Morgunblaðið - 30.05.2014, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2014
✝ Margrét Rann-veig Halldórs-
dóttir fæddist í
Bolungarvík 15.
apríl 1932. Hún
lést á Landspít-
alanum í Fossvogi
21. maí 2014.
Foreldrar henn-
ar voru Agnes
Verónika Guð-
mundsdóttir, f. 3.5.
1889, d. 21.3. 1976,
og Halldór Þorgeir Jónasson, f.
22.5. 1877, d. 16.9. 1956. Systk-
ini Margrétar voru : Jónas, f.
28.7. 1912, d. 1.2. 1995. Margrét
Rannveig, f. 29.5. 1914, d. 21.8.
1915. Óskar, f. 9.9. 1916, d.
31.3. 1941. Halldór, f. 20.12.
1917, d. 30.11. 1970. Gunnar
Hjörtur, f. 30.5. 1924, d. 28.5.
2007
Þann 17. apríl 1954 giftist
Margrét Jónatani Sveinbjörns-
syni, f. 17. febrúar 1928, d. 12.
maí 2009. Sonur Jónatans og
Margrétar er Hall-
dór Þorgeir raf-
virki, f. 25.3. 1959,
kvæntur Elísabetu
Hálfdánardóttur, f.
1.3. 1959, þau eru
búsett í Garðabæ.
Börn þeirra eru: 1)
Margrét Rannveig,
M.Ed í uppeldis- og
menntunarfræðum,
þroskaþjálfi og
sjúkraliði, f. 14.6.
1979, gift Þórarni Gretti Ein-
arssyni tölvunarfræðingi, f.
19.5. 1975. Börn þeirra eru
Halldór Freyr, f. 30.4. 2002.
Elísabet Lilja, f. 8.12. 2006.
Þórdís Birna, f. 7. 9. 2009 og
Einar Ottó, f. 8.5. 2012. 2) Daði
Þór, stálsmiður, f. 15.5. 1983. 3)
Jónatan Þór, stjórnmálafræð-
ingur, f. 31.8. 1986.
Margrét verður jarðsungin
frá Hólskirkju í Bolungarvík í
dag, 30. maí 2014, og hefst at-
höfnin kl. 14.
Elsku amma. Nú er komið að
kveðjustund, það er þyngra en
tárum taki að kveðja þig. Allar
dásamlegu minningarnar sem við
eigum um þig munu fylla okkur
þakklæti og gleði um ókomin ár
vegna tímans sem við áttum með
þér. Þú fylgdist vel með þeim sem
þér þótti vænt um, okkur sinntir
þú af einstakri alúð og hlýju.
Fjöldamörg símtöl, heimsóknir,
heimaprjónaðir vettlingar og
sokkar sem komu í pósti ásamt
súkkulaði og steiktar kótelettur í
raspi um miðja nótt þegar við
komum vestur eru tákn þess
hversu vænt þér þótti um fólkið
þitt. Langömmubörnin fjögur
voru hamingja lífs þíns og með
þeim áttir þú margar af þínum
ljúfustu stundum, mikið óendan-
lega er ég þakklát fyrir að þú haf-
ir fengið að kynnast þeim öllum.
Um langömmu sína eiga þau fjár-
sjóð fallegra minninga sem fylgja
þeim út í lífið. Þú og afi kvödduð
okkur bæði í maí, sumarið var líka
ykkar tími því þá gátuð þið verið
saman öllum stundum í fallega
garðinum ykkar. Mikið óskaplega
held ég að hann afi taki vel á móti
þér og vefji örmum sínum þétt um
þig, það sem þú hefur saknað
hans. Alveg er ég viss um að þeg-
ar hann afi tekur á móti þér þá
skíni sólin á Bakkana og blettinn
hans afa í breiðinni heima.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Takk fyrir allt, elsku amma, og
góða ferð til afa. Ástarkveðjur,
Margrét, Grettir, Halldór
Freyr, Elísabet Lilja, Þórdís
Birna og Einar Ottó.
Það eru hugljúfar minningar
sem streyma fram þegar við
hugsum til Möggu frænku á
Bökkunum eins og við kölluðum
hana oftast. Margs er að minnast.
