Morgunblaðið - 10.10.2013, Qupperneq 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. OKTÓBER 2013
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Skugginn af sjálfum mér nefnist nýútkomin
myndasaga fyrir fullorðna eftir Bjarna Hin-
riksson, einn liðsmanna myndasagnahópsins
(gisp!) sem gefur bókina út. Í bókinni segir af
Kolbeini nokkrum Hálfdánssyni sem er, líkt
og Bjarni, myndasagnahöfundur. Kolbeinn
fer í frí til Kanaríeyja með syni sínum og á
ferðum sínum um eyjuna Gran Canaria velta
feðgarnir fyrir sér mörgum lífsins gátum og
misflóknum, m.a. möguleikanum á lífi án
hugsana og hitastigi vatnsrennibrauta. Inn í
þá sögu fléttist frásögn Kolbeins af ferli sín-
um, sögunum sem hann hefur gefið út og í ljós
kemur að hann á í listrænni krísu, getur vart
lengur tengt saman orð og myndir. Svo virðist
sem aðalpersóna sagna Kolbeins, Skuggi, hafi
tekið yfir líf hans.
Höfundurinn fyrirmyndin
Bjarni nam myndasagnagerð við École ré-
gionale des beaux-arts í Angoulême, Frakk-
landi, á árunum 1985-89 og hefur samið og
teiknað myndasögur auk þess að starfa sem
grafískur hönnuður og kennari í Myndlista-
skólanum í Reykjavík. Spurður að því hvort
Kolbeinn sé e.k. hliðarsjálf hans svarar
Bjarni: „Já, að hluta til, það má segja það.
Upphaflega áttu þetta að vera stuttar ferða-
sögur sem áttu nánast að vera um sjálfan mig
og son minn. Þannig fór ég af stað fyrir mörg-
um árum. Síðan breyttist það og úr varð þessi
lengri saga og persónurnar þá skáldaðar með
þessum fyrirmyndum sem til staðar voru.
Smám saman færðist ég frá beinni vísan í
sjálfan mig yfir í persónu sem lifði sjálfstæðu
lífi. Mér fannst gaman að stilla þessum höf-
undi upp í aðstæðum sem ég hef mikið hugsað
um, t.d. það að gefa út þessar bækur sem
hann hefur gert og hafa komið út. Mér fannst
gaman að setja inn þær bækur sem ég hef á
einhverjum tímapunkti velt fyrir mér að gefa
út.“
Bjarni segir að í stöku tilvikum komi hug-
myndirnar að sögunum sem Kolbeinn segir
frá í bókinni frá styttri sögum sem til séu í
einhverju formi. „Að því leytinu til er bein
tenging í ýmislegt sem ég hef verið að fást við
og af því þetta er unnið mikið út frá ljósmynd-
um er alltaf einhver vísun í eitthvað sem var
til. Mér finnst sú glíma skemmtileg, að velta
fyrir mér hvað verður eftir af einhverju sem
hugsanlega er til og er í upphafi fyrirmynd.“ –
Þú fléttar saman með dálítið sérstökum hætti
löngum texta þar sem Kolbeinn rekur ævi
sína og segir frá verkum sínum og mynd-
rænni frásögn af feðgunum og hugrenningum
þeirra.
