Reykjavík


Reykjavík - 31.05.2014, Blaðsíða 8

Reykjavík - 31.05.2014, Blaðsíða 8
8 31. maí 2014REYKJAVÍK VIKUBLA Ð Við kjósum ekki burt mann- réttindi. Það gera fasistar Tilgangslausasti angi íslenskra stjórnmála er umræðan um umræðuna. Fátt er meiri tímasóun en yfirborðskennt nöldur yfir umræðunni í stað þess að ræða eitthvern kjarna. Þessi tímasóun er þó eins og önnur samfélagsmein og að lokum gegnsýrir hún allt, maður verður hluti af henni og opnar pistil á umræðu um umræðuna. Nátengd er svo umræðan um fjölmiðla, þar sem allir eru heimskir og latir kommúnistar samofnir fjárhagslegum hagsmunum kapítalistana í frussandi samgangi við krataelítuna upp í háskóla sem vill ofurselja heimilin erlendum hrægömmum. Algorithminn í Kaliforníu Blaðamenn, eins og frambjóðendur eflaust líka, verða fyrir því að skrif þeirra veki athygli á öðrum forsendum en þeir hefðu sjálfir viljað. Það á enn frekar við á dögum samfélagsmiðla en á tímum þar sem blaðamenn voru raunverulegir hliðverðir frétta. Ég græt ekki þann tíma en á oft erfitt með mig þegar flakkað er milli þess að tala um tilbrigðalausa kosningabaráttu til þess að hneykslast sé á ómálefnalegum umræðuefnum sem varði heimilin víst ekki neitt en færi jaðarskoðunum lögmæti. Fréttaveitan á Facebook er nefnilega ekki umræðan, né merki um gæði fjölmiðlunar. Hún hefur ásynd þess að vera sameiginlegt rými, enda snerta vinir þínir á henni, en hún er sérstaklega forrituð rörsýn hönnuð til að halda þér límdum við skjáinn til þes að selja auglýsingar. Markmiðið er ekki að upplýsa þig heldur ánetja þig. Hneykslan er ánetjandi og þess vegna er hún hættuleg í óhófi. Upplýsingar og rök eru áskorandi og hver nennir því? Slíkt krefst þess að maður sæki upplýsingar en láti sér ekki nægja að taka við því sem Facebook-veggurinn réttir. Málefni og virðing Það sem einkenndi kosningarnar framan af voru einmitt málefnalegheit og ákveðin virðing. Ró hafði færst yfir stjórnmálin í borginni og allt stefndi í að húsnæðismál yrðu mál málanna. Með í þeim pakka fylgir svo umræða um fjárhag borgarbúa og hvernig ná mætti fram sem mestum lífsgæðum fyrir alla. Þá myndast þörf á að ræða rekstur borgarinnar og þar á eftir fylgir umræða um fjölskyldur, sem leiðir yfir í umræður um skólamál og samgöngumál svo eitthvað sé nefnt. Þetta var semsagt allt á góður róli en þá kom gagnbyltingin. Það var nefni- lega ekkert fútt í þessu en algorithmi Facebook á svar við þessari ró eins og annari. Á hegðun okkar og Facebook- vina sá hann að yfirborðskenndar stöðufærslur um slappa kosninga- baráttu, fjarveru málefna og latan almenning sem ekki kann að meta frelsið sem honum er veitt í gegnum kosningar, vöktu athygli. Þeim var deilt, athugasemdir hengdar á og margir létu sér líka við. Hal var ekki lengi að kveikja og tók að ýta undir sýnileika samskonar efnis. Það jók svo enn á umræðuna um umræðuna og skort á stuði í þessari kosningabar- áttu. Og það var þá sem sprengjunni var varpað. Mannréttindahlaðborð Framsóknarflokkurinn er á hött- unum eftir atkvæði þínu með tilboði um mannréttindahlaðborð. Borð þar sem þú getur valið með kosningum hvort lög skuli ganga jafnt yfir alla. Framsóknarflokkurinn er að opna fyrir þann möguleika að meirihlutinn virði mannlega reisn minnihlutans að vettugi. Að jafnræðissjónarmiðum og trúfrelsi sé kastað fyrir róða – og það á grundvelli andúðar gagnvart til- teknum menningarheimi. Þetta heitir fasismi og ekkert er eins mikilvægt og baráttan gegn fasisma. Það skiptir engu hvaða nöfnum hann kallar sig eða í hvaða búninga hann klæðir sig. Stjórnmál, heimspeki, félagsfræði, sagnfræði, fjölmiðlun og lögfræði áranna eftir heimstyrjöld hafa í raun snúist um fátt annað en nákvæmlega þetta: Hvernig komum við í veg fyrir að martröðin endurtaki sig? „Ég ætla samt ekkert að kjósa Framsókn af því ég hati múslima, ég vil bara flugvöll í Reykjavík og leið- réttingu fyrir heimilin,“ hugsar þú ef til vill og pirrar þig á því hvað þessi blaðamaður er stóryrtur og yfirlýs- ingaglaður. Svarið við þessu er einfalt, og raunar borðleggjandi; ef þú ert til- búinn að fórna mannréttindum