Akureyri - 09.01.2014, Blaðsíða 8
8 9. janúar 2014
VILTU SEGJA SKOÐUN ÞÍNA?
Akureyri vikublað óskar eftir að komast í samband við bæjabúa sem
sjaldan eða aldrei hafa veitt viðtöl en væru til í að segja skoðun sína í
blaðinu eða veita stutt viðtöl. Vinsamlegast sendið okkur tölvu-
póst á bjorn@akureyrivikublad.is eða hringið í síma 862 0856.
LOF OG LAST VIKUNNAR
LOF fá Norðlendingar fyrir tillitssemi í
umferðinni að undanförnu, segir kona á
Brekkunni í bréfi til blaðsins. Hún segist
ítrekað hafa orðið vitni að því að fólk hafi
hjálpað öðrum að komast leiðar sinnar.
Akureyringar láti sig ekki muna um að
stökkva út úr eigin bílum til að ýta öðrum
bílum ef þurfi, bílum sem t.d. sátu fastir
eftir mikla snjóa um jólin. Þetta segir konan
til fyrirmyndar...
LOF fær Oddur Helgi Halldórsson
blikksmiður og bæjarfulltrúi fyrir að ræða
af hreinskilni flughræðslu sína og hvernig
hann með aðstoð góðs fólks vann loks
bug á henni. Þetta segir lesandi sem hafði
samband. Oddur hefur bæði stigið fram í
Morgunblaðinu og Akureyri vikublaði og sagt
sögu sína. Þá þykir lesanda sem grínistinn
Baddi rauði á flugteríunni hér fyrir norðan
hafa farið á kostum í viðtali við Akureyri
vikublað um sama mál...
LAST fá þeir sem bera ábyrgð á því
að ekki hefur verið greiðfært milli leiða í
kirkjugarðinum á Akureyri. Þetta segir karl
sem hringdi í blaðið og sagðist hafa reynt
að fara um garðinn með aldraðri móður
sinni milli jóla og nýárs en heita hafi mátt
ófært suma daga um hátíðirnar fyrir þá
gesti í kirkjugarðinum sem komnir voru af
léttasta skeiði. Í huga karlsins kosti hvorki
mikinn pening né tíma að fara á traktor og
ryðja gönguleiðir innan garðsins. Það sé ekki
gaman fyrir fólk sem hyggst minnast ástvina
sinna látinna að hverfa frá vegna sparnaðar
í kerfinu. „Þessi mál verði að vera í lagi og
þá einkum á stórhátíðum,“ segir karlinn...
LAST fá þeir sem kunnu ekki að
kveikja almennilega í áramótabrennunni á
Akureyri, segir karl sem fór með fjölskyldu
að brennunni. Til þess var tekið, segir
maðurinn, að eldur hafi „aðeins logað öðru
megin í brennunni og virðist sem tæknilegur
framkvæmdafeill og skortur á olíu, hafi
valdið,“ segir maðurinn. Engum varð þó kalt
og stemmning var góð – spurning um að fixa
smáatriðin fyrir næstu brennu...
LOF fær björgunarsveitin Súlur fyrir
frábæra flugeldasýningu í lok brennu...
AKUREYRI VIKUBLAÐ 1. TÖLUBLAÐ, 4. ÁRGANGUR 2013
ÚTGEFANDI Fótspor ehf. ÁBYRGÐARMAÐUR Ámundi Ámundason 824 2466, amundi @ fotspor.is.
FRAMKVÆMDASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is.
AUGLÝSINGASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is. 578-1193.
RITSTJÓRI Björn Þorláksson, bjorn @ akureyrivikublad.is, 862 0856 MYNDIR Björn Þorláksson, Völundur Jónsson og fleiri.
UMBROT Völundur Jónsson PRENTUN Ísafoldarprentsmiðja - Svansmerkt prentun. DREIFING
13.500 EINTÖK ÓKEYPIS – UM ALLT NORÐURLAND
Hin kristnu gildi
Gagnrýnin hugsun tryggir framfarir. Gagnrýnin fréttamennska veitir valdi aðhald. Birting upp-
lýsinga getur kostað sársauka og átök en gagnsæi er
eitt lykilhugtak góðra samfélaga. Þegar hvatt er til
samstöðu um áramót verður að vera ljóst hverjir hafa
hag af samstöðunni. Tökum ímyndað dæmi: Samherji
ákveður að allir starfsmenn fyrirtæksins skuli kjósa
Sjálfstæðisflokkinn og vera andvígir veiðigjöldum. Um
þetta er haldinn fundur og gefið í skyn að þeir sem ekki
hlýði þessu geti átt von á að missa vinnuna. Vitaskuld
er ekki líklegt að í veruleikanum gæti slíkt gerst en
í þágu samstöðu innan fyrirtækis og mikilvægis þess
að Samherji geti áfram gert vel við starfsfólk sitt er
hugmyndinni um skoðanafrelsi fórnað. En hvort skiptir
meira máli, mannréttindi starfsfólks eða klink í pyngju?
