Dagblaðið Vísir - DV - 25.11.2009, Síða 14

Dagblaðið Vísir - DV - 25.11.2009, Síða 14
Miðvikudagur 25. nóvember 200926 Bækur ÆVISAGA Lokaskeið þjóðveldisaldar er tíðum nefnt Sturlungaöld í íslenskri söguritun, kennt við afkomendur Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum (Hvamms-Sturlu). Upphaf þessa skeiðs Íslandssögunnar er ýmist miðað við aldamót- in 1200 eða 1220, þegar Snorri Sturluson kom út frá Noregi, lendur maður. Sturlungaöldinni lauk þegar Íslendingar gengust Noregskon- ungi á hönd, játuðu Hákoni konungi gamla land og þegna og undirgengust Gamla sátt- mála (Gissurarsáttmála) 1262-1264. Sturlungaöldin var mesta róstu- skeiðið í gjörvallri sögu Íslendinga. Á þessum áratugum geisaði í raun borgarastyrjöld á Ís- land, þar sem tókust á allar helstu ættir og ætt- arhöfðingjar í öllum landsfjóðungum, þó síst á Austfjörðum. Inn í þau átök blandaðist norska konungsvaldið og kaþólska kirkjan og hafði margvísleg áhrif, sjaldan til góðs. Á Íslandi einkenndist öldin af látlitlum átökum, bardög- um, vígaferlum og voðaverkum og hefur heitið Sturlungaöld stundum verið yfirfært á önnur óróa- og átakatímabil, ekki síst í stjórnmálum. Sagnasafnið Sturlunga er meginheimild okkar um þessa miklu átakatíma. Þar er Ís- lendingasaga Sturlu Þórðarsonar fyrirferðar- mest, eins konar stjórnmálasaga Íslendinga á fyrra helmingi 13. aldar, en að auki er að finna í safnritinu ýmsar aðrar sögur og þætti. Aðrar heimildir um tímabilið eru helst biskupasög- ur, annálar og annálabrot og nokkur fornbréf, sem varðveist hafa. Fornleifarannsóknir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, hafa í sumum tilvikum aukið þekkingu okkar á ein- stökum þáttum í sögu tímabilsins og varpað á þá nýju ljósi. Sama máli gegnir um fjölmargt, sem skrifað hefur verið um Sturlungaöld í ár- anna rás, bækur, ritgerðir og greinar. Sturlunga hefur löngum verið Íslendingum hugleikin og þeir eru ófáir, sem hafa þaullesið þetta mikla miðaldarit aftur og aftur, jafnvel á ári hverju. Slíkir áhugamenn hafa margir orðið afar vel að sér í fræðunum, nánast lært Sturl- ungu, eða a.m.k. Íslendingasögu Sturlu, utan- að. Margir hafa lifað sig inn í söguna, tekið af- stöðu með „sínum manni“ (eða mönnum) og í eina tíð gengu sögur af því að stundum hefði komið til pústra og áfloga á mannamótum, ekki síst í réttum, þegar bændur ræddu Sturl- ungu og urðu ekki saupsáttir. En það er mikið verk að setja sig vel inn í Sturlungu og vart er hægt að hugsa sér mikið margbrotnari sögulega heimild. Þar eru trú- lega nefndir til sögu fleiri menn og konur en í nokkru öðru íslensku riti, enda sagnabálk- urinn í raun safn af ævi- og ættasögum. Sag- an nær til allra landshluta og atburðarásin og samskipti einstaklinga og ætta er víða ramm- flókin. Hinir eiginlegu Sturlungar, afkomend- ur Hvamms-Sturlu, eru fyrirferðarmestir í Ís- lendingasögu. Þeir voru ein mesta valdaætt landsins á 13. öld, teygðu völd sín og áhrif víða, tengdust öðrum ættum og valdaaðilum flóknum böndum en báru fráleitt alltaf gæfu til samþykkis innbyrðis. Ekki leikur á tvennu, að á síðari tímum er Snorri Sturluson þekktastur þeirra frænda. Um hann hefur margt verið skrifað, hér heima og erlendis, en þó fyrst og fremst um skáldið og rithöfundinn Snorra Sturluson. Margir hafa þó einnig fjallað um Snorra sem stjórnmálamann og höfðingja, en þau skrif eru að ýmsu leyti brotakenndari. Það kann að stafa af því, að í Íslendingasögu Sturlu frænda síns er Snorri oft í skugganum, nánast aukapersóna, og aug- ljóst, að Sturlu liggur ekki gott orð til hans. Þótt undarlegt megi virðast hefur engin heildstæð ævisaga Snorra