Kraftur - 01.05.2003, Qupperneq 6
6 7
Starfsemi göngudeildarinnar
hófst í janúar 2002. Hún fór hægt
af stað, en hefur eflst mjög mikið
allt síðasta ár og koma nú nýjar
beiðnir svo til daglega. Greinilegt
er að mikil þörf er fyrir sérhæfða
krabbameinsendurhæfingu og
fögnum við því að hafa fengið
tækifæri til að láta á það reyna. Það
er Landspítali Háskólasjúkrahús
sem stendur að göngudeildinni.
Við göngudeildina starfa sjúkra–
þjálfarar, iðjuþjálfar og aðstoðarfólk.
Annað fagfólk frá LSH er kallað
til eftir þörfum og má þar nefna
sálfræðing, hjúkrunarfræðing,
næringarráðgjafa og prest.
Göngudeildin hefur yfir að ráða
leikfimissal, litlum tækjasal, sundlaug,
eldhúsi, verkstæðisherbergi og
nokkrum einstaklingsherbergjum.
Leitast er við að hafa andrúmsloftið
mjög heimilislegt þannig að fólk fái
á tilfinninguna að það sé komið út af
stofnun og á minni einingu.
Við upphaf endurhæfingarinnar
fær hver einstaklingur viðtal við iðju-
og sjúkraþjálfara. Einstaklingurinn
gerir sjálfur grein fyrir þeim
vandamálum sem eru aðkallandi og
hann vill vinna með. Lífsgæðamatið
„Heilsutengd lífsgæði” er lagt fyrir
alla einstaklinga þegar þeir byrja
í endurhæfingu og aftur þegar
þeir útskrifast. Þetta er gert til að
meta líðan einstaklinganna áður en
endurhæfing hefst og í lokin til að sjá
hvort endurhæfingin getur bætt það
sem kalla má heilsutengd lífsgæði.
Þau getur enginn metið betur en
einstaklingurinn sjálfur.
Þeir einstaklingar sem koma á
göngudeildina eiga það margir
sameiginlegt að þurfa stuðning
líkamlega, andlega og félagslega.
Það er einnig áberandi að margir
þessir einstaklingar eru haldnir
streitu og kvíða, og hafa þörf fyrir að
læra að þekkja þessi einkenni og ná
að hvílast og læra slökunaraðferðir.
Margir eiga það sameiginlegt
að hafa einangrast eftir erfiða
lyfjameðferð, hafa t.d. þurft að
fara tímabundið eða alfarið af
vinnumarkaði. Orkan er af skornum
skammti og erfitt að halda uppi
fyrri hlutverkum og takast á við
daglega iðju. Á göngudeildinni
er mikið lagt upp úr samvinnu og
að einstaklingarnir styðji hvorn
annan. Þetta hefur tekist vel og hafa
myndast góð tengsl og hópefli.
Ýmis líkamleg vandamál geta
komið upp í kjölfar greiningar og
meðferðar vegna krabbameins og
því álagi sem fylgja veikindunum.
Vandamál eins og þrekleysi,
kraftminnkun, sogæðabólgur, verkir,
vöðvaspenna og hreyfiskerðing eru
algeng. Einstaklingsbundið mat fer
því fram og eftir það er viðkomandi
vísað í einstaklingsmeðferð,
hópþjálfun eða hvorutveggja.
Vandamálin geta líka verið af
andlegum toga og getur meðferðin
þá beinst að þeim sérstaklega.
Sálfræðingur er kallaður til ef
einstaklingurinn óskar eftir því.
Boðið er uppá eins fjölbreytta
starfsemi og hægt er þannig að
allir finni eitthvað við sitt hæfi og er
endurhæfingin í stöðugri þróun.
Þeir hópar sem eru í boði vikulega
eru: Gönguhópar, 1x létt ganga,
1 x kraftganga, leikfimishópar,
vatnsleikfimi, hópar í tækjasal,
slökunarhópar, listasmiðjuhópar
og eldhúshópar þar sem farið
er í gegnum mataræði, auk
sjálfstyrkingarnámskeiða þar sem
fólki gefst kostur á að ræða allar þær
tilfinningar sem koma upp í kjölfar
sjúkdómsins. Auk hópavinnu er
boðið uppá einstaklingsmeðferðir
eftir því hvert vandamálið er.
Djúpslökun hefur verið mikið notuð.
Þar er markmiðið að einstaklingurinn
finni fyrir kyrrð og ró og geti losað
um streitu.
Á þessum tæpur tveimur árum
sem göngudeildin hefur verið
starfrækt hefur hún eflst og dafnað.
Við finnum fyrir mikilli jákvæðni
frá okkar skjólstæðingum og
þeim finnst skipta máli að vera
innan um einstaklinga sem hafa
gengið í gegnum svipaða reynslu.
Endurhæfingin getur líka verið
markvissari fyrir þau vandamál sem
til staðar eru.
Sérhæfð endurhæfing fyrir
krabbameinssjúka er brautryðjenda-
starf og erum við ennþá að þróa og
feta inn á nýjar brautir. Við höfum
lagt okkur fram við að byggja upp
metnaðarfulla starfsemi og sinna
brýnni þörf sem hvergi annars
staðar er sinnt á þverfaglegan
hátt. Sú vinna sem nú hefur verið
unnin er þegar farin að hafa áhrif
á einstaklingana, í bættri líðan og
aukinni orku til að takast á við lífið á
nýjan leik. Það er von okkar og trú
að deildin fái að eflast enn frekar
og vonandi verða fleiri fagstéttir
með fast aðsetur á göngudeildinni í
framtíðinni.
fia› er gott a› vera
í Kópavogi
Deild endurhæfingarsviðs LSH
er staðsett í Kópavogi