Dagfari - 15.04.2003, Blaðsíða 8

Dagfari - 15.04.2003, Blaðsíða 8
Vagga barnsins. f vöggu sinni brosir barnið rótt er blær af suðri andar milt og hljótt. Móðirin syngur ein hjá sínum draumi. Faðirinn kemur heim er kvöldar að kátur og hlýr frá sínum vinnustað. Víst er hér ró í veraldarinnar glaumi. Á heimsins dýrð þau horfa bæði saman og heimurinn er bjartur, lífið gaman. Hvert andartak er ljóð í lífsins straumi. En harmur leynist undir heitri döggu: Er helsprengja geymd undir barnsins vöggu? Ó verndi okkur guð og blærinn blíði. Hvílík náð og hvílík gleði og gæfa gætum við haturseldana reynt að svæfa og fengið lausn frá lífsins grimmd og níði. Og barnanna vöggur brenndar aldrei í stríði... Jón frá Pálmholti þýddi. Goran (sem þýðir bóndi) er skáldanafn Abdulla Suléman f. 1904 eða 1905 og látinn í pólitískri útlegð í Moskvu 1962 eða 1963. Ártölin virðast ekki á hreinu. Goran fæddist í bænum Solimanyja í írak og ólst þar upp. Hann missti föður sinn ungur og varð þá að gerast fyrirvinna fjölskyldunnar. Gorán hlaut þó vanalega undirstöðumenntun og gerðist kennari og blaðamaður í heimabæ sínum. Á seinni stríðsárunum var hann fréttamaður við útvarpsstöð i Jaffa í Palestínu, þarsem haldið var úti áróðri gegn nasisma. Goran var Kúrdi og talinn eitt af höfuðskáldum þeirra í írak og víðar. Ljóð hans eru enn sungin í þraut og gleði líkt ljóð þjóðskálda okkar fyrrum. Goran var líka kommúnisti og flúði til Moskvu á efri árum. Þar fékk hann pláss á sjúkrahúsi veikur af krabbameini. Hann lést þar á heilsuhæli,sem áður segir. Ljóðið er það síðasta sem Goran orti svo vitað sé. Það er tekið úr bókinni List og tár, sem Bókaútgáfan Hringskuggar gaf út árið 1991.

x

Dagfari

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagfari
https://timarit.is/publication/968

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.