Selfoss - 06.11.2014, Blaðsíða 10

Selfoss - 06.11.2014, Blaðsíða 10
10 6. Nóvember 2014 Að gera garðinn tilbúinn fyrir veturinn Í hægum takti er veturinn að taka yfir ríki sitt hér sunnanlands. Það er eins og að í honum sé einhver valkvíði og hann gengur ekki í það jafn undanfararlaust og á svæðunum norðan Hvalfjarðar og Eystrahorns. En það gefur okkur Sunnlendingum rýmra tóm til að dytta að öllu og ganga frá garðinum á hinn besta máta fyrir veturinn, svo hann komi skaðlaus inn í væntanlegt vor og vonandi sólríkt sumar þegar sól hækkar aftur á lofti. Nú hafa öll lauftré fellt lauf. Lauf- ið blæs um í görðunum. Safnast oft fyrir á grasflötunum og í skjólskot- um við byggingar. Það er um að gera að raka því saman og setja það til skjóls ofan á moldina milli runnanna og fjölæru plantnanna. Ef við óttu- mst að þaðan fjúki það bara aftur er hægt að kasta á það nokkrum skófluslettum af grófum sandi eða leggja greinakurl yfir. Þá helst það um kyrrt. Best er að láta blómabeðin annars óhreyfð. Hismið af sumarblómun- um sem kólu burti í haustfrostun- um kemur í veg fyrir moldrok og í fjölæru beðunum skýlir sumargróð- inn plöntunum og ver gegn kalsa og vætu vetrarins. Ef okkur þykir þetta fyrirkomulag eitthvað ruslaralegt er hægur vandi að bæla yfirvöxtinn nokkuð niður til að hann verði ekki jafn áberandi. Í sjálfu sér er svo ekk- ert að því að láta plönturnar bara vaxa upp í gegn um þessa ábreiðu á vorin. Hún verður eðlilega að mold og næringu og fellur þannig inn í hina eðlilegu hringrás. Þeir sem hafa komið sér upp vísi að ávaxtatrjám, þ.e. epli, perur, plómur og kirsi, geta hlíft þeim með því að vefja þær inn í ein- hverja grisju á veturna meðan þau eru enn á æskuskeiði og þess vegna viðkvæmari fyrir vetrarumhleyp- ingunum. Þetta er fremur einfalt verk sem felst í því að hafður er grannur staur eða prik hjá hverri plöntu. Síðan er taurenningi vafið eins og sárabindi upp eftir og utan um trén og staur. Til þessa brúks má nota hessíanstriga, gamlar flíspeysur eða flísteppi eða önnur efni sem ekki draga mjög í sig raka, loftar um og hægt er að klippa í renninga sem eru hafðir í hæfilegri breidd, t.d. 10-12cm. Byrjað er að vefja neðanfrá, þéttingsfast upp bolinn og utan um greinarnar. Greinarnar má taka saman eins varlega og hægt er og hafa inni í einum vafningi. Svo er vafið alla leið upp í topp og allt fest saman með böndum á nokkrum stöðum eins og þetta væri rúllupylsa. Þessi aðferð er gamal- reynd og mun vera komin frá sr. Sigtryggi á Núpi. Þannig bjó hann um trén í Skrúð fyrstu veturna og gafst vel. Þessar umbúðir eru svo teknar burt að vori þegar birkið er farið að bruma. Hægt er að fá sérstaka skýlingar- dúka í garðyrkjuvöruverslunum. Þeir eru úr sama efni og gróð- urdúkarnir sem breiddir eru yfir gróðurbeð á sumrin, en grænir og ívið þéttari í sér. Þeim er hægt að beita á sama hátt með því að vefja þeim utan um trjágróðurinn. Líka sígrænan gróður eins og sýprisa og lyngrósir. En annars er reyndar að- ferðin sem oftast er notuð þegar skýla þarf sígrænu plöntunum gegn vetrarnæðingi, umhleypingum og síðvetrarsól, sú að slá saman einfaldri kassagrind með fjórum hornspýtum sem skorðaðar eru í moldina kring um plönturnar. Hornspýturnar eru svo tengdar saman með þverslám sem negldar eru að ofan og neðan á hverri hlið. Utan á þetta er svo festur strigi eða annað tiltækt efni sem heft er fast á hornunum og efst og neðst. Þessi skjólgrind þarf að vera jafnhá eða ögn hærri en plantan sem henni er ætlað að skýla. Haft er opið að ofan og nægt rými um- hverfis plöntuna þannig að snjór geti runnið niður með henni án þess að sliga hana eins og farg í tunnu. En þegar skýla þarf sígrænum plöntum, t.d. ungum furum eða grenitrjám, gegn