SunnudagsMogginn - 29.07.2012, Qupperneq 33
Morgunblaðið/Kristinn
Þú hefur ferðast um allt Ísland. Áttu þér uppáhalds-
stað á landinu?
„Uppáhaldsstaðirnir mínir eru margir. Ég mynda þá
aftur og aftur. Konan mín segir oft þegar ég fer aftur á
sömu staðina til að taka myndir: „Ertu ekki búinn að taka
þessa mynd? Ólíkt því sem margir kynnu að halda þá fæ
ég aldrei sömu mynd af sama stað. Landslagið og birtan
eru svo fjölbreytileg og aldrei eins. Ég fer oftast af stað
með það að markmiði að taka myndir, en mér er alveg
sama þó ég komi ekki heim með mynd, bara ef það hefur
verið gaman í ferðinni. Það er mjög gott að leggja af stað
með þetta hugarfar því þá verður maður ekki
vonsvikinn.“
Meira um magn en gæði í ferðaþjónustunni
Þú ert mikið á ferðinni úti í náttúrunni, er ekki alls
staðar troðfullt af ferðamönnum á þessum tíma árs?
„Á sumum stöðum á Íslandi er allt krökkt af ferða-
mönnum, en fari maður á Vestfirði þá eru fáir ferðamenn
þar og það er frábært. Ég var á Vestfjörðum á dögunum.
Þeir sem keyra í gegnum stað eins og Hólmavík segja
kannski við sjálfa sig: „Mikið er þetta nú lítið spennandi
staður!“ En þeir sem hafa viðkomu á Hólmavík og gista í
tvo eða þrjá daga, eins og ég gerði, komast að því að þeir
eru á flottum stað. Maður gengur um og skoðar höfnina
og plássið og þessa undarlega samsettu byggð og upp-
götvar heillandi þorpsbrag.“
Hefurðu skoðun á þróun ferðaþjónustu í landinu?
„Já, það er verið að gera mikið fyrir ferðamenn og ekki
er það allt til góðs, þó margt sé vel gert. Í ferðaþjónust-
unni sýnist mér að verið sé að gera meira út á magn en
gæði. Í stað þess að fara með ferðamenn á færri staði og
leyfa þeim að njóta hvers staðar fyrir sig er þeyst með þá
hringinn í kringum landið á sjö dögum með þeim afleið-
ingum að þeir verða gjörsamlega uppgefnir.
Við þurfum líka að íhuga hvað við erum að selja út-
lendingunum. Ég held að margir Íslendingar hafi hrokkið
í kút þegar þeir áttuðu sig á því að Kínverji vildi kaupa
Grímsstaði til að búa þar til golfvöll. Útlendingar heillast
af óspilltri náttúru Íslands, þeir koma hingað til að sjá
náttúruna, en ekki til að skoða rafmagnslínur og virkj-
anir. Það er okkar að gæta þess að varðveita hina óspilltu
náttúru.
Ferðamenn sem koma til Íslands eru ekki að leita að sól
og sumri þegar þeir koma hingað. Ég man að þegar ég
stakk upp á því að nota sem kápumynd á bókina Lost in
Iceland dökka og drungalega mynd sem var tekin í míg-
andi rigningu á leið inn í Veiðivötn þá leist engum á For-
laginu á það. Menn töldu að það væri ekki söluvænlegt að
nota slíka mynd á forsíðu ljósmyndabókar. En bókin
rokseldist vegna þess að ferðamenn sem koma hingað
muna eftir auðninni og söndunum og þeirri tilfinningu
sem umlykur mann á svona stöðum.
Stundum verða til góðar myndir við ólíklegustu skil-
yrði. Tvær myndir sem ég tók út um bílgluggann hafa
ratað á forsíður. Önnur er kápumyndin á Lost in Iceland,
sem ég var að segja þér frá, og hin er forsíðan á Iceland
Small World sem er af húsi á Hofsósi en þegar ég tók þá
mynd óttaðist ég mest að húsið væri einhvers konar
listagerningur, tilbúið listaverk sem ég gæti ekki notað.
En húsið reyndist vera raunverulegt og myndin kemur
manni í gott skap, auk þess sem hún segir ýmislegt um
íslenskt þjóðfélag og sjálfstætt fólk. Það er eitthvað mjög
sjarmerandi við þessa glöðu mynd.“
Í lífshættu á Seychelles-eyjum
Þú hefur ferðast mikið erlendis. Hvaða land heillar þig
mest fyrir utan Ísland?
