Morgunblaðið - 29.08.2014, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 29.08.2014, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. ÁGÚST 2014 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Í fyrrakvöldspurðu menn: „Er Bárðarbunga í bjölluati?“ rétt eins og þar væri galsa- fengin götustelpa á ferð. Þá virtist öruggt að gos væri í burðarliðnum, sigkatlar sáust á jöklinum og langar sprungur sem ekki höfðu verið þar áður. Ekki virtist fjallið þó taka jóð- sótt, en sumir héldu þó helst að það hefði það einmitt gert. Fáeinum dögum áður hafði mönnum þótt ekki síður öruggt að gos væri hafið í jaðri Vatna- jökuls. Fljótlega heyrðust þó efasemdaraddir um það. Nú er tilgáta uppi um að einmitt þá hafi litla gosið orðið. Gos hefur, hvað sem öðru líð- ur, ekki komið upp á yfirborðið enn (þegar þetta er skrifað), enda er langt að fara. Fyrst svo sem 5 kílómetra lóðrétt upp í gegnum það sem fyrir er og loks í gegnum mörg hundruð metra jökulhellu. En á yfirborðinu sjást þó um- merki um að nokkuð hafi gengið á og jafnvel að gos hafi orðið undir jökli, með tilheyrandi bráðnun og færslu vatns í millj- ónatonna tali. Hvort það verður allt og sumt í þessari lotu vita færustu menn lítið um og allir hinir minna en ekki neitt. En allir eiga það sameiginlegt að þurfa að vera á tánum áfram og hafa vara á sér meðan vísbendingar um hrær- ingar gefa ástæðu til þess. Nokkuð er kvartað yfir ríku- legum fréttaflutningi af jarð- skjálftum, kvik- ustraumum og öðrum hræringum undir Bárðarbungu og svæðinu norðan við hana, allt að Öskju. Vissulega er ekki notalegt að búa við óvissu um eldgos og það hugsanlega af stærri gerðinni, um langa hríð. En fréttaflutn- ingurinn og umfang hans er þó algjörlega eðlilegur. Þótt flest sé enn á huldu um það hvort „tapparnir“ yfir kvik- unni haldi um sinn, jafnvel í nokkur ár, gengur meira á neð- anjarðar á svæðinu en nokkuð annað uppi á yfirborðinu og eru þó kvikuhræringar í Innanrík- isráðuneytinu eða á 365 fjöl- miðlum ekki skildar undan. Sérstaklega er þakkarvert hvernig íslenskir jarðvísinda- menn hafa fangað og nýtt at- hyglina, sem Bárðarbunga og nágrenni hafa dregið að sér, til að uppfræða landa sína um sögu, eðli og kynngikrafta nátt- úrunnar. Fólk úr háskóla- samfélaginu og fræðimaður á borð við Harald Sigurðsson hafa komið miklum fróðleik til skila og lánast að gera það á máli sem leikmenn ná að skilja. Þótt þeir slái margan fyrirvar- ann, eins og óhjákvæmilegt er að þeir geri, hefur fræðimönn- unum tekist að svipta burt nokkrum hluta þeirrar dulúðar sem hjúpar eldvirknina í iðrum jarðar. Þjóð í eldfjallalandi mun búa lengi að þessari snörpu kennslu- stund um svo mikilvægt efni. Athyglin að Bárðar- bungu hefur verið vel nýtt af fræði- mönnum} Þakkarverð nýting á gosleysi Það telst til tíð-inda að ís- lenska karlalands- liðið í körfubolta skuli hafa tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni Evr- ópumóts og óhætt að tala um sögulegan árangur. Það er draumur hvers íþróttamanns að keppa á stór- móti. Jón Arnór Stefánsson, sem hefur farið á kostum með liðinu, lýsti tilfinningum sínum í viðtali við mbl.is eftir leikinn og sagðist oft hafa öfundað liðs- félaga sína hjá félagsliðum þeg- ar þeir fóru á stórmót með sín- um landsliðum, en aldrei hafa leyft sér að hugsa út í hvort hann ætti eftir að komast á stórmót með íslenska landslið- inu: „Maður getur ekki búið sig undir svona augnablik. Þegar það svo kemur þá veit maður ekki alveg hvernig maður á að vera. Þetta á kannski eftir að sí- ast betur inn en þetta er mikið af- rek. Það er mikið afrek að komast á stórmót.