Morgunblaðið - 21.07.2012, Blaðsíða 12
VIÐTAL
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Ég ætla ekki að láta það verða mína
arfleifð á Íslandi að stefna villta ís-
lenska laxastofninum í hættu. Ef
leyft verður að hafa þriggja kynslóða
eldi í sama firðinum, sama hversu
stór hann er, verður til lúsa-
verksmiðja og ávísun á umhverfis-
slys. Þá er betra að pakka saman og
snúa sér að einhverju öðru,“ segir
Arnór Björnsson, einn af eigendum
Fjarðalax hf. sem er að byggja upp
laxeldi á sunnanverðum Vest-
fjörðum og hefur leitt laxeldis-
ævintýrið. Hann sættir sig ekki við
að rúmlega 2 milljarða króna fjár-
festing í laxeldinu verði sett í hættu
með því að veita öðrum stöðvum leyfi
í nágrenni Fjarðalax í Arnarfirði.
Arnór er laxakaupmaður í Banda-
ríkjunum og hefur keypt mikinn lax
frá Evrópu. „Ég hef farið í gegnum
súrt og sætt með laxeldinu.“ Hann
keypti dreifingarfyrirtækið North
Landing fyrir fimm árum með
tveimur dönskum fjárfestum og rek-
ur fyrirtækið. North Landing sér-
hæfir sig í innflutningi og dreifingu á
laxi og laxaafurðum. Þegar laxeldið í
Síle hrundi hækkaði heimsmarkaðs-
verð á laxi mjög.
„Ég varð að tryggja hráefni fyrir
markaðinn sem við höfðum byggt
upp og var að undirbúa kaup á lax-
eldi í Færeyjum þegar ég hitti gaml-
an vin, Jónatan Þórðarson fiskeldis-
mann, sem vakti athygli mína á
möguleikum Vestfjarða. Ég sá strax
að ef vel yrði staðið að málum væru
allar aðstæður til að rækta þar lax á
vistvænan hátt. Þetta kom upp á
réttum tíma því framboð af laxi sem
ræktaður er á umhverfisvænan hátt
í Skotlandi minnkar stöðugt vegna
vandræða með laxalús. Nota þarf
eiturefni til að aflúsa fiskinn og þá
fær hann ekki lengur vottun og
kröfuhörðustu kaupendurnir hætta
að kaupa,“ segir Arnór um ástæðu
þess að fyrirtæki hans ákvað að
hefja laxeldi á Vestfjörðum.
Styrkari innviðir
Mengunarlaust umhverfi
fjarðanna á Vestfjörðum og vottun
um að laxinn er alinn á lífrænan hátt
er ein meginforsenda þess að Arnór
sá möguleika á að koma upp arð-
bæru laxeldi. Með því að rækta lax-
inn upp í sjúkdómalausu umhverfi
og tryggja að svo yrði áfram með því
að ala kynslóðirnar í aðskildum
fjörðum og hvíla á milli skapast sér-
staða sem nýtist við markaðsstarfið.
Fleira þarf til. Þannig taldi Arnór
nauðsynlegt að framleiða stærri
seiði til að nýta betur sumarið. Heita
vatnið sem seiðastöð fyrirtækisins í
Þorlákshöfn hefur aðgang að
hjálpar til við það.
Arnór taldi í upphafi að stærsta
áskorunin væri skortur á innviðum í
samfélaginu fyrir vestan. Ekki er
hægt að kaupa nauðsynlega þjón-
ustu sem til reiðu er í stærri
laxeldislöndum, svo sem slátrun,
köfun og þrif á kvíum. Því var
ákveðið að byggja stóra stöð sem
gæti staðið undir því að koma sjálf
upp slíkri þjónustu. Telur hann að
ekki sé hægt að komast af með
minni einingu en 10 þúsund tonn.
Það er í samræmi við þróunina er-
lendis þar sem stöðvarnar stækka
sífellt til að geta tekist á við verk-
efnin á arðbæran og ábyrgan hátt.
Slík starfsemi þarf 100 til 150
starfsmenn. Uppbyggingin er hröð
og á næstunni þarf að ráða 20 til 30
starfsmenn til viðbótar við þá 32
sem þegar eru fyrir vestan. „Þetta
fólk þarf húsnæði og góða skóla fyrir
börnin. Og það þarf starfsöryggi,“
segir Arnór og vísar á ný til vott-
unarinnar sem nauðsynleg er til að
tryggja fyrirtækinu nægilega hátt
verð fyrir afurðirnar.
Fylgst hefur verið með uppbygg-
ingu Fjarðalax og ýmis fyrirtæki
hafa verið að afla sér leyfa í þeim
landshlutum sem laxeldi er leyft.
Arnarfjörður hefur sérstaklega ver-
ið í umræðunni þar sem ein-
staklingar og fyrirtæki hafa fengið
leyfi nálægt kvíum Fjarðalax. Þau
mál eru í biðstöðu vegna þess að um-
hverfisráðuneytið felldi úr gildi
ákvörðun Skipulagsstofnunar um að
Arnarlax gæti hafið laxeldi án
undangengis umhverfismats.
Arnóri var létt enda er hann sann-
færður um að stöð sem ætlar að ala
þrjár kynslóðir í sama firðinum
myndi ógna grundvelli hans
fyrirtækis.
Kallaður freki strákurinn
„Löggjöfin er hriplek en ég gerði
þau mistök í upphafi að telja að ég
gæti opnað augu stjórnvalda og ís-
lenskra vísindamanna fyrir þessu.
Það eru nægar upplýsingar til í öðr-
um löndum um mistökin sem gerð
hafa verið og hvernig verið er að
reyna að endurskipuleggja hlutina.
En ég er bara kallaður freki strák-
urinn sem telji sig geta eignað sér
fjörðinn,“ segir Arnór.
