Morgunblaðið - 10.03.2015, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 10.03.2015, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. MARS 2015 Við vorum að skoða myndir í sím- anum mínum af Agga, frá sl. jól- um, þar sem hann heldur á bleikri rúðusköfu og lítur út fyr- ir að vera svo hress og ánægður og fórum að hugsa, hvernig hægt sé skrifa minningargrein um mann eins og Agga? Það er af svo mörgu að taka, þegar um svo mætan mann er að ræða. Hvar á maður að byrja og hvar að enda? Ég kynntist Agga fyrst þegar ég var að byrja að kynnast dótt- ur hans og Öggu um vorið 1991. Ég man þegar ég kom á Háa- leitisbrautina í fyrsta skipti og hitti hann, þá stóð hann í stiga- ganginum og heilsaði upp á mig og bauð mig velkominn. Með honum voru tvær litlar frænkur hans, Þórunn og Elín, sem hann og Agga voru að passa þetta kvöld. Þær kölluðu hann Agga afa, eins og öll börn sem kynnst hafa Agga gera. Öll börn voru barnabörnin hans, hvort sem þau voru skyld honum eða ekki. Hann tók öllum vel og þeim leið öllum vel hjá honum og Öggu. Hann kenndi dætrum systur minnar og stjúp- dóttur minni, Adel, á skíði og sá um tíma um að keyra hana á tennisæfingar. Það má líka segja að hann hafi kennt henni mest í íslensku. Mér er það minnisstætt þegar ég þurfti að ferðast til útlanda á námskeið, að Aggi fór þá með Lönu og Adel í foreldraviðtal í skólanum, þar sem Lana var ekki alveg tilbúin að tala íslensku við kenn- arann og kennarinn var ekki al- veg tilbúinn að tala ensku við hana. Aggi sat í viðtalinu og þýddi á milli þeirra. Fyrir Adel var Aggi eiginlega besti afinn hennar, afinn sem hringdi í hverri viku til að athuga hvernig gengi í skólanum og þess háttar. Hann og Agga hafa séð mikið um Rakel Rósu í gegnum tíðina. Sl. 6 ár hefur hún búið hjá þeim á meðan hún hefur verið í skóla á Íslandi. Áður fyrr tóku þau oft að sér að hafa hana hjá sér. Það má segja að Aggi og Agga eigi stóran hlut í uppeldi Rakelar Rósu. Þau kenndu henni bæði að spila golf og á skíði og þær voru ófáar skíðaferðirnar sem Aggi fór með henni, hvort sem var innanlands eða til útlanda. Það eru erfiðir tímar hjá henni Guðjón Agnar Egilsson ✝ Agnar Egilssonfæddist í Reykjavík 3. des- ember 1932. Hann lést 27. febrúar 2015. Útför Agnars var gerð frá Grens- áskirkju 9. mars 2015. núna, en ég veit að hún kemur til með að vera sterk, vegna þess vega- nestis sem hún hef- ur fengið frá Agga og Öggu. Aggi var harður KR-ingur. Þrátt fyrir það virtist það ekki vera mikið mál hjá honum að „skipta“ um lið þegar á þurfti að halda. Hann fylgdist með handboltanum hjá systur minni allt frá því að hún var unglingur fram á síðasta dag og hélt þar með með Vík- ingi, Stjörnunni og að lokum Val í kvennahandboltanum. Við erum afar þakklát fyrir að hafa getað eytt síðustu jólum með Agga og Öggu, en þau voru með okkur heima hjá foreldrum mínum á aðfangadag. Það eru góðar minningar að eiga sem síðustu minningar okkar um Agga. Aggi hefði viljað að við vitnum hans með þeim hætti, að við munum stundir eins og þeg- ar hann tók upp jólagjöfina frá skyldmennum hans í Tromsö, og upp kom þessi yndislegi bleiki hanski með rúðusköfunni. Fyrir okkur eru svona minningar bestar. Við sendum Öggu og Rakel