Verktækni - 01.06.2012, Blaðsíða 8
8 / VERKTÆKNI
Ný mannvirkjalög tóku gildi 1. janúar
2011 eftir mikla undirbúningsvinnu
allt frá árinu 2002. Í kjölfarið var
Byggingarreglugerðin endurskoðuð
með hliðsjón af nýju lögunum og tók
hún gildi í febrúar síðastliðnum. Eins
og búast mátti við sýnist sitt hverjum
um nýju reglugerðina og hún verið
gagnrýnd í opinberri umræðu. Dr. Björn
Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar
er í viðtali við Verktækni.
Mannvirkjastofnun tók til starfa 1. janúar
2011. Starfssvið hennar er umfangsmikið
en stofnunin er umhverfisráðherra til
aðstoðar um brunamál, rafmagnsör-
yggismál og byggingarmál. Hvað bygg-
ingarmálin varðar skal stofnunin stuðla að
samræmdu byggingareftirliti um allt land,
m.a. með gerð leiðbeininga, skoðunar-
handbóka og með beinum íhlutunarrétti ef
byggingareftirlit sveitarfélaganna er ekki í
samræmi við ákvæði laganna. Enn fremur
annast stofnunin löggildingu hönnuða og
iðnmeistara í stað umhverfisráðherra og
gefur út starfsleyfi fyrir byggingarstjóra og
faggiltar skoðunarstofur á byggingarsviði.
Stofnunin skal einnig sinna markaðseftirliti
með byggingarvörum og taka þátt í gerð
íslenskra og evrópskra staðla á sviði bygg-
ingarmála.
Rétt er að rifja upp að í erindsbréfi
nefndarinnar, sem var falið að endurskoða
byggingarreglugerðina, kom fram að lögð
skyldi rík áhersla á að hafa sjálfbæra þróun,
opna stjórnsýslu, gagnsæi og lýðræðisum-
bætur að leiðarljósi. Jafnframt var áhersla
lögð á aukna notkun markmiðsákvæða og
byggingarstaðla í reglugerðinni. Auk þess
skyldi huga sérstaklega að sjónarmiðum
er lúta að neytendavernd, vistvænni byggð
með markmið sjálfbærrar þróunar að
leiðarljósi, hljóðvist í skólum, byggingum
ætluðum börnum og aðgengismálum
fatlaðra, svo nokkur atriði séu nefnd. Það
var því frá upphafi ljóst að ýmislegt myndi
breytast frá eldri reglugerðinni
Mikilvægi markmiðsákvæða
Endurskoðun byggingarreglugerðar er
ekki lítið verk enda er þetta flóknasta
og umfangsmesta reglugerðin sem er
smíðuð hér á landi. Við endurskoðunina
var litið til byggingarreglugerða á hinum
Norðurlöndunum bæði hvað varðar form
og innihald. Nýja byggingarreglugerðin er
að blaðsíðufjölda nærri tvöfalt stærri en sú
eldri og í rauninni má segja að hugmynda-
fræðin sé breytt. – Markmiðsákvæðum
hefur fjölgað mjög og stefnan er að
Ný byggingarreglugerð:
Mikilvægt skref til framþróunar
fækka forskriftarákvæðum. Það þýðir að
markmiðin með reglunum fái meira vægi
en niðurnegldar útfærslur.