Hann segir mikilvægt að það svig-
rúm sem skapast hafi eftir úrskurð
ráðherra verði notað vel og farið yfir
það hvernig best sé að skipuleggja
arðbært og árangursríkt laxeldi hér
á landi í sátt við náttúruna. Hægt sé
að fá þekkingu frá nágrannalönd-
unum. „Við höfum enn einstaka
möguleika á að standa rétt að málum
frá upphafi og skapa okkur sér-
stöðu,“ segir Arnór. Nefnir hann að
gera þurfi kröfur til fyrirtækjanna
um að þau noti bestu tækni og leggi
fram áætlanir um viðbrögð við sjúk-
dómum og óhöppum.
Ávísun á lúsaverk-
smiðju og umhverfisslys
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Patreksfjörður Fjarðalax hefur nú komið sér fyrir við Hlaðseyri í Patreksfirði og þar hefst uppskera eftir rúmt ár.
Eigandi Fjarðalax biður um skipulega uppbyggingu
Morgunblaðið/Ómar
Eigandinn Arnór Björnsson segir að starfsemi Fjarðalax, sem er lang-
stærsta laxeldisfyrirtæki landsins, sé ógnað með óskipulegri uppbyggingu.
Starfsemi
» Fjarðalax er með sjókvíaeldi
í Tálknafirði, Arnarfirði og Pat-
reksfirði. Alið er í tvö ár og
fjörðurinn hvíldur þriðja árið.
» Fyrirtækið rekur stóra
seiðaeldisstöð í Þorlákshöfn
og selur seiði til Færeyja.
» Sláturhús er starfrækt á
Patreksfirði. 32 starfsmenn
eru á Vestfjörðum og 10 í
seiðaeldi. Til stendur að ráða
25-30 starfsmenn til viðbótar.
12 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. JÚLÍ 2012
Laxinn sem alinn er í kvíum Fjarða-
lax á Vestfjörðum fer allur til við-
skiptavina North Landing á aust-
urströnd Bandaríkjanna.
Laxinn hefur vottun sem nátt-
úrulega framleidd afurð og stefnt
er á að sækja um vottun fyrir líf-
ræna framleiðslu. Arnór segir að
kaupendurnir séu fólk sem vill vita
nákvæmlega hvað er í matnum
sem það og börn þess neyta. Varan
þurfi að vera algerlega ómenguð
og framleiðslan umhverfisvæn og
sjálfbær.
Arnór segir að markaðurinn sé
stór og vaxi hratt. Nefnir að fram-
leidd séu 1,5 milljónir tonna af laxi
í heiminum og þar af séu aðeins 15
þúsund tonn vottuð sem nátt-
úrulega ræktaður fiskur. „Við
stefnum hátt. Þessi framleiðsla
hefur verið flaggskip North Land-
ing og við erum stoltir af henni.“
Fyrstu laxaseiðin voru sett út í
kvíar í Tálknafirði vorið 2010 og
var laxinum slátrað úr þeim sl. vet-
ur. Eldið gekk vel. Sömu sögu er að
segja um eldið í Arnarfirði. Þar
voru seiði sett út vorið 2011 og
verður byrjað að slátra í næsta
mánuði og stendur sú vinna fram á
vor. Þriðja starfsstöðin er komin í
gagnið, í Patreksfirði. Þangað voru
seiði flutt í vor.
Fjarðalax er að stækka stöðvar
sínar, eftir því sem leyfi fást. Í
stöðinni í Patreksfirði verða fram-
leidd 4.500 tonn af laxi á næsta og
þarnæsta ári, ef allt gengur að
óskum. Markmiðið er að framleiða
10 þúsund tonn á ári og helst
meira.
Arnór segir að Bandaríkjamark-
aður taki við öllu þessu magni og
því sé ekki svigrúm til að fara inn á
Evrópumarkað í bili. Hann vill þó
gefa Íslendingum kost á að bragða
á þessari góðu afurð og stefnt er
að því að vestfirski laxinn verði til
sölu í verslunum á næstu vikum.
2,3 milljarðar
Arnór hefur starfað sem laxa-
kaupmaður í tuttugu ár, lengst í
Bandaríkjunum. Hann hóf viðskipti
með tengdaföður sínum, Eyþóri
Ólafssyni, og vann lengi sjálfstætt
en keypti North Landing með
tveimur dönskum fjárfestum fyrir
nokkrum árum. Fyrirtækið er eitt
af stærstu dreifingarfyrirtækjum
fyrir lax á austurströnd Bandaríkj-
anna. Arnór segir að fyrirtækið
hafi gengið mjög vel.
North Landing er eigandi Fjarðalax
og hefur lagt mikla fjármuni í upp-
bygginguna. Heildarfjárfesting í
fyrirtækinu er orðin 2,3 milljarðar
króna.
„Það dugar enginn kotbúskapur í
nútíma laxeldi. Þetta er fjárfrek
starfsemi sem skilar sér á löngum
tíma. Það þarf fjárhagslega
burðug og ábyrg fyrirtæki til að
standa í þessu,“ segir Arnór.
Allur laxinn til Bandaríkjanna
HEFUR STARFAÐ SEM LAXAKAUPMAÐUR Í 20 ÁR
Fossafjörður Stöðin í Arnarfirði.
VINSÆLASTA
KORTABÓK ÍSLANDS
n ý o g e n d u r b æ t t
w w w . f o r l a g i d . i s – a l v ö r u b ó k a b ú ð á n e t i n u
UPPLÝSINGAR UM
• sundlaugar
• söfn
• tjaldsvæði
• golfvelli
• fuglaskoðunarstaði
Ítarleg nafnaskrá
60 landshlutakort og 40 þéttbýliskort