Á Bökkunum bjuggu Agnes föð-
uramma, Magga, Tani og Halldór
einkasonur þeirra sem við systk-
inin lítum alltaf á sem bróður.
Heimilin okkar voru mjög náin og
samskiptin mikil. Við hefðum ekki
getað hugsað okkur meiri kærleik
milli heimila. Við vorum eins og
ein stór fjölskylda. Heimili
Möggu bar merki um fagurkera
og listrænt yfirbragð heimilisins
var afar smekklegt. Magga hafði
þá sérstöku hæfileika að sjá list úr
öllu og var lagin við að safna hlut-
um, sem gætu nýst í nytjahluti
eða jafnvel listaverk. Eða eins og
Tani sagði gjarnan við hana:
Magga mín heldur þú að þú eigir
nú eftir að nota þetta einhvern
tíma?
Magga var sérlega lagin í
höndunum, hvort sem það voru
hannyrðir eða annar saumaskap-
ur. Mestalla sína starfstíð vann
Magga hjá fyrirtæki Einars Guð-
finnssonar hf. í Bolungarvík, fyrst
sem verslunarstjóri í vefnaðar-
vöruverslun, síðar skrifstofustörf
hjá sama fyrirtæki. Að vera versl-
unarstjóri í vefnaðarverslun kom
sér vel með hennar listræna
innsæi og natni við meðhöndlun á
hverskyns vefnaði. Magga var
einstaklega vel ritfær og eftir
hana liggur mikið af ljóðum og
skrifum. Hún var víðlesin á alls-
kyns bókmenntir og var vel að sér
þar.
Magga hafði mikla unun af
garðrækt og það var eins og í æv-
intýri að ganga um garðinn, sem
þau hjónin lögðu svo mikla rækt
við. Jólaboðin á Bökkunum voru
sérstök hefð í fjölskyldunni. Það
var ekki hægt að hugsa sér betri
kræsingar á borðum, allt svo fág-
að og fínt. Það var ekki síður gam-
an fyrir fjölskyldurnar að hittast
og eiga góða stund saman. Magga
og Tani voru höfðingjar heim að
sækja. Harmónikan sem Tani
spilaði á var gjarnan tekin upp og
ljúfir tónar bárust um húsið er
gesti bar að garði. Við sitjum með
Möggu við eldhúsborðið á Bökk-
unum, ljóslifandi minningar, horf-
um yfir hafið og spjöllum um lífið
og tilveruna. Hlæjum og höfum
gaman, Magga að segja skemmti-
lega frá, eins og henni var lagið.
Hún var minnug á gamla tímann
og við nutum þess að hlusta, því
stutt var í húmorinn og innsýn í
spaugilegu hliðarnar. Magga var
vinamörg og átti góðar vinkonur
sem hún hélt alla tíð mikla tryggð
við og var oft glatt á hjalla hjá
þeim. Magga tók virkan þátt í fé-
lagsstörfum í og var m.a. mörg ár
í stjórn Sjálfsbjargar. Hún var ein
af stofnendum leikfélags Bolung-
arvíkur og tók þátt í mörgum upp-
færslum. Magga frænka var
yngst og í miklu uppáhaldi hjá
bræðrum sínum. Þegar árin færð-
ust yfir leið ekki svo dagur að
bræður hennar í Bolungarvík
kíktu ekki við á Bökkunum í kaffi
og morgunspjall. Þau systkinin
áttu það sameiginlegt að hafa un-
un af ljóðalestri og voru öll mjög
hagmælt.
Við munum minnast Möggu
með virðingu og þökk. Hún
reyndist okkur alltaf sérstaklega
vel, var svo umhyggjusöm og bar
hag fjölskyldunnar ávallt fyrir
brjósti. Við þökkum Möggu góða
samfylgd. Við vottum Halldóri og
fjölskyldu hans okkar innilegustu
samúð.
Kristín og Ósk
Gunnarsdætur.
