2011, grein eftir Erik Solheim, stytt. Landbúnaðarframleiðsla Evrópu á árinu 2012: Spáð stöðnun eða samdrætti G-20 ríkjahópurinn sendi í fyrsta sinn á síðasta ári frá sér skamm- tímaspá um þróun landbúnaðar og hráefnismarkaða á milli áranna 2011 og 2012. Búist er við að land- búnaðarframleiðslan í Evrópu ýmist standi í stað eða dragist saman á nýja árinu. Spá G-20 ríkjanna byggir á rann- sóknum sérfræðinga í landbúnaðar- málum og málefnum dreifðari byggða innan ESB. Í spánni kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að kornuppskera í álfunni verði svipuð og á árinu 2011 eða um 275 milljónir tonna. Áætlað er að framleiðsla á olíufræi dragist saman um 2% og einnig er búist við að nokkuð dragi úr kjötframleiðslu, eftir umtalsverða aukningu á síðastliðnum tveim árum. Áætlað er að mjólkur- framleiðsla verði svipuð á árinu 2012 og var 2011 eða um 151 milljón tonna. Talað um endalok þróunar líftæknilega erfðabreyttra plantna í Evrópu: Risafyrirtæki í plöntulíftækni flýr með hluta starfseminnar frá Evrópu - BASF flytur þróunarvinnuna frá Þýskalandi til Bandaríkjanna Þýski efnaframleiðslurisinn BASF tilkynnti þann 16. janúar að fyrir- tækið væri að draga sig úr fram- leiðslu líftæknilega erfðabreyttra plantna í Evrópu (genetically modified, GM) og hygðist flytja þá starfsemi til Bandaríkjanna. Ástæðan er sögð sú að þar sé mótstaða neytenda gegn erfða- breyttri ræktun ekki eins mikil og í Evrópu. Talað er um að þetta kunni að marka endalok þróunar líftæknilega erfðabreyttra plantna í Evrópu. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að höfuðstöðvar plöntuvísinda BASF (BASF Plant Science) verði fluttar frá Limburgerhof í Suðvestur- Þýskalandi til Raleigh í Norður- Karólínu. Þá mun tveim minni starfsstöðvum BASF í Þýskalandi og Svíþjóð verða lokað. Eigi að síður verður fyrirtækið áfram með þróunarstarfsemi í Ghent í Belgíu og í Berlín í Þýskalandi. Þá verður haldið áfram vinnu sem hafin var við að fá samþykki fyrir erfðabreyttum afurðum fyrirtækisins. Að öðru leyti verður hætt allri vinnu við markaðs- setningu á erfðabreyttum afurðum fyrirtækisins í Evrópu. Fyrirtækið mun flytja þróunar- vinnu á erfðabreyttum plöntum með sér til Bandaríkjanna en hætta þróun á afbrigðum af erfðabreyttum kartöflum (Amflora, Amadea og Modena) með þoli gegn sjúkdóm- um eins og kartöflumyglu (hring- roti) og einu afbrigði af hveiti fyrir evrópskan markað. Sannfærð um mikilvægi líftækninnar „Við erum sannfærð um að líftæknin mun gegna lykilhlutverki í tækni- þróun 21. aldar. Samt sem áður er skortur á viðurkenningu á þessari tækni víða um Evrópu, meðal meiri- hluta neytenda, bænda og stjórn- málamanna. Þar af leiðir að það er ekkert viðskiptalegt vit í að halda áfram að fjárfesta í framleiðslu fyrir þennan markað,“ segir doktor Stefan Marcinowski, einn af stjórnarmönn- um BASF. „Því munum við einbeita okkur að áhugaverðum markaði fyrir plöntulíftækni í Norður- og Suður- Ameríku sem og vaxandi markaði í Asíu.“ Hjá BASF Plant Science í Limburgerhof hafa starfað 157 manns. Fyrirtækið ráðgerir að loka starfsemi sinni í Gatersleben í Þýskalandi með 57 starfsmönnum og í Svalöv í Svíþjóð, þar sem starfsmenn eru 6 talsins. Í heild er ráðgert að flytja 123 starfsmenn frá Limburgerhof til Raleigh í Bandaríkjunum og fækka í starfs- mannaliði á öðrum stöðum um 78 á næstu tveim árum. Í heild er ætlunin að fækka starfsmönnum BASF í Evrópu um 140 en hluta starfsmanna verða boðnar stöður við aðrar deildir fyrirtækisins eins og kostur er. Í árslok 2010 störfuðu í heild hjá BASF-samsteypunni víða um heim um 109.000 manns. Það ár seldi fyrirtækið vörur fyrir 63,9 milljarða punda. Í náið samstarf við Monsanto Athyglisvert er að með flutningnum til Bandaríkjanna mun BASF taka upp aukið samstarf við hið afar umdeilda fyrirtæki Monsanto, sem hannaði meðal annars gróður- eyðingarefnið Agent Orange sem Bandaríkjamenn beittu í stórum stíl í eiturefnahernaði gegn Víetnam á