vetrarsól og vor- þurrki er venjulega nóg að setja léttar skjólgrindur sólarmegin við slíkar planteringar. Vetrarsólin er skæð vegna þess að sígrænn gróður ljóstillifar og andar á veturna og þarf að ná upp vatni. En þegar jörð er freðin eru ræturnar óvirkar og ná ekki að fylla á vatnskerfið í nægilega hröðum takti á móti þeirri uppguf- un sem verður í sólskininu. Þá kem- ur fram sk. sólbruni eða vetrarbruni og blöð eða barr verða brún og þar með ónýt til að gegna hlutverki sínu. Á skjólgrindurnar má festa striga eða skjólnet og gjarna raða þeim upp í zikkzakk-raðir eða gleiða vinkla svo að þær styði hverja aðra. Viðkvæmum rósum er best að skýla með því að hreykja að þeim moldarbing sem nær nokkuð upp á neðstu greinarnar. Það er líka gott að raka að þeim laufi, hálmi eða einhverju slíku. Einnig má nota steinullarmottur utan um runnana. Utan um er svo saumað með striga eða grisju. Ekki er hreyft við þessari skýlingu fyrr en vel er farið að vora og brumin á runnunum byrjuð að þrútna. Á þeim tíma er líka venju- lega komin góð spretta í gras. Gott að hafa það til viðmiðunar. Um leið og tekið er utan af rósunum er upp- lagt að klippa þær til eftir þörfum. Hér uppi á Íslandi getum við ekki verið mjög stíf á þeim reglum sem gilda um rósaklippingar í hlýrri löndum. Við látum okkur bara duga að klippa burt kalskemmdir og kraftlausar greinar. Alla leirpotta og leirker þarf að tæma af plöntum og mold. Skola vel og hvolfa tómum á góðum stað í vari. Jafnvel þótt uppgefið sé að slík ílát séu „frostproof“, þá er það mjög ógild yfirlýsing við íslenskar aðstæður. Hér á landi skiptast á frost- og þíðukaflar allan veturinn. Það er þessum ílátum alveg ofviða. Þau eru ekki sköpuð fyrir slíka dynti í veðurfarinu. Sama á eiginlega við um plastpotta og önnur plastílát sem notuð eru undir skrautplöntur í görðum. Það er um að gera að tæma þau eins og hægt er á haustin og hafa þau síðan í vari þar til vorar á ný. Þetta er nú það helsta sem hugsa þarf út í varðandi vetrarumbúnað í görðum. Nú förum við bara að taka þessu rólega fram í mars! Sími 560 2044 · info@south.is · www.south.is Framtíð ferðaþjónustu á Suðurlandi - málþing Markaðsstofu Suðurlands Markaðsstofa Suðurlands stendur fyrir málþingi um ferðaþjónustu á Suðurlandi og stefnumótun til framtíðar. Fjallað verður um dreifingu ferðamanna, lengd dvalar á svæðinu sem ásamt hugmyndum um stefnumótun ferðamála á Suðurlandi til framtíðar. Þátttakendur taka virkan þátt í umræðum, sem verða nýttar til stefnumótunar um starfsemi og hlutverk Markaðsstofunnar fyrir ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi. Málþingið fer fram 7. nóvember kl. 13:30 – 16:30 á Icelandair Hótel Vík. Athugið að málþingið er þátttakendum að kostnaðarlausu og eru allir hjartanlega velkomnir. Um kvöldið er svo haldin uppskeruhátíð ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi. Nánari upplýsingar og skráning á netfanginu ragnhildur@south.is eða í síma 560-2044 Markaðsstofa Suðurlands býður ferðaþjónustufyrirtækjum á Suðurlandi til Uppskeruhátíðar þann 7. nóvember nk. á Icelandair Hótel Vík.   Dagskrá: ·         19:30 – Fordrykkur ·         20:00 – Kvöldverður og skemmtun          Veislustjórn og gamanmál verða í höndum Atla Þórs Albertssonar leikara Heiðursgestur kvöldsins er ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir Jakob Björgvin og Magnús Kjartan munu svo sjá um að spila undir dansi Happdrætti, söngur og gleði Hlökkum til að sjá ykkur! Grænt er vænt Hafsteinn Hafliðason. eftir vetur kemur vor - og síðan sumar!

x

Selfoss

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Selfoss
https://timarit.is/publication/988

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.