“ Íslendingar hafa átt marga góða körfuboltamenn, en eins og á við um allar liðsíþróttir er erf- iðara fyrir fámenna þjóð að eiga nógu marga góða leikmenn samtímis til að ná árangri. Þar við bætist að ávallt hefur hallað á liðið í sentimetrum. Hinu spræka íslenska liði hefur hins vegar tekist að gera það að styrk sínum að vera með lág- vaxnari leikmenn en andstæð- ingarnir. Það verður gaman að fylgjast með íslenska liðinu í lokakeppn- inni á næsta ári og mikilvægt að körfuknattleikssambandið geti undirbúið þátttökuna af kost- gæfni. Það er óhætt að óska landsliðinu til hamingju, það er rétt hjá Jóni Arnóri að það hef- ur unnið mikið afrek. Íslendingar keppa í fyrsta skipti á stórmóti í körfu- bolta} Afrek körfuboltalandsliðsins E r það ekki örugglega rétt skilið hjá mér að stefna ríkisstjórn- arinnar ykkar sé að standa fyrir utan Evrópusambandið?“ Þann- ig spurði danskur kunningi minn mig fyrir í sumar. Ég sagði svo vissulega vera. En það svar gat einungis af sér aðra spurningu: „Hvernig stendur þá á því að Ísland er enn um- sóknarríki að sambandinu?“ Ég gerði tilraun til útskýringar. Ríkisstjórnin hefði ákveðið að láta vinna skýrslu um málið fyrst en aðdragandinn að útgáfu hennar hefði verið talsvert meiri en upphaflega hafi verið stefnt að. „En liggur ekki skýrslan fyrir núna?“ spurði þessi ágæti kunningi minn þá. Ég játti því. „Hvers vegna er umsóknin ykkar þá enn í fullu gildi?“ Ég reyndi enn að útskýra. Ríkisstjórnin hefði ekki náð að koma málinu í gegnum Al- þingi. Stjórnarandstöðunni hefði tekizt að koma í veg fyrir það og þannig væri staðan núna. „Er sem sagt minni- hlutastjórn í landinu?“ spurði hann. Ég svaraði því til að svo væri alls ekki. Þvert á móti hefði ríkisstjórnin góðan þingmeirihluta á bak við sig. Kunninginn klóraði sér í koll- inum. „Hvað er þá því til fyrirstöðu að draga umsóknina til baka?“ spurði hann síðan. Ég sagðist skilja það að hann ætti erfitt með að átta sig á stöðunni. Einhverjir hefðu víst haft áhyggjur af áhrifum málsins fyrr á árinu á útkomu sveitarstjórnarkosninganna. Nokkuð sem þó hefði verið alger óþarfi. „Eru kosningar á næsta ári?“ spurði hann. Ég neitaði því. Það væru ekki fyrirhugaðar kosningar næst fyrr en árið 2017 og þá til þings ef undan væru skildar forsetakosningar árið á undan. „Er þá ekki tilvalið að klára málið og draga umsóknina til baka í haust?“ spurði kunningi minn áfram. Ég svaraði því til að hreinlegast og eðlilegast hefði vitanlega verið að gera það strax í kjölfar þingkosninganna á síðasta ári. Ekki sízt gagnvart Evrópusambandinu sjálfu. Það hefði hins vegar ekki verið gert. En rík- isstjórnin hefði góðan meirihuta í þinginu og ekkert ætti vissulega að vera því til fyrirstöðu að draga umsóknina til baka. Jafnvel minna en í byrjun ársins. Kunninginn klóraði sér meira í kollinum. „En hvernig er það. Þvælist þetta ekki fyrir ykkur í samskiptum við önnur ríki?“ spurði hann síðan. Ég sagði að það gæti vissulega gert það. Til að mynda varðandi norðurslóða- og fríverzlunarmál. Það væru vafalaust fjölmargir aðrir utan Íslands en hann sem ættu erfitt með að átta sig á þessari stöðu mála. Ekki sízt þar sem það sama ætti vafalaust við um marga innan- lands. Erfitt væri að skilja opna umsókn öðruvísi en svo að innganga í Evrópusambandið kæmi til greina í fyr- irsjáanlegri framtíð. Að öðrum kosti væri hún væntanlega dregin til baka. Þegar við kvöddumst að lokum leyndi það sér ekki að minn danski kunningi var litlu nær en í upphafi samtals- ins. hjortur@mbl.is Hjörtur J. Guðmundsson Pistill „Er minnihlutastjórn í landinu?“ STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjórar: Davíð Oddsson Haraldur Johannessen Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Útgefandi: Óskar Magnússon FRÉTTASKÝRING Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Það var gríðarleg fluga hér íMývatnssveit fyrri hlutasumars en henni hefurfækkað í ágúst. Ágústmán- uður hefur verið svo til flugulaus á mývetnskan mælikvarða,“ segir dr. Árni Einarsson, líffræðingur við Náttúrurannsóknastöðina við Mý- vatn. Árni hefur rannsakað nátt- úruperluna Mývatn í rúmlega 40 ár og segir að sumarið hafi einkennst af mikilli flugu enda gangi rykmýið í gegnum náttúrulegar sveiflur sem oftast standa í fimm til níu ár. Í ár er rykmýið á toppi sveiflunnar en síð- asti toppur var um 2007. Hinir þekktu mýstrókar nánast hurfu um tíma enda var þá sveiflan á botn- inum. Mergðin er gríðaleg Uppeldisstöðvar rykmýsins eru á botni Mývatns þar sem þær nærast sem lirfur á kísilþörungum og rotn- andi lífverum. Mergðin getur verið gríðarleg, eins og kemur fram á vef Náttúrurannsóknastöðvarinnar, því ekki er óalgengt að liðlega 200.000 lirfur finnist á hverjum fermetra vatnsbotnsins. Það þýðir að á lófa- stórum bletti geta verið um 2000 lirf- ur. „Þetta gengur í þessum sveiflum og flugan er í hámarkinu núna. Sveiflurnar hafa gengið svona í að minnsta kosti 40 ár. Við sáum topp í vor og síðasta sumar. Toppnum er ábyggilega náð en það er spurning hvort hann hangi þarna uppi eða falli aftur niður, það er eitthvað sem er ekki hægt að segja fyrir um. Það er eðli þessara sveiflna en topparnir geta varað í nokkur ár.“ Uppsveifla í norðri Í sumar birtust þó nokkrar fréttir frá Mývatni um flugnamergð- ina en um miðjan maí birtist viðtal við hinn 48 ára gamla Ólaf Þröst Stefánsson, íbúa í Mývatnssveit, sem sagðist aldrei hafa séð álíka magn af flugu síðan hann var barn. Ólafur er uppalinn í Vogum í Mývatnssveit en Árni segir að flugan hafi verið óvenjumikil við Voga og Reykjahlíð þetta árið. „Við mælum víða um vatnið hversu mikil fluga er á hverju ári. Mælitækin eru hringinn í kring- um vatnið. Þó að endanlegar nið- urstöður séu ekki komnar í hús vit- um við að það var mikið af flugu hér í sumar og þessi uppsveifla er meiri við Voga og í Reykjahlíð, meiri en oftast áður.“ Leirlosið er óleyst gáta Mývatn og Laxá eru þessa stundina ekki tær heldur lituð af svo- nefndu leirlosi sem Árni segir að sé ein stærsta óleysta gáta í lífríki Mý- vatns og Laxár. „Það er mjög mikið af þessu svokallaða leirlosi núna. Vatnið er því fagurgrænt eins og vel gerð sósa. Þetta er ekki leir heldur bakteríur og því kannski rangnefni að kalla þetta leirlos.“ Á heimasíðu Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, ramý.is, kemur fram að bakterían, sem kallast Cyanobac- teria, eða blágrænar bakteríur, sé í svo miklum þéttleika að vatnið taki lit af þeim og virðist gruggað. „Lax- veiðimenn hafa kvartað töluvert yfir þessu,“ segir Árni sem segist ekki vita hvort leirlosið verði til þess að laxinn hörfi eða hvort hann taki verr í gruggugu vatninu. Hann sé ekki veiðimaður. Leirlosið hófst laust fyrir mánaðamótin júlí-ágúst og hefur orðið mjög mikið á köflum en það hefur verið viðloðandi Mývatn frá ómunatíð, en tíðni þess og magn hefur verið breyti- legt, og stundum líða heil sumur án þess að það komi. Rykmýið við Mývatn í hámarki í sumar Fjöldi Sumarið einkenndist af mikilli flugu við Mývatn enda gengur rykmýið í gegnum náttúrulegar sveiflur sem oftast standa í fimm til níu ár. Stórvaxinn kúluskít er einungis að finna á tveimur stöðum í heiminum, í Mývatni og Akan- vatni á Hokkaido-eyju í Japan. Kúluskíturinn er kúlulaga þör- ungur og virðist horfinn úr Mý- vatni en Árni segist ekki vera búinn að henda inn hvíta hand- klæðinu. „Það er alltaf von að hann komi aftur en það er ekki að gerast í augnablikinu. Það mun taka einhvern tíma ef svo verður.“ Þörungamotta á botni Mý- vatns, bæði kúluskíturinn og aðrir grænþörungar, er nú nán- ast algerlega horfin en ástæðan fyrir því að þörungarnir hafa horfið er líklega að það vantar birtu í vatninu. Bakteríur í vatninu grugga það og skyggja þannig á botninn. Kúlu- skítur, sem er ákveðið vaxtarform grænþörungs, er horfinn úr því. Hann var þar áð- ur í milljónatali. Alltaf er von KÚLUSKÍTURINN Í MÝVATNI Árni Einarsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.