sjöunda áratug síðustu aldar. Monsanto er í dag gríðarlega umfangsmikið í matvælaframleiðslu Bandaríkjamanna og margir þekkja hér á landi gróðureyðingarefnið Roundup, sem fyrirtækið framleiðir og þróað var upp úr Agent Orange. Fyrsta afurðin úr samstarfi BASF og Monsanto var samþykkt af banda- rískum stjórnvöldum á síðasta ári en það er þurrkþolið korn. Þá hefur BASF þróað „Cultivance® soy- beans“ í samstarfi við Embrapa og hlaut það afbrigði samþykki brasil- ískra yfirvalda 2009. Helsti keppinautur BASF í Þýskalandi, fyrirtækið Bayer, held- ur áfram þróunarstarfsemi sinni á erfðabreyttum plöntum í Ghent í Belgíu. Þar er um að ræða þróun á erfðabreyttri baðmull, sem ekki er þó ætluð evrópskum markaði. Vísa til neikvæðs pólitísks umhverfis Haft er eftir Nathalie Moll, aðalrit- ara EuropaBio líftæknisamtakanna í Brussel, að ekki sé nokkur vafi á því að tímaskekkja í regluverki og neikvætt pólitískt umhverfi fyrir líf- tækni í Evrópu skipti þarna sköpum í því að Evrópa glati störfum og sam- keppnishæfni. Ákvörðunin um að stoppa erfða- tæknina í Evrópu snúist ekki ein- göngu um tap fyrir þetta ákveðna fyrirtæki, heldur fyrir Evrópu sem heild. Þá sé þetta í mikilli þversögn við hraða þróun þessarar tækni á öðrum stöðum í heiminum. Bent er á að það hafi tekið BASF 13 ár að fá samþykki Evrópus- ambandsins fyrir hinni erfðabreyttu Amflora kartöflutegund, sem fékkst árið 2010. Sú samþykkt byggðist þó á því að ræktun kartöflunnar yrði undir stöðugu eftirliti. Jonathan Jones, prófesssor og aðstoðarrannsóknarstjóri hjá The Sainsbury Lab í Norwich í Bretlandi, segir að plöntuvísindamenn um alla Evrópu „syrgi brotthvarf BASF“. Þá sé með þessu verið að segja ungu fólki sem gæti haft áhuga á plöntu- rannsóknum að það geti ekki komið með neitt nýtt og spennandi inn á Evrópumarkað. Þetta muni líka draga úr áhuga stjórnvalda í Evrópu á að styðja við uppbyggingu erfðatækni í álfunni. - Fækkun býflugna í Evrópu getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fæðuframleiðslu og jafnvægi í lífríkinu. Þetta er fullyrt í nýlegri ályktun Evrópuþingsins. Þingið hvetur framkvæmdastjórn ESB til að veita auknu fé til rannsókna og aðgerða til varnar býflugnastofninum. Frjóvgun jurta, sem býflugur sjá um, er sameiginlegt hagsmuna- mál allra ríkja í Evrópu. Að sporna við fækkun býflugna verður því einungis komið við með samstilltu átaki landanna, segir í ályktun Evrópuþingsins, sem það sam- þykkti nýlega. Þá samþykkti þingið að komið verði á fót eftirliti með ástandi býflugnastofnsins í ríkjum sambandsins. Sem liður í því var samþykkt að setja samræmdar reglur um söfnun upplýsinga sem varða býflugna- stofninn í öllum löndum sam- bandsins. Þá skulu löndin samræma vinnureglur sínar hvað varðar rann- sóknir á býflugum. Eitt af því sem hefur áhrif á vöxt og viðgang býflugna er útbreiðsla eiturefna í náttúrunni, svo sem jurtavarnarefna. Samþykkt var að gera átak til að upplýsa bændur um áhrif þeirra á lífsskilyrði býflugna. Sambærilegt átak þyrfti að gera til að upplýsa býflugnabændur og dýra- lækna um það hvernig standa skuli að eftirliti með býflugum í því skyni að fyrirbyggja sjúkdóma og önnur áföll í býflugnarækt. Þá kallar Evrópuþingið eftir meiri fræðslu fyrir býflugnabænd- ur um áhrif þeirra varnarefna sem þeir nota í búskap sínum. Þeirri ályktun var beint til framkvæmdastjórnar ESB. Einnig var hvatt til þess að fylgst yrði með þróun þessara mála utan ESB, m.a. í því skyni að fylgjast með heilbrigði innfluttra býflugnaafurða til þess að koma í veg fyrir að þekktir sjúkdómar í fjarlægum löndum berist til Evrópu. Áætlað er að um 84% af öllum tegundum nytjajurta og 76% af allri matvælaframleiðslu í Evrópu séu háð frjóvgun nytjajurta með hjálp býflugna. Þá hafa um 600 þúsund Evrópubúar beinar og óbeinar tekjur af býflugna- rækt. Landsbygdens Folk, 2. des. 2011 Evrópuþingið hvetur til aðgerða gegn býflugnadauða

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.