Bændablaðið - 02.02.2012, Síða 30
30 Bændablaðið | fimmtudagur 2. febrúar 2012
Markaðsbásinn
Skýrsla Samkeppniseftirlitsins:
Verðþróun og samkeppni
á dagvörumarkaði
– Hvert skal stefna?
Þann 26. janúar sl. kynnti
Samkeppniseftirlitið ýtarlega
úttekt á verðþróun og samkeppni
á dagvörumarkaði. Í skýrslunni
er að finna ýtarlega greiningu
á verðþróun dagvöru árin 2006
til 2010 og innkaupsverði smá-
söluverslana og álagningu þeirra.
Vísitala dagvöruverðs (eins og það
er skilgreint í skýrslunni) hækkaði
frá janúar 2006 til ársloka 2011
um tæp 60%.
Greiningin sem kynnt er í skýrsl-
unni er ýtarlegri en áður hefur sést
og niðurstöðurnar athyglisverðar.
Þannig segir m.a. á bls. 7: „Vafasamt
er að viðskiptakjör birgja til smá-
söluverslana styðjist í öllum tilvikum
við málefnaleg sjónarmið.“
Minni verslunum mismunað
Á bls. 13 kemur fram að samkeppnis-
staða minni verslana sé erfið og segir
þar orðrétt:
„Álagning lágvöruverðsverslana
var að jafnaði um 18% ofan á inn-
kaupsverð viðkomandi verslana eða
birgðahúss innan sömu vébanda og
verslanirnar. Er þá miðað við álagn-
ingu þeirrar lágvöruverslanakeðju
sem var með lægsta verðið í hverju
tilviki. Innkaupsverð minni verslana
var að meðaltali 16% hærra en inn-
kaupsverð lágvöruverðsverslana á
sömu vörum.“
Brauð og ýmsar kornvörur
Áhugavert er að rýna nánar í þetta.
Í skýrslunni er dagvörum skipt í
21 flokk en auk matvara er þar að
finna hreingerningarvörur, hrein-
lætisvörur og snyrtivörur. Flokkar
sem innihalda kornvörur á einn eða
annan hátt eru þrír: Brauð og kökur,
svo flatbrauð, hrökkbrauð og kex og
loks aðrar kornvörur. Þessar afurðir
eiga það sameiginlegt að hráefni
eru að stærstum hluta innflutt eða
þær eru fluttar inn sem fullunnar
vörur. Þessar vörur hækkuðu um
10% umfram vísitölu dagvöru á
tímabilinu.
Innkaupsverð minni verslana var
hærra en útsöluverð lágvöruverðs-
verslana sem buðu lægsta verð og
allt að 26% hærra en innkaupsverð
þeirra lágvöruverðsverslana sem
buðu lægsta verðið. Verð á Íslandi á
þessum vörum var 28% hærra en að
meðaltali innan ESB27 árið 2009.
Er þetta ekki greinilegt dæmi
um að stórar verslanakeðjur hafa
óeðlilegan markaðsstyrk, sem
Samkeppniseftirlitið á að taka til
skoðunar?
Innlendar búvörur
hækka mun minna
Allar kjötvörur, ostur og smjör hafa
hækkað umtalsvert minna, oft nálægt
helmingi minna, en vísitala dagvöru-
verðs á tímabilinu en mjólkurvörur
og egg svipað. Vert er einnig að geta
þess að árið 2009 var hlutfallslegt
verðlag á innlendum búvörum lægra
á Íslandi en að meðaltali innan ESB.
Innlendar búvörur, þ.e. svínakjöt,
egg, mjólkurvörur (þ.m.t. ostur og
smjör) eiga það að jafnaði sameigin-
legt að minni verslanir hafa betri
möguleika en í flestum öðrum vöru-
flokkum til samkeppni á grundvelli
verðs. Munur á innkaupsverði er
frá því að vera enginn fyrir mjólk,
lambakjöt kemur næst á eftir en
munur á innkaupsverði stærri versl-
ana og þeirra minni var 10%. Ekki er
tekið fram í skýrslunni að heildsölu-
verð á um helmingi mjólkurafurða
er ákveðið af verðlagsnefnd búvöru.