Hún Magga frænda kvaddi og
skildi vorið eftir fyrir okkur að
fagna, það var í hennar anda. Hún
var svo mikil vorkona, ræktaði
garðinn sinn og naut vors og sum-
ars. Ég man ekki eftir mér öðru-
vísi en að Magga væri hluti af til-
veru minni, enda var ég fóstraður
hjá henni og ömmu, nýfæddur,
vegna veikinda mömmu. Ef hægt
er að eiga tvær mömmur þá var
Magga önnur mamma mín.
Magga var einstaklega jákvæð
kona, hún átti auðvelt með að
hrósa og gerði það þannig að fólk
naut þess að vera hrósað. Magga
bjó alltaf í húsinu sem hún fædd-
ist í, húsinu sem afi keypti árið
1912 og greiddi út í hönd. Magga
vildi hafa allt sitt á hreinu og
skulda engum neitt. Það sem hún
sagði stóðst.
Það er mikið lífslán að eiga
frænku eins og Möggu. Ég var
alla tíð dekraður af henni og
ömmu og það eru forréttindi að
vera dekurdrengur. Það gerir lífið
einhvern veginn svo mjúkt og gef-
ur gleði í lífssporin. Það hefur orð-
ið hlutskipti mitt að búa annars
staðar en í Víkinni, en alltaf þegar
ég hef komið þar hefur Magga
tekið á móti mér eins og eigin
syni. Það er gott að eiga vináttu í
húsum, svo mikla að maður ber
ekki að dyrum, heldur gengur inn
og er fagnað eins og það hafi ein-
mitt verið beðið eftir manni.
Magga naut þess að baka og
elda og bjóða í mat og kaffi. Hún
hafði gaman af að spjalla, segja
sögur af fólki og þá mjög oft sögur
af gömlum Bolvíkingum.
Samband Möggu og Tana var
einstakt og eiginlega ekki hægt
nema nefna þau í sömu andránni,
svo mjög voru þau samrýnd.
Við Magga töluðum mikið sam-
an í síma, sögðum hvort öðru sög-
ur og hlógum svo bæði. Magga
hafði svo óskaplega gott lag á að
fá annað fólk til að hlæja með sér.
Hún var með þenna smitandi
hlátur, sem er trúlega hluti af lífs-
gátunni. Magga naut ekki eins
langrar skólagöngu og hana
dreymdi um, var í Reykjanesinu
vetrarpart og svo í húsmæðra-
skóla einn vetur. En Magga var
vel menntuð, sá um það sjálf, las
og fylgdist með. Magga var ákaf-
lega flink, saumaði og var smekk-
leg.
Magga var afleitur bílstjóri. Ég
fór tvisvar með henni í ökuferðir
og man ennþá eftir þeim báðum,
nú tæpum sextíu árum síðar.
Magga hafði gaman af því að
segja ökusögur af sjálfri sér, þar
sem hún var ávallt sú sem varð
verst úti í sögunum.
Húsið hennar Möggu stendur
yst í Bolungavík, út um stofu-
gluggann sést Djúpið opnast út í
hafið. Magga ferðaðist talsvert og
naut þess, en hvergi fannst henni
jafn fallegt og heima í Bolunga-
vík, þar sem fjöllin halda í lófa sér
vík við ysta haf. Nú er húsið henn-
ar Möggu autt, á lognkyrru sum-
arkvöldi, þegar Djúpið er slétt
eins og spegill og sólin að hverfa í
hafið, er enginn sem segir: „Kom-
ið, lítið út um gluggann, haldið þið
að það sé nokkurs staðar svona
fallegt?“
Ég kveð Möggu, þakklátur fyr-
ir að hafa átt hana svona lengi.
Fólk eins og Magga fær mann til
að trúa því að heimurinn sé staður
til að vera í. Við söknum öll
Möggu.
Halldóri frænda mínum, einka-
syni Möggu, og fjölskyldu hans
sendi ég góðar kveðjur.
Agnar H. Gunnarsson,
Miklabæ.
Gott er sjúkum að sofna,
meðan sólin er aftanrjóð,
og mjallhvítir svanir syngja
sorgblíð vögguljóð.