verið rituð á íslensku fyrr en nú. Einna næst því kemst rit Sigurðar Nordals, sem ritað var á fyrri hluta 20. aldar. Nordal leit þó ekki á þá bók sem eiginlega ævisögu. Bókin Óskar Guðmundsson er einn þeirra, sem hafa haft mikinn áhuga á Sturlungu og þekkir hana flestum betur. Sagnasafnið er höfuðheimild hans að ævisögu Snorra, auk þess sem hann hefur kynnt sér ókjörin öll af því sem ritað hef- ur verið um Snorra á liðinni tíð. Má glöggt sjá umfang rannsóknarinnar af því að heimilda- skrá tekur yfir átján þéttprentaðar síður. Óskar fylgir því, sem kalla má hefðbundið snið í ævisagnaritun og fylgir söguhetju sinni nánast frá fæðingu til dauða. Hann skiptir sög- unni í þrjá höfuðukafla og síðan í fjölmarga styttri þætti, alls sextíu. Hann segir söguna í réttri tímaröð, eftir því sem það er hægt, og fylgir í meginatriðum Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar, en eykur við eftir því sem heim- ildir leyfa. Með þessu móti tekst honum að draga upp býsna trúverðuga mynd af sögu- sviði og aldarfari, af samtíma Snorra og því umhverfi, sem hann lifði og hrærðist í. Þetta er að minni hyggju stærsti kostur og meginstyrk- ur þessarar bókar. Myndin, sem dregin er upp á söguhetjunni, Snorra Sturlusyni, er á hinn bóginn miklum mun daufari og óljósari. Það stafar ekki síst af þeirri aðferð sem höfundurinn velur til að segja söguna. Beinar heimildir um Snorra og ævi hans eru heldur rýrar og á köflum brota- kenndar. Af þeim sökum reið á að hafa sög- una sem markvissasta og byggja á efnisþátt- um, þemum, fremur en að freista þess að rekja æviferilinn. Það gerði Sigurður Nordal á sín- um tíma og tókst mætavel. Óskar Guðmunds- son velur þveröfuga aðferð. Hann rekur ævi Snorra frá þriggja ári aldri, nánast ár fyrir ár, þar til hann var veginn í Reykholti aðfaranótt 23. september 1241. Afleiðingin verður sú að sagan, sem sögð er á þessari bók, er alltof lang- dregin, á köflum þunglamaleg og leiðinleg af- lestrar og í raun heldur illa heppnuð endur- sögn á Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Tilraunir höfundar til að sviðsetja atburði tak- ast fæstar vel og á stundum týnist Snorri í frá- sögninni. Hún fer út um víðan völl, þar sem fjallað er um átök og jafnvel minniháttar deil- ur. Í sumum tilvikum snerta þær Snorra ekki nema óbeint og erfitt er að koma auga á bein tengsl atburða við ævi söguhetjunnar. Nú hljótum við að spyrja: Hvaða hlutverki gegndi Snorri Sturluson í sögu Íslendinga á 13. öld. Var hann sá meginás, sem öll stjórn- málabarátta í landinu snerist um? Ég ætla mér ekki þá dul, að halda því fram að Óskar telji að svo hafi verið, en hann gerir mikið úr áhrifum Snorra, líkast til fullmikið. Snorri var vissulega voldugur höfðingi, en eftir að hann kom heim úr fyrri Noregsför sinni árið 1220 fóru áhrif hans þverrandi. Eftir það var hann aðeins einn margra höfðingja í landinu og þótt ýmsum þætti liðveisla hans góð, fóru þeir sínu fram, hvað sem hann sagði. Það átti ekki síst við um suma frændur hans og tengdamenn. Bókmenntaiðja og skáldskapur var annað meginstefið í ævi Snorra Sturlusonar og líkast til væri nafn hans nú flestum gleymt, ef ekki nyti afreka hans á þessu sviði. Af þeim sök- um sakna ég í þessari fyrstu eiginlegu ævisögu Snorra rækilegrar úttektar á skáldskap hans og sagnaritun. Í ævisögunni hverfa þessir þættir í skuggann af löngu tali um stjórnmálabröltið og fyrir vikið er myndin, sem dregin er upp af Snorra, harla óviðfelldin. Hann kemur lesand- anum fyrst og fremst fyrir sjónir sem slóttugur og undirförull klækjarefur, ágjarn og fégráð- ugur undirróðursmaður, sem hikaði ekki við að etja