Rósu okkar samúðarkveðjur. Takk fyrir allt, Aggi, og hvíl í friði! Ingimundur, Lana, Adel og Diljá. Það er alltaf erfitt að kveðja góðan vin, en að kveðja hann Agnar (Agga), er erfiðara en tárum taki. Agnar og Rakel (Aggi og Agga) voru einstaklega samrýnd hjón og yndisleg sam- an. Nú hefur verið stórt skarð höggvið í tilveru Öggu, í fyrra- sumar missti hún einkadóttur sína og nú eiginmanninn. En það er huggun harmi gegn að hún hefur dótturdóttur sína hjá sér. Við kynntumst Agga og Öggu fyrir um það bil 25 árum, þegar börnin okkar felldu hugi saman og eignuðust okkar sameiginlega barnabarn, Rakel Rósu. Að lýsa honum Agga er auð- velt, hann var jákvæðasta mann- eskja sem ég hef kynnst. Hann var alltaf boðinn og búinn að hlusta og hjálpa og aldrei dæmdi hann nokkurn mann, hann fann alltaf góðu hliðarnar á hverjum og einum. Þau Aggi og Agga hafa alltaf verið með eindæmum gestrisin, enda oft og tíðum fjölmennt hjá þeim. Það er orðin hefð fyrir því að stórfjölskyldan og vinir komi fyrir jólin til þeirra og skeri út laufabrauð og steiki. Fyrir síð- ustu jól stóð Aggi við steiking- arpottinn og var hinn ánægðasti. Hann keyrði næstu daga með laufabrauðið til þeirra sem höfðu verið að skera út. Aggi og Agga hafa alla tíð stundað bæði skíði og golf og þegar Rakel Rósa var yngri tóku þau hana oftar en ekki með sér og kenndu henni bæði golf og að skíða. Rakel Rósa hefur búið hjá þeim eftir að pabbi hennar flutti til Noregs. Aggi var alla tíð vakinn og sofinn yfir velferð hennar. Hann m.a. hjálp- aði henni að sækja um skólavist, fyrst í Verzlunarskólanum og síðan Kvikmyndaskólanum. Hann hvatti hana líka til að fara í kór hjá Margréti Pálma- dóttur sem leiddi til þess að hún fór líka í söngnám. Þau eru mörg börnin og jafn- vel þeir sem eru orðnir fullornir sem kalla Agga afa og lýsir það vel persónu hans, hann elskaði öll börn, sem komu nálægt hon- um. Telma og Embla, barnabörnin okkar, eru óhuggandi yfir því að Aggi afi sé dáinn og Adel, fóst- urdóttir Ingimundar, kemur frá Noregi til þess að fá að kveðja hann. Aggi var mikill tónlistarunn- andi og sótti alla tónleika sem hann mögulega gat. Hann var á leiðinni á tónleika í Hörpunni, þegar hann fór í hjartastopp og kom ekki til baka úr því. Elsku Rakel og Rakel Rósa, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Rósa Einars og fjölskylda. Lífið er undarlegt ferðalag og hótelið okkar er jörðin eins og stendur í kvæðinu. Við í badmin- tonhópnum urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í þessu ferðalagi með honum Agga. Þegar við vorum ung stofn- uðum við badmintonhóp sem samanstóð af fjórum ungum mönnum og eiginkonum þeirra. Þeir spiluðu saman af eldmóði árum saman. Þegar ungu menn- irnir fjórir bættu á sig árum dró úr hlaupunum með badminton- spaðana, samt var hópurinn sí- ungur og bundumst við enn sterkari böndum. Þegar við vor- um orðin roskin og ráðsett vor- um við spurð hvað við gætum verið að gera í þessum badmin- tonhópi, hvort við værum ennþá að spila, þá var svarið nei, við værum hætt að spila en við héldum ávallt aðalfundi einu sinni á sumri í sumarhúsum sem voru valin í hvert skipti og var það ætíð mikið tilhlökkunarefni. Sjaldan var nafn Agga nefnt svo ekki