(Davíð Stefánsson)
Hún var konan hans Jónatans
bróður míns. Allt frá fyrstu kynn-
um var hún vinkona mín, svo ljúf
og svo falleg sem hún var og
heiðraði mig seinna með orðun-
um: „Þú er mér systirin, sem mig
langaði svo að eignast“! Magga
var einstök, svo greind, víðlesin
og fróð. Ljóðelsk með afbrigðum
og elskaði ljóðin hans Davíðs mest
allra. Sjálf var hún mjög hag-
mælt. Hún hafði þann eiginleika
að geta látið öllum líða vel, sem
nálægir henni voru. Hlýjan og
hógværðin voru þar svo sterkir
þættir.
Við eigum öll yndislegar minn-
ingar frá heimsóknum til þeirra á
„Bakkana“, þar sem Tani lék á
harmonikkuna sína og við sung-
um ljóð Möggu við lögin hans og
vegfarendur stöldruðu við og dáð-
ust að skúlptúrunum hans Tana
og rósunum hennar Möggu, sem
skörtuðu sínu fegursta í sumar-
blíðunni.
Við fórum í ferðalög saman,
bæði innanlands og utan. Minn-
isstæðastar eru ferðirnar á æsku-
slóðir í Seyðisfirði með sonum
okkar, Halldóri þeirra og Óla Páli
okkar Olla. Einnig ferðin til Kan-
aríeyja, sem farin var í tilefni sjö-
tugsafmælis Tana. Minningarnar
lýsa og lifa og fyrir þær verð ég
ævinlega þakklát.
Fyrir um það bil 25 árum
greindist Magga með illkynja
mein, sem blessunarlega reyndist
hægt að fjarlægja. Með stöðugu
eftirliti hafa árin síðan þá verið
björt og góð. En skjótt hefur sól
brugðið sumri. Tani lést 2009 og
nú í desember greindist Magga
aftur með illvígan sjúkdóm.
Reynt var að stöðva hann með
geislameðferð og um tíma fékk
hún þá heilsu að hún komst á end-
urhæfingardeild Hrafnistu í
Reykjavík 3. apríl, hafði fótavist
og undi sér vel. En skyndilega
varð breyting á, hún var flutt aft-
ur á Landspítalann í Fossvogi og
lést þar aðfaranótt 21. maí.
Innilegar samúðarkveðjur til
elskaðs einkasonar hennar og
fjölskyldu. Þeir missa mikið sem
mikið hafa átt. Nú sé ég í anda
þau Möggu og Tana leiðast í
blómasal syngjandi ljóð þeirra og
lag: „Manstu ekki vinur, um vor-
kvöld löng …“
Blessuð sé minning þeirra.
Halldóra Þ.
Sveinbjörnsdóttir.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Ótal minningar koma fram í
hugann við lát elskulegrar vin-
konu minnar, Margrétar Hall-
dórsdóttur, nú þegar vorboðinn
ljúfi er að vakna til lífsins, í gróð-
urvin með fuglasöng, sá tími þeg-
ar við fórum að huga að görðun-
um, sem við báðar höfðum yndi af.
Góð vinátta er ómetanleg. Með
okkur Möggu tókust kynni sem
urðu að órjúfanlegum vinskap
sem seint verður fullþakkaður.
Varla leið sá dagur, frá því að
kynni okkar hófust fyrir alvöru,
að við hittumst ekki eða töluðum
saman í síma. Þau samtöl gátu
orðið löng og af fundi hennar fór
ég alltaf glaðari og ríkari, enda
var hún einstök manneskja; ein-
stök vinkona.
Kynni okkar hófust í vefnaðar-
vöruverslun Einars Guðfinnsson-
ar í Bolungarvík, þar sem hún var
innkaupastjóri en ég í íhlaupa-
vinnu. Vefnaðarvöruverslunin var
glæsileg, vöruúrval mikið og
smekklegt enda sóttu þangað við-
skiptavinir víða að af Vestfjörð-
um. Það réðst ekki síst af smekk-
vísi og hugkvæmni vinkonu
minnar. Gott var að koma á heim-
ili hennar og manns hennar, Jón-
atans Sveinbjörnssonar. Þá tók
hann fram harmónikkuna og spil-
aði yndisleg lög sem hann sjálfur
hafði samið, við ljóð eftir Möggu.