fólks vegna eigin fjárhagslegra hagsmuna þá ertu fasisti. Og ef fyrstu viðbrögð þín við fasískum málflutningi eru að gera lítið úr hættunni, þá ertu meðvirkur með fasisma. Þá ertu líklega blindur fyrir þeirri staðreynd að fasistar velja gaumgæfilega hverra heimili þeir ráðast fyrst á. Fyrst koma hin veiku, jaðarsettu og fámennu en að lokum kemur að þínu heimili. Við búum ekki við þann munað að geta afskrifað Framsóknarflokk- inn sem jaðarflokk. Flokkurinn fer með forsætisráðuneytið í ríkisstjórn Íslands. Sjálfur forsætisráðherra veitti hatursorðræðu oddvitans blessun sína, fyrst með ærandi þögn en svo með formælingum á hendur þeim sem dirfðust að koma minnihlutahópnum til varnar. Með útspili sínu þann 23. maí breytti Framsóknarflokkurinn borgarstjórnarkosningunum í stríð um grundvallaratriði. Þau gildi sem skilja á milli lýðræðis og harðræðis. Flokkarnir vildu annað Átta flokkar bjóða fram og allir vildu þeir sín mál á oddinn. Framsókn ætl- aði keyra á flugvellinum sem tókst um tíma en flaut svo yfir í andúð á jaðarhópum. Samfylkingin lofar eigin áætlun í húsnæðismálum en enginn þarf að efast um að þeirra mál er Dagur B. Eggertsson. VG leggur áherslu á gjaldfrjálsa grunnþjónustu. Þegar árangurinn stóð á sér brást Sóley Tómasdóttir við. Hún vill draga meirihlutavagninn en Dagur má stýra. Sjálfstæðismenn keyra, að vanda, á rekstri og einkavæðingu í umbúðum valfrelsis. Björt framtíð boðar minna vesen. Ekki geri ég lítið úr því enda snúast kosningar að mestu um vesen- isminnkun, þótt það viðurkenni ekki allir. Skiljanlega er þó erfitt að skynja mikla framtíð með þessa áherslu. Björt framtíð mun að lokum verða vesen. Pólitík er nefnilega vesen. Píratar tala fyrir lýðræðisumbótum og leggja sérs- taka áherslu á netið. Stundum gleyma að kerfisvillan er ekki alltaf kerfið heldur eigin þekkingaleysi. Þeir skilja þó hættuna af málflutningi Fram- sóknar og gera ekki lítið úr. Dögun leggur áherslu á lýðræðisumbætur og þá sérstaklega málefni láglaunafólks og jaðarhópa, enda þörf umræða. Al- þýðufylkingin boðar róttækar sam- félagsbreytingar en er frekar hófsöm hvað varðar kröfur um olnbogarými í þessari kosningabaráttu. Ekki útvista ábyrgðinni Stjórnmálaáhugi minn felst í að skrifa, greina og miðla en ekki flokkstarfi. Það tók mig reyndar nokkurn tíma að átta mig á því sjálfur. Ég er nefnilega ekki ósnertur af stjórnmálum og á mér marga flokkspólitíska stimpla. Allir eru þeir opinberir og öllum frjálst að nota þá til að draga úr því sem hér er skrifað sem eða ýta undir. Það á við það sem ég hef skrifað áður og það sem ég mun skrifa hér eftir. Ég ætla að lofa því hér og nú að blaða- mennska er og verður mitt ævistarf og fyrir það hef ég, og mun áfram færa persónulegar fórnir og reyna eftir fremsta megni að gera vel. Ég á nefnilega ekki tilkall til þess sjálfkrafa að lesendur treysti mér. Það eru ekki mannréttindi að vera blaðamaður, það eru forréttindi og þeim fylgja ábyrgð og kröfur. Að kjósa er réttur sem fólki er búið í lýðræðisríki, atkvæðaréttur er ekki forréttindi en fylgir þó ábyrgð vegna þess að þessi réttindi voru sótt en ekki gefinn. Komandi kynslóðir eiga heimtingu á því að við stöndum vörð um þau. Atkvæði hvers og eins fylgir skuldbinding um að aðhald fylgi og jafnvel að horfst sé í augu við að því hafi verið rangt beitt. Atkvæði getur bæði átt þátt í því að koma í veg fyrir hrun og að keyra samfélag fram af bjargbrúninni. Atkvæði er liður í að móta samfélagið sem við viljum búa í og tækifæri til að standa upp fyrir sjálfum sér og öðrum. Að taka ekki þátt eða skila auðu eru ekki raunveru- leg mótmæli. Jafnvel þótt þú skilir auðu, þá ertu samt sem áður ábyrgur fyrir niðurstöðum kosninganna. Atkvæðið er aðild að sameiginlegri ákvörðun og lýðræðið er réttur til þátt- töku en ekki rétturinn til að ráða. Við kjósum ekki burt mannréttindi. Það gera hins vegar fasistar. sKoðun Atli Þór Fanndal atli@thorfanndal.com

x

Reykjavík

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Reykjavík
https://timarit.is/publication/1086

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.