fylgdi nafn Öggu konu hans líka. Þau voru samhent í hverju sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau fylgdust að gegnum gleði og sorgir og studdu hvort annað. Mesta áfallið var þegar þau misstu hana Björk einka- dóttur sína á síðasta ári. Aggi var vinur okkar til lífs- tíðar og elskaður og dáður af öllum sem honum kynntust. Hann stundaði íþróttir af kappi, tók þátt í maraþonhlaupi og var mikill skíðaunnandi. Hann var líka sannur KR-ingur. Margt ungmennið fékk að njóta kennslu hans í skíðabrekkunum. Hann var ónískur á tímann sem fór í að segja unga fólkinu hvernig best væri að skíða brekkurnar og njóta þess til fulls að þjóta niður fannhvítar brekkur með vindinn í hárið og finnast maður vera svaka flink- ur. Hann naut þess líka að fylgj- ast með unga fólkinu okkar sem var að feta sín spor í íþróttum, söng eða listum, alltaf gaf hann sér tíma og mætti á staðinn. Við stöndum eftir ráðþrota og sorgmædd, en við vitum að ekki tjáir að deila við dómarann, eng- inn veit sem betur fer hvenær við þurfum sjálf að standa fyrir þessum æðsta dómi. Ekkert í stöðunni annað en halda áfram göngunni í ferðalaginu mikla þótt einum hótelgestinum sé færra. Með þessum fátæklegu skrif- um sendum við öll kveðjur okk- ar og vottum Öggu og Rakel Rósu okkar dýpstu samúð. Megi Guð lýsa þeim veginn áfram. Fyrir hönd badmintonhóps- ins, Þórunn Magnúsdóttir. Kveðja frá Lionsklúbbi Reykjavíkur og Gufuklúbbnum Lionsklúbbur Reykjavíkur var stofnaður þann 14. ágúst 1951 og er elsti Lionskúbbur á Íslandi. Klúbburinn gekk í end- urnýjun lífdaga um síðustu alda- mót, þegar vaskur hópur félaga úr Skíðadeild KR gekk þar inn. Þessi hópur hefur einnig með sér annan félagsskap, Gufu- klúbbinn, en markmið hans er að félagarnir hittist einu sinni í viku yfir veturinn, fari í gufu og snæði síðan saman kvöldverð. Agnar Egilsson, sem við þekkj- um sem hann Agga okkar og við kveðjum í dag, var mikilvægur félagi í þessum hópi. Hans verð- ur sárt saknað. Aggi var góður maður og mikill vinur vina sinna. Hann var hlýr í viðmóti, hafði gaman af samskiptum við fólk og lét sér annt um það. Hann var jafn- an jákvæður og kom sjónarmið- um sínum á framfæri á sinn ljúfa og hægláta máta. Íþróttir áttu fastan sess í lífi hans, hann lifði heilbrigðu líferni og stund- aði líkamsrækt fram á síðasta dag. Við áttum því von á að njóta félagsskapar hans enn um langa tíð. Nú þegar að kveðjustund er komið, þökkum við félagarnir í Gufuklúbbnum og Lionsklúbbi Reykjavíkur Agga fyrir áratuga samfylgd og sendum Öggu, konu hans, Rakel Rósu, dótt- urdóttur hans og öðrum að- standendum innilegar samúðar- kveðjur. Þeirra missir er mikill. Blessuð sé minning Agnars Egilssonar. Ásbjörn, Guðjón og Steingrímur. Dagur er að kveldi kominn í lífi Agga bróður míns eins og hann var kallaður. Margar minningar streyma gegnum hugann þó örfáar falli á blað. Minningar mínar um Agga frá barnæsku til fullorðinsára eru skýrar, þær má nefna í einu orði „yndislegar“. Gæði og góð- mennska fylgdi öllu hans lífi. En gæfan snerist honum sérstak- lega í vil þegar hann eignaðist sinn lífsförunaut, Guðlaugu Rak- el Pétursdóttur, sem var honum ómetanleg. Eina dóttur eignuð- ust þau sem var þeim mikill gleðigjafi. En