Þau voru einstaklega samhent
hjón, elskuleg og góð. Garðurinn
þeirra á Bakkastígnum í Bolung-
arvík, út við ysta haf, var sann-
kallaður unaðsreitur sem þau
ræktuðu af mikilli alúð og buðu
norðaustanáttinni byrginn. Garð-
urinn þeirra vann til verðlauna og
vakti athygli allra sem hann sáu.
Berjaferðirnar út í Skálavík og
inn í Seyðisfjörð, sem við Guðfinn-
ur Einarsson, eiginmaður minn,
fórum með þeim hjónunum voru
mikið ævintýri. Við Magga nutum
lífsins í þessum ferðum en vorum
ekki endilega alltaf svo duglegar
við tínsluna. En það kom ekki að
sök. Eiginmenn okkar voru ann-
álaðir berjatínslumenn, kappsam-
ir og vandvirkir þannig að af-
raksturinn var einatt borinn heim
að kvöldi í stórum léreftspokum.
Ógleymanleg verða mér alltaf
kvöldin þegar við hittumst vin-
konurnar hver hjá annarri,
Magga, Guðbjörg Hermannsdótt-
ir (Bugga) og ég. Þá var mikið
hlegið, rifjuð upp gömul ljóð,
sagðar sögur og almennar fréttir.
Þetta voru ómetanlegar samveru-
stundir sem gott er að ylja sér við
á efri árunum. Og vísurnar og
ljóðin hennar Möggu minnar, sem
hún sendi mér með kortum og
sendibréfum eftir að ég flutti frá
Bolungarvík, voru ólýsanlegir
gleðigjafar.
Að heilsast og kveðja er víst
lífsins saga. Nú að ferðalokum,
þegar ég kveð mína góðu vinkonu,
finn ég fyrir miklum söknuði, en
um leið þakklæti að hafa átt vin-
áttu svo einstakrar manneskju.
Guð blessi minningu hennar.
Ég og fjölskylda mín sendum
Halldóri, Elísabetu og afkomend-
um innilegar samúðarkveðjur.
María K. Haraldsdóttir.
Margrét Rannveig
Halldórsdóttir
✝ Kristín Guð-mundsdóttir
fæddist 8. sept-
ember 1951 í
Reykjavík. Hún
lést á líknardeild
Landspítalans í
Kópavogi 25. maí
2014.
Foreldrar henn-
ar voru Sesselja
Jóhanna Guðna-
dóttir, húsfreyja, f.
21.11. 1929, d. 2.8. 2000, og
Guðmundur Sigurður Ibsen,
skipstjóri, f. 9.8. 1926, d. 31.10.
2007.
Kristín var elst þriggja
systkina. Systkini hennar eru
Dröfn, f. 11.2. 1953, og Þórir, f.
16.10. 1959.
Kristín ólst að mestu upp í
Skipholti. Hún gekk í Hlíða-
skóla og lauk þaðan gagn-
fræðaprófi. Eiginmaður Krist-
ínar er Kristján
Sigurgeirsson, f.
8.1. 1950, þau giftu
sig 7. september
1974 og eignuðust
tvo syni: 1) Sig-
urgeir, f. 2.6. 1974,
kvæntur Rakel Ýri
Pétursdóttur, börn
þeirra eru: a) Katr-
ín Theodóra og b)
Kristján og 2) Guð-
mund, f. 10.2. 1980,
kvæntur Brynju Sigurð-
ardóttur, börn þeirra eru: a)
Jakob og b) Tómas.
Kristín starfaði alla sína tíð
hjá Landsbanka Íslands, eða í
rúm 40 ár. Eftir að starfsferl-
inum lauk vann hún sjálf-
boðastörf á vegum Kvenfélags-
ins Hringsins.
Kristín verður jarðsungin frá
Háteigskirkju í dag, 30. maí
2014, og hefst athöfnin kl. 15.
Í dag kveðjum við Kristínu
systur okkar í hinsta sinn. Það er
alltaf erfitt að sætta sig við þegar
fjölskyldumeðlimur deyr langt
fyrir aldur fram, en svo var með
systur okkar sem lést eftir þung
veikindi.