Í þessum vöruflokkum er heilt
á litið hvað minnstur munur á inn-
kaupsverði verslana. Einnig kemur
í ljós að því minni sem þessi munur
er, því minna leggja stóru verslana-
keðjurnar á vörurnar. Þetta á t.d.
augljóslega við mjólk og mjólkur-
afurðir. Stóru aðilarnir eru semsagt
tilbúnir að selja þessar vörur á inn-
kaupsverði til að ná neytendunum
inn í búðirnar og sætta sig við að þær
skili ekki neinni framlegð til rekstrar-
ins. Tekjurnar eru teknar af öðrum
vörum, einkum þeim sem fluttar eru
inn um eigin birgðahús eða af stórum
innflytjendum, sem ganga langt í að
bjóða stóru aðilunum betri kjör en
litlu verslununum.
Þetta leiðir hugann óhjákvæmi-
lega að því hvort verið er að selja
vörur undir kostnaðarverði. Sala
vara undir kostnaðarverði er bönnuð
í mörgum Evrópulöndum, þ.á.m.
Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi
og Írlandi. ESB mun einnig vera að
íhuga að setja slíkt bann á.
Tollfrelsi ávexta og grænmetis
skilar sér ekki
Þessi flokkur sker sig algerlega úr í
skoðun Samkeppniseftirlitsins þar
sem álagning er 30% hjá lágvöru-
verðsverslunum. Bananar og Búr eru
með um eða yfir 90% markaðarins.
Þetta er ekki síst áhugvert í ljósi þess
að í samanburði við Evrópskt verðlag
hefur verð á ávöxtum og grænmeti
lengi verið langtum hærra en meðal-
talið (54% hærra 2006 og 17% hærra
árið 2009) þrátt fyrir að þessar vörur
séu undantekningalítið fluttar inn án
tolla.
Tillögur til úrbóta
– hvert skal stefnt?
Það er verðugt viðfangsefni fyrir
Samkeppniseftirlitið að leita leiða til
úrbóta á þessu sviði og virðist fyrst og
fremst eiga við aðrar vörur en búvör-
ur. Mér virðis skýrslan ekki sýna að
áberandi munur sé á innkaupsverði
verslana á búvörum. Ef eitthvað er,
er hann minni en í flestum öðrum
vöruflokkum. Aukinn innflutningur
yrði væntanlega að verulegu leyti í
höndum birgðahúsa stóru verslana-
samstæðanna, sem við það myndu
setjast í ráðandi stöðu á verðlagningu
þessara vara á markaðnum. Skýrslan
staðfestir einmitt að sú sé reyndin í
dag í þeim vöruflokkum sem mikill
innflutningur er á eða einn stór, inn-
lendur birgir á markaðnum, eins og
gildir um brauð- og kökumarkaðinn.
Hvernig aukinn innflutningur getur
leitt til jafnari samkeppnisaðstöðu
milli verslana á markaðnum er vand-
séð í þessu ljósi.
Þetta má ennfremur rökstyðja
með því að árið 2009 var hlutfalls-
legt verðlag á kjöti, mjólkurvöru, osti
og eggjum lægra hér á landi en í ESB,
meðan verðlag á innfluttum mat-
vörum var hærra en í ESB löndum,
metið með sama hætti.
Afnám tolla bætir hag
smásöluverslunar
Afnám tollverndar mun auka svigrúm
smásölunnar til að afla sér aðfanga
annars staðar og bæta stöðu sína á
kostnað bænda. Þetta mun að öllum
líkindum leiða til breytinga á verð-
myndun búvara þannig að stærri hluti
álagningar falli smásölunni í skaut.
Reynsla Finna bendir til þess að völd
smásölunnar hafi aukist við inngöngu
Finnlands í Evrópusambandið og að
vinnslu og smásölu hafi gengið mun
betur að viðhalda eigin álagningu en
bændum. Áhugi fyrirtækja í verslun
með dagvöru á afnámi innflutnings-
hafta er hins vegar skiljanlegur í
þessu ljósi.
Vorið 2011 kom út viðamikil
skýrsla um matvörumarkaðinn í
Noregi; „Mat, makt og avmakt,
om styrkeforholdene i verdikedjen
for mat“. Skýrslan var afrakstur
nefndarstarfs, sem fjalla skyldi um
valdahlutföll í virðiskeðjunni í mat-
vöruviðskiptum. Þar í landi eru 4
ráðandi aðilar á smálsölumarkaðnum.
Meirihluti nefndarinnar sem vann
skýrsluna taldi að það væri „rational“
eða eðlileg niðurstaða fyrir fyrirtæki
á matvörumarkaði að reyna ekki um
of á verðlagningu varanna. Í ljósi þess
að ráðandi aðilar voru aðeins 4 (NB í
mesta lagi 3 á Íslandi, þar af einn með
yfir 50% markaðshlutdeild), getur
það virst skynsamlegt til skemmri
tíma litið að lækka verð til að ná í
fleiri viðskiptavini. Ef aðeins einn
aðili gerir þetta getur hann fjölgað
viðskiptavinum sínum. Til lengri tíma
litið mun það að allir lækki verð hins
vegar leiða til þess að öll fyrirtækin
hafi lægri tekjur af rekstri sínum. Þess
vegna er verðlækkun ekki skynsam-
leg aðferð í samkeppni meðan neyt-
endur vilja og geta verslað á ríkjandi
verðlagi.