mikinn skugga lagði yfir líf þeirra þegar Björk dóttir þeirra greindist með al- varlegan sjúkdóm á unglingsár- um. Hana misstu þau á liðnu ári. Björk eignaðist dótturina Rakel Rósu Ingimundardóttur. Hún hefur dvalið á heimili ömmu sinnar og afa meira og minna frá barnæsku, en nú kveður hún kæran afa sinn hinsta sinni. Aggi var ekki fyrir hrósið, enda þurfti hann þess ekki með, líf hans og viðhorf til þess talaði sínu máli. Heimili þeirra hjóna stóð ætíð opið ættingjum og vin- um, en ekki síst börnum sem löðuðust að þeim alla tíð. Mörg tár munu af barnsaugum falla um þessar mundir þegar Aggi afi er kvaddur. Þegar Aggi kemur til um- ræðu meðal vina er kona hans, Agga eins og hún er kölluð, ekki langt undan. Samleið þeirra má segja að hafi endað á táknrænan hátt þegar áfallið reið yfir í tón- listarhúsinu Hörpu. Þau nutu tónlistar á margvíslegan hátt, í gegnum dans og tónleika, enda hafa þau fylgt fast eftir tónlist- ariðkun dótturdóttur sinnar. Agga mín, hugur okkar hjóna er með ykkur Rakel Rósu. Guð styrki ykkur og blessi í þessari þungu raun. Bjarni og Rín. Kveðja frá Skíðadeild KR Í dag kveðjum við góðan fé- laga í Skíðadeild KR, Agnar Eg- ilsson, sem við KR-ingar þekkt- um ávallt sem hann Agga. Aggi gekk ungur til liðs við KR og fyrst fara sögur af honum í gamla KR-skálanum við Grens- gil í Skálafelli. Þar kynntist hann m.a. Öggu, eiginkonu sinni, í páskadvöl fyrir um sex- tíu árum. Agga sér nú á bak eig- inmanni sínum en sl. sumar misstu þau hjónin Björk, einka- dóttur sína. Gamli KR-skálinn brann árið 1955. Þá tóku við miklir fram- kvæmdatímar hjá skíðadeildinni. Nýr skíðaskáli var reistur á ár- unum 1956-1959 og fyrsta var- anlega skíðalyfta á Íslandi árið 1961. Þau Aggi og Agga tóku virkan þátt í öllu þessu upp- byggingarstarfi. Svo fór dóttirin að æfa skíði og seinna dóttur- dóttirin, Rakel Rósa, þannig að þátttaka í starfi skíðadeildar hélst alla tíð og allt fram á þennan dag. Söknuðum við Agga á nýliðnum aðalfundi skíðadeildar, en þá sagðist hann hafa verið eitthvað þreyttur heima, sem var mjög óvenjulegt. Aggi var mikill KR-ingur og bar hag félagsins ávallt fyrir brjósti. Hann var sæmdur gull- merki KR með lárviðarsveig fyrir starf sitt fyrir félagið. Hann var áhugasamur íþrótta- maður og lagði auk skíðanna stund á íþróttir og líkamsrækt af ýmsu tagi allt til hins síðasta. Hljóp hann m.a. heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni árið 1986, þá 54 ára að aldri. Þótti það nokkuð hár aldur hlaupara á þeim árum. Aggi var mjög félagslyndur og alltaf jákvæður í allri um- gengni. Hann hafði gaman af að kynnast fólki, þekkti alla með nafni og fylgdist alltaf vel með félögum deildarinnar á hvaða aldri sem þeir voru. Hann var rólegur og yfirvegaður og sóttist ekki eftir metorðum, en var allt- af boðinn og búinn til að starfa við hin margvíslegu verkefni, sem féllu til bæði í íþróttastarf- inu og rekstri skíðadeildar á skíðasvæðinu í Skálafelli. Hans verður minnst með miklum söknuði. Við í Skíðadeild KR munum sakna Agga og að leiðarlokum þökkum við honum samfylgdina. Hann skilur eftir sig stórt skarð í hópnum og margar góðar minningar. Við sendum Öggu, Rakel Rósu og öðrum ástvinum hans okkar innilegustu