Kristín var elst okkar. Það féll
því oft í hennar skaut að sinna
okkur yngri systkinunum og vera
höfuð okkar þegar foreldrar okk-
ar voru fjarverandi. Þessu sinnti
hún af stökustu samviskusemi,
eins og öllum verkum sem hún tók
sér fyrir hendur. Þeir sem þekkja
til Kristínar vita af reynslu
hversu samviskusöm og trú hún
var öllu því sem hún tók að sér.
Við systkinin áttum margar
góðar stundir saman, bæði sem
börn og eftir að við komumst á
fullorðins aldur. Eins og gengur
og gerist á milli systkina vorum
við ekki alltaf sammála og sátt um
allt og sumt gátum við ekki leitt til
lykta. En sterk voru okkar bönd.
Kristín var þeirrar gæfu að-
njótandi að eiga tryggan og trúan
eiginmann, Kristján, og saman
eignuðust þau tvo syni, Sigurgeir
og Guðmund, báðir fyrirmyndar-
menn sem og þeirra eiginkonur
Rakel og Brynja. Saman færðu
þau Kristínu og Kristjáni fjögur
myndar barnabörn, sem voru
augasteinar Kristínar. Mörgum
stundum varði hún til að sinna
barnbörnunum af ást og alúð.
Nú ertu farin, kæra systir, og
er söknuðurinn sár. Hvíl í friði.
Dröfn og Þórir.
Dauðinn er það eina sem
öruggt er að bíður hvers manns,
en óviss er hans tími. Hann er
rökréttur endir þegar aldrað fólk
kveður, en feilhögg þegar ungt
fólk fellur skyndilega. Enginn
veit hver verður næstur. Þessum
hverfulleika hafa menn reynt að
mæta með ýmissi lífsspeki í ljóð-
um og málsháttum. Eftir sem áð-
ur er dauðinn óskiljanlegur og al-
gildur. Kristín eiginkona
Kristjáns vinar okkar barðist við
heiftúðugt krabbamein sem
greindist í nóvember síðastliðnum
– og nú er hún öll sem er óend-
anlega sárt þeim sem hana
þekktu. Hún var glæsileg kona í
sjón og raun, afar samviskusöm í
margvíslegum störfum í Lands-
bankanum og heima fyrir, ná-
kvæm, smekkvís og hirðusöm.
Hún átti ríka lund og var jafnan
glaðleg og kímin á mannamótum
og heim að sækja. Þau Kristján
áttu einstaklega hlýlegt og nota-
legt heimili við Hraunbæ þar sem
smekkvísi hennar naut sín. Þau
voru einkar samhent hjón í blíðu
og stríðu og fjölskyldan var þeim
alfa og ómega, börn og barna-
börn. Það tekur á að sjá ástvin
tærast upp og deyja, hverfa úr
„glaðaljósi samvistanna“ eins og
Hannes Pétursson segir í ljóði –
þegar hillir undir starfslok og
allsnægtir tómstunda. Orð mega
sín lítils á slíkri stundu, en rifja
má upp ljóðlínur Steingríms
Thorsteinssonar:
Með þér sé friður, – ferðastafinn þunga
tók friðarmildur dauðinn hægt af þér;
hann leysti þig frá lífsins aftandrunga.
Dauðinn er líkn þeim sem eru
fársjúkir og engin lækning á færi
manna. Í þeim skilningi getur
dauðinn verið hinum sjúka friðar-
mildur. Ei að síður er hann sár
þeim sem sakna og syrgja. Við
sendum Kristjáni og öðrum ást-
vinum hugheilar samúðarkveðj-
ur.
Einar Friðþjófsson,
Teitur Stefánsson
og Sölvi Sveinsson.
Kristín
Guðmundsdóttir
HINSTA KVEÐJA
Elsku amma, við erum
svo þakklát fyrir allt það
sem þú gafst okkur. Við
munum sakna þín.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Þín barnabörn,
Jakob og Tómas, Katrín
Theodóra og Kristján.