Þorskastríð voru í áramótaávarpi forseta Íslands
nefnd sem sigrar sem spruttu upp af samstöðu þjóðar-
innar. Þó vita ýmsir sem hafa kynnt sér söguna að
þorskastríðin unnust vegna þess að Íslendingar voru
ekki sjálfstæð þjóð þegar barist var um þorskinn. Gögn
benda til að hin fífldjörfu þorskastríð hafi unnist vegna
þess að Íslendingar voru vegna hagsmuna Bandaríkja-
manna undir verndarvæng ameríska hersins þegar við
hjóluðum í Bretana. Vegna hernaðarmáttar Banda-
ríkjanna hafi Bretar kosið að lúffa í stað þess að sigla
okkur ekki í kaf. Ekki vegna þess að hér væri svo góð
samstaða meðal tækifærissinnaðra Íslendinga heldur
vegna risans í vestri.
Hér á landi er margt sem þarf að gagnrýna og ræða
opinskátt. Ekki er hægt að vænast samstöðu meðal
þjóðar þegar vaxandi misskipting auðs er staðreynd,
engin sátt er um nýtingu auðlinda og fleira mætti nefna.
Það er ekki fjölmiðlum að kenna að Íslendingar séu
sundraðir eftir eitt helsta réttlættisbrot sem framið hef-
ur verið á okkur, hrunið og eftirmál þess. Lykilástæða
ólgunnar er að hér hefur engin iðrun enn átt sér stað
meðal helstu sökudólga hrunsins. Án iðrunar skapast
ekki tóm fyrir nýtt upphaf í kjölfar trúnaðarbrests.
Fáir höfuðgerendur hafa axlað ábyrgð á því tjóni sem
varð og bitnar daglega á öllum almenningi, t.d. með
mjög löskuðu velferðarkerfi. Sá stjórnmálaflokkur sem
ber mesta sök á hruninu, nánast brenndi eigin sann-
leiksskýrslu á báli á landsfundi í stað þess að læra af
henni, gera hana opinbera og reyna að fá nýtt umboð
hjá almenningi til að njóta trausts meðal almennings.
Slíkt hlýtur að valda gremju þeirra sem telja sig lifa
eftir gömlum gildum því skilboðin eru m.a. andstæð
þeim biblíuboðskap sem Sjálfstæðisflokkurinn segist
halda mjög upp á. Hvað varð t.d. um þá góðu speki að
við eigum öll að koma eins fram gagnvart öðrum og að
við viljum að aðrir komi fram gagnvart okkur? Og hvað
varð um boðskap um samhjálp og jöfnuð? Til hinna
minnstu systra og bræðra? Hvar eru hin kristnu gildi
í framkvæmd sem stundum er talað fyrir? Eru þau í
orði – en ekki á borði?
Björn Þorláksson
Var boðið að halda jól með
akureyrskri fjölskyldu
Franskir ferðamenn sem gistu á Akur-
eyri Backpackers um jólin fengu draum
sinn uppfylltan, að kynnast íslensku
jólahaldi með persónulegum hætti. Þeir
ákváðu að láta reyna á hvort akureyrsk
fjölskylda myndi bjóða þeim heim á
aðfangadag og leyfa þeim að upplifa
íslenskar jólavenjur. Stilltu sér upp á
Glerártorgi með skilti þar sem spurt var
hvort einhver vildi bjóða þeim heim um
jólin. Og viti menn. Akureyrsk fjölskylda,
barnafólk, gaf sig fram og aðfangadegi
var reddað. Nutu Frakkarnir gestrisni
þeirra, snæddu andabringur og upplifðu
norðlenska jólasiði.
En sagan er ekki öll sögð. Svo vel fór
á með Frökkunum og akureyrsku fjöl-
skyldunni að frönsku ferðamönnunum
var líka boðið í fjölskylduboð á annan
í jólum. Það tókst að sögn heimildar-
manna blaðsins ekki síður vel en sam-
sætið á aðfangadag. Eru allir sagðir hafa
grætt á samskiptunum og mýta hrakin.
Getur einhver haldið því fram í ljósi
þessarar jólasögu að Akureyringar séu
lokaðir?! a
UPP UPP MÍN SÁL OG ALLT MITT GEÐ! Völundur