samúð- arkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í sorg sinni. Far þú í friði, góði félagi. Guðmundur Guðjónsson. Fyrir rúmu ári fylgdi kær mágur minn, Garðar Jóhann, tengda- móður sinni hinsta spölinn alls grunlaus um að nokkrum mán- uðum síðar legði hann upp í sömu ferð. Veikindi hans bar snöggt að á vormánuðum og Garðar Jóhann Guðmundarson ✝ Garðar JóhannGuðmundarson fæddist 29. apríl 1944. Hann lést 21. júlí 2014. Útför Garðars Jóhanns var gerð í kyrrþey frá Laug- arneskirkju 6. ágúst 2014. reyndust skæð. Hann tók þeim með æðruleysi með sína nánustu þétt sér við hlið. Garðar hafði lagt sitt af mörkum í veikind- um tengdaforeldra sinna árin áður, meðal annars tekið þátt í að fylgja mömmu í erfiðar og tíðar krabba- meinsmeðferðir. Þegar pabbi dvaldi á hjúkrunarheimili komu Garðar og Tóta ósjaldan fær- andi hendi með eftirlætis-kaffi- brauð hans og annað sem Garðari var annt um að pabba skorti ekki svo sem snyrtivör- ur. Garðar var hæglátur að eðl- isfari og mikill heimilismaður. Hann var víðlesinn grúskari, fjölfróður og vel heima í flestu því sem á góma bar í um- ræðum hverju sinni. Iðulega var stutt í húmorinn og Garð- ar var skjótur til svara enda orðheppinn maður. Hann var fagurkeri og hafði meðal ann- ars áhuga á gömlum og sér- stökum hlutum. Þeir feðgar, Garðar og Gunnar, voru mjög samrýndir og áttu sameiginleg áhugamál svo sem frímerkja- söfnun með áherslu á ránfugla í útrýmingarhættu. Garðar naut sín vel í hlutverki tengda- föðurins. Hann var ötull að kynna tengdadótturinni, Hoshi, aðstæður og staðhætti í þessu framandi landi. Það var mikið lán að þau Garðar og Tóta fóru til Kína á heimaslóð- ir Hoshiar, sumarið áður en Garðar veiktist. Þar kynntust þau bakgrunni Hoshiar og fjöl- skyldu sem bar þau á höndum sér. Oft varð mér hugsað til Garðars á síðustu jólahátíð. Hann var mikið jólabarn og naut undirbúnings hátíðanna, meðal annars skreytti hann heimili fjölskyldunnar á sinn einstaka hátt. Það ríkti jafnan eftirvænting hjá okkur fjöl- skyldunni þegar jólagjafir frá Tótu og Garðari voru teknar upp. Augljóst var að þær hefðu verið valdar af natni og útsjón- arsemi og pökkunin bar næmni og smekkvísi fagurt vitni. Vitað var að Garðar átti þar stóran þátt. Elsku Tóta systir, Gunnar og Hoshi, ykkar missir er mikill. Blessuð sé minning Garðars Jóhanns. Þórdís Kristinsdóttir. Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför ástkærrar eiginkonu minnar, móður okkar, tengdamóður og ömmu, JÓHÖNNU GUÐRÚNAR BJÖRNSDÓTTUR kennara, Þrastarlundi 1, Garðabæ. Guð blessi ykkur öll. . Tryggvi Eyvindsson, Halldóra Tryggvadóttir, Ingólfur Kristinn Einarsson, Eyvindur Tryggvason, Guðlaug Hrönn Jóhannsdóttir, Oddur Björn Tryggvason, Hanna Lillý Karlsdóttir og barnabörn. Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinarhug við andlát og útför elskulegrar eiginkonu minnar, móður, tengdamóður og ömmu, UNNAR JÓNASDÓTTUR, Vættaborgum 4, Reykjavík. . Hrafnkell Sigurjónsson, Sigurjón R. Hrafnkelsson, Sjöfn Jónsdóttir, Guðmundur Hrafnkelsson, Valdís Arnarsdóttir, Rúnar Þór Hrafnkelsson, Fanney Dóra Hrafnkelsdóttir, Guðrún Hrafnkelsdóttir, Guðmundur B. Jónasson og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.