Ein verslunarkeðja yfirgnæfandi
á markaði
Það væri áhugavert að Samkeppnis-
eftirlitið fjallaði um þetta sjónarhorn
og áhrif þess á dagvörumarkaði hér
á landi þegar þess er gætt að aðeins
þrír aðilar ráða 90% af markaðnum,
þar af er einn aðili með yfir 50%
og þar af yfir 60% á höfuðborgar-
svæðinu. Líklega er þetta einsdæmi
í V-Evrópu. Í þessari skýrslu er
að finna fleiri fróðleg viðhorf og
niðurstöður sem gætu átt erindi inn
í umfjöllun um íslenska smásölu-
markaðinn.
Í Bretlandi er stærsti aðilinn á
smásölumarkaði Tesco með 31%
markaðshlutdeild en 7 stærstu keðj-
urnar eru samtals með 92%. Þar hafa
stjórnvöld um árabil unnið að því
að efla samkeppni og réttláta við-
skiptahætti. Stjórnvöld hafa gefið
út ýtarlegar reglur um starfshætti á
matvörumarkaði, „Groceries supply
code of practice“. Síðast voru þær
endurbættar árið 2010. Framkvæmd
og eftirfylgni reglnanna heyrir undir
embættismann í því ráðuneyti sem
fer með viðskipti og samkeppnismál.
Reglurnar kveða m.a. á um að
gera skuli skriflega samninga um
viðskipti birgja og smásölu sem
tilgreini skilmála þeirra, og að
takmarkanir séu á þátttöku birgja í
markaðskostnaði. Einnig er bannað
að gera samninga sem fela í sér að
birgjar taki á sig rýrnun í verslunum.
Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktun
sem tekur til þessa en BÍ hafa árum
saman bent á að á þessum viðskipta-
háttum þurfi að taka. Þá skal birgir
ekki hafa skyldur til að taka þátt í
markaðskostnaði smásöluverslunar,
nema það sé tiltekið sérstaklega í við-
skiptasamningi aðila.
Áhyggjur Breta af
markaðsmisnotkun
Í fréttatilkynningu frá ráðherra neyt-
endamála í Bretlandi þann 3. ágúst
2010 sagði meðal annars:
„Við viljum tryggja að stórar
smásölukeðjur geti ekki misnotað
stöðu sína með því að flytja stórfellda
áhættu eða kostnað yfir á birgja sína.
Þrýstingur af þessu tagi er slæmur
fyrir framleiðendur og slæmur fyrir
neytendur – á endanum getur þetta
leitt til minni vörugæða, minna úrvals
og minni frumkvöðlastarfsemi.
Umboðsmaðurinn á með afskiptum
sínum að geta komið í veg fyrir
ósanngjarna viðskiptahætti, tryggt
sanngjarnan skerf framleiðenda og
beitt sér fyrir hagsmunum neytenda.“
Á efa má leita ýmissa fyrir-
mynda í þeim leiðum sem bresk
stjórnvöld hafa farið. Meirihluti
nefndarinnar sem samdi áðurnefnda
norska skýrslu mælti með að farnar
yrðu svipaðar leiðir í Noregi. Hún
mælti einnig með að tekið yrði á
sölu vara undir kostnaðarverði með
löggjöf þar að lútandi og að skoðað
yrði að setja á fót embætti umboðs-
manns matvöruviðskipta. Tillögur til
Samkeppniseftirlitsins til að bregðast
við niðurstöðum skýrslunnar eru því
eftirfarandi:
Kortleggja valdastöðu fyrir-
tækja á matvörumarkaði
Leita fyrirmynda í nágranna-
löndum
Bann við sölu vara undir
kostnaðarverði
Skriflegir samningar birgja
og smásala
Skýrari reglur/löggjöf um
samskipti smásölu og birgja
t.d. varðandi skilarétt, þátt-
töku í markaðskostnaði
o.s.frv.
Koma upp umboðsmanni
fyrir matvöruviðskipti. /EB
Erna Bjarnadóttir
hagfræðingur Bændasamtaka Íslands
eb@bondi.is
Verðþróun og samkeppni