öðrum í vopnuð átök, en flýði oftast af hólmi ef hann taldi sér hættu búna. Í einkalíf- inu átti hann litlu láni að fagna og seint verður sagt að honum hafi farist göfugmannlega við þá, sem næst honum stóðu. Óskar leggur mikla áherslu á að uppeldi Snorra í Odda á Rangárvöllum hafi haft mikil áhrif á menntun hans og viðhorf hans til hvers kyns mennta og menningar. Það er vafalaust rétt, en á hinn bóginn eru hugmyndir hans (eða kenningar) um að Snorri hafi stofnað í Reykholti „kirkjumiðstöð“ og haft þar „rit- smiðju“ ekki jafn sannfærandi. Ef marka má það, sem hér kemur fram, voru sjaldan nema 2-3 prestvígðir menn með Snorra í Reykholti á hverjum tíma. Þeir voru sjaldnast hálærðir og þótt þeir hafi vafalítið rækt trú sína sam- viskusamlega og fengist við skriftir er of sterkt til orða tekið að tala um „kirkjumiðstöð“ og bera saman við slíkar miðstöðvar suður í álfu á þessum tíma. Afköst við skriftir voru vafa- laust drjúg, en þó trauðla meiri en t.d. í Þing- eyraklaustri. Óskar reynir víða að draga ályktanir af takmörkuðum heimildum. Margar ályktana hans eru snjallar, en stundum gengur hann of langt. Það á til að mynda við um þá hug- mynd, að Snorri hafi verið gigtveikur, þjáðst af þvagsýrugigt sökum óhófs og slæms mat- aræðis, og þess vegna látið gera Snorralaug, en heit böð linuðu þjáningar gigtarsjúklinga. Þetta getur allt verið rétt, en við vitum einfald- lega ekkert um það, og mörgum manninum hefur þótt gott að liggja í heitri laug þótt al- heilbrigður væri. Niðurstaða Ævisaga Snorra Sturlusonar, sem hér er til umfjöllunar, er eljuverk en að mínu mati er hún því miður ekki vel heppnuð. Sagan byggir á næsta fáum og fábreytilegum heimildum og þess vegna verður sú aðferð höfundar að segja söguna í tímaröð til þess að frásögnin verður of langdregin og óáhugaverð. Kenningar, sem settar eru fram svo sem til þess að varpa nýju ljósi á sitthvað í ævi Snorra, eru ósannfærandi og í raun kemur hér fátt nýtt fram. Meginkost- ur bókarinnar er hve vel Óskari tekst að draga upp mynd af sögulegu baksviði þeirra atburða sem sagt er frá. Ýmislegt má finna að framsetningu höf- undar. Hún er of þunglamaleg fyrir minn smekk og alltof mikið er af endurtekningum. Þær geta að sönnu verið góðar og hjálpleg- ar lesendum og nauðsynlegar til áherslu, en óþarft er að margendurtaka hið sama, eins og sums staðar er gert í þessari bók. Ýmis minni- háttar atriði spilltu ánægjunni af lestrinum. Til að mynda er ýmist talað um Þrándheim eða Niðarós og þess eru dæmi að bæði nöfnin komi fyrir á sömu síðu. Þetta er til þess fallið að rugla lesendur í ríminu og hefði þurft að velja annað nafnið og þá helst Niðarós, sem var notað á dögum Snorra. Annað atriði, sem ég hygg að muni trufla marga lesendur, a.m.k. af eldri kynslóðinni, er að þegar Sverrir Noregs- konungur er nefndur með föðurnafni er hann sagður „Sigurðsson“. Ég man satt að segja ekki eftir að hafa séð þetta áður. Íslendingar þekkja flestir Sverri konung sem „Sigurðarson“. Fleiri smáatriði mætti nefna, sem mér hugnast heldur illa, en nú er mál að linni. All- ur frágangur bókarinnar er með ágætum, en bókarkápan er skelfilega ljót. Þar er þó varla við höfundinn að sakast. Jón Þ. Þór Þunglamalegur Snorri Snorri. ÆviSaga Snorra SturluSonar 1179-1241 Óskar GuðmundssonEljuverk en frásögnin er of langdregin og byggð á fáum og fábreytileg- um heimild- um. Útgefandi: JPV Óskar Guðmundsson Meginkostur bókarinnar að mati gagnrýnanda er hve vel Óskari tekst að draga upp mynd af sögulegu baksviði þeirra atburða sem sagt er frá. En hann finnur að ýmsu öðru.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.