Björn segir að í nágrannalöndunum séu
yfirleitt umfangsmiklar leiðbeiningar um
útfærslur. Sú er ekki raunin hér. „Því var
farin sú leið að halda forskriftarákvæðum
að miklum hluta til inni. Það góða við
markmiðsákvæði er að þau stuðla að
nýsköpun í byggingariðnaði og hönnuðir
fá meira frelsi. Ókostirnir eru að hætt
er við að það verði túlkunaratriði hvort
markmiðin séu uppfyllt og hvernig eigi
að gera það, en það kallar á mjög aukna
útgáfu leiðbeiningablaða og slíkra rita. Í
eldri reglugerð var vísað í 40 leiðbeininga-
blöð en í þeirri nýju eru þau 130. Gerð
þeirra verður að miklu leiti lokið á þessu
ári og við vonumst til að innan þriggja ára
verði hægt að fækka forskriftarákvæðum
og auka vægi marmiðsákvæðanna enn
frekar. Að vísu er það umhverfisráðherra
sem stýrir vinnu við byggingarreglugerð
og ráðuneytið gefur reglugerðina út, en
Mannvirkjastofnun mun mæla sterklega
með aukinni notkun markmiðsákvæða til
framtíðar, sem kallar þá á aukna útgáfu
leiðbeiningarrita af ýmsu tagi.“
Algild hönnun
Sett er fram ákvæði um algilda hönnun
en með því er gert ráð fyrir þeirri megin-
reglu að mannvirki, lóð og aðkomuleiðir
séu ávallt þannig að þær henti öllum, jafnt
fötluðum sem ófötluðum. Af þessu leiðir
að taka þarf tillit til notkunar hjólastóla,
sem getur í einhverjum tilvikum þýtt aukna
kröfu um stærð einstakra rýma, til dæmis
salernis. Þetta hefur verið gagnrýnt og sagt
að með þessu sé verið að auka kröfur um
stærðir íbúða. Björn segir svo ekki vera. „Til
að mæta þessu er í reglugerðinni jafnframt
veitt heimild til aukins sveigjanleika við
hönnun íbúða, til dæmis að samnýta stofu
og eldhús, sameina baðherbergi og þvotta-
hús og kröfur um geymslur eru einfald-
aðar. Þessi aukni sveigjanleiki getur gefið
möguleika á minni íbúðum en áður, þrátt
fyrir kröfuna um algilda hönnun.“
Björn bendir á að Íslendingar hafi
skrifað undir sáttmála Sameinuðu
þjóðanna um rétt fatlaðs fólks og í gildi
séu margvísleg lög sem tryggi rétt þeirra.
Byggingarreglugerðin verði að taka mið af
því. „Í frumvarpinu sem lagt var fram 2010
var kveðið á um að stuðla beri að aðgengi
fyrir alla. Í meðförum þingsins var orða-
laginu breytt á þann veg að tryggja beri
aðgengi. Vilji löggjafans er því skýr hvað
þetta varðar.“
Orkunýting
Gagnrýnisraddir hafa heyrst vegna aukinna
krafna um einangrun, slíkt sé óþarfi vegna
hagstæðs orkuverðs hér á landi. Björn
segir að í þessu sambandi verði að líta til
lengri tíma. „Færustu sérfræðingar telja
að orkuverð til húshitunar hér á landi eigi
eftir að hækka verulega og reyndar hefur
það orðið nú þegar. Líftími húsa er langur
og það er alveg ljóst að orkuverðið mun
hækka. Við verðum að nýta orkuna betur
og taka okkur taki hvað þetta varðar. Í
reglugerðinni er stigið eitt skref í þá átt.
Umhverfisráðuneytið hefur boðað að innan
fárra ára verði metið hvaða skref önnur eigi
að taka til að auka orkunýtingu við húshit-
un. Þá verður að hafa í huga að kröfurnar
sem eru settar hér á landi eru mun minni
en á hinum Norðurlöndunum.“
Auðvelt að mistúlka
Byggingarreglugerð er ekki vinsælt afþrey-
ingarefni til aflestrar og Björn segir mjög
auðvelt að grípa þar niður, henda á lofti
einstakar setningar, mistúlka og misskilja.
„Ég hef farið víða til að kynna þetta
mikilvæga mál og því betur sem fólk
kynnir sér staðreyndir þess þá sér það að
nýja byggingarreglugerðin er gríðarlega
mikilvægt skref til framþróunar. Rétt er að
nefna sérstaklega að mannvirkjalög gera
ráð fyrir að gríðarstórir gagnagrunnar og
þjónustugáttir verði settar upp sem munu
tryggja að gæða- og eftirlitskerfið virki. Að
koma upp þessu kerfi er umfangsmikið
verkefni en því á að vera lokið ekki síðar
en 2018. Sem dæmi má nefna að í gagna-
grunninum verða vistuð öll útgefin bygg-
ingarleyfi á Íslandi, öll gögn sem leyfin
byggja á, hönnunargögn teikningar og
skoðunarskýrslur er varða öll mannvirki.
Hvert mannvirki fær fastanúmer þar sem
hægt er að nálgast öll gögn er það varðar á
einum stað.