„Já, þessum tveimur sögum vindur fram og
þær fléttast saman. Samtal feðganna og
þeirra ferðalag varð til fyrst, ég átti þessar
ljósmyndir og var í upphafi að reyna að búa til
myndfrásögn án þess að vera mikið að hugsa
um hvað persónurnar væru að segja eða
hugsa. Þannig að saga Kolbeins um þessar
bækur og glímuna við persónuna sem virðist
ætla að taka yfir líf hans heldur sögunni sam-
an. Sá þráður finnst mér ekki geta virkað
nema með samtölum feðganna. Með því að
fara svona á milli finnst mér skapast eitthvað
nýtt sem ég hefði eiginlega ekki getað sagt ef
ég hefði bara tekið annan þráðinn og unnið
með hann.“
Spurður út í teiknistíl sinn segist Bjarni
ekki vera raunsæisteiknari í grunninn. „Þeg-
ar ég byrja að nota ljósmyndir er það til þess
að ljá sögunum einhvers konar tengingu við
það sem flestir myndu segja að væri raun-
verulegt. Ég reyni að sjá hvernig ég geti fjar-
lægst ljósmyndina, hvað ég geti gert til að
hún ráði ekki alveg yfir myndinni. Mér finnst
það skemmtileg glíma, það verður til allt
öðruvísi saga en ef ég væri búinn að sjá fyrir
mér fyrirfram hvað ég ætlaði að teikna,“ segir
Bjarni.
Sonurinn hlið á föðurnum
– Nú kemur sonur þinn mikið við sögu í
bókinni, er hann ekki hæstánægður með að
vera persóna í myndasögu?
„Hann gaf mér alla vega leyfi til að nota
þetta,“ segir Bjarni og hlær en sonur hans er
19 ára. „Það er langt síðan myndirnar voru
teknar, þær hafa fengið að marinerast dálítið
vel,“ segir Bjarni en ljósmyndirnar sem unnið
er út frá í bókinni voru flestar teknar árið
2004. Bjarni bendir á að strákurinn í bókinni
sé ákveðin hlið á föðurnum og að hægt sé að
velta því fyrir sér við hvern faðirinn sé að tala
þegar hann tali við strákinn. Spurningunni
um hvor sé hvað og hvað sé sjálfið sé varpað
fram. „Auðvitað er þetta saga um mann sem
getur ekki lengur raðað saman myndum og
orðum sem getur verið myndlíking fyrir það
að oft er erfitt að eiga við lífið. Út af þessum
vandræðum sem hann á við með að setja sam-
an orð og myndir þá býður það upp á að form-
ið sé dálítið þannig. Þess vegna fannst mér ég
geta leyft mér að vera með þessar textasíður
og síðan meira eins og hreina myndlist inn á
milli. Þetta er ekki gert bara út í loftið til að
gera eitthvað flott eða öðruvísi heldur hentar
það þessari sögu.“
– Ertu að vinna að annarri bók?
„Já, ég er að vinna að sögu sem var í síðasta
(gisp!)-blaði sem kom út í vor, sögu af hljóm-
sveit miðaldra manna sem er að reyna að
skemmta sér.“
Hvor er hvað og hvað er sjálfið?
Myndasagan Skugginn af sjálfum mér segir af myndasagnahöfundi sem á erfitt með að tengja
saman orð og myndir Framsetning bókarinnar endurspeglar þá krísu, að sögn höfundar
Morgunblaðið/Ómar
Skuggi Bjarni gluggar í nýútkomna bók sína, Skugginn af sjálfum mér.
Ferðalag Úr bók Bjarna, Skugginn af sjálfum mér.
Bjarni nýtir m.a. ljósmyndir sem hann tók af syni sínum,
Breka, í ferð þeirra til Kanaríeyja árið 2004.
bjarnihinriksson.com
Morgunblaðið
gefur út sérblað
Vertu viðbúin
vetrinum
föstudaginn
18. október
Vertu viðbúinn vetrinum
–– Meira fyrir lesendur
NÁNARI UPPLÝSINGAR GEFUR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105
kata@mbl.is
PÖNTUNARFRESTUR AUGLÝSINGA:
fyrir kl. 16 mánudaginn 14. október.
Vetrarklæðnaður f Snyrtivörur f Ferðalög erlendis
Vetrarferðir innanlands f Skemmtilegar bækur
Námskeið og tómstundir f Hreyfing og heilsurækt
Bíllinn f Leikhús, tónleikar. f Skíðasvæðin hérlendis
Mataruppskriftir f Ásamt fullt af öðru spennandi efni!
SÉRBLAÐ