„Það sem heillar mig mest við útlönd er fjölbreytt
mannlíf. Skemmtilegast er að koma til Austurlanda þar
sem mannmergðin er bæði landslagið og lífið. Það er ein-
stök blanda. Ég hef komist að því á ferðum mínum til
annarra landa að Ísland býr yfir einstakri náttúrufegurð.
En sama má segja til dæmis um þjóðgarða í Ameríku sem
sumir eru engu líkir en bara á allt annan hátt. Ég hef
gengið milli fjallaþorpa í Norður-Taílandi og Nepal sem
eru einstæð en verða mjög sennilega horfin eftir tíu ár.
Við Helga konan mín höfum myndað mikið á þessum
ferðalögum okkar erlendis og kannski verður til bók um
þetta heimshornaflakk – eða kannski ekki. Þessar ferðir
hafa óneitanlega þroskað mig en líka þroskað sýn mína á
mitt eigið land.
Við Sæmundur Norðfjörð og Helga gerðum á sínum
tíma bók um Argentínu og vorum þar í fjóra mánuði.
María Kodama, ekkja Jorge Luis Borges, skrifaði formál-
ann að bókinni. Það var fínn og háfleygur texti sem var
miklu meira um Ísland en Argentínu því þau hjónin voru
svo miklir Íslandsvinir. Við Sæmundur höfðum hugsað
okkur að kalla bókina Lost in Argentina en urðum sam-
mála um að það myndi ekki ganga því þarna týndu um
40.000 manns lífinu í pólitískum hreinsunum. Það var
flogið með fólk og því kastað út úr þyrlum í hafið. En for-
lagið þarna úti gerði enga athugasemd við þennan titil og
bókin kom út þar í landi og gekk ágætlega. En það er
langt á milli staða í Argentínu ég held að við höfum keyrt
14.000 km fyrir utan allt flug. Hér á landi tekur eitt við af
öðru. Það er einstakt fyrir ferðamann að koma til Íslands
og sjá sífellt eitthvað nýtt.“
Það var ráðist á þig á Seychelles-eyjum í Indlands-
hafi fyrr á þessu ári. Segðu mér frá því svona í lokin.
„Ég hef oft orðið fyrir ónæði þegar ég er að mynda.
Stundum vill fólk vernda mann og passa – og fá borgað
fyrir. Þá fýkur oft í mig. En þarna á Seychelles-eyjum
varð mjög alvarlegt atvik. Við Helga vorum í þjóðgarði
sem við töldum öruggan, búin að ganga um þrjá tíma eft-
ir göngustígi upp á fjall. Ég var nýbúinn að segja við kon-
una mína: „Helga, ef við heyrðum ekki í fuglunum þá
væri eins og við værum ein í heiminum. Í þeim töluðu
orðum birtist skyndilega grímuklæddur maður í her-
mannabuxum, vopnaður sveðju. Hann hótaði að drepa
okkur ef við létum hann ekki fá peninga og myndavélina.
Ég brást ekki skynsamlega við. Ég var með allar mynd-
irnar mínar í vélinni og vildi ekki missa þær. Þannig að ég
veitti viðnám og hrópaði til konu minnar að kalla á hjálp.
Ræninginn skar mig í bakið og annan fótinn. Þegar ég var
við það að gefast upp þá var eins og úr honum væri allur
máttur og hann lét sig hverfa. Þetta mál vakti mikla at-
hygli og komst í pressuna þar og ég fékk afsökunarbréf
frá forsætisráðherra Seychelles-eyja. Refsingar voru
þyngdar og löggæsla aukin í kjölfarið á eyjunum. Ef ég
hefði ekki veitt viðnám þá hefði þessi árás aldrei vakið
athygli. Það tók mig um viku að átta mig á því sem hafði
gerst. Heldur óskemmtileg lífsreynsla.“
’
Ég var nýbúinn að segja
við konuna mína:
„Helga, ef við heyrðum
ekki í fuglunum þá væri eins og
við værum ein í heiminum. Í
þeim töluðu orðum birtist
skyndilega grímuklæddur
maður í hermannabuxum,
vopnaður sveðju. Hann hótaði
að drepa okkur ef við létum
hann ekki fá peninga og
myndavélina. Ég brást ekki
skynsamlega við.
Hús á Hofsósi. „Myndin kemur manni í gott skap, auk þess sem hún
segir ýmislegt um íslenskt þjóðfélag og sjálfstætt fólk.“
Ljósmynd/Sigurgeir Sigurjónsson
Forsíða Lost in Iceland. „Menn töldu að það væri ekki söluvænlegt
að nota slíka mynd á forsíðu ljósmyndabókar.“
Ljósmynd/Sigurgeir Sigurjónsson
29. júlí 2012 33